Námshjálp
Davíð


Davíð

Konungur í Ísrael til forna, í Gamla testamenti.

Davíð var sonur Ísaí af Júda ættkvísl. Hann var hugrakkur ungur maður sem felldi ljón, björn og filistíska risann Golíat (1 Sam 17). Davíð var útvalinn og smurður konungur Ísraels. Eins og Sál varð hann á fullorðinsárum sekur um alvarleg afbrot, en öfugt við Sál, gat hann auðmýkt sig. Þess vegna gat hann fengið fyrirgefningu, þó ekki fyrir morðið á Úría (K&S 132:39). Ævi hans má skipta í fjóra hluta: (1) í Betlehem, en þar var hann fjárhirðir (1 Sam 16–17); (2) við hirð Sáls konungs (1 Sam 18:1–19:18); (3) á flótta (1 Sam 19:18–31:13; 2 Sam 1); (4) sem konungur yfir Júdeu í Hebron (2 Sam 2–4), og síðar sem konungur alls Ísraels (2 Sam 5–24; 1 Kon 1:1–2:11).

Hórdómi Davíðs með Batsebu fylgdi keðja óhappa sem háðu honum síðustu tvo áratugi lífs hans. Þjóðinni vegnaði í heild sinni vel undir stjórn hans, en Davíð leið sjálfur vegna synda sinna. Sífelldar fjölskylduerjur, sem í máli Absaloms og Adónía, enduðu með upreisn. Þeir atburðir eru uppfylling á orðum Natans spámanns um afleiðingar synda Davíðs (2 Sam 12:7–13).

Þrátt fyrir þessar hrakfarir var stjórnartíð Davíðs hin glæstasta í sögu Ísraelsþjóðar, af því að (1) hann náði að sameina ættbálkana í eina þjóð, (2) hann tryggði óumdeild yfirráð yfir landinu, (3) hann byggði stjórn ríkisins á hinni sönnu trú, svo að vilji Guðs varð lög í Ísrael. Af þeim sökum var stjórnartíð Davíðs síðar talin gullöld þjóðarinnar og forboði enn dýrðlegri tíma við komu Messíasar (Jes 16:5; Jer 23:5; Esek 37:24–28).

Ævi Davíðs sýnir nauðsyn þess fyrir alla, að standast í réttlæti allt til enda. Sem unglingur var hann sagður maður Drottni „að eigin hjarta“ (1 Sam 13:14); sem fullorðinn maður talaði hann með andanum og hlaut margar opinberanir. En hann varð að gjalda dýru verði brot sín á boðorðum Guðs (K&S 132:39).