Jeremía
Spámaður í Gamla testamentinu af prestaættum sem spáði í Júdeu frá 626 til 586 f.Kr. Hann var uppi nálægt tíma annarra mikilla spámanna, Lehís, Esekíels, Hósea og Daníels.
Jeremía var vígður til spámanns í fortilveru (Jer 1:4–5). Á um það bil fjörutíu ára ferli sínum sem spámaður beitti hann sér gegn skurðgoðadýrkun og siðleysi meðal Gyðingaþjóðarinnar (Jer 3:1–5; 7:8–10). Hann var óvirtur og átti við sífellda andstöðu að stríða (Jer 20:2; 36:18–19; 38:4). Eftir fall Jerúsalem tóku Gyðingar þeir sem flýðu til Egyptalands Jeremía með sér (Jer 43:5–6), þar sem þeir grýttu hann til bana, ef marka má munnmælasagnir.
Bók Jeremía
Kapítular 1–6 hafa að geyma spádóma frá tímabili Jósía. Kapítular 7–20 eru spádómar frá tíma Jójakíms. Kapítular 21–38 fást við stjórnartíð Sedekía. Kapítular 39–44 geyma spádóma og lýsa sögulegum atburðum eftir fall Jerúsalem. Kapítuli 45 geymir loforð til Barúks, ritara hans, um að lífi hans verði þyrmt. Að lokum eru kapítular 46–51 spádómar gegn erlendum þjóðum. Kapítuli 52 er söguleg niðurstaða. Sumir spádóma Jeremía voru á látúnsplötum Labans sem Nefí náði (1 Ne 5:10–13). Jeremía er einnig nefndur á tveimur öðrum stöðum í Mormónsbók (1 Ne 7:14; He 8:20).
Í bók Jeremía er einnig staðfesting á fortilveru mannsins og forvígslu Jeremía (Jer 1:4–5); spádómur um endurkomu Ísraels úr tvístruninni, samansöfnun eins úr hverri borg og tveggja af hverjum kynstofni til Síonar, kostalands þar sem Ísrael og Júda gætu dvalið í öryggi og friði (Jer 3:12–19); og spádómur um samansöfnun Drottins á Ísraelslýð frá löndum í norðri með því að senda marga „fiskimenn“ og „veiðimenn“ að leita þeirra (Jer 16:14–21). Þessi atburður síðari daga mun stærri í sniðum en brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi (Jer 16:13–15; 23:8).