Esra
Prestur í Gamla testamenti og fræðimaður sem flutti suma Gyðingana til Jerúsalem úr útlegðinni í Babýlon (Esra 7–10; Nehem 8; 12). Árið 458 f.Kr. fékk hann leyfi Artaxerxesar Persakonungs til að fara til Jerúsalem með alla þá útlaga Gyðinga sem fara vildu (Esra 7:12–26).
Fyrir tíma Esra einokuðu prestarnir að heita má allan lestur í ritningasafni því sem kallað var „lögmálið.“ Esra stuðlaði að því að ritningarnar yrðu tiltækar hverjum Gyðingi. Frjáls lestur „lögbókarinnar“ varð síðan þungamiðjan í þjóðlífi Gyðinga. Ef til vill var mesta kennsla Esra fólgin í því, hvernig hann bjó eigið hjarta undir að leita lögmáls Guðs, fara eftir því og kenna það öðrum (Esra 7:10).
Esrabók
Kapítular 1–6 lýsa atburðum er gerðust sextíu til áttatíu árum áður en Esra kom til Jerúsalem — tilskipun Kýrusar árið 537 f.Kr. og heimkomu Gyðinga undir forystu Serúbabels. Kapítular 7–10 sýna hvernig Esra fór til Jerúsalem. Hann, ásamt fylgdarliði, fastaði og bað um vernd. Í Jerúsalem fundu þeir margt Gyðinga sem höfðu komið þar fyrr með Serúbabel og höfðu kvongast utan sáttmálans og þannig saurgað sig. Esra bað fyrir þeim og gjörði við þá sáttmála að þeir skildu við þessar konur. Síðari hluta sögu Esra er að finna í bók Nehemía.