Aukin og varanlegur viðsnúningur til himnesks föður og Drottins Jesú Krists
Ætlun okkar er að bæta trúarlega upplifun með breyttri áherslu á trúarfræðslu í kirkju og á heimili, svo það stórefli trú og andríki og stuðli að auknum trúskiptum.
Líkt og Russell M. Nelson forseti orðaði svo vel og vandlega, þá hafa kirkjuleiðtogar unnið lengi að „heimilismiðaðri og kirkjustyrktri áætlun, til að kenna kenningar, styrkja trú og stuðla að persónulegri tilbeiðslu.“ Nelson forseti kynnti síðan breytingar og „nýjar áherslur varðandi trúarfræðslu á milli heimilis og kirkju.“
Svo að sá tilgangur nái fram að ganga – sem Russell M. Nelson forseti hefur gert grein fyrir og er undir hans handleiðslu, og í samræmi við ákvörðun Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar – munu eftirfarandi breytingar verða gerðar á samkomuhaldi á sunnudögum, sem verða innleiddar í janúar 2019.
Samkomudagskrá sunnudaga
Samkomur alla sunnudaga munu verða 60 mínútna sakramentissamkoma, með aðaláherslu á frelsarann, helgiathöfn sakramentis og andlegar hugvekjur. Þegar að því kemur að skipt er í námsbekki, fara kirkjumeðlimir í 50 mínútna námsbekki, sem skiptast á annan hvern sunnudag.
-
Sunnudagaskóli verður hafður fyrsta og þriðja sunnudag mánaðar.
-
Prestdæmissveitir, Líknarfélag og Stúlknafélag verða annan og fjórða sunnudag.
-
Samkomur á fimmta sunnudegi verða í umsjá biskups.
Barnafélagið verður haft í hverri viku á þessu sama 50 mínútna tímabili og nær bæði yfir söngstund og námsbekki.
Hvað samkomuhald á sunnudögum varðar, þá hafa æðstu leiðtogar kirkjunnar verið meðvitaðir um það í mörg ár að þriggja klukkustunda dagskrá á sunnudögum getur reynst sumum okkar dýrmætu meðlimum erfið. Það á einkum við um foreldra með yngri börn, börnin í Barnafélaginu, eldri meðlimi, nýja meðlimi og fleiri.
Það felst þó mun meira í þessum breytingum en stytting á samkomuhaldi á sunnudögum. Nelson forseti hefur af þakklæti staðfest hve miklu hefur verið áorkað vegna trúfesti ykkar við fyrri boð og fyrirmæli. Hann og allir leiðtogar kirkjunnar þrá að vekja aukna trúargleði foreldra – barna, unglinga, einhleypra, eldra fólks, nýrra trúskiptinga og trúarnema, með þessari heimilismiðuðu og kirkjustyrktu áætlun. Markmið og blessanir þessara breytinga og annarra nýlegra breytinga, eru:
-
Innilegri viðsnúningur til himnesks föður og Drottins Jesú Krists og aukin trú á þá.
-
Að efla einstaklinga og fjölskyldur með heimilismiðuðu og kirkjustyrktu námsefni sem stuðlar að gleðiríku trúarlífi.
-
Að heiðra hvíldardaginn, með áherslu á helgiathöfn sakramentis.
-
Að hjálpa öllum börnum himnesks föður, báðum megin hulunnar, með trúboðsstarfi og að taka á móti helgiathöfnum og blessunum musterisins.
Heimilismiðuð, kirkjustyrkt trúarfræðsla
Þessi sunnudagadagskrá veitir rýmri tíma til kvöldstundar og til trúarfræðslu á heimilinu á sunnudögum eða á öðrum tímum, að hentugleika einstaklinga og fjölskyldna. Hafa mætti fjölskyldustund á mánudögum eða öðrum dögum. Leiðtogar ættu í þessum tilgangi að halda áfram þeirri venju að hafa ekki fundi og athafnir á mánudagskvöldum. Einstaklingum og fjölskyldum er þó frjálst að velja tíma að eigin hentisemi til að hafa kvöldstund, trúarfræðslu og aðrar athafnir.
Trúarfræðsla fjölskyldna og einstaklinga á heimilinu verður aukin til muna með samræmdu og nýju námsefni sem nefnist Kom, fylg mér, fyrir einstaklinga og fjölskyldur, sem er samræmt því efni sem kennt er í sunnudagaskóla og í Barnafélagi. Í janúar mun sunnudagaskóli unglinga og fullorðinna og námsbekkir Barnafélagsins kenna Nýja testamentið. Hið nýja heimanámsefni Kom fylg mér, fyrir einstaklinga og fjölskyldur – sem nær líka yfir Nýja testamentið – er hannað til að hjálpa meðlimum að læra fagnaðarerindið á heimilinu. Þar segir: „Þetta námsefni er fyrir alla einstaklinga og fjölskyldur í kirkjunni. Því er ætlað að hjálpa [okkur enn frekar] að læra fagnaðarerindið – hvort heldur á [eigin spýtur] eða með fjölskyldu [okkar]. … Uppsetning þessa [nýja] námsefnis miðast við vikulega … dagskrá.“
Hið nýja námsefni Barnafélagsins, Kom, fylg mér, sem kennt verður í kirkjunni, mun fylgja sömu vikulegri dagskrá. Kennsluefni námsbekkja sunnudagaskóla unglinga og fullorðinna á fyrsta og þriðja sunnudegi, verður samræmt hinu nýja heimanámsefni Kom, fylg mér. Á öðrum og fjórða sunnudegi, munu fullorðnir í prestdæmi og Líknarfélagi halda áfram að læra kenningar kirkjuleiðtoga, með áherslu á núgildandi boðskap nútíma spámanna. Stúlkur í Stúlknafélaginu og piltar í Aronsprestdæminu munu læra trúarefni á þessum sunnudögum.
Í hinu nýja heimanámsefni verða „hugmyndir fyrir ritninganám fjölskyldu og fjölskyldukvöld.“ Námsefni hverrar viku hefur að geyma gagnlegar námshugmyndir og athafnir fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Námsefnið Kom, fylg mér, fyrir einstaklinga og fjölskyldur, hefur einnig að geyma margar myndir til að auðga nám einstaklinga og fjölskyldna, einkum barna. Öllum heimilum verður séð fyrir þessu nýja námsefni fyrir desember þessa árs.
Nelson forseti hvatti okkur í sínu fyrsta ávarpi til kirkjumeðlima í janúar, til að búa okkur undir Síðari komu Jesú Krists, með því að ganga sáttmálsveginn.
Ríkjandi aðstæður heimsins, gera kröfu um aukna trú og innilegri og persónulegri viðsnúning til himnesks föður og Jesú Krist og friðþægingar hans. Drottinn hefur, setning á setning ofan, búið okkur undir þessar örðugu tíðir sem við nú stöndum frammi fyrir. Á síðustu árum hefur Drottinn brýnt fyrir okkur að huga að lykilatriðum þessu tengdu, sem meðal annars eru:
-
Síðastliðin þrjú ár hefur aftur verið lögð áhersla á að heiðra hvíldardaginn og helgiathöfn sakramentisins.
-
Styrktar öldungasveitir og Líknarfélag hafa, undir leiðsögn biskups, lagt áherslu á ætlunarverk og guðlega tilnefndar ábyrgðaskyldur kirkjunnar og hjálpað meðlimum að gera og halda helga sáttmála.
-
Æðri og helgari þjónusta hefur fúslega verið innleidd.
-
Byrjað er með endinn í huga, svo musterissáttmálar og ættarsaga hafa orðið mikilvægur hluti af sáttmálsveginum.
Þær breytingar sem kynntar voru í dag, eru aðeins enn eitt dæmið um leiðsögn fyrir áskoranir okkar tíma.
Hið hefðbundna námsefni kirkjunnar hefur tekið mið af kirkjulegri upplifun á sunnudögum. Við vitum að þegar kennslan er góð og meðlimir námsbekkja eru betur andlega undirbúnir, þá verður upplifun okkar betri í kirkju á sunnudögum. Oft njótum við þeirrar blessunar að andinn styrkir og eflir trú okkar í hinni kirkjulegu umgjörð.
Hið nýja heimilismiðaða og kirkjustyrkta námsefni þarf að stuðla að aukinni trúarlegri iðkun og breytni fjölskyldna og einstaklinga. Við vitum að hægt er að ná fram auknum andlegum áhrifum og innilegri og varanlegri trúarumbreytingu á vettvangi heimilisins. Fyrir mörgum árum staðfesti könnun að piltar og stúlkur nutu oft áhrifa heilags anda í ríkari mæli af því að biðjast fyrir og læra ritningarnar sjálf á heimili sínu. Ætlun okkar er að bæta trúarlega upplifun með breyttri áherslu á trúarfræðslu í kirkju og á heimili, svo það stórefli trú og andríki og stuðli að auknum trúarlegum viðsnúningi til himnesks föður og Drottins Jesú Krists.
Í hinum heimilismiðaða og kirkjustyrkta hluta þessara breytinga, verður ráðrúm fyrir hvern einstakling og fjölskyldu til að ákveða af kostgæfni hvernig og hvenær breytingarnar verða útfærðar. Þótt þetta verði, til að mynda, öllum fjölskyldum til mikillar blessunar, væri algjörlega viðeigandi, byggt á staðarþörfum, fyrir unga einhleypa, einstæða foreldra, hlutaðildar-fjölskyldur, nýja meðlimi og aðra að koma saman í hópum utan venjulegrar sunnudagstilbeiðslu, til að njóta trúarlegs félagsskapar og styrks af því að læra saman hið heimilismiðaða og kirkjustyrkta námsefni. Þetta yrði gert óformlega af þeim sem það kjósa.
Í mörgu heimshlutum kýs fólk að vera áfram í samkomuhúsum eftir venjubundna sunnudagsdagskrá, til að njóta saman stundar. Það er ekkert í þessum kynntu breytingum sem kemur á nokkurn hátt í veg fyrr þá dásamlegu og gefandi venju.
Sumar deildir senda þegar greinargóða tölvupósta, textaboð eða skilaboð á samfélagsmiðlum í miðri viku til að hjálpa meðlimum að búa sig undir hvíldardaginn. Í ljósi þessara breytinga, mælum við sterklega með þessum samskiptamáta. Slík hvatning er til að minna meðlimi á samkomuhald sunnudags tilsettrar viku, þar með talið kennsluefni námsbekkja, og styður við trúarlegar umræður á heimilinu. Á samkomum fullorðinna á sunnudögum verða að auki veittar upplýsingar í hverri viku til að samræma nám í kirkju og á heimili.
Tímar sakramentissamkomu og námsbekkja munu krefjast vandlegrar íhugunar, til að tryggja að andleg málefni séu höfð í fyrirrúmi stjórnsýslumála. Tilkynningar geta til að mynda að mestu verið sendar út í miðri viku eða gefnar út á prentuðu formi. Þótt inngangsbæn og lokabæn þurfi að vera á sakramentissamkomu, nægir að hafa lokabæn á kennslufundum þar á eftir.
Líkt og áður var sagt, þá kemur þessi sunnudagsdagskrá ekki til framkvæmda fyrr en í janúar 2019. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þær tvær mikilvægustu eru dreifingartími námsefnisins Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur og svo að stikuforsetar og biskupar hafi tíma til að koma á fundadagskrá í þeim tilgangi að fá fleiri deildir til að koma saman fyrr á daginn en þær gera.
Þegar leiðtogar hafa leitað opinberunar á síðastliðnum árum, hefur leiðsögn borist um að efla beri sakramentissamkomur, heiðra hvíldardaginn og brýna fyrir og hjálpa foreldrum og einstaklingum að gera heimili sín að umgjörð andlegs styrks og aukinnar trúar – að stað gleði og hamingju.
Einstakar blessanir
Hvaða þýðingu hafa þessar breytingar fyrir meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu? Við erum vissir um að meðlimir munu blessaðir á sérstakan hátt. Sunnudagar geta verið helgaðir trúarnámi og kennslu, bæði í kirkju og á heimilinu. Þegar einstaklingar og fjölskyldur helga sig fjölskyldufundum, ættarsögu, hirðisþjónustu, almennri þjónustu, persónulegri tilbeiðslu og ánægjulegum fjölskyldustundum, mun hvíldardagurinn sannlega verða feginsdagur.
Fjölskylda ein frá Brasilíu tilheyrir stiku þar sem hið nýja námsefni Kom, fylg mér var prufað. Heimilisfaðirinn, Fernando, sem þjónaði í trúboði, og eiginkona hans, Nancy, eru foreldrar fjögurra barna. Hann sagði: „Þegar námsefnið Kom, fylg mér var kynnt í stikunni okkar, varð ég afar hrifinn og ég hugsaði: ,Nú verður breyting á því hvernig við lærum ritningarnar á heimilinu.‘ Sú varð raunin á mínu heimili og sem kirkjuleiðtogi sá ég líka breytingar á öðrum heimilum. … Þetta hjálpaði okkur að ræða betur um ritningarnar á heimilinu. Ég og eiginkona mín hlutum dýpri skilning á efninu sem við lærðum. … Þetta hjálpaði okkur … að auka við trúarþekkingu okkar og styrkja trú okkar og vitnisburð. … Ég ber vitni um … að þetta var innblásið af Drottni, svo að stöðugt og árangursríkt nám á reglum og kenningum ritninganna geti leitt til aukinnar trúar fjölskyldna, vitnisburðar og ljóss … í stöðugt hrakandi heimi.“
Í prófun sem gerð var í stikum víða um heim, voru viðbrögð afar jákvæð við hinu nýja heimanámsefni Kom, fylg mér. Margir sögðust hafa farið frá því að lesa aðeins ritningarnar, yfir í að læra þær í raun. Það var líka almenn upplifun að þetta hefði verið trúarhvetjandi og haft dásamleg áhrif á deildina.
Aukinn og varanlegur trúarlegur viðsnúningur
Markmið þessara breytinga er að stuðla að innilegri og varanlegri trúarumbreytingu hinna fullorðnu og hinnar rísandi kynslóðar. Á fyrstu síðu þessa námsefnis fyrir einstaklinga og fjölskyldur, segir: „Markmið alls trúarnáms og kennslu, er að auka trú okkar og hjálpa okkur að verða líkari Jesú Kristi. … Merking þess er að reiða sig á að Kristur umbreyti hjörtum okkar.“ Það er gert með því að „ná til hjarta og heimilis einstaklinga utan kennslustofunnar. Það krefst stöðugrar, daglegrar viðleitni til að skilja og tileinka sér fagnaðarerindið. Sönn trúarumbreyting krefst áhrifa heilags anda.“
Mikilvægasta markmiðið og hin endanlega blessun aukinnar og varanlegrar trúarumbreytingar, er að taka verðugur á móti sáttmálum og helgiathöfnum sáttmálsvegarins.
Við treystum því að þið eigið samráð og leitið opinberunar við framkvæmd þessara breytinga – en horfið ekki yfir markið eða reynið að setja heraga á einstaklinga eða fjölskyldur. Frekari upplýsingar munu gefnar út á komandi tíð, þar með talið með bréfi og fylgiskjali frá Æðsta forsætisráðinu.
Ég ber vitni um að í umræðum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar í musterinu, og eftir að okkar ástkæri spámaður ákallaði Drottin um opinberun til að framfylgja þessum breytingum, hlutum við allir áhrifamikla staðfestingu. Russell M. Nelson er okkar lifandi forseti og spámaður. Tilkynningin í dag mun leiða til mikilla blessana fyrir þá sem taka á móti þessum breytingum af áhuga og leita leiðsagnar heilags anda. Við munum komast nær himneskum föður og Drottni okkar, Jesú Kristi, hvers ég er öruggt vitni. Í nafni Jesú Krists, amen.