2010–2019
Trúarvarðeldur okkar
Október 2018


Trúarvarðeldur okkar

Stundum er koma eða endurkoma hinnar trúarlegu dagrenningar hægfara – þeim sem leita hennar, leyfa henni að koma og lifa fyrir hana.

Kæru bræður og systur, er ekki dásamlegt að taka á móti stöðugum opinberunum fyrir tilstilli Russells M. Nelson forseta, og kirkjuleiðtoga okkar, sem býður okkur að tileinka okkur nýjar og helgari leiðir, bæði á heimilinu og í kirkju, af öllu hjarta, huga og mætti?

Hafið þið einhvern tíma átt kost á því að gera eitthvað sem þið voruð óundirbúin eða vanmáttug að gera, en voruð blessuð af því að reyna?

Ég hef upplifað það. Hér er eitt dæmi.

Fyrir nokkrum árum bauð öldungur Richard G. Scott, í Tólfpostulasveitinni, mér af ljúfmennsku: „Gerrit, viltu mála vatnslitamyndir með mér?“

Öldungur Scott sagði vatnslitamálun gera sér kleift að skoða og skapa. Hann ritaði: „Reynið að vera skapandi, jafnvel þótt árangurinn sé takmarkaður. … Sköpunargáfa getur vakið þakklætisanda fyrir lífið og það sem Drottinn hefur ofið í tilveru ykkar. … Ef þið veljið skynsamlega, þarf þetta ekki að vera tímafrekt.“

Henry B. Eyring forseti segir listsköpun sína vekja sér „kærleikstilfinningu,“ einnig „kærleika til skapara, sem væntir þess að börn hans líkist sér – skapi og byggi.“ Sköpunarverk Eyrings forseta veita „sérstakan andlegan skilning á vitnisburði og trú.“

Listaverk Boyds K. Packer forseta draga fram mikilvægan boðskap fagnaðarerindisins: „Guð er skapari himins og jarðar og alls sem í þeim er og náttúran öll ber vitni um þá guðlegu skipuðu sköpun og fullkominn samhljómur ríkir á milli náttúru, vísinda og fagnaðarerindis Jesú Krists.“

Alma vitnar: „Allir hlutir sýna fram á, að Guð er til.“ Börn Barnafélagsins syngja: „Er fuglasöng ég heyri eða á bláma himins horfi, … gleðst ég yfir að dvelja í þessum fallega heimi, er himneskur faðir skapaði mér.“ Skáldið Victor Hugo dáist að „undraverðu samspili þessarar ótæmandi heildar lifandi vera og hluta, allt frá sólu til blaðlúsar. … Allir fuglar himins halda á þræði eilífðar í klóm sínum. … Geimþoka er sem mauraþúfa stjarna.“

Það leiðir okkur aftur að boði öldungs Scott.

Ég svaraði: „Öldungur Scott, ég vil efla næmni mína og sköpunargáfu. Ég hef unun af því að sjá fyrir mér himneskan föður mála bólstrandi ský og öll litbrigði himins og vatna. „En,“ – og hér varð nokkur þögn – „öldungur Scott,“ sagði ég, „ég hef enga hæfileika til vatnsmyndamálunar. Ég óttast að það myndi ergja þig að reyna að kenna mér.“

Öldungur Scott brosti og kom því svo fyrir að við gætum hist. Á hinum tilsetta degi, hafði hann til reiðu blöð, liti og pensla. Hann dró upp einhverjar línur og bleytti blöðin fyrir mig.

Varðeldur við sólsetur

Við notuðum sem fyrirmynd hina fallegu yfirskrift Varðeldur við sólsetur á vatnslitunum hans. Er við máluðum, ræddi hann um trú – hvernig bjarmi og hlýja varðelds halda okkur frá myrkri og óöryggi – hvernig trúarvarðeldur okkar getur veitt okkur von og öryggi, á stundum löngum og einmana nóttum. Dagrenning kemur vissulega. Trúarvarðeldur okkar – minningar okkar, upplifanir og arfleifð trúar á gæsku og ljúfa miskunn Guðs í lífi okkar – hefur styrkt okkur meðan nóttin líður.

Ég ber vitni um að stundum er koma eða endurkoma hinnar trúarlegu dagrenningar hægfara – þeim sem leita hennar, leyfa henni að koma og lifa fyrir hana. Ljósið mun berast er við þráum það og leitum þess, er við erum þolinmóð og hlítum boðorðum Guðs, er við erum opin fyrir náð Guðs, lækningu hans og sáttmálum.

Þegar við byrjuðum að mála, sagði öldungur Scott hvetjandi: „Gerrit, jafnvel eftir eina vatnslitamyndalexíu, muntu mála eitthvað sem þú vilt eiga og muna eftir.“ Öldungur Scott hafði rétt fyrir sér. Ég varðveiti myndina af trúarvarðeldi okkar, sem öldungur Scott hjálpaði mér að mála. Listsköpun mín var og er takmörkuð, en minningin um trúarvarðeld okkar getur hvatt okkur á fimm vegu.

Í fyrsta lagi getur trúarvarðeldur okkar hvatt okkur til að finna gleði í heilbrigðri listsköpun.

Það felst gleði í því að skapa eitthvað í huganum og læra og gera áhugaverða hluti. Það á einkum við er við eflum trú og traust á himneskan föður og son hans, Jesú Krist. Við fáum ekki elskað okkur sjálf nægilega til að geta frelsað okkur sjálf. Himneskur faðir elskar okkur þó heitar og þekkir okkur betur en við sjálf. Við getum treyst Drottni fremur en að reiða okkur á eigið hyggjuvit.

Hafið þið einhvern tíma upplifað að vera sá eini sem var ekki boðið í afmælisveislu?

Hafið þið einhvern tíma verið valin síðust eða alls ekki valin þegar skipt er í lið?

Hafið þið búið ykkur undir próf í skóla, atvinnuviðtal, langþráð tækifæri – og ykkur fannst þið standa ykkur illa?

Hafið þið beðist fyrir vegna sambands sem af einhverri ástæðu hefur ekki gengið upp?

Hafið þið tekist á við langvinnan sjúkdóm, verið yfirgefin af maka, þjáðst vegna fjölskyldu ykkar?

Frelsari okkar þekkir aðstæður okkar. Þegar við iðkum hið guðsgefna sjálfræði og gerum okkar allra besta í auðmýkt og trú, getur frelsari okkar, Jesús Kristur, verið með okkur í sorg og gleði lífsins. Í trú felst þrá og trúarlöngun. Trú vaknar líka af því að halda boðorð Guðs og er ætluð okkur til blessunar, er við fylgjum sáttmálsvegi hans.

Þegar við upplifum eða höfum upplifað óöryggi, einmanaleika, vonbrigði, reiði, höfnun eða fráhvarf frá Guði og hans endurreistu kirkju, gætum við þurft að sýna aukna viðleitni og trú til að komast aftur á sáttmálsveg hans. Það er þess virði! Komið eða komið aftur til Drottins Jesú Krists! Elska Guðs er sterkari en helsi dauðans – stundlegs eða andlegs. Friðþæging frelsara okkar er óendanleg og eilíf. Sérhvert okkar getur villst frá og brugðist. Við getum misst áttir um stund. Guð fullvissar okkur ástúðlega, hvar sem við erum, um að við getum alltaf snúið til baka, hvað svo sem það er sem við höfum gert. Hann bíður okkar opnum örmum.

Í öðru lagi getur trúarvarðeldur okkar hvatt okkur til að þjóna á nýjan, andríkari og helgari hátt.

Slík hirðisþjónusta leiðir af sér kraftaverk og sáttmálsbundnar blessanir – þar sem við finnum elsku Guðs og reynum að þjóna öðrum í þeim anda.

Ég og systir Gong kynntumst nýlega föður og fjölskyldu sem blessuð var af trúföstum prestdæmisbróður, sem spurði biskup þeirra hvort hann (prestdæmisbróðirinn) gæti verið félagi þessa föður í heimiliskennslu. Þessi faðir var ekki virkur og hafði ekki áhuga á heimiliskennslu. Þegar hjarta þessa föður tók hins vegar að breytast, fóru hann og hinn ástúðlegi prestdæmisbróður að vitja fjölskyldna „þeirra.“ Að einni slíkri heimsókn lokinni, spurði eiginkona hans hann – sem þá fór ekki sjálf í kirkju – hvernig honum hefði líkað. Þessi faðir viðurkenndi: „Það gæti verið að ég hafi fundið eitthvað,“ – og síðan fór hann inn í eldhús og fékk sér bjór.

Eitt fylgdi þó af öðru; ljúfar upplifanir, hirðisþjónusta, umbreyting hjartans, musterisfararnámskeið, kirkjusókn, innsiglun sem fjölskylda í hinu helga musteri. Ímyndið ykkur hve þakklát börnin og barnabörnin eru fyrir föður sinn og móður og hinn þjónandi bróður og félaga, sem kom til föður þeirra sem vinur og félagi, til að elska aðra og þjóna þeim.

Í þriðja lagi getur trúarvarðeldur hvatt til skapandi trúarlegrar gleði og blessana sem við hljótum er við elskum Drottin og aðra af öllu hjarta og sálu.

Ritningarnar bjóða okkur að setja allt sem við erum og verðum á altari elsku og þjónustu. Í Gamla testamentinu, í 5. Mósebók, er okkur boðið að „elska Drottinn Guð“ af öllu hjarta, sálu og mætti. Jósúa býður: „Elskið Drottin Guð yðar, gangið ávallt á vegum hans, geymið boð hans, haldið yður fast við hann og þjónið honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.“

Í Nýja testamenntinu segir frelsarinn um æðstu boðorðin tvö: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum … og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Í Mormónsbók: Öðru vitni um Jesú Krist, er sagt um Benjamín konung að „með því að leggja fram alla sína lífs- og sálarkrafta,“ hafi honum tekist að koma á friði í landinu. Í Kenningu og sáttmálum býður Drottinn, eins og öllum trúboðum er kunnugt, að við þjónum honum af öllu „hjarta, … mætti, huga og styrk.” Þegar hinir heilögu komu í Jackson-sýslu, bauð Drottinn þeim að halda hvíldardaginn heilagan, með því að „elska Drottin Guð … af öllu hjarta, … öllum mætti, … huga og styrk [og að þjóna honum í nafni Jesú Krists].“

Við gleðjumst í því boði að helga okkur óskipt því að leita æðri og helgari leiða til að elska Guð og þá sem umhverfis eru og styrkja trú okkar á himneskan föður og Jesú Krist í hjörtum okkar, á heimilum okkar og í kirkju.

Í fjórða lagi hvetur trúarvarðeldurinn okkur til að koma á reglubundinni venju réttláts lífernis, sem eflir trú okkar og andríki.

Slíkar helgar og réttlátar venjur eða hefðir í bænarhug, geta verið bænagjörð, ritninganám, fasta, að minnast frelsara okkar og sáttmála er við meðtökum sakramentið, miðla blessunum fagnaðarerindisins með trúboðs-, musteris- og ættarsögustarfi og annarri þjónustu, halda dagbók af kostgæfni o.s.frv.

Þegar hegðun í réttlæti og andlegar þrár eru í samhljóm, verður tími og eilífð sem eitt. Andlegt ljós og líf kvikna er reglubundin trúariðkun færir okkur nær himneskum föður og frelsara okkar, Jesú Kristi. Þegar við elskum andann og bókstaf lögmálsins, mun það sem tilheyrir eilífðinni falla eins og dögg af himni á sál okkar. Með daglegri hlýðni og fersku lifandi vatni, hljótum við svör, trú og styrk til að takast á við daglegar áskoranir og tækifæri af trúarlegri þolinmæði, skilningi og gleði.

Í fimmta lagi getur trúarvarðeldurinn hvatt okkur til að minnast þess að fullkomnun finnst í Kristi, en ekki í okkur sjálfum eða í heiminum, er við höldum í okkar bestu venjur og leitum nýrra og helgari leiða til að elska Guð og hjálpa okkur sjálfum og öðrum að mæta Guði.

Boð Guðs eru fyllt elsku og möguleikum, því Jesús Kristur er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Þeim sem eru hlaðnir byrðum, býður hann: „Komið til mín,“ og þeim sem að koma til hans, lofar hann: „Ég mun veita yður hvíld.“ „Komið til Krists, fullkomnist í honum … og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá bregst yður eigi náð hans, en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“

Í þessari fullvissu, að „fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi,“ getum við líka fundið huggun, frið og loforð um að við getum haldið áfram í trú og trausti á Drottin, jafnvel þótt hlutirnir þróist ekki eins og við væntum eða kannski verðskuldum, og við eigum enga sök þar á, jafnvel eftir að við höfum gert allt okkar.

Á ýmsum tímum og á ýmsan hátt, munum við finna okkur ófullnægjandi, óörugg, jafnvel óverðug. Í okkar trúföstu viðleitni til að elska Guð og þjóna náunga okkar, getum við þó fundið elsku Guðs og mikilvægan innblástur fyrir líf þeirra og okkar, á nýjan og helgari hátt.

Af samúð lofar frelsarinn og hvetur okkur til að „sækja fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna.“ Kenningin um Krist, friðþæging frelsarans, og ef við fylgjum sáttmálsvegi hans af allri sálu, getur gert okkur kleift að þekkja sannleika hans og gert okkur frjáls.

Ég ber vitni um að fylling fagnaðarerindis og sæluáætlunar hans hefur verið endurreist og er kennd í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, í hinum helgu ritningum og af spámönnum, allt frá spámanninum Joseph Smith til okkar tíma spámanns, Russells M. Nelson forseta. Ég ber vitni um að sáttmálsvegur hans leiðir okkur að æðstu gjöfinni sem okkar kærleiksríki himneski faðir hefur lofað: „Þér munuð öðlast eilíft líf.“

Megi blessanir og varanleg gleði hans verða okkar, er við vermum hjörtu okkar, vonir og staðfestu við varðeld trúar, er bæn mín í hinu helga og heilaga nafni Jesú Krists, amen.