2010–2019
Sálnahirðir
Október 2018


Sálnahirðir

Við komum öðrum til hjálpar í kærleika, því frelsarinn bauð okkur að gera það.

Er ég átti samræður við vin minn nýlega, sagði hann að sem ungur, nýskírður meðlimur kirkjunnar, hefði honum skyndilega fundist hann ekki eiga heima í deildinni sinni. Trúboðarnir sem kenndu honum höfðu verið kallaðir í burtu og honum fannst hann vera í lausu lofti. Vinalaus í deildinni, fór hann til sinna gömlu vina og með þeim tók hann þátt í breytni sem hélt honum frá þátttöku í kirkjunni – svo mikið að hann tók að villast frá hjörðinni. Með tár á hvörmum, lýsti hann því hve þakklátur hann hefði verið er meðlimur deildar hans rétti honum vinarhönd og bauð honum ljúflega og innilega að koma aftur. Innan mánaðar var hann aftur öruggur í hjörðinni, að styrkja aðra, sem og sig sjálfan. Erum við ekki þakklát þessum brasilíska hirði sem náði í þennan unga mann, öldungi Carlos A. Godoy, sem situr fyrir aftan mig sem meðlimur í forsætisráði hinna Sjötíu?

Er ekki undravert hvernig lítið framlag getur haft áhrif til eilífðar? Sá sannleikur er kjarni hirðisþjónustu kirkjunnar. Himneskur faðir getur notfært sér einföld dagleg verk okkar og magnað þau upp í eitthvað dásamlegt. Aðeins sex mánuðir hafa liðið frá því að Russell M. Nelson forseti tilkynnti að „Drottinn hefði gert mikilvægar breytingar á því hvernig við önnumst hvert annað,“ og útskýrði: „Við munum innleiða nýrri og helgari leið til að annast aðra og þjóna þeim. Við munum einfaldlega vísa til þess verkefnis sem ,hirðisþjónustu.‘“

Nelson forseti útskýrði: „Aðalsmerki hinnar sönnu lifandi kirkju mun ætíð verða skipulagt og hnitmiðað þjónustustarf í þágu einstakra barna Guðs og fjölskyldna þeirra. Þar sem þetta er kirkjan hans, þá munum við, sem þjónar hans, huga að hinum eina, á sama hátt og hann gerði. Við munum þjóna í hans nafni, með hans krafti og valdi og af gæsku hans.“

Viðbrögð ykkar hafa verið ólýsanleg frá því að þetta var tilkynnt! Við höfum fengið greinargerðir um dásamlegan árangur við innleiðingu þessara breytinga, frá næstum öllum stikum heimsins, í samræmi við þessa leiðsögn okkar lifandi spámanns. Þjónandi bræðrum og systrum hefur t.d. verið úthlutað fjölskyldum, samstarf félaga – þar með talið pilta og stúlkna – hefur verið skipulagt og þjónustuviðtöl eru höfð.

Ég tel það ekki vera tilviljun að sex mánuðum fyrir tilkynnta opinberun gærdagsins – um „nýjar áherslur varðandi trúarfræðslu heimilis og kirkju“ – hafi verið tilkynnt um opinberun hirðisþjónustunnar. Þegar við verðum einni klukkustund styttra í kirkjulegri tilbeiðslu, sem hefst í janúar, mun allt það sem við höfum lært í hirðisþjónustu hjálpa okkur að fylla upp í það gap með æðri og helgari heimilismiðaðri hvíildardags-upplifun með fjölskyldu og ástvinum.

Þegar þetta skipulag er á komið í rétt horf, gætum við spurt: „Hvernig getum við vitað að við þjónum að hætti Drottins? Erum við að hjálpa Góða hirðinum á þann hátt sem honum er að skapi?“

Í nýlegum umræðum hrósaði Henry B. Eyring forseti hinum heilögu fyrir að tileinka sér þessar breytingar, en hann lét auk þess í ljós þá einlægu von að meðlimir gerðu sér ljóst að hirðisþjónusta væri meira en „að vera bara vingjarnlegur.“ Í þessu felst ekki að það sé léttvægt að vera vingjarnlegur, heldur vita þeir sem skilja hinn sanna anda að hirðisþjónusta er mun meira en að vera aðeins vingjarnlegur. Sé þjónusta að hætti Drottins, getur hún haft djúp og varanleg áhrif til góðs, sem bylgjast um alla eilífð, líkt og í tilviki öldungs Godoy.

„Frelsarinn sýndi með fordæmi hvað felst í hirðisþjónustu, er hann þjónaði af elsku. … Hann … kenndi og bað fyrir þeim sem umhverfis voru, huggaði og blessaði þá og bauð öllum að fylgja sér. … Þegar kirkjumeðlimir þjóna [á æðri og helgari hátt], reyna þeir af kostgæfni að þjóna eins og hann gerði – að … ,vaka alltaf yfir kirkjunni og vera með meðlimum og styrkja þá,‘ að ,vitja heimilis hvers meðlims,‘ og hjálpa sérhverjum að vera sannur lærisveinn Jesú Krists.“

Við skiljum að sannur hirðir elskar sauði sína, þekkir hvern þeirra með nafni og „sýnir þeim sérstakan áhuga.“

Sauðir á fjalli

Vinur minn til margra ára var bóndi alla ævi og starfaði við hinn erfiða búskap að rækta nautgripi og sauði í hinum stórskornu Klettafjöllum. Hann sagði mér eitt sinn frá erfiðleikum og áhættum sauðfjárræktar. Hann sagði að snemma vors, er snjó tæki að leysa að mestu á hinum víðfema fjallgarði, færi hann með hjörð fjölskyldunnar, um 2000 sauði, upp í fjöllinn yfir sumarið. Þar gætti hann hjarðarinnar langt fram á haust og færi síðan með hana frá sumardvalarstað sínum niður á láglendið til vetrardvalar. Hann sagði frá því hversu krefjandi væri að gæta stórrar sauðahjarðar, allt frá árla morguns til síðla kvölds – að rís upp vel fyrir sólarupprás og ljúka verkum löngu eftir myrkur. Þetta hefði hann alls ekki getað gert einsamall.

Bóndi með sauði

Aðrir sinntu líka hjörðinni, þar með talinn hópur af reyndum vinnumönnum og fengu þeir aðstoð frá hinum yngri sem lærðu af visku sér eldra samverkafólks. Hann reiddi sig líka á tvo gamla jálka, tvo fola í tamningu, tvo gamla fjárhunda og tvo til þrjá fjárhundahvolpa. Yfir sumarið tókust vinur minn og sauðirnir hans á við vind og regn, sjúkdóma, meiðsli, þurrka og næstum alla aðra áþján sem hugsast getur. Sum árin þurftu þau að flytja vatn til sauðanna allt sumarið til að halda þeim á lífi. Síðla hausts, ár hvert, þegar vetrarveður vofðu yfir og hjörðin var flutt af fjalli og talin, voru yfirleitt ríflega 200 gripir týndir.

Smölun
Sauðahjörð

Hjörð 2000 sauða, sem farið var með á fjall að vori, hafði rýrnað niður í tæplega 1.800 sauði. Flestir gripanna sem vantaði höfðu ekki orðið sjúkdómum eða eðlilegum dauða að bráð, heldur rándýrum, svo sem fjallaljónum eða sléttuúlfum. Rándýrin réðust yfirleitt á lömb sem villst höfðu frá öryggi hjarðarinnar og hirðisins. Hugleiðið aðeins frásögn mína í andlegu samhengi? Hver er hirðirinn? Hver er hjörðin? Hverjir eru þeir sem aðstoða hirðinn?

Góði hirðirinn

Drottinn Jesús Kristur sagði sjálfur: „Ég er góði hirðirinn og þekki mína. … Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.“

Jesús að næra sauði sína

Spámaðurinn Nefí álíka, að Jesús „[myndi] næra sína sauði, og í honum [finndu] þeir sitt beitiland.“ Ég finn varanlegan frið í því að vita að „Drottinn er minn hirðir“ og að hann þekkir og annast sérhvert okkar. Þegar við glímum við vind og regn, sjúkdóma, meiðsli og þurrka, mun Drottinn – hirðir okkar – liðsinna okkur. Hann mun lífga sál okkar.

Á sama hátt og vinur minn þurfti aðstoð yngri og eldri verkamanna við að annast sauði sína, hesta og fjárhunda, þarf Drottinn aðstoð í því vandasama verki að annast sauði sinnar hjarðar.

Jesús Kristur þjónar

Við, sem börn kærleiksríks himnesks föður og sauðir í hjörð hans, njótum þeirrar blessunar að vera liðsinnt persónulega af Jesú Kristi. Við þurfum sjálf, samhliða því, að framfylgja þeirri ábyrgð sem hirðar að veita öðrum umhverfis þjónustu og liðsinni. Við hlítum þessum orðum Drottins: „Þú skalt þjóna mér, ganga fram í mínu nafni og safna saman sauðum mínum.“

Hver er hirðir? Sérhver karl, kona og barn í ríki Guðs er hirðir. Hér er ekki þörf á köllun. Frá þeirri stundu er við komum upp úr skírnarvatninu, erum við bundin þessu verki. Við komum öðrum til hjálpar í kærleika, því frelsarinn bauð okkur að gera það. Alma undirstrikaði: „Því [hvaða hirðir] er það … sem á marga sauði, að hann vaki ekki yfir þeim, til að [úlfur] komist ekki inn og rífi hjörð hans í sig? … Er hann þá ekki rekinn út?“ Hvenær sem náungi okkar býr við stundlega eða andlega neyð, komum við til hjálpar. Við berum hver annars byrðar, svo að þær verði léttar. Við syrgjum með syrgjendum. Við huggum þá sem huggunar þarfnast. Drottinn væntir þess af okkur í kærleika. Sá dagur mun svo upp renna að við þurfum að gera skil á þeirri ábyrgð að þjóna hjörð hans.

Sauðahirðirinn, vinur minn, sagði frá öðru mikilvægu atriði sem tengist því verki að vaka yfir sauðum í haga. Hann sagði frá því að týndir sauðir væru einkum berskjaldaðir fyrir árás rándýra. Að í raun færi 15 prósent af tíma hans og verkafólks hans í að leita týndra sauða. Því fyrr sem þau fyndu týndan sauð, áður en hann ráfaði of langt frá hjörðinni, því minni líkur yrðu á að hann færi sér að voða. Það krefst mikillar þolinmæði og sjálfsaga að endurheimta týndan sauð.

Fyrir nokkrum árum fann ég það áhugaverða grein í fréttablaði að ég varðveitti hana. Á forsíðunn stóð stórum stöfum: „Tryggur hundur yfirgefur ekki týnda sauði.“ Í greininni er sagt fá nokkrum sauðum, sem heyrðu til starfssemi ekki langt frá býli vinar míns, sem voru skildir eftir í sumarhaga þeirra. Tveimur eða þremur mánuðum síðar urðu þeir strandaglópar og fastir vegna snjóa í fjöllunum. Þegar sauðirnir voru skildir eftir, varð fjárhundurinn eftir hjá þeim, því það var hans ábyrgð að vernda og gæta sauðanna. Hann fór ekki frá skylduverki sínu! Hann stóð við sitt – verndaði hina týndu sauði í mánuði í köldu og snjóþungu veðri, gegn sléttuúlfum, fjallaljónum og hverju því rándýri sem hugðist skaða sauðina. Hann dvaldi hjá sauðunum þar til hann gat leitt eða rekið þá aftur í öruggt skjól hirðisins og hjarðarinnar. Myndin sem er á fremstu síðu þessarar greinar, sýnir okkur tryggðina sem skín úr augum og af yfirbragði þessa fjárhunds.

Tryggð skín úr augum og háttarlagi fjárhunds

Í Nýja testamentinu er að finna dæmisögu og leiðsögn frelsarans, sem veitir frekari skilning á ábyrgð okkar sem hirðar, þjónandi bræður og systur, týndra sauða:

„Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?

Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.

Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.“

Ef við gerum samantekt á því sem kennt er í dæmisögunni, má finna þessa dýrmætu leiðsögn:

  1. Við þurfum að auðkenna hinn týnda sauð.

  2. Við leitum hans þar til hann finnst.

  3. Þegar hann finnst, gætum við þurft að leggja hann á herðar okkar, til að bera hann heim.

  4. Við umlykjum hann vinum við heimkomu.

Bræður og systur, okkar stærsta áskorun og sú sem er mest gefandi, gæti verið að þjóna hinum týnda sauði. Meðlimir kirkjunnar í Mormónsbók „vöktu yfir fólki sínu og nærðu það á öllu, sem réttlætið snertir.“ Við getum fylgt fordæmi þeirra og munað eftir að hirðisþjónusta ætti að vera „leidd af andanum, … sveigjanleg og … sniðin að þörfum fólks.“ Einnig er mikilvægt að við „hjálpum einstaklingum og fjölskyldum að búa sig undir næstu helgiathöfn, að halda sáttmála [sína] … og að vera sjálfbær.“

Sérhver sál er dýrmæt föður okkar á himnum. Persónulegt boð hans um þjónustu er honum afar verðmætt og mikilvægt, því þetta er verk hans og dýrð. Þetta er í raun verk eilífðar. Sérhvert barn hans hefur ótakmarkaða möguleika í huga hans. Hann elskar ykkur slíkri elsku að þið fáið engan vegin skilið það. Drottinn mun, líkt og hinn tryggi fjárhundur, vera áfram á fjallinu til að vernda ykkur gegn vindi, regni, snjó og fleiru.

Russell M. Nelson forseti kenndi á síðustu ráðstefnu: „Boðskapur okkar til heimsins [og ég bæti við, ,til þjónustuhjarðar okkar‘] er einfaldur og einlægur: Við bjóðum öllum börnum Guðs, báðum megin hulunnar, að taka á móti blessunum hins heilaga musteris, njóta varanlegrar gleði og vera hæf fyrir eilíft líf.

Megum við taka á móti þessari spámannlegu hugsjón, svo við getum liðsinnt sálum til musterisins og loks til frelsarans, Jesú Krists. Hann væntir þess ekki að við gerum kraftaverk. Hann biður aðeins um að við leiðum bræður okkar og systur til hans, því hann hefur máttinn til að frelsa sálir. Ef við gerum það, getum við tryggt þetta fyrirheit hans: „Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.“ Um þetta ber ég vitni – og um Jesú Krist sem frelsara okkar og lausnara – í nafni Jesú Krists, amen.