2011
Leita hins góða
mars 2011


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2011

Leita hins góða

Ung Síðari daga heilagra hjón sem leituðu sér nýs heimilis ræddu við hugsanlega nágranna um hverfið og skólann sem þar var.

Ein kona sem þau ræddu við sagði þetta um skóla barna sinna: „Þetta er einstæður skóli! Skólastjórinn er dásamlegur og góður maður; kennararnir eru mjög hæfir, viðfeldnir og alúðlegir. Ég er svo ánægð með að börnin okkar geti sótt þennan frábæra skóla. Þið munuð verða ánægð hér!“

Önnur kona sagði þetta um skóla barna sinna: „Þetta er ömurlegur skóli. skólastjórinn er sjálfmiðaður; kennararnir óhæfir, óviðfeldnir og dónalegir. Ef ég gæti, mundi ég þegar í stað flytja í burtu!“

Það undarlega var að báðar konurnar ræddu um sama skólastjórann, sömu kennarana og sama skólann.

Hafið þið veitt athygli að fólk finnur yfirleitt það sem það leitar að? Leitið vandlega og þið munuð finna bæði gott og slæmt í næstum öllum og öllu. Fólk hefur einmitt gert þetta hvað varðar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu allt frá tilurð hennar. Þeir sem leita hins góða, munu finna viðfeldið og samúðarfullt fólk—fólk sem elskar Drottinn og þráir að þjóna honum og blessa líf samferðamanna sinna. En það er einnig satt að þeir sem leita hins slæma, munu vissulega finna það sem ekki fellur þeim í geð.

Því miður gerist þetta jafnvel stundum innan kirkjunnar. Þeim sem leita átyllu til gagnrýni, mun aldrei skorta til þess hugvitssemi og áhuga. Þeir virðast ekki geta sleppt takinu á óvildinni. Þeir slúðra og finna bresti í öðrum. Þeir ala biturð í brjósti sér og nota hvert tækifæri til að gera lítið úr öðrum Slíkt er Drottni ekki þónkanlegt: „Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl“ (Jakbr 3:16).

George Q. Cannon forseti (1827–1901) var vel kunnugur Brigham Young forseta (1801–77), starfaði náið með honum í mörg ár, bæði sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni og ráðgjafi hans í Æðsta forsætisráðinu. Eftir lát Youngs forseta, skráði Cannon forseti þetta í dagbók sína: „Í hjarta mínu gagnrýndi ég aldrei eða leitaði bresta í framgöngu, leiðsögn eða kennslu [Brighams Young], miklu fremur eigin orð og gjörðir. Það vekur mér nú vellíðan. Sú hugsun sem stöðugt var með mér var: Hvaða hag hef ég af því að gagnrýna, leita bresta í eða dæmi bróður Brigham; hvar endar það, ef ég tek upp á því? Ég vogaði mér ekki að halda út á þá braut. Mér var ljóst að það leiddi oft til fráhvarfs að bjóða heim anda gagnrýnis og aðfinnslusemi. Aðrir, mér öflugri, vitrari og reyndari, gætu gert ýmislegt, sem ég vogaði mér ekki að gera, án þess að slæmar afleiðingar hlytust af.“1

Þessi áhrifamikla leiðsögn Cannons forseta er nokkuð sem við meðlimir kirkjunnar ættum að huga vandlega að. Orð Guðs áminnir fylgjendur Krists og býður okkur að vera „hrein, … friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ Og að „ávexti réttlætisins verður sáð í friði“ (Jakbr 3:17, 18), til handa þeim, er frið semja.

Við höfum valkosti. Við getum leitað hins slæma í fari fólks eða samið frið og verið sanngjörn og fús til að sýna þeim þann skilning og veita þeim þá fyrirgefningu sem við þráum svo innilega fyrir okkur sjálf. Valið er okkar; því við munum örugglega finna það sem við leitum að, hvað svo sem það er.

Heimildir

  1. George Q. Cannon, dagbókarfærsla, 17. janúar 1878; stafsetning færð í nútímahorf.

Hvernig kenna á boðskapinn

„Kannski finnst ykkur þið ekki skilja ákveðnar reglur sem þið kennið. En þegar þið lærið þær í bænarhug, lifið eftir þeim, búið ykkur undir að kenna þær og miðlið þær öðrum, mun vitnisburður ykkar styrkjast og dýpka“ sjá notes Teaching, No Greater Call ([1999], 19).

Þegar þið leitið hins góða í lífinu og í fari fólks þennan mánuð, munið þið verða betur í stakk búin til að kenna þennan boðskap og vitna um sannleika hans.

Prenta