Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, desember 2011
Veljið að vera þakklát
Faðir okkar á himnum býður okkur að sýna þakklæti í öllu (sjá 1 Þess 5:18) og hann ætlast til þess að við færum þakkir fyrir þær blessanir sem við hljótum (sjá K&S 46:32). Við vitum að öllum boðorðum hans er ætlað að stuðla að hamingju okkar og við vitum líka að það leiðir til vesældar að brjóta boðorðin.
Við þurfum því að vera þakklát í hjarta til að verða hamingjusöm og forðast vesæld. Í lífi okkar höfum við skynjað sambandið milli þakklætis og hamingju. Öll viljum við vera þakkát, en ekki er auðvelt að sýna stöðugt þakklæti í öllu í raunum lífsins. Stundum upplifum við sjúkdóma, vonbrigði og ástvinamissi. Sorgir okkar kunna að byrgja okkur sýn á blessanir okkar og þær blessanir sem Guð ætlar okkur í framtíðinni.
Það er áskorun fyrir okkur að minnast blessana okkar, því við hneigjumst til að líta á hið góða sem sjálfgefið. Þegar við höfum ekki lengur þak yfir höfuðið, mat til að borða eða njótum ekki ástúðar fjölskyldu og vina, verður okkur ljóst hve þakklát við hefðum átt að vera fyrir allt þetta.
Og það sem meira er, stundum eigum við erfitt með að sýna nægilegt þakklæti fyrir okkar stærstu gjafir: Fæðingu Jesú Krists, friðþægingu hans, fyrirheitið um upprisu, möguleikann að njóta eilífs lífs með fjölskyldum okkar, endurreisn fagnaðarerindisins, ásamt prestdæminu og lyklum þess. Við getum aðeins skynjað mikilvægi þessara blessana fyrir okkur og ástvini okkar með hjálp heilags anda. Og aðeins þá getum við vonað að vera þakklát í öllu og forðast að misbjóða Guði með vanþakklæti.
Við verðum að biðja þess að Guð hjálpi okkur með krafti heilags anda að skynja blessanir okkar greinilega, jafnvel mitt í raunum lífsins. Hann megnar með krafti andans að hjálpa okkur að greina og vera þakklát fyrir þær blessanir sem við lítum á sem sjálfgefnar. Það sem hefur hjálpað mér einna mest er að biðja Guð í bæn: „Vilt þú leiða mig til einhvers sem ég get hjálpað fyrir þig?“ Með því að hjálpa Guði að blessa aðra hefur mér reynst auðveldara að skynja blessanir mínar.
Ég hlaut eitt sinn bænheyrslu þegar hjón sem ég þekkti ekki áður buðu mér að fara á sjúkrahús. Þar kom ég að litlu barni, svo smáu að það hefði komist fyrir í lófa mínum. Á fáeinum vikum lífs síns hafði Það gengist undir fjölda skurðaðgerða. Læknarnir höfðu sagt foreldrum þess að þörf væri á enn flóknari aðgerð til að hjarta og lungu þessa litla barns Guðs fengju starfað.
Að beiðni foreldra þess veitti ég barninu prestdæmisblessun. Í blessuninni var lofað að barnið mundi lifa áfram. Ég veitti ekki aðeins blessun, heldur hlaut ég sjálfur þá blessun að vera þakklátari í hjarta.
Með hjálp föður okkar getum við öll valið að finna til aukins þakklætis. Við getum beðið hann að hjálpa okkur að skynja betur blessanir okkar, hverjar sem aðstæður okkar eru. Hvað mig sjálfan varðar þá skynjaði ég aldrei sem fyrr undur þess að hjarta mitt sló og lungu mín störfuðu. Á heimleiðinni færði ég þakkir fyrir þær blessanir sem börn mín nutu og skynjaði betur að þær mætti rekja til undursamlegar góðvildar Guðs og góðs fólks sem þau umgengust.
Og það sem meira er, þá fann ég til þakklætis fyrir að skynja kraft friðþægingarinnar í lífi þessara áhyggjufullu foreldra og mínu. Ég hafði skynjað von og séð hreina ást Krists ljóma af ásjónum þeirra, já, í miklum raunum þeirra. Og ég skynjaði sönnunina sem við skynjum þegar við biðjum Guð að opinbera okkur að friðþægingin megni að fylla okkur von og kærleika.
Við getum öll ákveðið að færa þakkir í bæn og að biðja Guð um handleiðslu til að þjóna öðrum fyrir hann — einkum á þessum árstíma er við fögnum fæðingu frelsara okkar. Guð faðirinn gaf son sinn og Jesús Kristur gaf okkur friðþæginguna, stærstu gjöf allra gjafa (sjá K&S 14:7).
Þakkargjörð í bæn getur gert okkur kleift að skynja umfang þessara blessana og allra annarra blessana og taka á móti gjöf þakklátari hjarta.
© 2011 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/10. Þýðing samþykkt: 6/10. Þýðing á First Presidency Message, December 2011. Icelandic. 09772 190