2013
Verði ró
mars 2013


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2013

Verði

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

Dag einn fyrir nokkrum árum, eftir að ég hafði lokið verkefnum á skrifstofunni, fékk ég sterkt hugboð um að heimsækja aldraða ekkju, sem var sjúklingur á umönnunarheimili fyrir aldraða í Salt Lake City. Ég ók þangað rakleiðis.

Þegar ég kom í herbergið hennar var þar enginn. Ég bað umönnuaraðila að segja mér hvar hún væri og var vísað í setustofu. Þar fann ég þessa ljúfu ekkju með systur sinni og vini sem voru í heimsókn. Við áttum saman ánægjulegar umræður.

Í miðjum umræðum okkar kom maður inn í herbergið til að ná sér í gosflösku úr sjálfssalanum. Hann horfði á mig og sagði: „Ert þú ekki Tom Monson.“

„Jú,“ svaraði ég. „Og þú lítur út fyrir að vera Hemingway.“

Hann samsinnti því að vera Stephen Hemingway, sonur Alfreds Eugene Hemingway, sem hafði þjónað sem ráðgjafi minn, er ég var biskup fyrir mörgum árum, og ég hafði kallað Gene. Stephen sagði mér að faðir hans væri í sömu húsakynnum og lægi fyrir dauðanum. Gene hafði beðið um mig og fjölskylda hans hafði reynt að hafa samband við mig, en ekki getað fundið símawnúmerið mitt.

Ég afsakaði mig þegar í stað og fór með Stephen upp í herbergi fyrrverandi ráðgjafa míns, þar sem hin börnin hans voru líka saman komin, en eiginkona hans hafði látist nokkrum árum áður. Fjölskyldan áleit fund minn með Stephen í setustofunni vera svar himnesks föður við þeirri djúpu þrá þeirra að ég mætti sjá föður þeirra áður en hann dæi og verða við beiðni hans. Þannig fannst mér það líka vera, því ef Stephen hefði ekki komið í setustofuna nákvæmlega á þeim tíma sem ég var þar, hefði ég engan vegin getað vitað að Gene væri í byggingunni.

Við veittum honum blessun. Andi friðar var ríkjandi. Við áttum saman dásamlega stund og eftir það hélt ég á braut.

Næsta morgun var mér tjáð í síma að Gene Hemingway hefði látist—aðeins 20 mínútum eftir að hann hafði hlotið blessunina frá mér og syni sínum.

Ég færði himneskum föður þakkir í hljóðri bæn fyrir handleiðslu hans, sem hafði knúið mig til að fara til heimilisins, svo ég gæti vitjað míns kæra vinar, Alfreds Eugene Hemingway.

Ég trúi að hugsanir Gene Hemingway þarna um kvöldið—er andinn yljaði hjörtu okkar og við báðumst auðmjúklega fyrir og nutum prestdæmisblessunar—hafi endurómað orð sálmsins „Herra, sjá bylgjurnar brotna“:

Drottinn minn, far þú ei frá mér!

Fylg mér, því leið er vönd.

Uns ég höfn næ og huggaður uni

á himneskri friðarströnd.

Ég uni enn þessum sálmi og ber vitni um þá huggun sem hann veitir:

Alls enginn maður né myrkravald,

ei magnþrunginn hafsjór með öldufald,

fær grandað því skipi,

er geymir í sér þann Guð sem frá upphafi var og er.

„Sjá, ég hef vald yfir vindi og sjó!

Verði ró.“1

Gegnum tár og raunir, ótta og harm, hjartasorg og einmanaleika vegna missi ástvina, berst fullvissan um að lífið sé ævarandi. Drottinn vor og frelsari er lifandi vitni um að svo sé.2 Orð hans í hinu helga riti eru hughreystandi: „Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð“ (Sálm 46:11). Ég ber vitni um þann sannleika.

Heimildir

  1. „Herra, sjá bylgjurnar brotna“ Sálmar, nr. 38).

  2. Sjá Richard L. Evans, „So Let Us Live to Live Forever,“ New Era, júlí 1971, 18.

Hvernig kenna á boðskapinn

Þessi boðskapur kann að veita þeim hughreystingu sem hafa misst ástvini eða takast á við raunir. Íhugið að miðla einni af eftirfarandi ritningargreinum, auk boðskapar Monsons forseta, í samræmi við þarfir þeirra sem þið kennið: Job 19:25–26; 1 Kor 15:19–22; Mósía 24:13–15; Kenning og sáttmálar 122:7–9. Þið getið borið vitni um friðinn sem frelsarinn hefur veitt ykkur í raunum ykkar, ef þið finnið hvatningu til þess.

Prenta