2013
Heilagir á öllum tíðum
september 2013


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2013

Heilagir á öllum tíðum

Dieter F. Uchtdorf forseti

Ég bý að bernskuminningum um heimshluta þar sem hinar dásamlegu mismunandi árstíðir myndu sóma sér vel á póstkorti. Hver morgunn var bjartur og dýrðlegur. Á fallegum vetrardegi lá mjallhvít snjóbreiðan yfir fjöllum og strætum. Vorið kom með hreinsandi regnið og hraðsprettandi grænar breiður. Heiðskýr himininn var sem fagurblár grunnur bjartrar sólarinnar. Skrautlegt haustið umbreytti gróðri og náttúru með rauðum, gulum og brúnum litum. Sem barn unni ég hverri árstíð, og allt fram til þessa, hef ég unnað einkennum og sérstöðu hverrar árstíðar.

Líf okkar er líka árstíðabundið. Sumar tíðir eru hlýjar og ánægjulegar. Aðrar ekki. Sumir dagar í lífi okkar eru jafn fallegir og ljósmynd á dagatali. Þeir dagar og aðstæður koma líka þar sem við upplifum sorgina og stundum djúpa örvæntingu, gremju og biturð.

Ég er viss um að við höfum öll einhvern tíma hugsað að gott væri að flytja til lands þar sem aðeins væru dagar góðra árstíða, þar sem hægt væri að forðast hinar óþægilegu tíðir sem koma reglubundið upp.

Þetta er þó ekki mögulegt. Það er heldur ekki eftirsóknarvert.

Þegar ég lít yfir eigið líf, er greinilegt að oftast hefur mesti þroskinn átt sér stað er ég hef upplifað stormasamar tíðir.

Okkar alvitri himneski faðir veit að til þess að börn hans geti þroskast í þá veru sem þeim er ætlað að verða, þyrftu þau að upplifa örðugar tíðir í jarðardvöl sinni. Lehí, spámaður Mormónsbókar, sagði að án andstæðna „næði réttlætið ekki fram að ganga“ (2 Ne 2:11). Vissulega er það svo að biturleiki lífsins gerir okkur kleift að meta og þekkja og sjá andstæðuna, ljúfleikann (sjá K&S 29:39; HDP Móse 6:55).

Brigham Young forseti orðaði það svo: „Allar vitsmunaverur, sem krýndar eru kórónu dýrðar, ódauðleika og eilífra lífa, verða að ganga í gegnum allar þær eldraunir sem vitsmunaverur þurfa að gera, til að hljóta dýrð sína og upphafningu. Sérhver hörmung sem jarðarbúar geta orðið fyrir, mun yfir koma … til að búa þá undir að njóta návistar Drottins. … Sérhver raun og reynsla sem þið hafið orðið fyrir er nauðsynleg fyrir sáluhjálp ykkar.“1

Spurningin er ekki hvort við munum ganga í gegnum örðugar tíðir, heldur hvernig við tökumst á við storminn. Stærsta tækifæri okkar á hinum síbreytilegu árstíðum lífsins, er að halda okkur fast að hinu áreiðanlegu orði Guðs, leiðsögn hans er ekki aðeins til að hjálpa okkur að takast á við stormana, heldur líka til að leiða okkur fram hjá þeim. Himneskur faðir hefur gefið orð sitt með spámönnum sínum—dýrmæta þekkingu, okkur til leiðsagnar í gegnum örðugar tíðir til ólýsanlegrar gleði og skínandi ljóss eilífs lífs. Það er mikilvægur hluti lífsreynslu okkar að þróa styrk, hugrekki og ráðvendni, að halda okkur staðfastlega við sannleika og réttlæti, þrátt fyrir áföll sem við verðum fyrir.

Þau sem hafa farið ofan í skírnarvatnið og meðtekið gjöf heilags anda, hafa komist á veg lærisveinsins og ber skylda til að fylgja staðfastlega í fótspor frelsara okkar.

Frelsarinn sagði sólina „renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“ (Matt 5:45). Stundum fáum við ekki skilið hvers vegna erfiðleikar, og jafnvel ósanngirni, fylgja lífinu. Sem fylgjendur Krists, reiðum við okkur á að ef við „[leitum af kostgæfni, biðjum ávallt og trúum, … mun allt vinna saman að velfarnaði okkar, ef við göngum grandvör]“ (K&S 90:24; skáletrað hér).

Sem meðlimir kirkju hans, sem heilagir, þjónum við glöð og fús í öllum veðrum og á öllum árstíðum. Þegar við gerum það, mun hjarta okkar fyllast helgri trú, lífgandi von og himneskum kærleika.

Við verðum samt að ganga í gegnum allar árstíðir—bæði góðar og sárar. Hver sem árstíðin er, munum við, sem fylgjendur Jesú Krists, setja traust okkar á hann, er við þroskumst í ljósi hans.

Í stuttu máli, þá erum við, hinir heilögu Guðs, staðföst í að læra af honum, elska hann og náunga okkar. Við erum pílagrímar á hinum blessaða vegi lærisveinsins og höldum staðfastlega í átt að okkar himneska marki.

Verum því heilög að vori, sumri, hausti og vetri. Verum heilög á öllum tíðum.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 261–62.

Hvernig kenna á boðskapinn

Æðsta forsætisráðið hefur kennt að „Sumar bestu prédikanirnar séu fluttar með sálmasöng“ (Sálmar, ix). Þegar þið ræðið boðskapinn, íhugið þá að syngja einn þessara sálma eða aðra söngva með þeim sem þið kennið, um að standast andstreymi: „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál“ (nr. 21); „Minn hirðir er Drottinn“ (nr. 19); eða „Fylkjum liði“ (nr. 93). Ef andinn knýr ykkur til þess, segið þá frá því hvernig örðugt tímabil í ykkar lífi varð síðar að blessun.