2014
Uppskera Guðs
ágúst 2014


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 2014

Uppskera Guðs

Dieter F. Uchtdorf forseti

Kona að nafni Christa starfaði hjá litlu fyrirtæki sem selur frækorn. Hún hafði unun af starfinu sínu. Afar merkilegt fannst henni að hvert frækorn sem selt væri byggi yfir þeim hæfileika að geta breyst í eitthvað undursamlegt—gulrót, hvítkál eða jafnvel stórt eikartré.

Christa naut þess að sitja við tölvuna og taka við pöntunum og svara fyrirspurnum. Dag einn fékk hún samt kvörtun, sem olli henni heilabrotum.

Viðskiptavinur einn sagði: „Fræin virka ekki. Ég keypti þau fyrir tveimur mánuðum og enn hefur ekkert gerst.

„Sáðir þú í góðan jarðveg og veittir næga vökvun og birtu?“ spurði Christa.

„Nei, en ég gerði það sem að mér snýr,“ sagði viðskiptavinurinn. „Ég keypti fræin. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er tryggt að þau vaxi.“

„En sáðir þú fræjunum?“

„Nei, góða besta, þá yrði ég að óhreinka hendur mínar.“

Christa hugsaði málið til enda og ákvað að skrifa sáningarreglur. Hún skrifaði fyrstu regluna sem var þessi: „Fylgja skal leiðbeiningum um sáningu til að fræin vaxi. Fræin munu ekki vaxa , séu þau geymd á hillu.“

Ekki leið á löngu áður en annar viðskiptavinur kvartaði, sem olli henni heilabrotum.

„Fræin gefa ekki af sér,“ fullyrti sá viðskiptavinur.

„Sáðir þú í góðan jarðveg?“ spurði Christa. „Vökvaðir þú og veittir næga birtu?“

„Ó, já,“ fullyrti viðskiptavinurinn. „Ég gerði hvort tveggja - nákvæmlega eins og tilgreint var í leiðbeiningunum. Fræin virka samt ekki.“

„Gerðist ekki neitt? Tóku þau að spíra?“

„Það gerðist ekkert,“ sagði viðskiptavinurinn. „Ég sáði eins og til var ætlast og vænti þess að hafa tómata með kvöldverðinum. Nú er ég afar vonsvikinn.“

„Bíddu við,“ sagði Christa, „ertu að segja að þú hafir sáð í dag?“

„Ertu frá þér,“ svaraði viðskiptavinurinn, „ég sáði fyrir viku síðan. Ég gerði nú ekki ráð fyrir að sjá tómata á fyrsta degi; ég hef beðið þolinmóður. Fullvíst er að ég hef vökvað mikið og beðið lengi frá sáningu til þessarar stundar.

Christu varð ljóst að bæta þurfti við annarri reglu: „Framleiðsla þessara frækorna er háð lögmáli náttúrunnar. Sé sáð að morgni og þess vænst að hægt sé að neyta tómata síðar í sömu viku, mun það leiða til vonbrigða. Sýna þarf biðlund, því verk náttúrunnar hefur sinn tíma.“

Allt gekk vel, þar til önnur kvörtun til viðbótar barst Christu.

„Ég er afar vonsvikinn með fræin ykkar,“ sagði enn annar viðskiptavinur. „Ég sáði eins og tilgreint var í leiðbeiningunum. Ég vökvaði, gætti þess að birtan væri næg og beið þar til fræin tækju að vaxa og gefa af sér.“

„Hljómar líkt og þú hafir gert allt rétt,“ sagði Christa.

„Þetta var allt eins og vera ber,“ svaraði viðskiptavinurinn, en það sem upp kom var kúrbítur!“

„Bókunin mín staðfestir að þú hafir einmitt pantað slík frækorn,“ sagði Christa.

„Ég vil ekki kúrbít; ég vil grasker!

Ég skil þetta ekki.“

„Ég sáði frækornunum í graskerbeðið mitt—nákvæmlega í sama reitinn og gaf af sér grasker í fyrra. Á hverjum degi bar ég lof á plönturnar og sagði þeim hve dásamleg grasker þær yrðu. Í stað þess að fá stór appelsínugul kúlulaga grasker, fæ ég ílangan grænan kúrbít. Fullt af þeim!“

Christu varð þá ljóst að líklega nægði ekki að láta leiðbeiningar fylgja og því væri nauðsynlegt að setja fram þessa yfirlýsingu: „Uppskeran ákvarðast af tegund frækorna og lengd vaxtartímans.“

Uppskerulögmálið

Páll postuli veitti fræðslu um uppskeru Guðs:

„Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.

Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.

Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp“ (Gal 6:7–9).

Drottinn hefur á síðari tímum veitt okkur frekari visku og skilning á þessu óbreytanlega lögmáli:

„Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við—

Að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“ (K&S 130:20–21).

Við uppskerum eins og við sáum.

Uppskera Guðs er óumræðilega dýrðleg. Þeir sem hann heiðra, munu hljóta hinar ríkulegu blessanir hans, líkt og: „Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur [sé] lagður í skaut yðar. … Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða“ (Lúk 6:38).

Sáning og uppskera krefst áreynslu og biðlundar og það á líka við um margar blessanir himins. Ef við viljum uppskera andlegar blessanir, má trú okkar ekki daga uppi á hillu. Ef við hins vegar sáum og leggjum rækt við reglur fagnaðarerindisins í okkar daglega fjölskyldulífi, eru miklar líkur á því að börn okkar vaxi upp og leiði fram afar dýrmætan andlegan ávöxt, sér sjálfum og komandi kynslóðum til blessunar.

Guð svarar bænum okkar ekki alltaf samstundis—stundum virðist svörin alls ekki koma—en Guð veit hvað börnum hans er fyrir bestu. Vissulega kemur sá dagur að við munum sjá skýrar; og þá mun okkur skiljast gæska og gjafmildi himins.

Fram að því ættum við að feta í fótspor meistara okkar og frelsara af innilegri gleði og tileinka okkur góðan og fágaðan lífsmáta, svo við fáum uppskorið hinar dýrmætu og ómetanlegu blessanir sem Guð hefur lofað.

Við uppskerum eins og við sáum.

Það er lögmál himins.

Það er uppskerulögmál Guðs.

Hvernig kenna á boðskapinn

Ræðið við þau sem þið heimsækið um hvernig uppskerulögmál Guðs á við um sambönd, trúarumbreytingu og vitnisburð eða markmið sem tengjast starfsferli eða menntun. Þið getið lesið og íhugað ritningargreinar um þetta lögmál, svo sem Okv 11:18; 2 Kor 9:6; og Alma 32. Hvetjið þau til að endurmeta fyrri markmið og setja sér ný markmið, til að ná fram réttlátri niðurstöðu. Hjálpið þeim að gera áætlun um að vinna stöðugt að því að ná langtíma markmiðum.