2015
Umvafin hans blíðu örmum
mars 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2015

Umvafin hans blíðu örmum

Líkt og margir aðrir, þá hef ég oft verið innblásinn af fallegum listaverkum og tónlist. Eitt slíkt tilfelli var þegar ég stóð fyrir frammi fyrir fallegu málverki eftir danska listmálarann Frans Schwarz, sem nefnt er Þjáningar í garðinum.1

Þetta ljúfsára og fallega málverk sýnir frelsarann krjúpa í Getsemanegarðinum. Engill stendur við hlið hans þar sem hann biðst fyrir, vefur hann blíðum örmum, hughreystir hann og veitir honum guðlega liðveislu og styrk.

Ólýsanlegar tilfinningar þakklætis og trega fylla hjarta mitt, því lengur sem ég ígrunda þetta málverk. Ég fékk skynjað í örlitlum mæli hvernig sú upplifun hlýtur að hafa verið að vera í návist frelsarans, er hann hóf að takast á við hið mikla og stórbrotna verk jarðlífsins, með því að taka á sig syndir heimsins. Ég undrast hina óendanlegu elsku og samúð föðurins til barna sinna. Ég fyllist innilegu þakklæti fyrir það sem hinn syndlausi sonur gerði fyrir allt mannkyn og mig persónulega.

Fórn sonar Guðs

Á hverju ári á þessum tíma, minnumst við friðþægingar Jesú Krists í þágu alls mannkyns og ígrundum hana.

Það sem frelsarinn gerði frá Getsemane til Golgata í okkar þágu er meira en ég fæ skilið. Hann tók á sig syndabyrði okkar og reiddi af höndum hið eilífa og bindandi lausnargjald, ekki aðeins fyrir brot Adams, heldur líka fyrir syndir og misgjörðir þeirra milljarða sálna sem hafa lifað. Í þessari eilífu og helgu fórn var það svo að „sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda“ (K&S 19:18).

Hann þjáðist fyrir mig.

Hann þjáðist fyrir þig.

Sál mín fyllist innilegu þakklæti þegar ég íhuga helga merkingu þessarar fórnar. Ég fyllist auðmýkt yfir að vita að allir þeir sem taka á móti þessari gjöf og gefa honum hjarta sitt, geta hlotið fyrirgefningu og hreinsast af syndum sínum, hversu miklar sem þær eru eða erfiðar að bera.

Við getum orðið flekklaus og hrein að nýju. Við getum hlotið endurlausn fyrir hina eilífu fórn okkar ástkæra frelsara.

Hver mun hughreysta okkur?

Þótt hvert okkar þurfi aldrei að upplifa sárustu þjáningar frelsarans, þá eigum við öll okkar myrku og beisku stundir – þegar sorg okkar og harmur virðast meiri en við fáum borið. Þær stundir koma þegar syndabyrðin og sektarkenndin hvíla þungt og vægðarlaust á okkur.

Ef við snúum hjörtum okkar til Drottins á þeim stundum, mun hann vissulega vita og skilja. Hann, sem þjáðist svo fúslega í garðinum og á krossinum, mun ekki skilja okkur eftir munaðarlaus. Hann mun styrkja, hvetja og blessa okkur. Hann mun umvefja okkur sínum blíðu örmum.

Hann mun vera okkur meira en engill.

Hann mun færa okkur þráða hughreystingu, lækningu, von og fyrirgefningu.

Vegna þess að hann er frelsari okkar.

Bjargvættur okkar.

Okkar miskunnsami frelsari og heilagur Guð.

Heimildir

  1. Presturinn sem talaði við útför Frans Schwarz, sagði: „List hans var gædd guðleika og var fremri margri prédikun“ (Emmilie Buchanan-Whitlock, „History of Artists’ Lives Gives Greater Context for Exhibit,“ Deseret News, 29. sept. 2013, deseretnews.com).

Hvernig kenna á boðskapinn

Leitið leiðsagnar andans áður en þið kennið, til að auðvelda ykkur að skilja sérstakar þarfir þeirra sem þið kennið. Þegar þið miðlið efni þessa boðskapar Uchtdorfs forseta, berið þá vitni um frelsarann og endurleysandi fórn hans. Íhugið að spyrja þau sem þið kennið hvaða þýðingu friðþægingin hafi fyrir þau og hvernig þau hafi upplifað hughreystingu Drottins á þeirra „myrku og beisku stundum.“

Prenta