2015
Eiginleikar Jesú Krists: Dyggð
júní 2015


Boðskapur heimsóknarkennara, júní 2015

Eiginleikar Jesú Krists: Dyggð

Kynnið ykkur efnið sem hér er í bænaranda og leitið að því sem miðla á. Hvernig getur skilningur á guðlegum eiginleikum frelsarans aukið trú ykkar á hann og blessað þær konur sem þið vakið yfir með heimsóknarkennslu? Frekari upplýsingar má finna á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

„Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.“ (K&S 121:45–46).

Hvað er dyggð? James E. Faust forseti (1920–2007) sagði: „Dyggð í víðri merkingu felur í sér alla eiginleika réttlætis sem gera okkur kleift að móta persónuleika okkar.“1 Gordon B. Hinckley (1910–2008) sagði einnig: „Kærleikur Guðs er uppspretta allra dyggða, allrar gæsku og persónuleikastyrks.“2

Öldungur D. Todd Christofferson, í Tólfpostulasveitinni, sagði um konur og dyggð: „Konur koma með ákveðna dyggð með sér í heiminn, guðlega gjöf sem gerir þeim auðvelt að innræta eiginleika líkt og trú, hugrekki, samúð og siðfágun í samböndum og menningu. …

Systur, af öllum ykkar samskiptum er það samfélagið við Guð sem er uppspretta siðferðisþreks ykkar, og verður ætíð að vera fremst í lífi ykkar. Hafið í huga að siðferðisþrek Jesú átti rætur í einbeittri hollustu hans við vilja föðurins. … Kappkostið að vera slíkir lærisveinar föðurins og sonarins, og þá munu áhrif ykkar aldrei dvína.“3

Viðbótarritningagreinar

Sálm 24:3–5; Fil 4:8; 2 Pét 1:3–5; Alma 31:5; K&S 38:23–24

Úr ritningunum

Dyggðugar og trúaðar konur á okkar tíma fylgja frelsaranum. Í Lúkas 8 er frásögn um konu sem hafði haft blóðlát í 12 ár, sem ekki var hægt að lækna. Hún leitaði lækningar er hún, „kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. … En Jesús sagði: Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur4 fór út frá mér.“ Þessi dyggðuga og trúfasta kona féll niður frammi fyrir honum og „skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. Hann sagði þá við hana: ‚Dóttir, trú þín hefur bjargað þér‘ “ (Lúk 8:43-48; sjá einnig 6:17-19).

Með krafti sínum,5 megnar Kristur að lækna, virkja, styrkja, hugga og hughreysta, þegar við ákveðum af hugrekki og trú að fylgja honum.

Heimildir

  1. James E. Faust, „The Virtues of Righteous Daughters of God,“ Líahóna, maí 2003, 108.

  2. Gordon B. Hinckley, „Excerpts from Recent Addresses of President Gordon B. Hinckley,“ Ensign, apríl 1996, 73.

  3. D. Todd Christofferson, „Siðferðisþrek kvenna,“ Aðalráðstefna, október 2013, 32.

  4. Kraftur býr að baki dyggðar (sjá Mark 5:30).

  5. Í Leiðarvísi að ritningunum er „Prestdæmi“ skilgreint sem: „Vald og kraftur sem Guð veitir mönnum til að starfa að öllu sem gjörir sáluhjálp manna að veruleika“ (K&S 50:26–27).

Til hugleiðingar

Hvernig gæðir dyggðin okkur krafti?

Prenta