2015
Fjölskyldur geta átt eilífð saman
júní 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júní 2015

Fjölskyldur geta átt eilífð saman

Henry B. Eyring forseti

Ein dásamlegasta gjöf Guðs er prestdæmisvaldið sem getur innsiglað fjölskyldur saman að eilífu. Hver sá sem hefur skilning á áætlun sáluhjálpar þráir þá varanlegu blessun. Aðeins í innsiglunarathöfunum sem framkvæmdar eru í vígðum musterum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, gefur Guð loforð um að fjölskyldur geti innsiglast að eilífu.

Prestdæmislyklarnir sem gera það mögulegt, voru endurreistir á jörðu í Kirtland musterinu af spámanninum Elía og veittir Joseph Smith. Prestdæmislyklar þessir hafa óslitið verið veittir lifandi spámönnum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, allt fram á okkar tíma.

Í sinni jarðnesku þjónustu ræddi frelsarinn við Pétur, aðalpostula sinn, um valdið til að innsigla fjölskyldur, er hann sagði: „Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni“ (Matt 18:18).

Það er aðeins í himneska ríkinu sem við getum lifað ævarandi saman sem fjölskyldur. Við getum dvalið þar sem fjölskyldur í návist himnesks föður og frelsarans. Spámaðurinn Joseph Smith lýsti þeirri dásamlegu upplifun svohljóðandi í Kenningu og sáttmálum:

„Þegar frelsarinn birtist, munum við sjá hann eins og hann er. Við munum sjá, að hann er maður eins og við sjálf.

Og að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar, en þar við bætist eilíf dýrð, dýrð, sem við njótum ekki nú“ (K&S 130:1–2.)

Ritningarnar kveða á um að við getum örugg sett markið á hinn himneska staðal í fjölskyldusamböndum okkar. Við getum látið okkur svo annt um fjölskyldumeðlimi okkar, lifandi og látna, að við gerum allt sem við getum til að þeir eigi kost á þeim helgiathöfnum prestdæmisins sem binda okkur á himni.

Mörg ykkar, ungir sem aldnir, eruð að gera það. Þið hafið leitað nafna þeirra áa sem ekki hafa tekið á móti þeim helgiathöfnum sem innsigla ykkur saman.

Flest öll eigum við lifandi ættmenni sem ekki hafa verið innsigluð fjölskyldum með prestdæmisvaldi. Margir eiga ættmenni sem hafa tekið á móti helgiathöfnum prestdæmisins, en halda ekki sáttmálana sem þau gerðu við Guð. Guð mun blessa ykkur svo þið getið náð til allra þessara ættmenna í trú. Þið eigið það loforð sem Drottinn hefur gefið lærisveinum sínum er leggja það á sig að leiða aðra til hans:

„Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (K&S 84:88).

Úr glugganum í skrifstofunni minni get ég, dag hvern, séð brúðhjón ljósmynduð meðal fallegra blóma og gosbrunna. Oft heldur brúðguminn á brúðinni í fangi sér, allavega nokkur skjögrandi skref, á meðan ljósmyndarinn tekur brúðkaupsmyndirnar. Alltaf þegar þessi sjón birtist mér, verður mér hugsað til hjóna sem ég þekki, er síðar hafa orðið að bera hvort annað á annan hátt, þegar lífið verður strembið — stundum aðeins stuttu eftir brúðkaupsdag þeirra. Atvinnumissir getur kveðið dyra. Börn geta fæðst með miklar áskoranir. Sjúkdómar geta komið upp. Á þeim reynslutímum, er meira reynir á en við töldum okkur geta tekist á við, mun sú venja okkar — sem við tileinkuðum okkur á auðveldari tímum — að breyta við aðra eins og við viljum að aðrir breyti við okkur, gera okkur að hetjum.

Fjölskyldur okkar eiga slíkt samband skilið sem við getum farið með í návist Guðs. Við megum ekki misbjóða öðrum eða ala á óvild. Við getum ákveðið að fyrirgefa fljótt og algjörlega. Við getum reynt að stuðla að hamingju annarra framar okkar eigin. Við getum verið mild í máli. Þegar við reynum að gera allt þetta, munum við laða heilagan anda að fjölskyldu okkar og að okkur sjálfum.

Ég fullvissa ykkur um að með hjálp Drottins og iðrunarfullu hjarta, munum við í þessu lífi geta fengið nasasjón af því lífi sem við viljum ævarandi tileinka okkur. Himneskur faðir elskar okkur. Hann vill fá okkur aftur til sín. Með krafti friðþægingar sinnar gerði frelsarinn okkur mögulegt að gera þá breytingu á hjarta okkar sem nauðsynleg er til að fara í musterið, gera sáttmála sem við getum síðan haldið og, þegar að því kemur, lifað ævarandi sem fjölskyldur í himneskri dýrð — að komast heim að nýju.

Hvernig kenna á boðskapinn

Þegar þið miðlið kenningunni um eilífar fjölskyldur, hugleiðið þá þessi orð öldungs Richards G. Scott í Tólfpostulasveitinni: „Reynið ætíð að styrkja fjölskyldur. Kennið af hugsjón um mikilvægi þess að fjölskyldur verði innsiglaðar í musterinu. … Þegar innsiglunarathöfn musterisins verður að hugsjón, munið þið hjálpa til við að byggja upp ríki Guðs á jörðu“ („Ég hef gefið yður eftirdæmi,“ Aðalráðstefna, apríl 2014, 32). Hvernig getið þið hjálpað þeim sem þið kennið að hljóta hugsjón um mikilvægi þess að láta innsiglast í musterinu? Biðjið þau sem enn hafa ekki verið innsigluð að ræða þau skref sem þau geta tekið til þess að hljóta þá helgiathöfn. Biðjið þau sem hafa verið innsigluð að segja frá því hvernig þau geta viðhaldið þeirri sýn sinni um eilífa fjölskyldu og keppt að því að bæta sambandið sín á milli.