Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2015
Fjölskyldan og bænin
Þegar ég eitt sinn sat við rúmstokk föður míns að kvöldi til, ræddi hann um bernsku sína. Hann ræddi um kærleika foreldra sinna á erfiðum tímum og elsku himnesks föður og frelsarans. Mér var ljóst að hann var að deyja úr krabbameini, svo mér fannst ekkert óvenjulegt að hann gerði stundum ekki greinarmun á tilfinningum sínum til himnesks föður og elsku og gæsku síns jarðneska föður. Faðir minn hafði oft sagt, að þegar hann bæðist fyrir, þá sæi hann í huga sér brosandi ásjónu himnesks föður.
Foreldrar hans höfðu kennt honum með eigin fordæmi að biðjast fyrir með það í huga að Guð svaraði bænum hans af kærleika, þegar hann talaði til hans. Hann þarfnaðist þessa fordæmis allt til enda. Þegar sársaukinn varð óbærilegur, komum við að honum að morgni krjúpandi við rúmið sitt. Hann hafði verið of veikburða til að komast aftur upp í rúmið. Hann sagði sig biðja til að spyrja himneskan föður hvers vegna hann þyrfti að þjást svo mikið, þar sem hann hefði alltaf reynt að vera góður. Hann sagði blítt svar hafa borist: „Guð þarfnast hugrakkra sona.“
Hann hélt því baráttunni áfram allt til enda og reiddi sig á að Guð elskað hann, bænheyrði og myndi lyfta honum upp… Hann naut þeirrar blessunar að hafa þekkt Guð snemma og minntist þess ætíð að kærleiksríkur Guð er aðeins í einnar bænar fjarlægð.
Af þessari ástæðu kenndi Drottinn foreldrum: „Og þeir skulu einnig kenna börnum sínum að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni“ (K&S 68:28).
Fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið endurreist – ásamt Mormónsbók og öllum þeim lyklum prestdæmisins sem innsiglað geta fjölskyldur – sökum þess að drengurinn Joseph Smith baðst fyrir í trú. Þá trú hlaut hann frá kærleiksríkri og trúfastri fjölskyldu.
Fyrir tuttugu árum veitti Drottinn fjölskyldum þessa leiðsögn í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ frá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni: „Farsælt hjónaband og fjölskyldulíf byggist og varðveitist á reglum trúar, bænar, iðrunar, fyrirgefningar, virðingar, kærleika, umhyggju, vinnu og heilbrigðrar dægrastyttingar.“1
Við stöndum í mikilli þakkarskuld við foreldra spámannsins Josephs Smith, fyrir uppeldi hans. Fjölskylda hans var ekki aðeins fyrirmynd um trú og bæn, heldur líka iðrun, fyrirgefningu, virðingu, ást, samúð, vinnusemi og heilbrigða afþreyingu.
Þær kynslóðir sem á eftir ykkur koma, gætu sagt ykkur blessuð fyrir að sýna fordæmi að bæn í fjölskyldu ykkar. Þið eigið kannski ekki eftir að ala upp mikilhæfan þjón Guðs, en þið getið með bæn og trúarfordæmi hjálpað Drottni Jesú Kristi að ala upp góðan og ástsælan lærisvein.
Af öllu því sem þið gætuð valið að gera til að hjálpa Drottni, þá verður bænin þungamiðja þess. Það er víst venjulegt fólk sem innblæs aðra, er það biðst fyrir, sem verður til þess að þeir ljúki upp augum sínum og sjái þann sem þar er. Þið getið orðið sú manneskja.
Hugleiðið hvaða þýðingu það gæti haft fyrir þá sem krjúpa í fjölskyldubæn ykkar. Þegar þeir skynja að þið ræðið við Guð í trú, mun trú þeirra eflast til að ræða við Guð. Þegar þið biðjist fyrir til að þakka Guði fyrir þær blessanir sem þeim eru augljósar, mun trú þeirra eflast um að Guð elskar þau og að hann bænheyrir ykkur og þau. Það getur aðeins gerst í fjölskyldubæn, þegar þið hafið ítrekað hlotið slíka reynslu í einkabænum ykkar.
Ég nýt enn blessana af því að hafa átt föður og móður sem ræddu við Guð. Fordæmi þeirra og bænamáttur í fjölskyldunni, hefur orðið kynslóðum sem á eftir þeim komu til blessunar.
Börn mín og barnabörn eru dag hvern blessuð af fordæmi foreldra minna. Sú trú að Guð heyrir og svarar bænum, hefur færst yfir til þeirra. Þið getið komið á slíkri arfleifð í fjölskyldu ykkar. Ég bið þess að þið megið gera það.
© 2015 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/15. Þýðing samþykkt: 6/15. Þýðing á First Presidency Message, September 2015. Icelandic. 12589 190