2016
Hamingja fyrir þá sem við elskum
janúar 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2016

Hamingja fyrir þá sem við elskum

Öll viljum við að ástvinir okkar séu hamingjusamir og líði eins litlar þjáningar og mögulegt er. Þegar við lesum frásagnir í Mormónsbók, sem tengjast hamingju og þjáningum, verður okkur hugsað með trega til ástvina okkar. Hér er sönn frásögn af tímabili hamingju:

„Og svo bar við, að engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.

Og engin öfund var, né erjur, róstur, hórdómur, lygar, morð eða nokkurt lauslæti. Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“

Við lesum síðan:

„Og hve blessaðir þeir eru! Og hversu blessuð þau voru. Því að Drottinn blessaði öll verk þeirra. Já, þau voru blessuð, og þeim vegnaði vel, þar til eitt hundrað og tíu ár voru liðin. Og fyrsta kynslóðin eftir Krist var liðin undir lok, og engar deilur voru í öllu landinu“ (4 Ne 1:15–16, 18).

Kærleiksríkir lærisveinar Krists biðjast fyrir og keppa að slíkri blessun fyrir aðra og sjálfa sig. Við vitum af frásögnum í Mormónsbók, og mörg af eigin reynslu, að hægt er að hljóta gjöf hamingju. Við vitum að vegur hamingjunnar er vandlega merktur. Við vitum líka að það reynist ekki auðvelt að viðhalda hamingjunni, nema því aðeins að „elska Guðs“ búi í hjörtum okkar, eins og gerðist meðal Nefítanna eftir að frelsarinn hafði vitjað þeirra.

Þessi elska dvaldi í hjörtum Nefítanna, því þeir héldu lögmálið sem gerði það mögulegt. Útdrátt þess lögmáls má finna í sakramentisbænunum, sem hefjast á hjartnæmu ákalli til okkar ástkæra himneska föður. Við biðjumst fyrir, full trúar á okkar persónulega frelsara, af innilegri elsku til hans. Við einsetjum okkur einlæglega að taka á okkur nafn hans, að hafa hann í huga og halda öll boðorð hans. Loks þá iðkum við trú til að heilagur andi, þriðji aðili Guðdómsins, verði ávallt með okkur og vitni í hjörtum okkar um föðurinn og hans ástkæra son. (Sjá K&S 20:77, 79.)

Í samfélagi heilags anda getum við breyst í hjarta, svo við þráum og meðtökum kærleika okkar himneska föður og Drottins Jesú Krists. Aðferðin við að fyllast elsku Guðs í hjörtum okkar er einföld og það á líka við um að glata þeirri elsku. Einhver gæti til að mynda fækkað bænum sínum til himnesks föður eða kosið að greiða ekki fulla tíund eða látið af því að endurnærast á orði Guðs eða huga ekki að fátækum og bágstöddum.

Hver ákvörðun okkar um að halda ekki boðorð Drottins, getur valdið því að andinn hverfi úr hjörtum okkar. Sá missir dregur úr hamingju okkar.

Sú hamingja sem við óskum ástvinum okkar, er háð vali þeirra. Hversu heitt sem okkur er annt um barn, trúarnema eða vini okkar, þá getum við ekki þröngvað þeim til að halda boðorðin, svo þau fái notið heilags anda til að hafa áhrif á hjörtu þeirra og breyta þeim.

Við hjálpum því ástvinum okkar best með hverju því sem vekur þá upp til meðvitundar um eigið val. Alma gerði það með boði sem þið gætuð lagt fram:

„Auðmýkið yður fyrir Drottni og ákallið hans heilaga nafn, vakið og biðjið án afláts, svo að þér freistist ekki um megn fram, heldur látið þannig leiðast af hinum heilaga anda, auðmjúkir, hógværir, undirgefnir, þolinmóðir, fullir af elsku og langlundargeði–

Að þér hafið trú á Drottin og von um að hljóta eilíft líf, með elsku Guðs stöðugt í hjörtum yðar, svo að yður verði lyft upp á efsta degi og þér gangið inn til hvíldar hans“ (Alma 13:28–29).

Ég bið þess að ástvinir ykkar megi þiggja innblásið boð um að velja veginn að varanlegri hamingju.

Hvernig kenna á boðskapinn

Eyring forseti kennir að sú lífshamingja sem við finnum, sé háð þeim ákvörðunum sem við tökum. Þegar þið ræðið þennan boðskap, íhugið þá að leggja áherslu á það sem Eyring forseti bendir á að sé okkur valbundið (svo sem að biðjast fyrir, starfa, iðka trú og gera það með einlægum ásetningi) og leiði okkur á veg hamingju. Þið getið boðið þeim sem þið kennið að skrifa eitthvað tvennt eða þrennt sem þau gætu gert betur til að komast á „veg varanlegrar hamingju.“

Prenta