2017
Umbun þess að standast vel
July 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2017

Umbun þess að standast vel

Þegar ég var ungur maður, þá þjónaði ég sem ráðgjafi viturs umdæmisforseta. Hann reyndi stöðugt að kenna mér. Ég minnist þess að hann ráðlagið mér: „Þegar þú hittir einhvern, komdu þá fram líkt og viðkomandi eigi í alvarlegum vanda og þú munt uppgötva að sú er einmitt raunin í öðru hverju tilviki.“ Á þeim tíma fannst mér hann svartsýnn. Núna, fimmtíu árum síðar, skil ég vel sýn hans á heiminn og lífið.

Við þurfum öll að takast á við erfiðleika – og stundum mjög mikla. Við vitum að Drottinn leyfir að við tökumst á við erfiðleika, til að hægt sé að fága okkur og fullkomna, svo við getum dvalið hjá honum að eilífu.

Í Liberty fangelsinu kenndi Drottin spámanninum Joseph Smith þá lexíu að umbun þess að standast þrengingar sínar vel, gerði hann hæfari fyrir eilíft líf.

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund‒

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum. Þú munt fagna sigri yfir öllum óvinum þínum“ (K&S 121:7–8).

Svo margt dynur á okkur á heilli mannsævi að erfitt getur virst að standast vel. Þannig gæti staðan verið hjá fjölskyldu sem reiðir sig á uppskeru á þurrkatímum. Hún gæti hugsað sem svo: „Hversu lengi getum við þraukað“? Þannig gæti staðan verið hjá æskufólki sem reynir að standa gegn stöðugt hækkandi flóði óþverra og freistinga. Þannig gæti staðan verið hjá ungum mönnum sem reyna að afla sér menntunar til að framfleyta fjölskyldu sinni. Þannig gæti staðan verið hjá þeim sem ekki fær atvinnu eða hefur misst atvinnu af því að fyrirtæki hætta starfssemi. Þannig gæti staðan verið hjá þeim er missa heilsu og líkamsstyrk. Það gæti átt við um þá sjálfa eða ástvini þeirra, bæði unga sem aldna.

Kærleiksríkur Guð færir okkur ekki slíkar prófraunir aðeins til að sjá hvort við fáum staðist raunir, heldur fremur til að sjá hvort við fáum staðist þær vel og þroskumst af því.

Þegar öldungur Parley P. Pratt (1807–57) hafði nýlega verið kallaður í Tólfpostulasveitina, þá hlaut hann þessa kennslu frá Æðsta forsætisráðinu: „Þú hefur gengist undir málstað sem krefst allrar þinnar einbeitingar; … vertu fágað sverð. … Þú þarft að þola mikið erfiði, strit og skort til að verða fullkomlega fágaður. … Himneskur faðir krefst þess; akurinn er hans; og hann mun … hvetja þig … og uppörva.“1

Í Hebreabréfinu segir Páll frá ávinningi þess að standast vel: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis“ (Hebr 12:11).

Þrengingar okkar og þrautir gera okkur kleift að læra og vaxa og geta jafnvel komið til leiðar eðlislægum breytingum. Ef við getum komið til frelsarans í hörmungum okkar og erum þolgóð, þá er mögulegt að fága sál okkar.

Við þurfum því í fyrsta lagi að hafa í huga að biðja án afláts (sjá K&S 10:5; Alma 34:19–29).

Í öðru lagi að keppa stöðugt að því að halda boðorðin – þrátt fyrir mótlætið, freistingarnar og áreitið umhverfis (sjá Mósía 4:30).

Í þriðja lagi er mikilvægt að þjóna Drottni (sjá K&S 4:2; 20:31).

Í þjónustu meistarans tökum við að þekkja og elska hann. Við munum, ef við erum þolgóð í bæn og trúfastri þjónustu, taka að sjá hönd frelsarans og áhrif heilags anda í lífi okkar. Mörg okkar hafa um hríð innt af höndum slíka þjónustu og upplifað slíkt samneyti. Ef þið látið hugann reika til þess tíma, þá minnist þið þess að það umbreytti ykkur. Freistingar til slæmrar breytni virtust minnka. Þrá til góðrar breytni jókst. Þeir sem elskuðu ykkur og þekktu best, gætu hafa sagt: „Þú ert orðinn vingjarnlegri og þolinmóðari. Svo virðist sem þú sért breytt manneskja.“

Þú varst ekki sama manneskjan. Þú hafðir umbreyst fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists, því þú settir traust þitt á hann í þrengingum þínum.

Ég lofa ykkur því að Drottinn mun koma ykkur til hjálpar í þrengingum ykkar, ef þið leitið hans og þjónið honum, og í því ferli mun sál ykkar fáguð. Ég hvet ykkur til að setja traust ykkar á hann í öllum ykkar þrengingum.

Ég veit að Guð faðirinn lifir og að hann heyrir og svarar öllum okkar bænum. Ég veit að sonur hans, Jesús Kristur, reiddi fram gjaldið fyrir allar syndir okkar og að hann þráir að við komum til hans. Ég veit að faðirinn og sonurinn vaka yfir okkur og hafa búið okkur leið til að standast vel og snúa aftur heim.

Heimildir

  1. Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1979), 120.

Prenta