Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, nóvember 2018
Hlutverk systra í samansöfnun Ísraels
Ég færi ykkur, konum í kirkjunni, spámannlega beiðni, um að móta framtíðina með því að hjálpa til við samansöfnun Ísraels.
Það er dásamlegt að vera meðal ykkar, kæru og dýrmætu systur mínar. Kannski getur nýleg upplifun veitt ykkur skilning á því hvað mér finnst um ykkur og hina guðlegu eiginleika sem þið eruð gæddar.
Dag einn, er ég talaði til söfnuðar í Suður-Ameríku, varð ég afar uppnuminn af efninu og á mikilvægum tíma-punkti, sagði ég: „Sem móðir tíu barna, get ég sagt ykkur að …“ og svo hélt ég áfram og lauk boðskap mínum.
Mér varð ekki ljóst að ég hafði sagt orðið móðir. Þýðandinn minn hélt að ég hefði mismælt mig og breytti orðinu móðir í faðir, svo söfnuðurinn vissi aldrei af því að ég hafði talað um sjálfan mig sem móður. Eiginkona mín, Wendy, heyrði það þó og varð himinlifandi yfir þessu freudíska mismæli mínu.
Á þeirri stundu kom upp í hjarta mínu sterk þrá til að láta að mér kveða í heiminum – á þann hátt sem einungis móðir gerir. Þegar ég hef verið spurður að því í gegnum árin, afhverju ég hefði valið að verða læknir, hefur svar mitt alltaf verið það sama: „Af því að ég gat ekki valið að verða móðir.“
Gætið að því að í hvert sinn sem ég nota orðið móðir, er ég ekki að vísa til kvenna sem hafa fætt eða ættleitt börn í þessu lífi. Ég er að vísa til allra fullorðinna dætra okkar himeska föður. Sérhver kona er móðir af eðli sinna eilífu örlaga.
Því ætla ég sem faðir tíu barna – níu dætra og eins sonar – og sem forseti kirkjunnar – að biðja þess að þið munið skilja hversu annt mér er um ykkur – hverjar þið eruð og allt hið góða sem þið gerið. Engin fær gert það sem réttlát kona fær gert. Engin fær tvöfaldað áhrif móður.
Karlar geta tjáð og tjá oft öðrum elsku himnesks föður og frelsarans. Konur búa þó yfir sérstakri gjöf til að gera það – guðlegri gjöf. Þið hafið hæfileika til að skynja þarfir einhvers – og hvenær skal uppfylla þarfir hans eða hennar. Þið getið komið einhverjum til hjálpar, huggað, kennt og styrkt, einmitt á stund neyðar.
Konur sjá hlutina öðruvísi en karlar, og hve við þörfnumst yfirsýnar ykkar! Ykkur er eðlislægt að hugsa fyrst um aðra, að íhuga áhrif hverrar stefnu eða aðgerðar á aðra.
Líkt og Eyring forseti benti á, þá var það okkar dýrðlega móðir, Eva – með sinn djúpa skilning á áætlun himnesks föður – sem ýtti úr vör því sem við nefnum „fallið.“ Hin viturlega og hugrakka ákvörðun hennar og stuðningur Adams við þá ákvörðun, ýtti sæluáætlun Guðs úr vör. Þau gerðu mögulegt fyrir hvert okkar að koma til jarðar, að hljóta líkama og sannreyna að við myndum velja að styðja Jesú Krist núna, á sama hátt og við gerðum í fortilverunni.
Kæru systur mínar, þið hafið sérstakar andlegar gjafir og hneigðir. Í kvöld hvet ég ykkur, af allri hjartans von, að biðja um skilning á andlegum gjöfum ykkar – að rækta, nota og auka við þær, jafnvel aldrei sem fyrr. Þið munið breyta heiminum, ef þið gerið það.
Þið innblásið aðra, sem konur, og eruð fyrirmyndir sem vert er að líkja eftir. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá forsögu hinna tveggja mikilvægu tilkynninga síðustu aðalráðstefnu. Þið, kæru systur mínar, voruð þar lykill að hvorutveggja.
Fyrst er það hirðisþjónustan. Æðsti staðall hirðisþjónustu er þjónusta frelsara okkar, Jesú Krists. Almennt hafa konur ætíð verið nær þeim staðli en karlar. Þegar þið þjónið með sanni, eruð þið knúnar af þeirri tilfinningu að hjálpa einhverjum að upplifa elsku frelsarans í ríkara mæli. Sú tilhneiging að þjóna er eðlislæg réttlátum konum. Ég veit um konur sem biðja dag hvern: „Hverjum vilt þú að ég hjálpi í dag?“
Áður en tilkynningin um æðri og helgari leið við umönnun annarra var gefin út í apríl 2018, var tilhneiging sumra karla að merkja „búið“ við heimiliskennslu sína og fara síðan í næsta verkefni.
Þegar þið vissuð að systir sem þið heimsóttuð þyrfti hjálp, brugðust þið þegar við og síðan allan mánuðinn. Það var hvernig þið heimsóttuð sem veitti innblátur að hinni æðri og breyttu þjónustu.
Í öðru lagi, gerðum við líka breytingar á skipulagi Melkísedeksprestdæmissveita á síðustu aðalráðstefnu. Þegar við glímdum við það hvernig við gætum hjálpað körlum kirkjunnar að framfylgja betur ábyrgð sinni, íhuguðum við vandlega fordæmi Líknarfélagsins.
Konur á mismunandi aldri og þroskastigi koma saman í Líknarfélaginu. Hvert þroskastig lífsins felur í sér sérstakar áskoranir, en samt komuð þið saman viku fyrir viku, uxuð saman og kennduð fagnaðaerindið saman og létuð raunverulega að ykkur kveða í heiminum.
Nú eru Melkísedeksprestdæmishafar meðlimir öldungasveitar og fylgja ykkar fordæmi. Þessir karlmenn eru á aldrinum 18 til 98 (kannski eldri), með samsvarandi umfangsmikla reynslu í prestdæminu og kirkjunni. Þessir bræður geta nú ræktað sterkari bræðrabönd, lært saman og blessað aðra á áhrifaríkari hátt.
Eins og ykkur er kunnugt, þá töluðum ég og systir Wendy til æskufólks kirkjunnar í júní síðastliðnum. Við buðum því að skrá sig í æskulýðssveit Drottins, til að hjálpa við samansöfnun Ísraels báðum megin hulunnar. Þessi samansöfnun er mikilvægasta áskorunin, mikilvægasti málstaðurinn og mikilvægasta verkið á allri jörðu í dag“!1
Þessi málstaður hefur mikla þörf fyrir konur, því þær móta framtíðina. Í kvöld færi ég ykkur, konum í kirkjunni, spámannlega beiðni, um að móta framtíðina með því að hjálpa til við samansöfnun Ísraels.
Hvernig getið þið hafið verkið?
Ég legg til fjórar áskoranir:
Í fyrsta lagi, hvet ég ykkur til að segja skilið við samfélagsmiðla í tíu daga og við alla miðla sem gætu vakið ykkur neikvæðar og óhreinar hugsanir. Biðjist fyrir til að vita hvaða áhrif ber að útiloka í þessari föstutíð. Áhrif slíkrar tíu daga föstu gætu komið ykkur á óvart. Eftir hverju takið þið, eftir að hafa gert hlé á sjónarmiðum heimsins, sem hefur skaðað anda ykkar? Hefur einhver breyting orðið á því hvernig þið viljið núna verja tíma ykkar og orku? Hefur forgangur ykkar að einhverju marki breyst – jafnvel aðeins örlítið? Ég hvet ykkur til að skrifa niður og fylgja eftir hverri hugsun.
Í öðru lagi, hvet ég ykkur til að lesa Mormónsbók frá þessari stundu fram að árslokum. Þótt það kunni að sýnast ómögulegt ásamt öllu öðru sem þið reynið að áorka í lífinu, þá mun Drottinn hjálpa ykkur að finna leið til að gera þetta, ef þið viljið taka á móti þessu boði af einlægum ásetningi hjartans. Ef þið lærið af kostgæfni, lofa ég ykkur að himnarnir munu ljúkast upp fyrir ykkur. Drottinn mun blessa ykkur með auknum innblæstri og opinberun.
Þegar þið lesið hvet ég ykkur til að merkja við hvert vers sem fjallar um frelsarann eða vísar til hans. Verið síðan meðvitaðar um að tala um Krist, fagna í Kristi og prédika um Krist meðal fjölskyldu og vina.2 Þið og þau munuð komast nær frelsaranum í þessu ferli. Breytingar munu þá eiga sér stað, jafnvel kraftaverk.
Í morgun var tilkynnt um hina nýju sunnudagadagskrá og hið nýja heimilismiðaða og kirkjustyrkta námsefni. Þið, kæru systur, eruð lykill að þeim árangri sem bundinn er þessu nýja samræmda og fjölbreytta trúarfræðsluverki. Miðlið þeim sem þið elskið því sem þið lærið í ritningunum. Kennið þeim hvernig koma á til frelsarans, til að njóta græðandi og hreinsandi máttar hans er þau syndga. Kennið þeim hvernig virkja á styrkjandi mátt hans dag hvern.
Í þriðja lagi, komið á reglulegri musterissókn. Það gæti krafist svolítið fleiri fórna í lífi ykkar. Fleiri og reglulegri stundir í musterinu geta gert Drottni kleift að kenna ykkur hvernig efla á prestdæmiskraft hans, sem þið hafið fengið að gjöf í musteri hans. Ég hvet þær ykkar sem ekki eigið heima í nálægð musteris að læra af kostgæfni um musterið í ritningunum og í orðum lifandi spámanna. Reynið aldrei sem áður að vita meira, að skilja meira, að skynja meira um allt það sem musterinu tilheyrir.
Á okkar heimslægu trúarsamkomu fyrir æskulýðinn síðastliðinn júni, sagði ég frá því hvernig líf ungs manns breyttist er foreldrar hans létu hann fá samlokusíma í stað snjallsíma. Móðir þessa unga manns var óttalaus kona trúar. Hún sá son sinn laðast að kostum sem hefðu getað afstýrt því að hann færi í trúboð. Hún fór með bænir sínar í musterið, til að vita hvernig best væri að hjálpa syni sínum. Hún fylgdi síðan eftir hverjum hughrifum.
Hún sagði: „Mér fannst andinn segja mér að skoða síma sonar míns á ákveðnum tímum til að gæta að ákveðnum hlutum. Ég kunni ekki að nota þessa snjallsíma, en andinn leiðbeindi mér í gegnum allar þær samfélagssíður sem ég notaði ekki sjálf! Ég veit að andinn hjálpar foreldrum sem leita leiðsagnar til að vernda börn sín. [Til að byrja með] var sonur minn mér fokreiður. … Það tók hann einungis þrjá daga að þakka mér fyrir! Hann fann breytingarnar.“
Framkoma og viðhorf sonar hennar breyttist algjörlega. Hann varð hjálpsamari heima fyrir, brosmildari og athugulli í kirkju. Hann naut þess um tíma að þjóna í skírnarsal musterisins og búa sig undir trúboð sitt.
Í fjórða lagi, hvet ég þær ykkar sem eruð komnar á aldur að taka fyllilega þátt í Líknarfélaginu. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur vel núverandi yfirlýsingu um tilgang Líknarfélagsins. Hún er innblásin. Hún gæti hjálpað ykkur að búa til eigin yfirlýsingu um tilgang eigin lífs. Ég hvet ykkur til að varðveita sannleikann í yfirlýsingu Líknarfélag-sins, sem gefin var út fyrir næstum 20 árum.3 Innrammað eintak af yfirlýsingunni er upp á vegg í skrifstofu Æðsta forsætisráðsins. Ég hrífst í hvert sinn er ég les hana. Í henni kemur fram hverjar þið eruð og hverjar þið þurfið að vera fyrir Drottin einmitt á þessum tíma, er þið gerið ykkar hlut við að safna saman Ísrael.
Kæru systur mínar, við þörfnumst ykkar! Við „þörfnumst styrks ykkar, trúar ykkar, sannfæringar ykkar, hæfileika ykkar til að leiða, visku ykkar og raddar ykkar.“4 Við getum einfaldlega ekki safnað saman Ísrael án ykkar.
Ég ann ykkur og þakka ykkur, og blessa ykkur nú með mætti til að segja skilið við heiminn, er þið hjálpið í þessu brýna og mikilvæga verki. Saman getum við gert allt það sem himneskur faðir vill að við gerum til að búa heiminn undir síðari komu hans ástkæra sonar.
Jesús er Kristur. Þetta er hans kirkja. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.