Boðskapur svæðisleiðtoga
Hlýð þú á hann
„Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“1 Þetta sagði faðirinn við Joseph Smith í lundi í New York fylki, vordag einn árið 1820. Þetta var upphaf endurreisnar Kirkju Jesú Krists, rétt eins og Kristur hafði skipulagt hana meðan hann dvaldi hér á jörðu. Vegna fráhvarfs sem hófst skömmu eftir dauða Krists, hvarf kirkja hans og valdsumboð að endingu af jörðinni og aðeins öldum síðar, árið 1820, hófst ferlið að endurreisa kirkju hans og valdsumboðið til að framkvæma allar helgiathafnir prestdæmisins. Allt þetta gerðist vegna einlægrar bænar ungs manns um hvar sannleikann væri að finna. Hann kaus að spyrja og síðan að hlusta og hvílíkt svar sem hann fékk!
Við erum öll ólík og gætum farið ólíkar leiðir til að hlýða á hann, en þótt við séum ólík erum við öll börn Guðs og hann elskar okkur fyrir það hver við erum og hann vill að við hlýðum á sig. Ef við ætlum að hlýða á hann, verðum við að leggja okkur fram við það. Hver er mesta þrá hjarta ykkar? Hvað getið þið gert til að hlýða á hann?
Fyrir nokkru var ég á samkomu í Frankfurt með leiðtogum kirkjunnar hvaðanæva að úr Evrópu, við undirbúning stórs viðburðar, sem við þurftum síðar að fresta til ársins 2021 vegna heimsfaraldurs. Á þessum fundi lauk öldungur Massimo De Feo, ráðgjafi í svæðisforsætisráðinu, kennslu sinni og fundinum með því að sýna myndband, tónverk með norsku söngkonunni Sissel Kyrkjebø og Tabernacle Choir at Temple Square [Laufskálakórnum], sem kallast Slow down. Það er frá tónleikum sem Sissel hélt með Tabernacle Choir árið 2019,2 en ég hafði einfaldlega ekki séð myndbandið eða heyrt tónverkið, þótt ég sé líka frá Noregi. Ég var sannlega ekki viðbúinn því sem ég upplifði þegar öldungur de Feo byrjaði myndbandið. Rétt eftir að flutningurinn hófs var eins og ég heyrði í honum á þann hátt sem ég hafði ef til vill aldrei heyrt í honum áður. Ég varð yfirkominn af tilfinningum og grét eins og barn. Ég reyndi að láta líkama minn ekki hristast of mikið og ég leit niður svo ekki væri áberandi að ég grét, því ég var hræddur um að það eyðilegði augnablikið fyrir alla aðra. Tónverkið fékk mig til að upplifa náð Guðs, kærleika og fyrirgefningu fyrir milligöngu frelsarans Jesú Krists, fyrir mig persónulega, að öll þau mistök sem tengdust allri þeirri krefjandi reynslu sem lífið hafði boðið mér upp á, væri hægt að lækna og gera að engu. Ég upplifði brot af himnum, fékk snert á himneskri tilvist. Síðar fór ég á netið og las nokkrar athugasemdanna á athugasemdarsvæðinu. Hér eru tvær þeirra ábendinga: „Ég gleymi ALDREI þegar ég sá þetta fyrst. Ég er einhverfur og hef glímt við langvarandi þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Vikurnar fyrir þessa tónleika voru mér hrein pynting og ég var algjörlega úrkula vonar um hvað ég ætti að taka til bragðs. Nokkrum dögum áður en þetta lag var flutt bað ég nokkra vini mína í kórnum um stuðning sem þeir veittu og þegar ég heyrði þetta lag fyrst drukknaði ég í tárum. Sannlega mun ljósið alltaf koma við enda ganganna. Takk Tabernacle Choir, kæru vinir mínir, fyrir að vera slíkar hetjur í lífi mínu og slíkir yndislegir vinir! Ég elska ykkur öll að eilífu!“ Önnur ábending var þessi: „Ég er svo ánægð að þeir höfðu lófaklappið með. Það augnablik þegar hún áttar sig á því að um það bil tuttugu þúsund manns höfðu risið upp til að klappa fyrir henni er töfrandi.“
Kæru vinir, að hlýða á hann er töfrandi; það er himneskt og það snertir hjörtu okkar, anda okkar og hjálpar okkur að halda ferð okkar áfram til hans. Það er þess virði að berjast fyrir. Hvað getið þið gert til að hlýða oftar á hann?