„Guð mun styðja okkur og varðveita,“ Líahóna, ágúst 2024.
Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, ágúst 2024
Guð mun styðja okkur og varðveita
Við getum, líkt og Moróní hershöfðingi, hlotið guðlega hjálp og kraft í þeirri baráttu sem við tökumst á við í lífinu.
Myndskreyting: Eric Chow
Þegar ég las Mormónsbók í fyrsta sinn naut ég stríðssögunnar milli Nefíta og Lamaníta. Ég var heillaður af trú, hugvitssemi og aðferðum sem Moróní hershöfðingi notaði, herforingi sem útnefndur var leiðtogi allra herja Nefíta aðeins 25 ára gamall. Hann var vitur, sterkur og klókur. Hann helgaði sig algjörlega frelsi og velferð þjóðar sinnar. (Sjá Alma 48:11–12.)
Í stað þess að eigna sjálfum sér hernaðarlegan árangur, þakkaði Moróní Guði velgengnina og þeim helga stuðningi sem herir hans hlutu frá konum og börnum sem ekki tóku þátt í bardögum. Hann sagði við sigraðan óvinaleiðtoga: „Drottinn … hefur selt ykkur í hendur okkar. Og ég vildi, að þið gætuð skilið, að svo er vegna trúarbragða okkar og trúar á Krist.“ Moróní miðlaði síðan þessum spámannlega skilningi: „Guð mun styðja, vernda og varðveita okkur, á meðan við erum trygg honum, trú okkar og trúarbrögðum“ (Alma 44:3, 4).
Með tímanum hef ég áttað mig á því að Moróní setti reglur sem við getum tileinkað okkur til hjálpar við að takast á við áskoranir lífs okkar í dag. Þegar við iðkum trú á Jesú Krist, frelsara heimsins, mun hann blessa okkur með krafti sínum. En til þess að hann geti gert það og við getum borið kennsl á blessanir hans, þurfum við að skilja tilgang okkar, skipuleggja til árangurs og búa okkur undir hinar óeiginlegu orrustur sem við stöndum frammi fyrir, á sama hátt og Moróní bjó sig undir hinar raunverulegu orrustur lífs síns. Þegar við gerum það, munu himneskur faðir og Jesús Kristur styðja okkur og varðveita.
Skilja tilgang okkar
Moróní minnti fólkið ítrekað á hvert það væri (erfingjar sáttmála Abrahams), hvers það væri (ástkær börn Guðs) og málstaðinn sem það barðist fyrir (fjölskyldu, trú og frelsi). Moróní kenndi fólki sínu að það væri að berjast fyrir lífi sínu og frelsi frá ánauð og áþján. Óvinir þess börðust aftur á móti til persónulegs ávinnings og valds með því að undiroka aðra.
Þegar nokkrir Nefítanna reyndu að hrifsa til sín yfirráð til persónulegs ávinnings, reif Moróní kyrtil sinn og skrifaði á hann meginefni skilaboða sinna: „Í minningu um Guð vorn, trúarbrögð vor og frelsi, og frið vorn, eiginkonur vorar og börn vor.“ Hann festi veifu, sem hann kallaði „frelsistáknið,“ á enda stangar og notaði hana til að minna fólkið á um hvað baráttan snerist og fylkja því saman um málstaðinn. (Sjá Alma 46:12–13, 19–20.)
Í andlegri baráttu lífsins „[er ekki barist við] menn af holdi og blóði, heldur við … heimsdrottna þessa myrkurs [og] andaverur vonskunnar“ (Efesusbréfið 6:12). Það þarf líka að minna okkur á um hvað baráttan snýst. Öldungur Neal A. Maxwell (1926–2004), fyrrum meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, tjáði þessa hugsun með málsnilli sinni í stuttu samtali.
Árið 2004 heimsótti ég öldung Maxwell í sjúkrastofu hans, ekki löngu fyrir andlát hans. Hann var svo vingjarnlegur við alla sem heimsóttu hann eða hjálpuðu honum. Heilbrigðisstarfsfólk fór inn í stofu hans og kom tárfellandi út. Ég sagði við hann: „Öldungur Maxwell, þetta er virkilega erfitt.“ Hann hló og sagði: „Ó, Dale, við erum eilífar verur sem lifum í dauðlegum heimi. Við erum utan heimkynna okkar, líkt og fiskar á þurru landi. Það er aðeins þegar við höfum eilífa yfirsýn að við fáum botnað í eitthvað af þessu.“
Við ættum aldrei að missa sjónar á hinu stóra samhengi okkar guðlega eðlis og eilífra örlaga og þeim djöfullegu öflum sem standa gegn okkur. Réttur skilningur á áætlun himnesks föður, mun hvetja okkur til að halda áfram að berjast fyrir eilífri sáluhjálp okkar og frelsi frá andlegri ánauð.
Skipuleggja til árangurs
Í öllum þeim orrustum sem herir Morónís háðu, skipulagði hann til að tryggja árangur. Hann notaði njósnara til að komast að athöfnum og fyrirætlunum óvina sinna. Hann leitaði leiðsagnar hjá spámanninum Alma. Moróní notaði síðan þá innblásnu vitneskju í nálgun sinni á bardaga. Hann beitti úrræðum eftir þörfum og setti fleiri hermenn í borgir sem voru minna víggirtar. Hann skipulagði aðgerðir byggðar á uppfærðum upplýsingum.
Þannig náði hann forskoti á óvinaheri. Hann lét aldrei staðar numið við fyrri sigra; þess í stað hélt hann áfram að bæta hæfni sína og herja sinna til að takast á við framtíðaráskoranir.
Við getum notað álíka aðferðir til að takast á við andlega fjendur. Við getum byrjað á því að bera kennsl á það sem Satan er að reyna að gera í lífi okkar. Hann reynir að draga athygli okkar frá tilgangi okkar. Þegar freisting vaknar, ættum við að spyrja okkur sjálf:
-
Hvernig er þessi breytni mín í mótvægi við hið opinberaða orð Guðs?
-
Hverjar eru afleiðingar þess að taka sér þetta fyrir hendur?
-
Mun þessi breytni hjálpa mér að uppfylla tilgang minn á jörðu?
Við ættum líka að gera okkur grein fyrir endanlegri niðurstöðu þess að láta undan, jafnvel í smærri málum. Þegar við látum undan freistingum neytum við „[eiturs] smátt og smátt“ (Alma 47:18), sem er áhrifaríkasta aðferðin sem andaverur vonskunnar nota og getur falið í sér andlega banvænar afleiðingar.
Við getum víggirt okkur gegn freistingum Satans með því að fylgja þeirri leiðsögn sem við hljótum frá síðari daga spámanni okkar. Það hjálpar okkur að viðhalda eilífri yfirsýn til að geta metið breytni okkar. Að ráðgera hvernig við hyggjumst takast á við freistingarnar sem koma upp á hinum ýmsu sviðum lífs okkar, mun hjálpa okkur að taka réttari ákvarðanir á þeirri stundu. Fyrirfram skipulagðar áætlanir og aðferðir, munu hjálpa okkur að verjast truflunum frá eilífum tilgangi okkar.
Dæmi um það er tæknin. Tæknin getur verið tvíeggjað sverð, bæði gagnleg og skaðleg, allt eftir því hvernig við notum hana. Til að hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi tækin okkar, geta ungir sem aldnir vísað í „Taking Charge of Technology [Hafa stjórn á tækninni]“ og Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum. Þetta minnir okkur á tilgang okkar, vísar okkur til Jesú Krist og hjálpar við að bjóða heilögum anda í líf okkar. Að skipuleggja hvernig, hvenær og hvar við munum nota tæknina, mun styrkja okkur gegn skaðlegum, veraldlegum aðferðum.
Undirbúningur fyrir óeiginlega bardaga
Moróní bjó fólk sitt undir væntanlega bardaga með brynjum, skjöldum, hjálmum og þykkum fatnaði. Hann undirbjó allt fólk sitt með því að umlykja borgir með virkjum og jarðvegsvarnargörðum.
Við undirbúum okkur andlega með því að halda boðorð Guðs. Við gerum og höldum sáttmála við Guð, sem færa kraft Jesú Krists í líf okkar. Við tökum þátt í persónulegri trúrækni, svo sem að biðja, fasta og rannsaka ritningarnar. Við breytum líka í trú og bregðumst við hinni andlegu leiðsögn sem við hljótum. Við undirbúum okkur samviskusamlega og meðtökum sakramentið verðuglega. Þegar við gerum það, verður frelsarinn raunverulegri í lífi okkar, alveg eins og hann var raunverulegur Moróní, sem var staðfastur í trú sinni á Jesú Krist. Moróní vissi að hann gæti reitt sig á frelsarann til að hljóta leiðsögn og björgun (sjá Alma 48:16). Við getum líka reitt okkur á Jesú Krist til handleiðslu og lausnar.
Við getum undirbúið okkur frekar með því að styrkja fjölskyldur okkar. Himneskur faðir skipulagði okkur í fjölskyldur til að hjálpa okkur að vera hamingjusöm og læra hvernig snúa ætti aftur til hans. Fjölskyldur okkar geta verið okkur úrræði til hjálpar. Við getum öll fundið gleði og elsku með því að minnast þess að við erum hluti af dásamlegri fjölskyldu Guðs, óháð eigin fjölskylduaðstæðum.
Sameiginlega getum við hlotið styrk og búið okkur undir andlega baráttu okkar með því að taka þátt í samfélagi heilagra. Stikur okkar og umdæmi eru slíkt athvarf og vörn. Við getum nært hvert annað andlega, hjálpað hvert öðru að halda boðorð Guðs og hvatt hvert annað til að setja traust okkar á Krist, alltaf og sérstaklega á erfiðleikatímum. Þegar við komum saman, verður okkur ljóst að við háum ekki orrustur okkar einsömul. Við eigum vini, kennara og leiðtoga sem geta hjálpað og verndað okkur. Við erum öll sterkari þegar við undirbúum okkur saman.
Eftirtektarvert er að Moróní sagði alla hamingju fólks síns vera að þakka trú þess á Guð og trúarbrögðum þess. Líkt og Moróní, ættum við að vita að gleðin á rætur að rekja til himnesks föður og áætlunar hans og vegna Jesú Krists og friðþægingar hans. Þegar við förum að skilja tilgang okkar, skipuleggja til árangurs og búa okkur undir óeiginlegar orrustur, hljótum við guðlega hjálp og kraft.
Ég veit, líkt og Moróní, að himneskur faðir og Jesús Kristur gera að veruleika hið endanlega frelsi úr ánauð – lausn frá dauða og synd. Þeir blessa okkur með krafti sínum þegar við lítum til þeirra í öllu.
© 2024 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/19. Þýðing samþykkt: 6/19. Þýðing á Monthly Liahona Message, ágúst 2024. Icelandic. 19294 190