2024
Forskrift að einingu í Jesú Kristi
Október 2024


„Forskrift að einingu í Jesú Kristi,“ Líahóna, okt. 2024.

Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, október 2024

Forskrift að einingu í Jesú Kristi

Þegar við sameinumst í Jesú Kristi, eins og fólkið í 4. Nefí, mun einingarþrá okkar yfirstíga það ólíka í fari okkar og leiða til hamingju.

Stytta af Kristi

Við lifum á tíma þegar flóðbylgja deilna og ágreinings breiðist út um heiminn. Með aðstoð tækninnar og stuðningi fólks sem orðið er kalt í hjarta, hóta þessi sundrunaröfl að fylla hjörtu okkar fyrirlitningu og spilla samskiptum okkar með sundrung. Samfélagsleg tengsl eru að flosna upp. Stríð geisa.

Í ljósi þessa, þrá sannir fylgjendur Jesú Krists frið og reyna á virkan hátt að byggja upp öðruvísi samfélag – samfélag sem byggt er á kenningum Jesú Krists. Í þessum tilgangi hefur Drottinn boðið okkur að „[vera] eitt. Og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir“ (Kenning og sáttmálar 38:27). Eining er vissulega auðkenni hinnar sönnu kirkju Jesú Krists.

Hvernig vinnum við gegn öflum sundrungar og deilna? Hvernig öðlumst við einingu?

Sem betur fer má finna dæmi um það í 4. Nefí í Mormónsbók . Þessi kapítuli segir stuttlega frá því hvernig fólkið lifði eftir að frelsarinn hafði vitjað þess, kennt því og komið kirkju sinni á fót meðal þess. Þessi frásögn sýnir hvernig þetta fólk náði hamingjuríkri og friðsælli einingu og hún veitir okkur forskrift sem við getum fylgt til að ná þessari sömu einingu sjálf.

Trúarumbreyting

Í 4. Nefí 1:1 lesum við: „Lærisveinar Jesú höfðu stofnað kirkju Krists í öllum nærliggjandi löndum. Og [fólk] kom til þeirra og iðraðist synda sinna sannlega.“

Við erum sameinuð umhverfis Drottin og frelsara okkar, Jesú Krist. Þegar hver einstaklingur lærir um Jesú Krist, fagnaðarerindi hans og kirkju hans, mun heilagur andi vitna um sannleikann í hjarta hans. Hvert okkar getur þá meðtekið boð frelsarans um að trúa á hann og fylgja honum með því að iðrast.

Þannig hefst trúarferð einstaklingsins til umbreytingar – frá eigingjörnum og syndugum þrám í átt að frelsaranum. Hann er grundvöllur trúar okkar. Þegar hvert okkar lítur svo til hans í hverri hugsun (sjá Kenning og sáttmálar 6:36), verður hann sameiningarafl í lífi okkar.

Sáttmálar

Frásögnin í 4. Nefí segir ennfremur að þeir sem komu til kirkjunnar og iðruðust synda sinna „voru skírðir í nafni Jesú og meðtóku einnig heilagan anda“ (4. Nefí 1:1). Þeir höfðu gert sáttmála – sérstakt, bindandi samband – við Guð.

Þegar við gerum og höldum sáttmála, tökum við nafn Drottins á okkur sem einstaklingar. Við tökum líka nafn hans á okkur sem fólk. Allir sem gera sáttmála og leggja sig fram við að halda þá, verða fólk Drottins, hans sérstaki fjársjóður (sjá 2. Mósebók 19:5). Þar af leiðandi förum við sáttmálveginn bæði persónulega og sameiginlega. Sáttmálssamband okkar við Guð gefur okkur sameiginlegan málstað og sameiginlegt auðkenni. Þegar við bindumst Drottni, hjálpar hann okkur svo að „hjörtu [okkar] tengjast böndum einingar og elsku hver til annars“ (Mósía 18:21).

Sanngirni, jafnrétti og aðstoð við fátæka

Frásögnin í 4. Nefí segir ennfremur: „Engar deilur né óeining var meðal þeirra, heldur breyttu allir réttlátlega hverjir við aðra.

Og allt var sameign þeirra, og því var enginn ríkur eða fátækur, ánauðugur eða frjáls, heldur var fólkið allt frjálst og hluttakendur hinnar himnesku gjafar“ (4. Nefí 1:2–3).

Í stundlegum samskiptum okkar, vill Drottinn að við séum heiðarleg og réttlát við hvert annað og bregðumst ekki öðrum eða notfærum okkur aðra (sjá 1. Þessaloníkubréf 4:6). Þegar við vöxum nær Drottni, munum við „ekki hafa hug á að gjöra hver öðrum mein, heldur lifa í friði og láta hvern mann njóta þess, sem honum ber“ (Mósía 4:13).

Drottinn hefur líka boðið okkur að annast hina fátæku og þurfandi. Við ættum að „veita hver öðrum af eigum [okkar]“ þeim til hjálpar, í samræmi við getu okkar til þess, án þess að dæma þá (sjá Mósía 4:21–27).

Sérhverju okkar ber að „meta bróður sinn sem sjálfan sig“ (Kenning og sáttmálar 38:24). Ef við eigum að vera fólk Drottins og sameinuð, verðum við ekki aðeins að koma fram við hvert annað sem jafningja, heldur verðum við einnig að líta sannlega á hvert annað sem jafningja og finna í hjörtum okkar að við séum jöfn – jöfn frammi fyrir Guði, jafn verðmæt og með jafna möguleika.

Hlýðni

Næsta lexía í 4. Nefí á sér rætur í þessum einföldu orðum: „Þeir fylgdu boðorðum þeim, sem Drottinn og Guð þeirra hafði gefið þeim“ (4. Nefí 1:12).

Drottinn hafði kennt þessu fólki kenningu sína, gefið því boðorð og kallað þjóna til að þjónusta það. Einn tilgangur hans með því að gera það, var að tryggja að enginn ágreiningur yrði þeirra á meðal (sjá 3. Nefí 11:28–29; 18:34).

Hlýðni okkar við kenningar Drottins og þjóna hans er nauðsynleg til að vera sameinuð. Það felur í sér skuldbindingu okkar um að hlýða boðorðinu um að iðrast, hvenær sem okkur mistekst, og að hjálpa hvert öðru, er við reynum að gera betur og verða betri dag hvern.

fólk horfir á ritningar á samkomu

Koma saman

Næst lesum við að fólkið í 4. Nefí „[hélt áfram] föstu og bæn og kom oft saman, bæði til að biðja og hlýða á orð Drottins“ (4. Nefí 1:12).

Við þurfum að koma saman. Vikulegar tilbeiðslusamkomur eru mikilvægt tækifæri fyrir okkur til að finna styrk, bæði persónulega og sameiginlega. Við meðtökum sakramentið, lærum, biðjum, syngjum saman og styðjum hvert annað. Aðrar samkomur stuðla einnig að þeirri tilfinningu að tilheyra, tengjast vináttuböndum og miðla tilgangi.

Elska

Frásögnin í 4. Nefí segir síðan frá því sem ef til vill er meginlykillinn að þessu öllu saman – en án þess verður raunverulegri einingu ekki náð: „Engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins“ (4. Nefí 1:15).

Við hljótum persónulegan frið þegar við í auðmjúkri undirgefni elskum Guð einlæglega. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Að elska Guð meira en alla og allt, er það ástand sem færir sannan frið, huggun, fullvissu og gleði. Þegar við þróum með okkur elsku til Guðs og Jesú Krists, mun kærleikur til fjölskyldu okkar og náungans eðlilega fylgja í kjölfarið.

Mesta gleðin sem við fáum nokkurn tíma upplifað, er þegar við erum fyllt kærleika til Guðs og allra barna hans.

Kærleikur, hin hreina ást Krists, er mótefnið við deilum. Hann er helsta einkenni hins sanna fylgjenda Jesú Krists. Þegar við auðmýkjum okkur frammi fyrir Guði og biðjum af öllum hjartans mætti, mun Guð veita okkur kærleika (sjá Moróní 7:48).

Þegar við leitumst öll við að hafa elsku Guðs í hjörtum okkar, mun kraftaverk einingar virðast okkur fyllilega eðlilegt.

Guðleg sjálfsmynd

Að lokum sýndi fólkið í 4. Nefí merki um sameinginu sem verðskuldar athygli okkar: „Engir ræningjar voru, né morðingjar, né voru þar Lamanítar eða yfirleitt nokkrir -ítar; heldur voru allir eitt, börn Krists og erfingjar að Guðsríki“ (4. Nefí 1:17).

Auðkennin sem áður höfðu aðskilið fólkið í hundruð ára, hurfu fyrir göfugri og varanlegri sjálfsmynd. Það sá sjálft sig – og alla aðra – í samræmi við samband sitt við himneskan föður og Jesú Krist.

Fjölbreytileiki og margbreytileiki geta verið mikilvægir og okkur til góðs. Mikilvægustu auðkenni okkar eru þó þau sem tengjast guðlegum uppruna okkar og tilgangi.

Fyrst og fremst er hvert okkar barn Guðs. Í öðru lagi þá er hvert okkar barn sáttmálans sem meðlimur kirkjunnar. Og í þriðja lagi þá erum við öll lærisveinar Jesú Krists. Ég hvet okkur öll til að leyfa ekki að önnur auðkenni „leysi af eða komi í stað þessara þriggja varanlegu auðkenna.“

fjölskylda situr saman á gólfi

Vera eitt

Guð býður öllum að koma til sín. Það er pláss fyrir alla. Við kunnum að vera ólík hvað varðar menningu, stjórnmál, þjóðerni, smekk og margt annað. Þegar við hins vegar sameinumst í Jesú Kristi, þá dregur verulega úr slíkum mun og sterk þrá okkar til að verða eitt verður yfirsterkari – svo við megum verða hans.

Tileinkið ykkur lexíurnar sem kenndar eru í 4. Nefí. Þegar hvert okkar reynir að tileinka sér þessa nauðsynlegu þætti einingar, verður hægt að segja um okkur, eins og um fólkið þar: „Vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað“ (4. Nefí 1:16).

Heimildir

  1. Fyrir frekari upplýsingar um merkingu og blessun þess að gera sáttmála við Guð, sjá þá Russell M. Nelson, „The Everlasting Covenant,“ Liahona, okt. 2022, 4–11.

  2. Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 15. maí 2022), Gospel Library.