„29. janúar–4. febrúar: ‚Ég mun greiða götu yðar.‘ 1. Nefí 16–22,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)
„29. janúar–4. febrúar. 1. Nefí 16–22,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)
29. janúar–4. febrúar: „Ég mun greiða götu yðar“
1. Nefí 16–22
Þegar fjölskylda Lehís ferðaðist í áttina að fyrirheitna landinu, veitti Drottinn þeim þetta loforð: „Ég mun greiða götu yðar, ef þér haldið boðorð mín“ (1. Nefí 17:13). Greinilega þýddi þetta loforð ekki að ferðin yrði auðveld – fjölskyldumeðlimir voru áfram ósáttir, bogar brotnuðu og fólkið erfiðaði og lét lífið og það átti enn eftir að byggja skip úr hráefnum. Nefí áttaði sig þó á því að Drottinn var aldrei fjarri þegar fjölskyldan stóð frammi fyrir mótlæti eða verkefnum sem virtust ómöguleg. Hann vissi að Guð „veitir [hinum trúföstu] næringu, styrk og forsjá til að gera það sem hann hefur boðið“ (1. Nefí 17:3). Ef þið hafið einhvern tíma hugleitt hvers vegna slæmir hlutir hendi gott fólk, eins og Nefí og fjölskyldu hans, þá gætuð þið hlotið innsýn frá þessum kapítulum. Það sem ef til vill er enn mikilvægara, er að þið munið sjá hvað gott fólk gerir þegar slæmir hlutir gerast.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Frelsarinn mun hjálpa mér að takast á við erfiðleika lífsins.
Fjölskylda Nefís tókst á við miklar áskoranir – eins og við gerum öll. Hvað lærið þið af Nefí um að takast á við áskoranir í trú á Jesú Krist? Lesið um reynslu hans í 1. Nefí 16:17–32; 16:34–39; 17:7–16; 18:1–4; og 18:9–22. Íhugið að skrá það sem þið finnið undir fyrirsagnir eins og þessar: „Áskorun,“ „Hvernig Nefí brást við“ og „Hvernig Drottinn hjálpaði.“ Hvað lærið þið sem þið getið tileinkað ykkur í áskorunum ykkar?
Eftir að hafa lært af Nefí og fjölskyldu hans, gætuð þið ef til vill skráð fleiri hugsanir undir þessar fyrirsagnir: „Áskoranir mínar,“ „Hvernig ég mun bregðast við“ og „Hvernig Drottinn getur hjálpað mér.“ Þegar þið gerið það, gætuð þið vísað í ritningarvers eins og þessi: Matteus 11:28–30; Jóhannes 14:26–27; Mósía 24:13–15. Tillaga að söng: „Hvar finn ég frið og ást?“ (Sálmamappa, nr. 2), gæti styrkt trú ykkar á frelsarann og hjálpina sem hann veitir á erfiðleikatímum.
Sjá einnig Anthony D. Perkins, „Minnstu þjáninga þinna heilögu, ó, Guð vor,“ aðalráðstefna, október 2021; „He Will Give You Help,“ „The Lord Guides Lehi’s Journey,“ „The Lord Commands Nephi to Build a Ship“ og „Lehi’s Family Sails to the Promised Land“ (myndbönd), Gospel Library; „Life Help,“ Gospel Library.
1. Nefí 16:10–16, 23–31; 18:11–22
Guð notar einfaldar aðferðir til að leiða mig.
Þegar Guð leiddi fjölskyldu Lehís í óbyggðirnar, sá hann þeim ekki fyrir korti sem sýndi ferðalagið nákvæmlega. Þess í stað færði hann þeim Líahóna til að veita þeim daglega leiðsögn. Þegar þið lesið 1. Nefí 16:10–16, 23–31 og 18:10–22, íhugið þá að gera lista yfir sannleika sem sýnir hvernig Guð leiðir börn sín (af 1. Nefí 16:10 má t.d. læra að Guð leiðir okkur stundum á óvæntan hátt). Hvaða samlíkingar sjáið þið á milli Líahóna og heilags anda? Hvað er hið „smáa“ í lífi ykkar sem hann hefur gert hið „stóra“ að veruleika hjá ykkur?
Sjá einnig Alma 37:7, 38–47; Kenning og sáttmálar 64:33–34.
Raunir mínar geta orðið mér til blessunar.
Þótt Nefí og bræður hans glímdu við sömu áskoranir í óbyggðunum, þá var upplifun þeirra afar ólík. Þið gætuð borið frásögnina um Nefí ferðast um óbyggðirnar (sjá 1. Nefí 17:1–6) saman við frásögnina um bræður hans (sjá 1. Nefí 17:17–22). Hvað vissi eða gerði Nefí sem hjálpaði honum að viðhalda trúföstu viðhorfi? Íhugið að skrifa um nýlega eða núverandi erfiðleika út frá viðhorfi trúar og þakklætis. Hvað upplifið þið eða lærið þið af þessu?
Sjá einnig Amy A. Wright, „Kristur læknar hið brotna,“ aðalráðstefna, apríl 2022; „No Strength without Struggle“ (myndband), Gospel Library.
Ég get „tileinkað [mér] allar ritningargreinarnar.“
Þar sem ritningarnar voru ritaðar fyrir svo löngu, gæti virst sem þær eigi ekki við á okkar tíma. En Nefí vissi betur. „Ég tileinkaði okkur allar ritningargreinarnar,“ sagði hann, „svo að þær yrðu okkur til gagns og fróðleiks“ (1. Nefí 19:23). Það er ein ástæða þess að Nefí fann svo mikinn andlegan styrk í ritningunum.
Íhugið spurningar eins og eftirfarandi við lestur 1. Nefís 20–22:
-
1. Nefí 20:1–9.Hvað kenna þessi vers ykkur um fólkið á tíma Jesaja? Hvað finnið þið sem á við um ykkur?
-
1. Nefí 20:17–22.Hvað kenna þessi vers ykkur um það hvernig himneskur faðir leiddi fólkið á tíma Jesaja? Hvernig býður hann ykkur að fylgja sér?
Hvað annað finnið þið í 1. Nefí 20–22 sem þið getið „tileinkað ykkur“?
Hugmyndir að kennslu barna
1. Nefí 16:10, 28–29; 18:8–13, 20–22
Þegar ég held boðorðin, leiðbeinir Drottinn mér.
-
Ef þið eigið áttavita, kort eða eitthvað annað sem hjálpar við að finna réttu leiðina, gætuð þið sýnt það börnum ykkar. Þetta gæti verið góð leið til að hefja umræður um Líahóna, sem þið getið lesið um í 1. Nefí 16:10, 28–29. Af hvaða ástæðum gæti áttaviti eða kort ekki virkað? Af hverju virkaði Líahóna stundum ekki fyrir fjölskyldu Lehís? (sjá 1. Nefí 18:9–12, 20–22). Hvað hefur himneskur faðir gefið okkur í dag til að leiða okkur aftur til sín?
-
Til að hjálpa börnum ykkar að tileinka sér það sem þau hafa lært um Líahóna í 1. Nefí 16:10, 26–31; 18:8–22, gætuð þið boðið þeim að hugsa um mikilvæga eða erfiða ákvörðun. Hvað hefur Guð gefið okkur til leiðsagnar í dag sem virkar eins og Líahóna? (Sjá t.d. Alma 37:38–44.) Íhugið að miðla persónulegri reynslu þar sem himneskur faðir leiddi ykkur.
Ég get verið fjölskyldu minni góð fyrirmynd.
-
Þegar þið lesið saman 1. Nefí 16:21–32, hjálpið þá börnum ykkar skilja hvernig fordæmi Nefís blessaði fjölskyldu hans (sjá einnig myndbandið „The Lord Guides Lehi’s Journey“ [Gospel Library]). Þetta gæti leitt til umræðu um það hvernig við getum verið líkari Nefí. Bjóðið börnum ykkar að ráðgera eitthvað eitt sem þau geta gert til að hafa góð áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi.
Himneskur faðir getur hjálpað mér að gera erfiða hluti.
-
Börn hafa unun af því að segja sögur. Þið gætuð boðið þeim að hjálpa ykkur að segja söguna um það þegar Nefí var boðið að smíða skip (sjá 1. Nefí 17:7–19; 18:1–4; sjá einnig „Kafla 7: Skipasmíði,“ í Sögur úr Mormónsbók, 21–22; eða myndbandið „The Lord Instructs Nephi to Build a Ship“ [Gospel Library]). Þau gætu sungið saman annað versið í „Nefí hinn hugdjarfi“ (Barnasöngbókin, 64). Hvað hjálpaði Nefí að sýna hugrekki þegar bræður hans hæddust að honum fyrir að reyna að smíða skip?
-
Nefí vissi ekki hvernig smíða ætti skip, svo hann reiddi sig á leiðbeiningar frá Drottni. Eftir að börn ykkar hafa lesið 1. Nefí 18:1 með ykkur, gætu þau fullunnið verkefnasíðu þessarar viku. Þegar þau gera það, ræðið þá við þau um það hvernig himneskur faðir hjálpar okkur að gera erfiða hluti, líkt og hann hjálpaði Nefí.