Kristur læknar hið brotna
Hann getur læknað brostið samband við Guð, brostið samband við aðra og það sem er brotið eða brostið í okkur sjálfum.
Fyrir nokkrum árum, á fjölskyldusamkomu, spurði frændi minn William, sem þá var átta ára, elsta son okkar, Briton, hvort hann vildi fara í boltaleik með sér. Briton svaraði áhugasamur: „Já! Það væri gaman!“ Eftir að þeir höfðu verið að leik í talsverðan tíma, fór boltinn frá Briton og hann braut óvart einn af antíkpottum afa síns og ömmu.
Briton leið hörmulega. Þegar hann tók hægt og rólega að taka upp brotin, gekk William til frænda síns og klappaði honum ástúðlega á bakið. Hann sagði síðan huggandi: „Ekki hafa áhyggjur, Briton. Ég braut einu sinni eitthvað heima hjá ömmu og afa og amma vafði handleggnum utan um mig og sagði: „Það er allt í lagi, William. Þú ert bara fimm ára.“
Briton svaraði þá: „En, William, ég er 23 ára!“
Við getum lært mikið í ritningunum um það hvernig frelsari okkar, Jesús Kristur, mun hjálpa okkur að takast á við hið brotna í lífinu á farsælan hátt, sama hver aldur okkar er. Hann getur læknað brostið samband við Guð, brostið samband við aðra og það sem er brotið eða brostið í okkur sjálfum.
Brostið samband við Guð
Þegar frelsarinn kenndi í musterinu, komu fræðimennirnir og farísearnir með konu til hans. Við vitum ekki alla sögu hennar, bara að hún var „staðin að hórdómi.“1 Oft segja ritningarnar aðeins frá litlum hluta lífs einhvers og byggt á þeim hluta, hneigjumst við stundum til að frægja eða fordæma. Líf annars verður ekki skilið út frá einni mikilfenglegri stund eða vonbrigðum almennings með eina yfirsjón. Tilgangur þessara ritningarlegu frásagna, er að hjálpa okkur að skilja að Jesús Kristur var svarið þá og hann er svarið núna. Hann þekkir alla okkar sögu og þjáningar okkar nákvæmlega, sem og styrk okkar og varnarleysi.
Viðbrögð Krists við þessari dýrmætu dóttur Guðs, voru þessi: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“2 Önnur leið til að segja: „Far þú. Syndga ekki framar,“ væri ef til vill: „Far þú og breyttu þér.“ Frelsarinn var að bjóða henni að iðrast, breyta hegðun sinni, félagsskap, tilfinningu fyrir sjálfri sér, hjarta sínu.
Vegna Jesú Krists, getur ákvörðun okkar um að „sækja fram og breytast“ einnig gert okkur kleift að „sækja fram og læknast,“ því hann er sú uppspretta sem læknar allt sem er brotið eða brostið í lífi okkar. Sem hinn mikli milligöngumaður og málsvari hjá föðurnum, helgar Kristur og endurheimtir brostin sambönd – ekki hvað síst samband okkar við Guð.
Þýðing Josephs Smith gerir ljóst að konan fylgdi leiðsögn frelsarans og breytti lífi sínu: „Og konan vegsamaði Guð frá þeirri stundu og trúði á nafn hans.“3 Það er óheppilegt að við vitum ekki hvað hún heitir, eða annað um líf hennar frá þessari stundu, því hún hefði þurft mikla ákveðni, auðmýkt og trú á Jesú Krist til að geta iðrast og breyst. Það sem við vitum er að hún var kona sem „trúði á nafn hans“ og skildi að hún væri ekki utan hinnar óendanlegu og eilífu fórnar hans.
Brostið samband við aðra
Í kapítula 15 í Lúkasi er dæmisaga um mann sem átti tvo syni. Sá yngri bað föður sinn um arfhlut sinn, lagði leið sína til fjarlægs lands og sóaði eigum sínum með óhófsömum lifnaði.4
„En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort.
Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína
og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.
En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri!
Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.
Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.
Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“5
Ég tel að sú staðreynd skipti máli, að faðirinn hafi hlaupið til sonar síns. Hin persónulegu særindi sem sonurinn hafði kallað yfir föður sinn, voru vissulega mikil og djúpstæð. Faðirinn gæti líka hafa einlæglega fyrirvarið sig fyrir framferði sonar hans.
Af hverju beið faðirinn þess þá ekki að sonur hans bæðist afsökunar? Af hverju hélt hann ekki aftur af því að bjóða fram sættir og uppreist æru áður en hann fyrirgaf og sýndi kærleika? Þetta er nokkuð sem ég hef oft velt fyrir mér.
Drottinn kennir að það sé altækt boðorð að fyrirgefa öðrum: „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“6 Mikið hugrekki og mikla auðmýkt getur þurft til segjast fyrirgefa öðrum. Það getur líka tekið tíma. Það krefst þess að við trúum og setjum traust okkar á Drottin er við tökum ábyrgð á ástandi eigin hjarta. Þetta snýst um mikilvægi og mátt eigin sjálfræðis.
Með framsögn sinni um föður þennan í dæmisögunni um glataða soninn, lagði frelsarinn áherslu á að fyrirgefning væri ein göfugasta gjöfin sem við getum gefið hvert öðru og einkum okkur sjálfum. Það er ekki alltaf auðvelt að létta á hjarta okkar með því að fyrirgefa, en það er mögulegt fyrir kraft Jesú Krists.
Það sem er brostið í okkur sjálfum
Í 3. kapítula í Postulasögunni lærum við um mann nokkurn sem fæðst hafði lamaður og „dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn.”7
Þessi lamaði betlari var 40 ára gamall8 og hafði varið allri ævinni í því sem virtist endalaust ástand skorts og biðar, því hann var háður aðstoð og gjafmildi annarra.
Dag einn er hann sá „þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu.
Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: ‚Lít þú á okkur.’
Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.
Pétur sagði: ,Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!’
Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,
hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.“9
Oft getum við fundið okkur í sporum hins lamaða betlara við musterishliðið, þolinmóð – eða stundum óþolinmóð – að „vona á Drottin.“10 Að vonast eftir að læknast líkamlega eða tilfinningalega. Að vonast eftir svörum sem smjúga inn í hjörtu okkar. Að vonast eftir kraftaverki.
Að setja von sína á Drottin, getur verið helgur staðar fágunar og betrumbótar, þar sem við getum kynnst frelsaranum á mjög persónulegan hátt. Að setja von sína á Drottin, getur líka verið staður þar sem við spyrjum: „Ó Guð, hvar ert þú?“11 – staður þar sem andleg þrautseigja krefst þess að við iðkum trú á Krist með því að velja hann af ásetningi aftur og aftur og aftur. Ég þekki þennan stað og ég skil slíka bið.
Ég varði ótal stundum á krabbameinsmeðferðarstofnun, sameinuð í þjáningum með mörgum öðrum sem þráðu að læknast. Sumir lifðu; aðrir gerðu það ekki. Ég lærði á djúpstæðan hátt að björgun frá eigin raunum er mismunandi fyrir hvert okkar og þess vegna ættum við síður að einblína á björgunarleiðina og meira á bjargvættinn sjálfan. Áhersla okkar ætti alltaf að vera á Jesú Krist!
Að iðka trú á Krist, merkir að treysta ekki aðeins á vilja Guðs, heldur líka á tímasetningu hans. Hann þekkir þarfir okkar nákvæmlega og hvenær við þörfnumst þeirra. Þegar við lútum vilja Drottins, munum við að lokum fá umtalsvert meira en það sem við höfðum óskað okkur.
Kæru vinir, við höfum öll eitthvað brotið eða brostið í lífi okkar sem þarf að laga eða lækna. Þegar við snúum okkur til frelsarans, þegar við lögum hjarta og huga að honum, þegar við iðrumst, kemur hann til okkar „með lækningarmátt í vængjum sínum,“12 umvefur okkur kærleiksríkum örmum og segir: „Það er í lagi. Þú er bara 5 – eða 16, 23, 48, 64, 91. Við getum lagfært þetta í sameiningu!“
Ég ber ykkur vitni um að það er ekkert í lífi ykkar sem er brotið eða brostið sem er utan læknandi, endurleysandi og virkjandi máttar Jesú Krists. Í hinu heilaga nafni hans, sem máttugur er til að lækna, Jesú Krists, amen.