Samband okkar við Guð
Ég ber vitni um að sama hvað á dynur í okkar jarðneska lífi, þá getum við treyst Guði og fundið gleði í honum.
Á tímum þjáninga gæti sumum fundist, eins og Job í Gamla testamentinu, að Guð hafi yfirgefið þá. Sökum þess að við vitum að Guð hefur mátt til að koma í veg fyrir eða fjarlægja sérhverja hörmung, gætum við freistast til að kvarta ef hann gerir svo ekki, eða jafnvel spyrja: „Ef Guð veitir mér ekki þá hjálp sem ég bið um, get ég þá átt trú á hann?“ Job sagði á einum tímapunkti mikilla þjáninga sinna:
„Kannist þó við, að Guð hafi hallað rétti mínum og umkringt mig með neti sínu.
Sjá, ég kalla: Ofbeldi! Og fæ ekkert svar, ég kalla á hjálp, en engann rétt er að fá.“1
Í svari sínu krefst Guð: „Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?“2 Með öðrum orðum: „Munt þú gera mér rangt til? Munt þú vilja fordæma mig, til að þú réttlætist?“3 Jehóva minnir Job sterklega á almætti sitt og alvisku og af dýpstu auðmýkt viðurkennir Job að hann eigi ekkert sem komist nálægt þekkingu, mætti og réttlæti Guðs og geti ekki dæmt almættið:
„Ég veit að þú megnar allt,“ sagði hann, „og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.
… Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi. …
Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“4
Að lokum naut Job þeirra forréttinda að sjá Drottin, „en Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri.“5
Það er vissulega heimska hjá okkur þröngsýnum mönnum, að vilja dæma Guð, að hugsa til dæmis: „Ég er ekki hamingjusamur, því hlýtur Guð að gera eitthvað vitlaust.“ Við okkur, börn hans í föllnum heimi, sem vitum svo lítið um fortíð, nútíð og framtíð, segir hann: „Allt er mér nálægt, því að ég þekki það allt.“6 Jakob aðvarar viturlega: „Leitist þess vegna ekki við að gefa Drottni ráð, heldur leitið ráða hans. Því að sjá. Þér vitið sjálfir, að hann stjórnar öllum verkum sínum af visku, réttvísi og mikilli miskunn.“7
Sumir misskilja fyrirheit Guðs og telja þau þýða að hlýðni við hann leiði til ákveðinnar niðurstöðu að fastri tímasetningu. Þeir gætu hugsað: „Ef ég þjóna duglega í fastatrúboði, mun Guð blessa mig með hamingjuríku hjónabandi og börnum,“ eða „ef ég geri engin skólaverkefni á hvíldardegi, mun Guð blessa mig með góðum einkunnum,“ eða „ef ég greiði tíund, mun Guð blessa mig með því starfi sem mig langar í.“ Ef lífið fer ekki nákvæmlega þannig eða eftir áætlaðri tímatöflu, finnst þeim þau hugsanlega svikin af Guði. En hlutirnir eru ekki svona vélrænir í hinni himnesku áætlun. Við ættum ekki að líta á áætlun Guðs eins og sjálfsala, þar sem við (1) veljum blessun sem okkur langar í, (2) setjum inn summu af góðum verkum sem krafist er og (3) pöntunin fæst strax afhent.8
Guð mun vissulega heiðra sáttmála sína og fyrirheit fyrir hvert okkar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.9 Friðþægingarkraftur Jesú Krists – sem steig neðar öllu og sté síðan til upphæða10 og hefur allt vald á himni og jörðu11 – tryggir að Guð getur og mun uppfylla fyrirheit sín. Það er nauðsynlegt að við heiðrum og hlýðum lögmálum hans, en sérhver blessun sem bundin er hlýðni við lögmál12 er þó ekki mótuð, hönnuð og tímasett að okkar væntingum. Við gerum okkar besta, en verðum að leyfa honum að stjórna blessunum, bæði stundlegum og andlegum.
Brigham Young forseti útskýrði að trú hans væri ekki byggð á ákveðinni niðurstöðu eða blessunum, heldur á vitnisburði hans um og sambandi við Jesú Krist. Hann sagði: „Trú mín snýst ekki um verk Drottins á eyjum hafsins, um að hann komi fólkinu hingað, … né á þeirri velþóknun sem hann sýnir þessu fólki eða öðru fólki, ekki heldur um það hvort við erum blessuð eða ekki blessuð, en trú mín er grundvölluð á Drottni Jesú Kristi og þekkingu minni, sem ég hef hlotið frá honum.”13
Iðrun okkar og hlýðni, þjónusta okkar og fórnir skipta máli. Við viljum vera meðal þeirra sem Eter sagði að væru „ætíð rík af góðum verkum.“14 Það er þó ekki vegna einhverra skráninga í himnesku bókhaldi. Þessir hlutir skipta máli, vegna þess að þeir virkja okkur í verki Guðs og eru leiðin til að vinna með honum að umbreytingu okkar sjálfra frá náttúrlegum manni í heilagan.15 Það sem himneskur faðir býður okkur eru hann sjálfur og sonur hans, náið og varanlegt samband við þá fyrir náð og milligöngu sonar hans, Jesú Krists, frelsara okkar.
Við erum börn Guðs, áætluð fyrir ódauðleika og eilíft líf. Örlög okkar eru að vera „samarfar Krists.“16 Faðir okkar er fús til að leiðbeina sérhverju okkar á sáttmálsveginum, með skrefum sem hönnuð eru að persónulegum þörfum okkar og sniðin að áætlun hans fyrir endanlega hamingju okkar með honum. Við getum vænst aukins trausts og trúar á föðurinn og soninn, betri skynjun á elsku þeirra og viðvarandi huggun og leiðbeiningu heilags anda.
Þrátt fyrir það, getur vegurinn ekki verið auðveldur fyrir neitt okkar. Of mikil hreinsun þarf að eiga sér stað til að hann verði auðveldur. Jesús sagði:
„Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður [faðirinn] af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.“17
Hreinsunar- og helgunarferlið, sem Guð stjórnar, þarf stundum að vera aðþrengjandi og sársaukafullt. Minnug orða Páls, erum við „samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“18
Í miðjum hreinsunareldinum ættum við því að nálgast Guð í stað þess að reiðast honum. Ákallið föðurinn í nafni sonarins. Gangið með þeim í andanum, dag frá degi. Leyfið þeim með tímanum að sýna ykkur tryggð sína. Þekkið þá sannarlega og þekkið ykkur sannarlega.19 Látið Guð ríkja!20 Frelsarinn fullvissar okkur:
„Hlustið á hann, sem er málsvari hjá föðurnum, sem talar máli yðar hjá honum –
Og segir: Faðir, sjá þjáningar og dauða hans, sem enga synd drýgði, og þú hafðir velþóknun á. Sjá blóð sonar þíns, sem úthellt var, blóð hans, sem þú gafst, svo að þú mættir sjálfur dýrðlegur verða ‒
Faðir, þyrm því þessum bræðrum mínum [og systrum mínum], sem trúa á nafn mitt, svo að [þau] megi koma til mín og öðlast ævarandi líf.”21
Skoðum nokkur dæmi um trúfasta karla og konur sem treystu Guði, fullviss um að fyrirheitnar blessanir hans yrðu með þeim í lífi eða dauða. Trú þeirra byggðist ekki á því sem Guð gerði eða gerði ekki í tilteknum kringumstæðum eða á einhverju augnabliki, heldur á því að þekkja hann sem gæskuríkan föður sinn og Jesú Krist sem trúfastan lausnara þeirra.
Þegar Abraham var í þann mund að verða fórnað af hinum egypska presti Elkena, hrópaði hann til Guðs um að bjarga sér og Guð gerði það.22 Abraham lifði til að verða faðir hinna trúföstu, hvers niðjar myndu blessa allar fjölskyldur jarðar.23 Á þessu sama altari hafði þessi sami prestur Elkena þó áður fórnað þremur meyjum, sem „vegna dyggða [sinna] … vildu ekki lúta og tilbiðja guði úr tré eða steini.“24 Þær létu lífið þar sem píslarvottar.
Jósef forðum, seldur í þrældóm sem unglingur af bræðrum sínum, sneri sér í angist sinni til Guðs. Smám saman ávann hann sér frægð í húsi húsbónda síns í Egyptalandi, en síðan var öllum frama hans svift í burtu, vegna rangra ásakana eiginkonu Pótífars. Jósef hefði getað hugsað: „Svo fangelsi eru laun þess að halda skírlífislögmálið.“ Þess í stað hélt hann áfram að snúa sér til Guðs og naut farsældar, jafnvel í fangelsi. Jósef varð aftur fyrir miklum vonbrigðum þegar fanginn sem hann vingaðist við, gleymdi honum algjörlega, þrátt fyrir loforð sitt við Jósef, eftir að hafa verið endurreistur í trúnaðarstöðu við hirð Faraós. Að lokum, eins og þið vitið, greip Drottinn inn í til að setja Jósef í æðstu valdastöðu trausts og virðingar við hlið Faraós, sem gerði Jósef kleift að bjarga húsi Ísraels. Vissulega gat Joseph vitnað „að þeim, sem Guð elskar, samverkar allt til góðs.“25
Abinadí var staðráðinn í að uppfylla guðlegt ætlunarverk sitt. „En ég lýk erindi mínu,“ sagði hann, „og þá skiptir litlu, hvað um mig verður, svo framarlega sem ég er hólpinn.“26 Honum var ekki hlíft við píslarvætti, en hann frelsaðist sannarlega í Guðs ríki og hinn eini, dýrmæti trúskiptingur hans, Alma, breytti sögu Nefíta, fram að komu Krists.
Alma og Amúlek frelsuðust úr fangelsi í Ammóníaborg sem svar við bæn þeirra og ofsækjendur þeirra fórust.27 Áður höfðu þó þessir sömu ofsækjendur hins vegar kastað trúuðum konum og börnum í brennandi eld. Alma, sem var vitni að þessum hræðilega atburði, var hvattur af andanum til að beita ekki krafti Guðs til að „[bjarga] þeim úr logunum“28 til að taka mætti á móti þeim í dýrð til Guðs.29
Spámaðurinn Joseph Smith var örmagna í Liberty-fangelsinu í Missouri og ófær um að aðstoða hina heilögu er þeir voru rændir og hraktir frá heimilum sínum á fimbulköldum vetri. „Ó Guð, hvar ert þú?“ hrópaði Joseph. „Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni?“30 Í svari sínu lofaði Drottinn: „Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund. Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum. … Enn ert þú ekki sem Job.“31
Í lokin gat Joseph sagt með Job: „Sjá, [Guð] mun deyða mig – ég bíð hans.“32
Öldungur Brook P. Hales sagði sögu af systur Patriciu Parkinson, sem fæddist með eðlilega sjón, en varð blind 11 ára gömul.
Öldungur Hales sagði: „Ég hef þekkt Pat í mörg ár og nýlega sagði ég henni að ég dáðist að því hvað hún væri alltaf jákvæð og hamingjusöm. Hún svaraði: ,Þú hefur nú ekki alltaf verið með mér heimavið, er það? Ég á mínar stundir. Ég hef tekist á við alvarlegt þunglyndi og ég hef grátið mikið.‘ Hins vegar bætti hún við: ,Það var skrítið, en frá því að ég fór að missa sjónina, þá vissi ég að himneskur faðir og frelsarinn væru með mér og fjölskyldu minni. Þegar fólk spyr hvort að ég sé reið yfir því að vera blind, þá svara ég: „Hvern ætti ég að vera reið við? Himneskur faðir er með mér í þessu, ég er ekki ein. Hann er alltaf með mér.“‘“33
Á endanum er það sú blessun að eiga nánara og varanlegt samband við föðurinn og soninn sem við sækjumst eftir. Þetta skiptir öllu máli og er ævarandi þess virði. Ég vitna með Páli, „að ekki séu þjáningar þessa tíma [jarðlífsins] neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.“34 Ég ber vitni um að sama hvað á dynur í jarðneskri reynslu okkar, þá getum við treyst Guði og fundið gleði í honum.
„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“35
Í nafni Jesú Krists, amen.