Aðalráðstefna
Trúarumbreyting er markmið okkar
Aðalráðstefna apríl 2022


10:25

Trúarumbreyting er markmið okkar

Það kemur ekkert í staðinn fyrir þann tíma sem þið verjið með ritningunum, að hlýða á heilagan anda tala beint til ykkar.

Í rúm þrjú ár höfum við, meðlimir kirkju Drottins, verið á ferðalagi saman. Það var í október 2018 þegar Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin buðu okkur að læra um Jesú Krist með því að nema ritningarnar á nýjan og innblásinn máta með Kom, fylg mér námsefnið okkur til leiðsagnar.

Á hverju ferðalagi er gott að nema aðeins staðar til að meta árangur okkar og vera viss um að við séum enn að færast áfram í átt að markmiði okkar.

Trúarumbreyting er markmið okkar

Hugleiðið þessa innihaldsríku setningu úr inngangi Kom, fylg mér:

„Markmið alls trúarnáms og kennslu, er að auka trú okkar og hjálpa okkur að verða líkari Jesú Kristi. …

… Að læra fagnaðarerindið á þann hátt að það styrki trú okkar og leiði til mikillar trúarumbreytingar, gerist ekki í einni svipan. Hún gerist með því að ná til hjartna og heimila einstaklinga utan kennslustofunnar. Það krefst stöðugrar, daglegrar viðleitni að skilja og tileinka sér fagnaðarerindið. Trúarnám sem leiðir til sannrar trúarumbreytingar krefst áhrifa heilags anda.“1

Það er kraftaverkið sem við leitum að – þegar ein manneskja upplifir eitthvað við lestur ritninganna2 og sú upplifun er blessuð af áhrifum heilags anda. Slík reynsla er dýrmæt undirstaða fyrir samræður okkar við frelsarann. Eins og Russell M. Nelson forseti minnti okkur á nýlega, þá verður að styrkja andlega undirstöðu okkar reglulega.3 Langvarandi trúarumbreyting er lífstíðarferli.4 Trúarumbreyting er markmið okkar.

Til þess að það hafi mest áhrif, verður reynsla ykkar af ritningunum að vera ykkar eigin5 Það kann að hjálpa að hlýða á reynslu annarra og innsýn, en það mun ekki hafa sömu trúarumbreytanlegu áhrif. Það kemur ekkert í staðinn fyrir þann tíma sem þið verjið með ritningunum, að hlýða á heilagan anda tala beint til ykkar.

Hvað er heilagur andi að kenna mér?

Í hverri viku, er ég opna Kom, fylg mér bókina mína, skrifa ég þessa spurningu efst á síðuna: „Hvað er heilagur andi að kenna mér þessa vikuna er ég les þessa kafla?

Þegar ég les ritningarnar hugleiði ég þá spurningu ítrekað í huga mínum. Án undantekninga fæ ég svo andleg hughrif og ég skrái þau í bókina mína.

Hvernig veit ég þá hvenær andinn er að kenna mér? Yfirleitt gerist það á hljóðan og einfaldan hátt. Stundum er það hending úr ritningunum sem virðist stökkva af blaðsíðunum og grípa athygli mína. Á öðrum stundum finnst mér eins og hugur minn upplýsist með víðari skilningi á lögmáli fagnaðarerindisins. Ég skynja einnig áhrif heilags anda þegar eiginkona mín, Anne Marie og ég ræðum um það sem við erum að lesa. Viðhorf hennar býður ávallt andanum heim.

Spámaðurinn og páskahátíðin

Á þessu ári erum við að læra í Gamla testamentinu – heilögum ritningum sem fylla sálu okkar af ljósi. Á sama tíma og ég les Gamla testamentið finnst mér ég vera að verja tíma með tryggum leiðbeinendum: Adam, Evu, Enok, Nóa, Abraham og svo mörgum öðrum.

Í þessari viku, er við lesum í 2. Mósebók, kapítulum 7–13, lærum við um það hvernig Drottinn frelsaði Ísraelslýð frá aldagamalli ánauð í Egyptalandi. Við lesum um plágurnar níu – níu áhrifamiklar birtingarmyndir um kraft Guðs – sem Faraó varð vitni að án þess að það mildaði hjarta hans.

Þá sagði Drottinn spámanni sínum Móse, frá tíundu plágunni – og hvernig hver fjölskylda í Ísrael gæti búið sig undir hana. Sem hluta af helgisiði sem þeir myndu kalla páskahátíðina, áttu Ísraelsmenn að fórna lýtalausu karlkyns lambi. Því næst áttu þeir að merkja dyrastafi heimila sinna með blóði lambsins. Drottinn lofaði því að öll þau heimili sem svo væru merkt með blóði yrðu vernduð fyrir þeirri hryllilegu plágu sem var við það að koma.

Ritningarnar segja: „Þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið Móse“ (2. Mósebók 12:28). Það er eitthvað mjög kraftmikið í þessari einföldu yfirlýsingu hlýðni.

Af því að Ísraelsmenn fylgdu leiðsögn Móse og gjörðu svo í hlýðni, var þeim bjargað frá plágunni og svo síðar, frelsaðir úr ánauð sinni.

Hvað kenndi svo heilagur andi mér í þessum kapítulum þessa vikuna?

Hér eru nokkur þeirra atriða sem hafa hvílt á huga mínum.

  • Drottinn vinnur gegnum spámenn sína til að vernda og bjarga lýð sínum.

  • Trúin og auðmýktin til að fylgja spámanninum kom á undan kraftaverki verndar og björgunar.

  • Blóðið á dyrastöfunum var útvortis merki um innvortis trú á Jesú Krist, lamb Guðs.

Spámaðurinn og loforð Drottins

Ég er mjög hrifinn af hliðstæðunni á milli þess hvernig Drottinn blessaði fólk sitt í sögunni í Gamla testamentinu og því hvernig hann blessar fólk sitt í dag.

Þegar lifandi spámaður Drottins, Nelson forseti kynnti okkur fyrir Kom, fylg mér sem leið til að nema ritningarnar, bauð hann okkur að umbreyta heimilum okkar í athvarf trúar og miðstöð trúarnáms.

Því næst lofaði hann okkur fjórum ákveðnum blessunum:

  1. Helgidagar ykkar verða ljúfir,

  2. börn ykkar munu hlakka til að læra og lifa eftir kenningum frelsarans,

  3. áhrif andstæðingsins á líf ykkar og heimili munu minnka, og

  4. þessar breytingar á fjölskyldu ykkar verða afgerandi og varanlegar.6

Við eigum engar dagbókarfærslur frá þeim sem upplifðu páskahátíðina með Móse í Egyptalandi. Hins vegar eigum við marga vitnisburði frá hinum heilögu sem eru að fylgja ráði Nelsons forseta í dag með jafn mikilli trú og eru að meðtaka þær blessanir sem lofað hefur verið.

Hér eru nokkrir slíkir vitnisburðir:

Móðir ungrar fjölskyldu sagði: „Við tölum um Krist og fögnum í Kristi á heimili okkar. Það er mér mesta blessunin – að börn mín geti vaxið upp með þessar umræður um fagnaðarerindið á heimilinu, sem færir þau nær frelsaranum.“7

Eldri bróðir kallaði nám sitt á ritningunum með Kom, fylg mér „leiðslu fyllta guðlegu ljósi sem hjálpar okkur að sjá kenningar fagnaðarerindisins sem eru nauðsynlegar andlegri velferð okkar.“8

Ung eiginkona lýsti blessununum í hjónabandi sínu: „Ég hef getað kynnst hjarta eiginmanns míns nánar og ég hef getað opnað honum hjarta mitt betur er við lærum saman.“9

Móðir stórrar fjölskyldu tók eftir því hvernig viðleitni hennar við kennslu fjölskyldu hennar breyttist. Hún sagði: „Þegar ég horfi tilbaka, þá var eins og að ég væri að spila á píanóið með vettlingum. Ég fór í gegnum ferlið en tónlistin hljómaði bara ekki alveg rétt. Nú er ég búin að taka af mér vettlingana og þó að tónlistin sé ekki enn fullkomin þá heyri ég muninn. Kom, fylg mér hefur veitt mér sýn, getu, áherslu og tilgang.“10

Ungur eiginmaður sagði: „Aðal forgangsatriðin á heimilinu hafa orðið skýrari eftir að ég hef gert Kom, fylg mér að reglubundnum hluta morgnanna hjá mér. Námið fær mig til að hugsa meira um það sem skiptir mig mestu, eins og musterið, samband mitt við eiginkonu mína og kallanir mínar. Ég er þakklátur að heimili mitt er athvarf þar sem Guð er í fyrsta sæti.“11

Systir sagði: „Dagleg reynsla mín með Kom, fylg mér er venjulega ekkert merkileg, en horft til baka get ég séð hvernig ég hef breyst með stöðugu og einbeittu námi á ritningunum. Slíkt nám gerir mig auðmjúka, kennir mér og breytir smátt og smátt.“12

Heimkominn trúboði sagði: „Áætlun Kom, fylg mér hefur fært mig nær því ritningarnámi sem ég stundaði á trúboði mínu og ég hef náð að fara frá hugarfari ritningarlesturs þess að merkja við, að verulega auðgandi stundum þess að kynnast Guði.“13

Bróðir sagði: „Ég finn að ég býð heilögum anda meira inn í líf mitt og skynja opinberandi leiðsögn Guðs í ákvarðanatökum. Ég á dýpri samtöl varðandi fegurðina í einfaldri kenningu Krists og friðþægingar hans.“14

Sjö ára barn sagði: „Ég skírist fljótlega og Kom, fylg mér er að undirbúa mig. Fjölskylda mín og ég tölum um skírn og ég kvíði því ekki lengur að skírast núna. Kom, fylg mér hjálpar heilögum anda að koma í hjarta mér og mér yljar við að lesa ritningarnar.“15

Að lokum, frá móður með nokkur börn: „Er við nemum orð Guðs hefur hann hjálpað fjölskyldu okkar að fara frá áhyggjum að krafti, frá erfiðleikum og áskorunum að lausn, frá ágreiningi og gagnrýni að kærleika og friði og frá áhrifum andstæðingsins að áhrifum Guðs.“16

Þessir og margir aðrir trúfastir fylgjendur Krists, hafa smurt blóði lambs Guðs á dyrastafina á heimilum sínum á táknrænan hátt. Þeir eru að votta innri ásetning sinn um að fylgja frelsaranum. Trú þeirra kemur á undan kraftaverkinu. Það er kraftaverkið þegar ein manneskja upplifir eitthvað við lestur ritninganna og sú upplifun er blessuð af áhrifum heilags anda.

Þegar við lesum ritningarnar er engin andleg hungursneyð í landinu. Eins og Nefí sagði: „Hver sá, sem fylgir orði Guðs og varðveitir það, mun aldrei farast, né heldur geta freistingar eða eldtungur andstæðingsins blindað þá og leitt þá þannig til tortímingar“ (1. Nefí 15:24).

Þegar Ísraelsmenn fylgdu leiðsögn Drottins til forna, fyrir milligöngu Móse, voru þeir blessaðir með öryggi og frelsi. Þegar við fylgjum leiðsög Drottins í dag, sem við fáum í gegnum lifandi spámann okkar Nelson forseta, erum við álíka blessuð með trúarumbreytingu í hjörtum okkar og vernd fyrir heimili okkar.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur lifir. Þetta er hans kirkja, endurreist á jörðu fyrir tilverknað spámannsins Joseph Smith. Russell M. Nelson forseti er spámaður Drottins í dag. Ég elska hann og styð. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022, vii.

  2. „Sérhvert okkar ber ábyrgð á eigin andlegum vexti“ (Russell M. Nelson, „Upphafsorð,“ aðalráðstefna, október 2018).

  3. See Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, október 2021.

  4. Þetta er mikilvæg ástæða þess að Nelson forseti hefur beðið okkur að „helga Drottni tíma! Tryggið ykkar eigin andlegu undirstöðu, svo hún fái staðist tímans tönn, með því að gera það sem gerir heilögum anda kleift að vera ætíð með ykkur” („Helga Drottni tíma,“ aðalráðstefna, október 2021).

  5. „Burt séð frá því hvað aðrir gætu eða gætu ekki sagt, þá getur engin afmáð vitnisburð um sannleika sem staðfestur er í hjarta og huga“ (Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018).

  6. Sjá Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, okt. 2018. Nelson forseti endurtók þetta boð síðast í apríl: „Skuldbinding ykkar um að gera heimili ykkar að mikilvægasta griðarstað trúar ætti aldrei að falla úr gildi. Eftir því sem trú og heilagleiki dvína í þessum fallna heimi, mun þörf ykkar fyrir heilaga staði aukast. Ég hvet ykkur til að halda áfram að gera heimili ykkar að heilögum stað „og haggist ekki“ [Kenning og sáttmálar 87:8; breytt letur hér] frá þessu nauðsynlega takmarki” („Það sem við lærum og munum aldrei gleyma,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

  7. Einkabréf. Sjá einnig 2. Nefí 25:26.

  8. Einkabréf.

  9. Einkabréf.

  10. Einkabréf.

  11. Einkabréf.

  12. Einkabréf.

  13. Einkabréf.

  14. Einkabréf.

  15. Einkabréf.

  16. Einkabréf.