Kenna börnum og ungmennum sjálfsbjargarviðleitni
Við skulum fylgja frelsara okkar Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans með því að verða sjálfbjarga alla ævi og kenna það börnum okkar og ungmennum.
Ég ætla að ræða um sjálfsbjargarviðleitni og hvernig hægt er að kenna hana börnum og ungmennum. Líta má á sjálfsbjargarviðleitni sem viðfangsefni fullorðinna. Ég hef komist að því að fullorðnir geti best tileinkað sér sjálfsbjargarviðleitni þegar þeim hefur verið kennt fagnaðarerindi Jesú Krists og þegar þau iðka kenningu þess og reglur frá barnæsku og sem ungmenni á heimili sínu.
Besta skýringarmyndin er gott raunveruleikadæmi. Wilfried Vanie, sjö systkini hans og móðir, gengu í kirkjuna í Abidjan á Fílabeinsströndinni þegar hann var sex ára. Hann var skírður átta ára gamall. Faðir hans, aðal fyrirvinna fjölskyldunnar, lést þegar Wilfried var ellefu ára.
Þótt Wilfried væri leiður yfir fjölskylduaðstæðunum, ákvað Wilfried að halda áfram í skóla með hvatningu móður sinnar og stuðningi kirkjunnar. Hann útskrifaðist úr framhaldsskóla og þjónaði í fastatrúboði í Cape Coast-trúboðinu í Gana, þar sem hann lærði ensku. Eftir trúboðið fór hann í háskóla og fékk prófskírteini í bókhaldi og fjármálum. Þótt erfitt hafi verið að fá starf á þessu sviði fann hann atvinnu í ferðaþjónustu og hóteliðnaði.
Hann byrjaði sem þjónn á fimm stjörnu hóteli, en ástríða hans til að bæta við sig, leiddi til þess að hann lærði meira, uns hann varð tvítyngdur móttökustarfsmaður þar. Þegar nýtt hótel opnaði, var hann ráðinn sem næturendurskoðandi. Síðar skráði hann sig í BYU–Pathway Worldwide og er nú á námsbraut til að öðlast prófskírteini í ferðaþjónustu og hótelrekstri. Löngun hans er að verða dag einn framkvæmdastjóri hágæða hótels. Wilfried getur séð fyrir sínum eilífa félaga og tveimur börnum, auk þess að hjálpa móður sinni og systkinum. Hann þjónar nú í kirkjunni sem meðlimur í háráði stikunnar.
Að vera sjálfbjarga, er skilgreint sem „geta, skuldbinding og viðleitni til að sjá sér sjálfum og fjölskyldu sinni fyrir andlegum og stundlegum nauðsynjum.“1 Að leitast við að vera sjálfbjarga, er hluti af því sem við gerum á sáttmálsveginum, sem leiðir okkur aftur til himnesks föður og til sonar hans, Jesú Krists. Það mun styrkja trú okkar á Jesú Krist og binda okkur honum af gleði, með sáttmálum og helgiathöfnum hjálpræðis og upphafningar. Að vera sjálfbjarga, er kenning fagnaðarerindis Jesú Krists, en ekki dagskrá. Það er ferli sem varir alla ævi, en er ekki atburður.
Við verðum sjálfbjarga alla ævi með því að vaxa að andlegum styrk, líkamlegri og tilfinningalegri heilsu, leita menntunar og atvinnu og vera stundlega viðbúin.2 Lýkur þessu viðfangsefni einhvern tíma á ævi okkar? Nei, það er ævilangt ferli náms, vaxtar og vinnu. Það endar aldrei; það er samfellt, daglegt ferli.
Hvernig getum við kennt börnum okkar og ungmennum kenninguna og reglurnar um sjálfsbjargarviðleitni? Ein mikilvæg leið er reglubundin notkun áætlunar barna og unglinga. Foreldrar og systkini læra fagnaðarerindi Jesú Krists, taka þátt í þjónustu og viðburðum og vinna saman á fjórum sviðum persónulegs þroska, sem er sérsniðinn að hverju barni. Þetta er ekki lengur sama megin áætlunin fyrir alla.
Í Leiðarvísi fyrir börn segir: „Þegar Jesús var á ykkar aldri, lærði hann og óx. Þið eruð líka að læra og vaxa. Í ritningunum segir: ,Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum‘ (Lúkas 2:52).“3 Þessi ritning vísar til vaxtar og náms á andlegu sviði, að náð hjá Guði; félagslegu sviði, að náð hjá mönnum; líkamlegu sviði, að vexti; og vitsmunalegu sviði, að visku. Þessi þroskasvið eiga við um okkur öll, sama hver aldur okkar er. Hvenær kennum við þau? Í 5. Mósebók 6:6–7 lesum við:
„Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst.
Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“
Við kennum börnum þetta með góðu fordæmi, er við störfum og þjónum með þeim, lærum ritningarnar og fylgjum kenningum Jesú Krists, eins og spámenn kenna þær.
Ég hef sagt frá því að í áætlun barna og unglinga velja börn sér mismunandi markmið á hverju hinna fjögurra þroskasviða. Mikilvægt er að þau búi til sín eigin markmið á hverju sviðanna. Foreldrar og leiðtogar geta kennt, leiðbeint og stutt.
Barnabarnið okkar, Miranda, er til dæmis afar ákveðin í því að vaxa andlega með því að taka þátt í daglegum kennslustundum trúarskólans snemma morguns. Áhuginn á því vaknaði þegar hún heyrði jákvæðar athugasemdir frá öðrum trúarskólanemum í deild hennar. Móðir hennar þarf ekki að vekja hana fyrir kennslustundir. Hún vaknar sjálf og tengist myndbandsfundi á tilsettum tíma, klukkan 6:20 á morgnana, vegna þess að hún hefur þróað með sér góðar venjur sér til hjálpar við að gera það. Foreldrar mínir sögðu mér nýlega að Miranda tali nú meira þegar hún heimsækir þau, þar sem sjálfstraustið hefur vaxið. Þetta er lærdómur fyrir líf og áberandi vaxtarárangur.
Foreldrar, afar og ömmur, leiðtogar og vinir aðstoða við vöxt og þroska barnanna. Fullvirkir þjónandi bræður og systur, ásamt leiðtogum prestdæmis og samtaka deildarinnar veita stuðning. Í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ segir: „Samkvæmt guðlegri áætlun eiga feður að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana. Meginábyrgð mæðra er að annast börnin. Við þessa helgu ábyrgð ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar. … Ættingjar ættu að veita stuðning þegar með þarf.“4 Síðasta línan vísar meðal annars til afa og ömmu.
Er við þjónum í Vestur-Afríku, vinnur eiginkona mín, Nuria, ótrúlegt starf við að þjóna og halda sambandi við fjölskyldu okkar og barnabörn handan hafsins. Þetta gerir hún með því að nota tæknina. Hún les bækur fyrir yngri barnabörnin. Hún kennir eldri barnabörnum ættarsögu okkar, vísindaefni, sögu Púertó Ríkó, Trúaratriðin og fagnaðarerindi Jesú Krists. Fjarlægðir á okkar tíma takmarka ekki tengingu, sameiningu, þjónustu og kennslu uppvaxandi kynslóðar fjölskyldna okkar. Ég tek líka þátt með Nuriu þegar ég get, í að kenna okkar dýrmætu barnabörnum, elska þau og dekra við þau og fá þau til að hlæja.
Þið ættuð að gæta að innblásnum tengingum á milli þroska barna og ungmenna og að innræta þeim sjálfsbjargarviðleitni. Vaxtarsviðin fjögur eru innbyrðis mjög svipuð. Sjálfsbjargarviðleitni andlegs styrks tengist andlega sviði barna og ungmenna. Sjálfsbjargarviðleitni líkamlegs og tilfinningalegs heilbrigðis tengist líkamlegum og félagslegum sviðum barna og ungmenna. Sjálfsbjargarviðleitni menntunar, atvinnu og stundlegs viðbúnaðar tengist vitsmunalega sviðinu í áætlun barna og unglinga.
Að lokum, skulum við fylgja frelsara okkar Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans með því að verða sjálfbjarga alla ævi og kenna það börnum okkar og ungmennum. Við getum gert þetta best með því að:
-
Þjóna öðrum með góðu fordæmi.
-
Lifa eftir og kenna kenningu og reglur sjálfsbjargarviðleitni.
-
Hlýða boðorðinu um að verða sjálfbjarga, sem hluta af fagnaðarerindi Jesú Krists.
Í Kenningu og sáttmálum 104:15–16 segir:
„Og ætlun mín er að sjá um mína heilögu, því að allt er mín eign.
En það verður að gjörast á minn hátt. Og sjá, þannig hef ég, Drottinn, ákvarðað að sjá um mína heilögu, að hinir fátæku verði upp hafnir með því að hinir ríku verði niðurlægðir.“
Þetta er kirkja Jesú Krists. Fagnaðarerindi hans blessar fjölskyldur hér á jörðu og um alla eilífð. Það leiðir okkur í lífinu þegar við keppum að því að verða eilífar fjölskyldur. Ég veit að það er satt. Í nafni Jesú Krists, amen.