Aðalráðstefna
Því svo elskaði Guð okkur
Aðalráðstefna apríl 2022


9:58

Því svo elskaði Guð okkur

Guð elskaði okkur svo að hann sendi eingetinn son sinn – ekki til að dæma okkur, heldur til að frelsa okkur.

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf [eingetinn son] sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ (Jóhannes 3:16). Í fyrsta skiptið sem ég tók eftir þessu versi, var ég ekki í kirkju eða kvöldstund fjölskyldunnar. Ég var að horfa á íþróttaviðburð í sjónvarpinu. Sama hvaða sjónvarpsstöð ég stillti á og sama hvaða leikur var í gangi, þá hélt að minnsta kosti einn einstaklingur uppi skilti þar sem á stóð: „Jóhannes 3:16.“

Ég hef lært að meta vers 17 jafn mikið: „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.“

Guð sendi Jesú Krist, einkason sinn í holdinu, til að fórna lífi sínu fyrir hvert og eitt okkar. Þetta gerði hann því hann elskar okkur og útbjó áætlun svo sérhvert okkar fengið snúið aftur heim til hans.

Sú áætlun er ekki eins og teppi, grípur allt eða er tilviljunarkennd. Hún er persónubundin, framsett af ástríkum himneskum föður sem þekkir hjörtu okkar, nöfn og veit hvað hann vill að við gerum. Af hverju trúum við þessu? Vegna þess að heilagar ritningar kenna okkur þetta.

Móse heyrði himneskan föður segja endurtekið orðin „Móse, sonur minn“ (sjá HDP Móse 1:6; sjá einnig vers 7, 40). Abraham komst að raun um að hann væri barn Guðs, jafnvel útvalinn til þjónustu sinnar áður en hann fæddist (sjá Abraham 3:12, 23). Fyrir tilstilli Guðs, komst Ester í áhrifastöðu til að bjarga þjóð sinni (sjá Esterarbók 4). Guð treysti ungri þjónustukonu fyrir því að bera vitni um lifandi spámann, svo að Naaman gæti læknast (sjá 2. Konungabók 5:1–15).

Mér er sérlega kær góðhjartaði maðurinn, sem var lítill vexti, er klifraði upp í tré til að sjá Jesú. Frelsarinn vissi af honum, nam staðar, leit upp í tréð og mælti þessi orð: „Sakkeus, flýt þér ofan“ (Lúkas 19:5). Ekki getum við heldur gleymt hinum 14 ára gamla dreng, sem fór í trjálund og lærði hversu persónuleg áætlunin er í raun: „[Joseph,] þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – Saga 1:17).

Bræður og systur, áætlun himnesks föður tekur mið af okkur og er ástæðan fyrir þjónustu frelsara okkar. Við erum öll, hvert og eitt okkar, verk þeirra og dýrð þeirra.

Fyrir mér sýnir engin bók ritninganna þetta betur en Gamla testamentið, sem ég hef rannsakað. Kapítula eftir kapítula, uppgötvum við dæmi um það hvernig himneskur faðir og Jehóva taka náið þátt í lífi okkar.

Nýlega höfum við verið að læra um Jósef, ástkæran son Jakobs. Allt frá æsku var Jósef mikillar náðar Drottins aðnjótandi, en upplifði þrátt fyrir það miklar raunir af höndum bræðra sinna. Fyrir tveimur vikum snerti það mörg okkar hvernig Jósef fyrirgaf bræðrum sínum. Í Kom, fylg mér lesum við: „Líf Jósefs er að mörgu leiti samsvarandi lífi Jesú Krists. Þó að syndir okkar hafi valdið frelsaranum mikilli þjáningu, býður hann okkur fyrirgefningu sem frelsar okkur öll frá enn verri örlögum en hungursneyð. Hvort sem við þurfum að öðlast eða bjóða fram fyrirgefningu, þá þurfum við á einhverjum tímapunkti að gera hvort tveggja. Fordæmi Jósefs leiðir okkur til frelsarans, hinnar sönnu uppsprettu lækningar og sáttar.“1

Eina lexíu úr þessari frásögn, sem mér er kær, lærum við af Júda, bróður Jósefs, sem lék hlutverk í persónubundinni áætlun Guðs fyrir Jósef. Þegar Jósef var svikinn af bræðrum sínum, taldi Júda þá á að drepa ekki Jósef, heldur selja hann í ánauð (sjá 1. Mósebók 37:26–27).

Mörgum árum síðar, þurftu Júda og bræður hans að fara með yngsta bróður þeirra, Benjamín, til Egyptalands. Upphaflega var faðir þeirra á móti þessu. Júda gaf Jakobi loforð – hann skyldi snúa aftur heim með Benjamín.

Í Egyptalandi var loforð Júda fullreynt. Hinn ungi Benjamín var ranglega ásakaður um að hafa framið glæp. Júda, sem hélt loforð sitt, bauðst til að sitja í fangelsi í stað Benjamíns. Hann sagði: „Hvernig gæti ég farið heim til föður míns án þess að hafa drenginn með mér?“ (sjá 1. Mósebók 44:33–34). Júda var staðráðinn í að halda loforð sitt og snúa aftur með Benjamín heilan á húfi. Berið þið sömu tilfinningar til annarra og Júda bar til Benjamíns?

Eru þetta ekki tilfinningar foreldra til barna sinna? Tilfinningar trúboða til fólksins sem þeir þjóna? Tilfinningar leiðtoga Barnafélags og ungmenna til þeirra sem þeir kenna og elska?

Sama hver þið eruð eða hvaða aðstæðum þið eruð í, þá ber einhver einmitt þessar tilfinningar til ykkar. Einhver vill snúa aftur til himnesks föður með ykkur.

Ég er þakklátur fyrir þá sem gefa okkur aldrei upp á bátinn, sem halda áfram að úthella sál sinni í bæn fyrir okkur og halda áfram að kenna og hjálpa okkur að verða hæf til að snúa aftur heim til föður okkar á himnum.

Kær vinur varði nýlega 233 dögum á sjúkrahúsi með Kóvid-19. Á þessum tíma vitjaði hans látinn faðir hans, sem bað hann fyrir skilaboð til barnabarna sinna. Jafnvel handan hulunnar, þráði þessi gæskuríki afi að hjálpa barnabörnum sínum að snúa aftur til himneskra heimkynna sinna.

Lærisveinar Krists muna sífellt oftar eftir „Benjamínum“ í lífi sínu. Um allan heim hafa þeir heyrt skýrt kall lifandi spámanns Guðs, Russells M. Nelson forseta. Piltar og stúlkur taka þátt í æskulýðsfylkingu Drottins. Einstaklingar og fjölskyldur liðsinna öðrum í þjónustuanda – sýna kærleika, miðla og bjóða vinum og nágrönnum að koma til Krists. Ungmenni og fullorðnir hafa sáttmála sína hugfasta og keppa að því að halda þá – fylla musteri Guðs, finna nöfn látinna ættmenna og meðtaka helgiathafnir í þeirra þágu.

Af hverju felur hin persónubundna áætlun himnesks föður fyrir okkur í sér að við hjálpum öðrum að snúa aftur til hans? Af því að þannig verðum við líkari Jesú Kristi. Sagan af Júda og Benjamín kennir okkur um fórn frelsarans fyrir okkur. Hann gaf líf sitt með friðþægingunni, til að færa okkur heim. Orð Júda tjá elsku frelsarans: „Hvernig gæti ég farið heim til föður míns án þess að hafa [ykkur] með mér?“ Sem samansafnarar Ísraels, getum við einnig gert þessi orð að okkar eigin.

Gamla testamentið er fullt af kraftaverkum og mildri miskunn sem er einkennandi fyrir áætlun himnesks föður. Í 2. Konungabók 4, er orðtakið „dag nokkurn“ notað þrisvar til að vekja athygli mína á að mikilvægir atburðir gerist að tíma Guðs og að ekkert smáatriði sé honum of smátt.

Nýr vinur minn, Paul, vitnar um þennan sannleika. Paul ólst upp á heimili sem var stundum ofbeldisfullt og alltaf andstætt trúarbrögðum. Þegar hann gekk í skóla í herstöð í Þýskalandi, vöktu athygli hans tvær systur sem virtust hafa andlegt ljós. Hann spurði af hverju þær væru öðruvísi og var svarað að þær tilheyrðu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Paul hitti trúboða skömmu síðar og honum var boðið í kirkju. Sunnudaginn þar á eftir, þegar hann sté út úr strætisvagninum, tók hann eftir tveimur mönnum klæddum hvítum skyrtum með bindi. Hann spurði þá hvort þeir væru öldungar kirkjunnar. Þeir svöruðu játandi og Paul fylgdi þeim eftir.

Á samkomunni benti prédikari á fólk í söfnuðinum og bauð því að bera vitni. Við lok hvers vitnisburðar, sló trommari fagnaðarslög á trommu og söfnuðurinn hrópaði: „Amen.“

Þegar prédikarinn benti á Paul, stóð hann upp og sagði: „Ég veit að Joseph Smith var spámaður og að Mormónsbók er sönn.“ Engin fagnaðarslög voru slegin eða amenhróp heyrðust. Paul áttaði sig loks á því að hann hefði farið í ranga kirkju. Paul fann fljótlega leiðina að réttum stað og var skírður.

Á skírnardegi Pauls, sagði meðlimur sem hann þekkti ekki: „Þú bjargaðir lífi mínu.“ Nokkrum vikum áður, hafði þessi maður ákveðið að leita sér að annarri kirkju og fór á samkomu með trommuslætti og amenhrópum. Þegar maðurinn heyrði Paul gefa vitnisburð um Joseph Smith og Mormónsbók, skildi hann að Guðs þekkti hann, hafði skilning á erfiðleikum hans og hafði áætlun fyrir hann. Þetta féll sannlega á „dag nokkurn,“ fyrir bæði Paul og manninn.

Við vitum líka að himneskur faðir hefur persónubundna sæluáætlun fyrir hvert okkar. Vegna þess að Guð sendi ástkæran son sinn fyrir okkur, munu þau kraftaverk sem við þörfnumst einmitt falla á þann ákveðna „dag,“ sem nauðsynlegur er til að áætlun hans fái uppfyllst.

Ég ber vitni um að við getum á þessu ári lært meira um áætlun Guðs fyrir okkur í Gamla testamentinu. Þetta helga rit kennir um hlutverk spámanna á óvissutímum og um hönd Guðs í heimi sem var ráðvilltur og oft á tíðum deilugjarn. Það snýst líka um auðmjúka átrúendur sem trúfastlega væntu komu frelsara okkar, alveg eins og við væntum og búum okkur undir síðari komu hans – hina dýrðlegu endurkomu hans, sem svo lengi hefur verið spáð fyrir um.

Allt fram að þeim degi, sjáum við ekki með okkar náttúrlegum augum áform Guðs varðandi öll svið lífs okkar (sjá Kenning og sáttmálar 58:3). Við getum þó munað viðbrögð Nefís þegar hann stóð andspænis einhverju sem hann skildi ekki: þrátt fyrir að þekkja ekki merkingu allra hluta, vissi hann að Guð elskar börn sín (sjá 1. Nefí 11:17).

Þetta er vitnisburður minn á þessum fallega hvíldardagsmorgni. Megum við skrá þetta á hjörtu okkar og leyfa að það fylli sálir okkar friði, von og eilífri gleði: Guð elskaði okkur svo að hann sendi eingetinn son sinn – ekki til að dæma okkur, heldur til að frelsa okkur. Í nafni Jesú Krists, amen.