Aðalráðstefna
Lyft upp hjarta þínu og fagna
Aðalráðstefna apríl 2022


11:27

Lyft upp hjarta þínu og fagna

Við vorum fædd á þessum tíma með guðlegan tilgang, samansöfnun Ísraels.

Drottinn talaði á hvetjandi hátt til Thomas B. Marsh, sem hafði nýlega tekið trú: „Lyft upp hjarta þínu og fagna, því að stund ætlunarverks þíns er upp runnin“ (Kenning og sáttmálar 31:3).

Ég tel að þetta boð geti verið öllum meðlimum kirkjunnar hvatning. Við höfum þrátt fyrir allt öll fengið það hlutverk frá himneskum föður að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar.

„Þessi samansöfnun,“ sagði Russell M. Nelson forseti, „er mikilvægasta verk á jörðinni í dag. Ekkert annað er sambærilegt að umfangi, ekkert annað er sambærilegt að mikilvægi og ekkert annað er sambærilegt að mikilfengleika.“1

Sannlega eru margir verðugir málstaðir í heiminum. Það er ómögulegt að minnast á þá alla. Mynduð þið ekki vilja taka þátt í miklum málstað sem stendur ykkur til boða og þar sem framlag ykkar skiptir sköpum? Samansöfnunin skiptir alla eilíflega máli. Fólk á öllum aldri getur tekið þátt í þessu verkefni, án tillits til aðstæðna þess og hvar það er búsett. Enginn málstaður í heiminum er jafn yfirgripsmikill.

Nelson forseti talaði sérstaklega til ungmenna og sagði að „himneskur faðir okkar [hafi] geymt marga af göfugustu öndum hans – kannski … besta liðið hans – fyrir þennan síðasta þátt. Þessir göfugu andar – þessir bestu leikmenn, þessar hetjur – eruð þið!“2

Já, undirbúningur ykkar hófst fyrir þetta líf og þið eruð fædd til þátttöku í hinu mikla verki að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar á þessum síðari dögum (sjá Kenning og sáttmálar 138:53–56).

Af hverju er þetta verkefni svona mikilvægt? Vegna þess að „verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“ (Kenning og sáttmálar 18:10). Einnig vegna þess að „hver, sem trúir á [Jesú Krist] og hefur hlotið skírn, mun hólpinn verða [og erfa] Guðs ríki“ (3. Nefí 11:33). Þar að auki „mun allt, sem [faðirinn] á, verða [þeim] gefið,“ sem taka á móti helgiathöfnum hans og halda sáttmála hans (Kenning og sáttmálar 84:38). Auk þess eru „verkamenn fáir“ (Lúkas 10:2).

Það er aðeins í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem við finnum máttinn, valdið og leiðina til að bjóða öðrum upp á slíka blessun, hvort sem þeir eru lifandi eða liðnir.

Nelson forseti sagði: „Alltaf þegar þið gerið eitthvað til hjálpar einhverjum – hinum megin hulunnar – að taka skref í átt að því að gera sáttmála við Guð og taka á móti hinum mikilvægu helgiathöfnum skírnar og musteris, eruð þið að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Svo einfalt er það.“3

Þrátt fyrir að hægt sé að hjálpa við samansöfnunina á ýmsan hátt, vil ég sérstaklega tala um eina þeirra: þjónustu sem fastatrúboði. Fyrir mörg ykkar þýðir þetta að vera kennslutrúboði. Fyrir aðra þýðir þetta að vera þjónustutrúboði. Heimurinn reynir að draga athygli ungmenna frá þessari helgu ábyrgð með því að nota hræðsluáróður og skapa óöryggi.

Fleiri truflanir gætu til dæmis verið upplifun heimsfaraldurs, að hætta í góðu starfi, frestun náms eða rómantískur áhugi á einhverjum. Hver og einn hefur sínar eigin áskoranir. Slíkar truflanir geta komið upp einmitt í þann mund sem við erum að ganga í þjónustu Guðs og þeir valkostir sem síðar virðast augljósir eru það ekki alltaf á því augnabliki.

Ég þekki af eigin raun þjakaðan huga slíks ungs einstaklings. Þegar ég bjó mig undir trúboð mitt, reyndu óvæntir aðilar að draga úr mér kjark. Einn þeirra var tannlæknirinn minn. Þegar hann áttaði sig á því að tíminn minn hafi verið bókaður til að ég gæti orðið trúboði, reyndi hann að telja mig á að þjóna ekki. Ég hafði ekki haft nokkurn grun um að tannlæknirinn minn væri á móti kirkjunni.

Einnig var flókið mál að gera hlé á námi mínu. Þegar ég bað um tveggja ára leyfi frá háskólanáminu, var mér tjáð að það væri ekki hægt. Ég myndi missa háskólaplássið ef ég kæmi ekki aftur eftir eitt ár. Þetta var alvarlegt, vegna þess að í Brasilíu var eina skilyrðið fyrir inngöngu í háskólanámið afar erfitt próf og þar var mikil samkeppni.

Eftir að krefjast þess endurtekið, fékk ég treglega þær upplýsingar að eftir árs fjarveru gæti ég sótt um undanþágu vegna óvenjulegra aðstæðna. Hún gæti verið samþykkt eða henni hafnað. Ég var skelfingu lostinn við tilhugsunina að taka aftur inntökuprófið erfiða eftir tveggja ára fjarveru í námi.

Ég var líka sérlega hrifinn af ungri konu. Nokkrir vina minna deildu hrifningu minni. Ég hugsaði með mér: „Ef ég fer í trúboð tek ég áhættu.“

Drottinn Jesús Kristur veitti mér mikinn innblástur, svo ég óttaðist ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér þegar ég reyndi að þjóna honum af öllu hjarta.

Hann hafði einnig ætlunarverk sem þurfti að uppfylla. Með eigin orðum útskýrði hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig“ (Jóhannes 6:38). Var þjónusta hans auðveld? Auðvitað ekki. Þjáning hans, sem var nauðsynlegur hluti af þjónustu hans, varð þess valdandi að hann, „sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaði [hann] þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar –

Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og [hann] tæmdi hann og lauk undirbúningi [sínum] fyrir mannanna börn“ (Kenning og sáttmálar 19:18–19).

Okkur getur virst það erfitt að þjóna í fastatrúboði. Ef til vill krefst það þess að við fórnum mikilvægum hlutum um stund. Drottinn veit þetta sannlega og verður okkur ávallt við hlið.

Raunar lofar Æðsta forsætisráðið í boðskap sínum til trúboða í Boða fagnaðarerindi mitt: „Drottinn mun launa þér og blessa þig ríkulega þegar þú þjónar honum af auðmýkt í bænarhug.“4 Það er satt að öll börn Guðs eru blessuð á einn hátt eða annan, en það er munur á því að vera blessuð og að vera ríkulega blessuð í þjónustu hans.

Munið þið eftir áskorunum sem ég taldi mig standa frammi fyrir áður en ég fór í trúboð? Tannlækninum mínum? Ég fann annan. Háskólanum? Ég fékk undanþágu frá honum. Munið þið eftir ungu konunni? Hún giftist einum minna góðra vina.

Guð hefur þó blessað mig ríkulega. Ég lærði að blessanir Drottins geta borist á annan hátt en þann sem við eigum von á. Þrátt fyrir allt, eru hans hugsanir ekki okkar hugsanir (sjá Jesaja 55:8–9).

Meðal hinna mörgu ríkulegu blessana sem hann hefur veitt mér fyrir að þjóna honum sem fastatrúboði, eru aukin trú á Jesú Krist og friðþægingu hans og sterkari vitneskja og vitnisburður um kenningar hans, svo að mér verður ekki auðveldlega haggað „af hverjum kenningarvindi“ (Efesusbréfið 4:14). Ég losnaði við hræðsluna við að kenna. Geta mín jókst til að takast við áskoranir með jákvæðni. Með því að fylgjast með einstaklingum og fjölskyldum sem ég kynntist eða kenndi sem trúboði, lærði ég að kenningar Guðs eru sannar, er hann segir að syndin veiti ekki sanna sælu og að hlýðni við boðorð Guðs stuðli að bæði stundlegri og andlegri farsæld okkar (sjá Mósía 2:41; Alma 41:10). Ég komst líka að raun um það að Guð er Guð kraftaverka (sjá Mormón 9).

Allt voru þetta lykilþættir í undirbúningi mínum fyrir líf sem fullorðinn einstaklingur, þar á meðal fyrir mögulegt hjónaband og foreldrahlutverk, kirkjuþjónustu og atvinnu- og samfélagslíf.

Eftir trúboð mitt, naut ég góðs af aukinni dirfsku til að kynna mig sem trúfastan fylgjanda Jesú Krists og kirkju hans, öllum mönnum og við allar aðstæður, jafnvel að miðla fagnaðarerindinu með fallegri konu sem síðar varð minn dyggðugi, vitri, skemmtilegi og ástkæri eilífi förunautur, sólargeisli lífs míns.

Já, Guð hefur blessað mig ríkulega, langt fram yfir það sem ég hafði ímyndað mér, alveg eins og hann mun blessa alla sem „[þjóna] honum af auðmýkt í bænarhug.“ Ég er Guði eilíflega þakklátur fyrir góðvild hans.

Trúboðið hefur mótað líf mitt. Ég lærði að það er þess virði að treysta Guði, treysta visku hans og miskunn og fyrirheitum hans. Þrátt fyrir allt, er hann faðir okkar og óskar okkur án nokkurs vafa alls hins besta.

Kæru ungmenni um allan heim, eins og spámaður okkar, Nelson forseti, býð ég ykkur „að skrá ykkur í æskulýðssveit Drottins, til að safna saman Ísrael.“ Nelson forseti sagði:

Ekkert er mikilvægara. Ekki nokkur skapaður hlutur.

Þessi samansöfnun ætti að vera ykkur einstaklega mikilvæg. Þetta er sú þjónusta sem þið voru send til að inna af hendi á jörðu.“5

Við vorum fædd á þessum tíma með guðlegan tilgang, samansöfnun Ísraels. Þegar við þjónum sem fastatrúboðar, tökumst við stundum á við áskoranir, en í slíkum kringumstæðum er Drottinn sjálfur okkar mikla fyrirmynd og leiðsögumaður. Hann hefur skilning á erfiðum ætlunarverkum. Með hans hjálp, getum við gert erfiða hluti. Hann verður okkur við hlið (sjá Kenningu og sáttmála 84:88) og hann mun blessa okkur ríkulega þegar við þjónum honum af auðmýkt.

Vegna alls þessa, furða ég mig ekki á því að Drottinn hafi sagt við Thomas B. Marsh og okkur öll: „Lyft upp hjarta þínu og fagna, því að stund ætlunarverks þíns er upp runnin.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  2. Russell M. Nelson, „Hope of Israel.“

  3. Russell M. Nelson, „Hope of Israel.“

  4. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2005), v.

  5. Russell M. Nelson, „Hope of Israel.“