Virkar áætlunin?
Ég ber vitni um að sæluáætlunin virkar. Hún var búin til af himneskum föður sem elskar ykkur.
Virkar áætlunin?
Nýlega átti ég samtal við ungan mann sem þjónaði í trúboði fyrir nokkrum árum og starfaði nú við atvinnu sína. Að sumu leyti var líf hans gott. Trú hans hrakaði þó. Hann var að sökkva í haf efasemda um frelsarann og kirkju hans. Hann gaf þá skýringu að hann hlyti ekki þær blessanir sem hann hefði vænst af hinu endurreista fagnaðarerindi. Honum fannst sæluáætlunin ekki virka í lífi sínu.
Boðskapur minn í dag er til allra þeirra sem gætu haft svipaðar tilfinningar. Ég tala til þeirra sem einhverju sinni „[hefur] langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku,“ en „[finna ekki] slíkt nú?“1
Okkar kærleiksríki himneski faðir hefur fyrirbúið okkur dásamlega áætlun um eilífa hamingju. Þegar lífið hins vegar fer ekki eins og við væntum eða vonuðumst til, gæti virst sem áætlunin virki ekki.
Ég velti fyrir mér hvort okkur líði stundum eins og lærisveinum Jesú þegar þeir voru á bátnum, „[komnir] langt frá landi og … undir áföllum því að vindur var á móti.“2
En er langt var liðið nætur
kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu.
Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við … og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: ,Verið hughraustir, það er ég. Verið óhræddir.‘
Pétur svaraði honum: ‚Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.‘
Jesús svaraði: ,Kom þú!‘ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.
En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ,Drottinn, bjarga þú mér!‘
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: ‚Trúlitli maður, hví efaðist þú?‘“3
Mætti ég miðla ykkur þremur reglum sem ég læri af Pétri? Ég bið þess að þessar reglur megi hjálpa hverjum þeim sem finnst sæluáætlunin ekki virka í lífi sínu.
Fyrsta reglan: Sýnið trú á Jesú Krist í verki.
Ég hrífst af trú Péturs. Að einföldu boði Jesú um að „koma,“ þá fór hann úr veltandi bátnum sínum. Hann virtist vita að þar sem Jesús Kristur bauð honum að gera eitthvað, gæti hann gert það.4 Pétur treysti frelsaranum meira en hann treysti bátnum sínum. Þessi trú gaf honum mátt til að bregðast hughraustur við í streituvaldandi, ógnvekjandi aðstæðum.
Trú Péturs minnir mig á upplifun sem öldungur José L. Alonso sagði frá. Stuttu eftir að sonur öldungs Alonso lést frá fjölskyldu og ungum börnum, heyrði öldungur Alonso börnin tala saman.
„Hvað eigum við að taka til bragðs?“ spurðu þau.
Níu ára dóttir svaraði: „Það er allt í lagi með pabba. Hann er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists.“
Líkt og Pétur, sá litla stúlkan hans lengra eigin áskorunum og treysti á Jesú Krist og friðþægingu hans. Trú á frelsarann veitir frið og styrk til að halda áfram.
Ef þið horfið til baka yfir líf ykkar, þá trúi ég að þið munið sjá að þið hafið oft iðkað trú. Að ganga í kirkjuna, er að sýna trú í verki. Að tala við himneskan föður í bæn, er að sýna trú í verki. Að lesa ritningarnar, er að sýna trú í verki. Að hlusta á boðskap þessarar aðalráðstefnu, er að sýna trú í verki. Líkt og Russell M. Nelson forseti sagði: „Lágmarkið ekki þá trú sem þið þegar hafið.“5
Önnur regla sem ég læri af Pétri er þessi:
Snúið ykkur þegar í stað til Jesú Krists á erfiðleikatímum.
Þegar Pétur gekk í átt að frelsaranum, varð hann hræddur við vindinn og tók að sökkva. Þegar Pétur áttaði sig á því hvað var að gerast reyndi hann þó ekki að ganga af eigin mætti á vatninu eða synda aftur að bátnum. Í stað þess að láta af trú sinni á Krist, hélt hann fastar í hana og hrópaði: „,Drottinn, bjarga þú mér!‘
Jesús rétti þegar út höndina [og] tók í hann.“6
Öll stöndum við frammi fyrir ofviðri þar sem reynir á trú okkar og veldur því að við sökkvum. Þegar það gerist, hafið þá vinsamlega hugfast að sæluáætlun himnesks föður hefur annað nafn – endurlausnaráætlunin. Áætlunin gerði ekki ráð fyrir að lífið yrði okkur auðvelt, að við hrösuðum aldrei, sykkjum aldrei, værum alltaf brosandi. Himneskur faðir vissi að nauðsynlegt væri að endurleysa okkur. Af þessum sökum fyrirbjó hann endurlausnaráætlunina.7 Af þessum sökum sendi hann lausnara. Þegar við eigum erfitt – af einhverjum ástæðum – þýðir það ekki að áætlunin virki ekki. Það er þá sem við þurfum mest á áætluninni að halda!
Fylgið því fordæmi Péturs á slíkum stundum. Snúið ykkur þegar í stað til frelsarans.
„Nú er tíminn og dagur hjálpræðis ykkar. … Skjótið ekki degi iðrunar yðar á frest.“8
Sama hvar við erum og hvar við höfum verið, iðrun er leiðin fram á við. Nelson forseti hefur kennt:
„Ekkert er jafn frelsandi, göfgandi eða nauðsynlegt framþróun okkar sjálfra, en að einblína á iðrun daglega og reglubundið. …
Hvort heldur þið sækið af kostgæfni fram á sáttmálsveginum, hafið hrasað eða stigið af sáttmálsveginum eða fáið ekki greint veginn þar sem þið nú eruð, þá sárbæni ég ykkur um að iðrast. Upplifið styrkjandi mátt daglegrar iðrunar – með því að gera örlítið betur og verða örlítið betri dag hvern.“9
Að koma til Krists, er meira en bara að hugsa um hann eða tala um hann eða jafnvel elska hann. Það er að fylgja honum. Það er að lifa eins og hann kennir okkur að lifa. Fyrir okkur öll er það að iðrast, án tafar.
Ein dætra minna starfaði í trúboðsskólanum. Hún sagði mér frá öldungi sem hún kenndi, er trúði henni fyrir því að hann væri ekki viss um að Mormónsbók væri sönn. Hann hafði endurtekið beðist fyrir um andlegan vitnisburð, en ekkert svar hlotið.
Dóttir mín baðst fyrir til að vita hvað hún ætti að gera til að hjálpa þessum trúboða. Sú tilfinning sem hún hlaut, var að ritningarnar væru ekki aðeins gefnar til að við gætum lesið þær og hlotið vitnisburð; þær væru líka gefnar til að kenna okkur að halda boðorð Guðs. Dóttir mín sagði trúboðanum frá þessari hugsun.
Síðar sá hún þennan trúboða aftur og virtist hann mun hamingjusamari. Hann sagði henni að hann hefði loks hlotið vitnisburð um að Mormónsbók væri sönn. Hann vissi að þessi vitnisburður hefði hlotist vegna þess að hann legði sig betur fram við að gera það sem Mormónsbók kennir.
Við skulum fylgja fordæmi Péturs um að snúa okkur til frelsarans á erfiðleikatímum okkar. Fylgið Jesú Kristi í stað þess að treysta á eigin visku og styrk. Sama hversu lengi þið hafið reynt að ganga á vatni án hans, þá er aldrei of seint að koma til hans. Áætlunin virkar!
Þriðja reglan sem ég læri af Pétri og upplifun hans er þessi:
Auðmýkið ykkur frammi fyrir Drottni og hann mun lyfta ykkur upp til þess sem æðra er.
Pétur hafði sýnt trú, bæði með því að ganga á vatninu og leita til frelsarans þegar hann þurfti á hjálp að halda. Þrátt fyrir það, sá frelsarinn í Pétri svo miklu meiri möguleika. „Trúlitli maður,“ sagði hann, „hví efaðist þú?“10
Pétur hefði getað brugðist illa við þessum ávítum. Hann tók þessu þó af auðmýkt. Hann leitaði áfram sterkari trúar á Jesú Krist. Fyrir tilstuðlan margra annarra trúarstyrkjandi upplifana – sem sumar voru mjög erfiðar – varð Pétur á endanum sá bjargfasti leiðtogi sem Drottinn þurfti á að halda að hann yrði. Hann fékk miklu áorkað í þjónustu Drottins.
Hvaða miklu hlutum vill Drottinn að þið fáið áorkað? Í kirkju hans og ríki eru mörg tækifæri til að þjóna og þjóna öðrum eins og frelsarinn gerði. Hann vill að þið séuð hluti af hans mikla verki. Sæluáætlunin verður ykkur aldrei raunverulegri en þegar þið hjálpið öðrum að lifa eftir henni.
Þegar ég efldi mína eigin trú, breyttu þessi orð Alma lífi mínu: „Blessaðir eru … þeir, sem auðmýkja sig án þess að vera neyddir til auðmýktar.“11 Við skulum af auðmýkt gera Jesú Kristi mögulegt að lyfta okkur, leiða okkur og hámarka hæfileika okkar.12
Ég ber vitni um að sæluáætlunin virkar. Hún var búin til af himneskum föður sem elskar ykkur. Hún virkar af því að Jesús Kristur sigraði synd og dauða, fyrir tilstilli friðþægingar sinnar. Komið til hans, fylgið honum og „þá mun hin mikla endurlausnaráætlun samstundis ná til ykkar.“13 Í nafni Jesú Krists, amen.