Aðalráðstefna
Öll eigum við okkur sögu
Aðalráðstefna apríl 2022


12:47

Öll eigum við okkur sögu

Vinsamlega komið og finnið ættmenni ykkar, allar kynslóðir ykkar og leiðið þau heim.

Vinir, bræður og systur, öll eigum við okkur sögu. Þegar við uppgötvum sögu okkar, þá tengjumst við, tilheyrum við, verðum við.

Ég heiti Gerrit Walter Gong. Gerrit er hollenskt nafn, Walter (nafn föður míns) er amerískt nafn og Gong er auðvitað kínverskt nafn.

Sérfræðingar áætla að 70–110 milljarðar manna hafi búið á jörðinni. Kannski hefur aðeins einn þeirra verið nefndur Gerrit Walter Gong.

Öll eigum við okkur sögu. Ég elska „þegar rignir framan í mig og vindurinn feykist fram hjá.“1 Ég vappa og kjaga með mörgæsum á Suðurskautslandinu. Ég gef munaðarlausum börnum í Gvatemala, götukrökkum í Kambódíu, Masai-konum í Mara í Afríku, sína fyrstu ljósmynd af sjálfum sér.

Ég bíð á sjúkrahúsinu þar sem hvert barnanna okkar fæðist – eitt sinn leyfir læknirinn mér að hjálpa.

Ég treysti Guði. Ég trúi að „[við lifum], svo að [við megum] gleði njóta,“2 að öllu sé afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hafi sinn tíma.3

Þekkið þið ykkar sögu? Hvað nafnið ykkar merkir? Íbúarfjöldi heimsins hefur aukist úr 1,1 milljarði manna árið 1820 í tæplega 7,8 milljarða árið 2020.4 Árið 1820 virðist vera viðsnúningspunktur í sögunni. Margir fæddir eftir 1820 hafa minningar og heimildir til að bera kennsl á nokkrar kynslóðir ættmenna. Getið þið hugsað um sérstaka, ljúfa minningu með ömmu og afa eða öðru ættmenni?

Hver sem heildarfjöldi einstaklinga er sem hefur lifað á jörðu, þá er það afmarkað, einn einstaklingur í einu. Þið og ég, hvert okkar skiptir máli.

Íhugið vinsamlega þetta: Hvort sem við þekkjum þau eða ekki, þá erum við hvert fyrir sig fædd af móður og föður. Hver móðir og faðir eru fædd af móður og föður.5 Með fæðingu eða ættleiðingu, erum við að endingu öll tengd fjölskyldu Guðs og fjölskyldu mannkyns.

Ættfaðir minn í þrítugasta ættlið, fæddur 837 e.Kr., fyrsti Dragon Gong, stofnaði ættarþorpið okkar í suðurhluta Kína. Í fyrsta sinn sem ég heimsótti Gong-þorpið, sagði fólkið: „Wenhan huilaile“ („Gerrit er kominn aftur“).

Móðurmegin hefur ættartréð okkar að geyma þúsundir ættarnafna og fleiri sem þarf að uppgötva.6 Hvert fyrir sig höfum við fleiri ættmenni sem við getum tengst. Ef þið haldið að afasystir ykkar hafi lokið allri ættartölu ykkar, vinsamlega finnið þá frænkur ykkar og frændur. Tengið þau nöfn ættmenna sem þið munið eftir hinum tíu milljarða leitarnafna sem FamilySearch hefur nú í netsafni sínu og 1,3 milljarða einstaklinga í ættartré þess.7

Lifandi tré með rætur og greinar

Biðjið vini eða fjölskyldu að teikna lifandi tré. Eins og Russell M. Nelson forseti kennir, þá hafa lifandi tré rætur og greinar.8 Hvort sem þið eruð fyrsta eða tíunda þekkta kynslóðin, tengið þá gærdaginn við morgundaginn. Tengið rætur og greinar í ykkar lifandi ættartré.9

Spurningin: „Hvaðan ertu?“ spyr um ætt, fæðingarstað og heimaland eða ættjörð. Á heimsvísu rekja 25 prósent okkar föðurland sitt til Kína, 23 prósent til Indlands, 17 prósent til annarra Kyrrahafseyja í Asíu, 18 prósent til Evrópu, 10 prósent til Afríku og 7 prósent til Ameríku.10

Spurningin: „Hvaðan ertu?“ býður okkur líka að uppgötva okkar guðlegu sjálfsmynd og andlegan tilgang lífsins.

Öll eigum við okkur sögu.

Fjölskylda sem ég þekki tengdi fimm kynslóðir ættmenna þegar hún heimsótti gamla heimilið sitt í Winnipeg, Kanada. Þar sagði afi barnabörnum sínum frá þeim degi er tveir trúboðar (hann kallaði þá engla af himnum) komu með hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og breyttu fjölskyldu sinni að eilífu.

Móðir sem ég þekki bauð börnum sínum og frændsystkinum þeirra að spyrja langömmu sína um æskuupplifun sína. Ævintýri langömmu og lífslexíur eru nú dýrmæt ættarbók sem sameinar kynslóðir.

Ungur maður sem ég þekki er að setja saman „Pabbadagbók.“ Fyrir mörgum árum varð faðir hans fyrir bíl og lét lífið. Til að kynnast föður sínum, varðveitir þessi hugrakki ungi maður æskuminningar og sögur frá fjölskyldu og vinum.

Þegar við erum spurð um merkingu lífsins, þá segja flestir að fjölskyldan sé í efsta sæti.11 Það felur í sér lifandi og látna fjölskyldumeðlimi. Við hættum auðvitað ekki að vera til þegar við deyjum. Við höldum áfram að lifa hinum megin hulunnar.

Áar okkar eru enn lifandi og verðskulda að minningu þeirra sé haldið á lofti.12 Við minnumst arfleifðar okkar með því að segja sögur, setja saman ættarskrár og ættmennasögur, koma upp minnismerkjum eða minningarstöðum, hafa hátíðahöld með myndum, veitingum eða hlutum sem minna okkur á ástvini.

Hugsið um hvar þið búið – er það ekki dásamlegt hvernig land ykkar og samfélag minnist og heiðrar forfeður, fjölskyldur og þá sem þjónuðu og fórnuðu? Ég og systir Gong nutum þess til dæmis á haustuppskeruhátíðinni í South Molton, Devonshire, Englandi, að finna litlu kirkjuna og samfélagið þar sem kynslóðir Bawden áa okkar bjuggu. Við heiðrum áa okkar með því að ljúka upp himnum fyrir tilstilli musteris- og ættarsögustarfs13 og með því að verða hlekkur14 í kynslóðakeðju okkar.15

Á þessum „ég vel mig“ tíma er það hagur samfélaga þegar kynslóðir tengjast á þýðingarmikinn hátt. Við þurfum rætur til að hafa vængi – raunveruleg sambönd, þroskandi þjónustu, annað líferni en hverfula samfélagsmiðla.

Að tengjast áum okkar, getur breytt lífi okkar á óvæntan hátt. Af raunum þeirra og afrekum, öðlumst við trú og styrk.16 Af elsku þeirra og fórnum, lærum við að fyrirgefa og halda áfram. Börnin okkar verða þolgóð. Við öðlumst vernd og kraft. Tengsl við áa eykur samheldni, þakklæti og kraftaverk fjölskyldna. Slík tengsl geta kallað fram hjálp handan hulunnar.

Fjölskyldur upplifa bæði gleði og sorg. Enginn einstaklingur er fullkominn og heldur engin fjölskylda. Þegar þeir sem ættu að elska, hlúa að og vernda okkur gera það ekki, finnst okkur við vera yfirgefin, vandræðaleg, særð. Fjölskylda getur orðið skelin tóm. Við getum þó með hjálp himins vaknað til skilnings á fjölskyldu okkar og friðmælst við hvert annað.17

Stundum hjálpar óbilandi skuldbinding varanlegra fjölskyldutengsla okkur að áorka erfiðum hlutum. Í sumum tilfellum, verður samfélagið að fjölskyldu. Undraverð ung kona, sem átti þjakaða fjölskyldu er flutti oft, fann kærleiksríka kirkjufjölskyldu hvert sem hún fór til að hlúa að henni og finna henni stað. Erfðir og fjölskyldumynstur hafa áhrif á okkur, en skilgreina okkur ekki.

Guð vill að fjölskyldur okkar séu hamingjusamar og eilífar. Eilífðin tekur of langan tíma ef við gerum hvert annað óhamingjusöm. Hamingjan er of stutt, ef okkar ástkæru samböndum lýkur við þetta líf. Fyrir helga sáttmála, býður Jesús Kristur okkur elsku sína, mátt og náð til að breyta okkur18 og græða sambönd okkar. Óeigingjörn musterisþjónusta í þágu ástvina, gerir friðþægingu frelsarans raunverulega fyrir þá og okkur. Helguð getum við snúið aftur í návist Guðs sem eilíflega sameinaðar fjölskyldur.19

Hver saga okkar er ferðalag sem enn er í gangi, þar sem við uppgötvum, sköpum og verðum, með fleiri möguleika en við getum ímyndað okkur.

Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Sumum kann að virðast þetta mjög djörf kenning, sem við tölum um – vald, sem skráir eða bindur á jörðu og bindur á himni.“20 Það samfélag sem við sköpum hér getur átt sér tilveru eilífrar dýrðar þar.21 Já, „því að án [ættmenna og fjölskyldu] getum við ekki orðið fullkomin, né heldur geta þau orðið fullkomin án okkar,“ sem er „heil og algjör og fullkomin eining.“22

Hvað getum við gert núna?

Fyrst skulið þið ímynda ykkur að spegilmynd ykkar endurspeglist fram og aftur á milli tveggja eilífðarspegla. Í aðra áttina sjáið þið ykkur sjálfar fyrir ykkur sem dóttur, barnabarn, barnabarnabarn; í hina áttina brosandi að ykkur sjálfum sem frænka, mamma, amma. Hvað tíminn líður hratt! Gætið að því hver er með ykkur á hverjum tíma og í hverju hlutverki. Safnið myndum af þeim og sögum; gerið minningar þeirra raunverulegar. Skráið nöfn þeirra, reynslu, lykildagsetningar. Þau eru fjölskyldan ykkar – fjölskyldan sem þið eigið og fjölskyldan sem þið viljið.

Þegar þið innið af hendi musterisþjónustu í þágu ættmenna, mun andi Elía, „birtingarmynd heilags anda, bera vitni um guðlegt eðli fjölskyldunnar,“23 tengja hjörtu feðra ykkar, mæðra og barna saman í kærleika.24

Í öðru lagi, látið ævintýri ættarsögunnar vera með ráðum gert og blátt áfram. Hringið í ömmu ykkar. Horfið djúpt í augu þessa nýja barns. Gefið ykkur tíma – uppgötvið eilífðina – á hverju stigi ferðarinnar. Lærið og viðurkennið ættararfleifð ykkar af þakklæti og heiðarleika. Fagnið og gerið það jákvæða og þar sem þess er þörf, gerið af auðmýkt allt mögulegt til að miðla ekki því neikvæða. Látið góða hluti byrja með ykkur.

Í þriðja lagi, skulið þið fara á FamilySearch.org. Sækið tiltæk farsímaforrit. Þau eru gjaldfrjáls og skemmtileg. Uppgötvið, tengist, tilheyrið. Sjáið hvernig þið eruð skyld fólki í herbergi; hversu auðvelt og gefandi það er að bæta nöfnum við lifandi ættartré ykkar, finna og blessa rætur ykkar og greinar.

Í fjórða lagi, hjálpið við að sameina fjölskyldur að eilífu. Munið lýðfræði himnaríkis. Það eru miklu fleiri hinum megin hulunnar en hérna megin. Eftir því sem fleiri musteri verða nær okkur, bjóðið þá þeim sem bíða eftir helgiathöfnum musterisins að taka á móti þeim.

Loforðið um páskana og alltaf er að í og fyrir Jesú Krist, getum við orðið okkar besta saga og fjölskyldur okkar geta orðið hamingjusamar og eilífar. Í öllum okkar kynslóðum læknar Jesús Kristur þá sem hafa sundurmarið hjarta, frelsar hina ánauðugu og lætur þjáða lausa.25 Að eiga sáttmálsaðild með Guði og hvert öðru,26 felur í sér að vita að andi okkar og líkami munu sameinast að nýju í upprisu og dýrmætustu sambönd okkar geta haldið áfram handan dauðans með fyllingu gleði.27

Öll eigum við okkur sögu. Komið og uppgötvið ykkar. Komið, finnið rödd ykkar, söng ykkar, samhljóm ykkar í honum. Þetta er einmitt tilgangur þess að Guð skapaði himnana og jörðina og sá að það var gott.28

Lofið sæluáætlun Guðs, friðþægingu Jesú Krists, áframhaldandi endurreisn í fagnaðarerindi hans og kirkju. Vinsamlega komið og finnið ættmenni ykkar, allar kynslóðir ykkar og leiðið þau heim. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Himnafaðir elskar mig,“ Barnasöngbókin, 16.

  2. 2. Nefí 2:25.

  3. Sjá Prédikarann 3:1.

  4. Byggt á skýrslu Sameinuðu þjóðanna, The World at Six Billion (1999), 5, töflu1; „World Population by Year,“ Worldometer, worldometers.info.

  5. Margir njóta blessunar þess að eiga foreldra sem fæddu þau ekki líkamlega, en samt sameinast þau sem fjölskylda með böndum ástúðar og ættleiðingar og helgum innsiglunarsáttmála.

  6. Ég tjái þeim þakklæti sem eru að prófa leiðir til að koma skipulagi á mikinn fjölda ættarnafna í ættartré.

  7. Árið 2021 var um 99 milljón nöfnum bætt við ættartré almennings. Nýlega var líka lokið við stafvæðingu á 2,4 milljón rúllum af örfilmu, sem innihélt um það bil 37 milljarða nafna (með nokkrum afritunum). Nú er mögulegt að hafa þessar einstöku nafnaskrár til reiðu til að leita, finna og bæta við ættartré mannkyns.

  8. Sjá Russell M. Nelson, „Roots and Branches,“ Ensign, maí 2004, 27–29.

  9. Að sjálfsögðu, þegar við uppgötvum og byggjum okkar lifandi ættartré, berið þá vinsamlega 100 prósent virðingu fyrir friðhelgi einkalífs og sjálfboðaþátttöku ættmenna, lifandi og látinna.

  10. David Quimette framreiknaði þessar tölur, byggðar á Angus Maddison, The World Economy: A Millennial Perspective (2001), 241, töflu B-10.

  11. Sjá Laura Silver, o.fl., „What Makes Life Meaningful? Views from 17 Advanced Economies,” Pew Research Center, 18. nóv. 2021, pewresearch.org.

  12. 1. Nefí 9:5; 1. Nefí 19:3; Orð Mormóns 1:6–7; og Alma 37:2 tala um að halda skrár og muna eftir „í viturlegum tilgangi,“ þar á meðal til að blessa komandi kynslóðir.

  13. Sjá Russell M. Nelson og Wendy W. Nelson, „Open the Heavens through Temple and Family History Work,“ Ensign, okt. 2017, 34–39; Liahona, okt. 2017, 14–19; sjá einnig „RootsTech Family Discovery Day–Opening Session 2017“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.

  14. Sjá Kenningu og sáttmála 128:18.

  15. Sjá Gordon B. Hinckley, „Keep the Chain Unbroken“ (trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 30 nóv. 1999), speeches.byu.edu. Hinckley forseti vitnaði líka í David A. Bednar, „A Welding Link“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungmenni, 10. sept. 2017), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.

  16. Dæmi: Í fjölskyldu okkar, kvæntist Henry Bawden, frá Devonshire, Englandi, Söruh Howard, sem flutti til landsins með fjölskyldu sinni eftir að þau gengu í kirkjuna. Meðan Sarah var unglingur í St. Louis dóu faðir hennar, móðir og fimm systkini. Henry og Sarah eignuðust 10 börn. Sarah ól einnig upp sex börn fyrstu eiginkonu Henry, Ann Ireland, eftir að hún lést. Sarah gekk líka ungum ömmustelpum sínum í móðurstað, eftir að tengdadóttir hennar (Sarah) lést. Þrátt fyrir margar áskoranir lífsins, var Sarah hlý, kærleiksrík, samúðarfull og auðvitað mjög dugleg. Hún var ástúðlega þekkt sem „litla amma.“

  17. Þótt erfitt sé að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum með hjálp Krists, þá verðum við „börn Guðs“ (Matteus 5:9).

  18. Sjá t.d. Mósía 3:19.

  19. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is.

  20. Kenning og sáttmálar 128:9.

  21. Sjá Kenningu og sáttmála 130:2.

  22. Kenning og sáttmálar 128:18.

  23. Russell M. Nelson, „A New Harvest Time,“ Ensign, maí 1998, 34; sjá einnig Russell M. Nelson og Wendy W. Nelson, „Open the Heavens through Temple and Family History Work,“ 16–18.

  24. Sjá Mósía 18:21.

  25. Sjá Lúkas 4:18.

  26. Mér er sagt að hebreska orðið fyrir fjölskyldu – mishpachah – komi frá hebresku rótarorði (shaphahh) sem þýðir „að sameinast eða bindast saman.“ Sérhvert hlutverk innan fjölskyldunnar er hannað til að styrkja fjölskylduböndin.

  27. Sjá Kenningu og sáttmála 88:15–16, 34; 93:33; 138:17.

  28. Sjá 1. Mósebók 1:4, 31.