Fylgja Jesú: Vera friðflytjandi
Friðflytjendur eru ekki hlutlausir; þeir eru sannfærandi að hætti frelsarans.
Kæru bræður og systur, þegar við upplifum alvarlega tíma ólgu og deilna og, hvað marga varðar, miklar þjáningar, fyllast hjörtu okkar yfirþyrmandi þakklæti fyrir frelsara okkar og eilífar blessanir hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Við elskum hann og treystum honum og við biðjum þess að við munum eilíflega fylgja honum.
Áskorun samfélagsmiðla
Öflug áhrif Alnetsins eru blessun og áskorun, einstök á okkar tíma.
Í heimi samfélagsmiðla og upplýsingahraðbrauta er hægt að margfalda rödd eins manns á veldishraða. Sú rödd, hvort sem hún er sönn eða ósönn, hvort sem hún er sanngjörn eða skaðleg, hvort sem hún er góð eða grimm, dreifist samstundis um heiminn.
Færslur á samfélagsmiðlum um hugulsemi og góðvild eru oft hávaðalausar undir ratsjánni, á meðan orð um fyrirlitningu og reiði þruma oft í eyrum okkar, hvort sem um er að ræða stjórnmálaheimspeki, fólk í fréttum eða skoðanir á heimsfaraldrinum. Enginn eða ekkert viðfangsefni, þar á meðal frelsarinn og hið endurreista fagnaðarerindi hans, er ónæmt fyrir þessu félagslega fyrirbæri andstæðra radda.
Verða lærisveinn
Fjallræðan er boðskapur fyrir alla en var einkum ætluð lærisveinum frelsarans, þeim sem höfðu valið að fylgja honum.
Drottinn kenndi hvernig lifa á þá og nú í heimi fyrirlitningar. „Sælir eru friðflytjendur,“ lýsti hann yfir, „því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“1
Fyrir skjöld trúar okkar á Jesú Krist, verðum við friðflytjendur, slökkvum – sem merkir að róa eða kæla niður eða kæfa – öll eldskeyti andstæðingsins.2
Þegar við gerum okkar hlut, lofar hann að við verðum kölluð „Guðs börn.“ Sérhver einstaklingur á jörðu er Guðs „ættar,“3 en merking þess að vera kölluð „Guðs börn“ er miklu meiri. Þegar við komum til Jesú Krists og gerum sáttmála við hann, verðum við „afsprengi hans“ og „erfingjar Guðs ríkis,“4 „börn Krists, synir hans og dætur hans.“5
Hvernig róa og kæla friðflytjendur eldskeytin? Vissulega ekki með því að lyppast niður frammi fyrir þeim sem gera lítið úr okkur. Við verðum öllu heldur fullviss í trú okkar, miðlum trú okkar af sannfæringu, en alltaf án reiði eða óvildar.6
Nýlega eftir sterklega orðaða skoðunargrein, sem var gagnrýnin á kirkjuna, svaraði séra Amos C. Brown, þjóðarleiðtogi borgararéttinda og prestur þriðju baptistakirkjunnar í San Francisco:
„Ég virði reynslu og sjónarhorn einstaklingsins sem skrifaði þessi orð. Að vísu sé ég ekki það sem hann sér.“
Ég tel það eina mestu gleði lífs míns að þekkja þessa leiðtoga [kirkjunnar], þar á meðal Russell M. Nelson forseta. Þeir eru, að mínu mati, ímynd bestu leiðtoga sem land okkar hefur upp á að bjóða.“
Hann bætti síðan við: „Við getum kveinkað okkur yfir því hvernig hlutirnir eru. Við getum neitað að viðurkenna allt það góða sem nú á sér stað. … En þessar aðferðir munu ekki lækna þjóðardeilur okkar. … Eins og Jesús kenndi, þá útrýmum við ekki illu með meiru illsku. Við elskum rausnarlega og lifum miskunnsamlega, jafnvel gagnvart þeim sem við teljum óvinveitta okkur.“7
Séra Brown er friðflytjandi. Hann kældi niður eldskeytin af rósemd og virðingu. Friðflytjendur eru ekki hlutlausir; þeir eru sannfærandi að hætti frelsarans.8
Hvað gefur okkur innri styrk til að kæla, róa og slökkva eldskeyti sem beind eru að sannleikanum sem við elskum? Styrkurinn kemur frá trú okkar á Jesú Krist og trú okkar á orð hans.
„Sælir eruð þér þá er menn smána yður … og ljúga á yður öllu illu mín vegna.
… Því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“9
Mikilvægi sjálfræðis
Tvær mikilvægar reglur tengjast þrá okkar til að vera friðflytjendur.
Í fyrsta lagi hefur himneskur faðir gefið hverjum einstaklingi siðferðislegt sjálfræði, sem er sá eiginleiki að geta valið eigin leið.10 Þetta sjálfræði er ein af stærstu gjöfum Guðs.
Í öðru lagi gerði himneskur faðir mögulegt, með þessu sjálfræði, að „andstæður [væru] í öllu.“11 „[Við brögðum] hið beiska, svo að [við metum] hið góða.“12 Andstaða ætti ekki að koma okkur á óvart. Við lærum að greina gott frá illu.
Við gleðjumst yfir blessun sjálfræðis og skiljum að margir munu ekki trúa því sem við trúum. Í raun munu fáir á síðari dögum velja að hafa Jesú Krist að trúarþungamiðju í öllu sem þeir hugsa og gera.13
Vegna samfélagsmiðla getur ein vantrúarrödd virst sem fjöldi neikvæðra radda,14 en jafnvel þótt raddirnar séu margar, þá veljum við veg friðflytjandans.
Leiðtogar Drottins
Sumir telja Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitina hafa veraldlegan ásetning, líkt og leiðtogar stjórnmála, viðskipta og menningar.
Við komum hins vegar að ábyrgð okkar á afar ólíkan hátt. Við erum ekki kosnir eða valdir með umsóknum. Án sérstaks faglegs undirbúnings, erum við kallaðir og vígðir til að bera vitni um nafn Jesú Krists um allan heim, fram að okkar síðasta andardrætti. Við leitumst við að blessa sjúka, einmana, undirokaða og fátæka og styrkja Guðs ríki. Við leitumst við að þekkja vilja Drottins og boða hann, einkum þeim sem leita eilífs lífs.15
Þótt auðmjúk þrá okkar sé sú að kenningar frelsarans verði virtar af öllum, þá eru orð Drottins með spámönnum hans oft í andstöðu við hugsanagang og stefnur heimsins. Þannig hefur þetta alltaf verið.16
Frelsarinn sagði við postula sína:
„Ef heimurinn hatar yður þá vitið að hann hefur hatað mig fyrr en yður.
… Allt þetta munu þeir yður gera … af því að þeir þekkja eigi þann sem sendi mig.“17
Umönnun allra
Við elskum og berum einlæga umhyggju fyrir öllu samferðafólki okkar, hvort sem það trúir því sama og við eða ekki. Jesús kenndi okkur í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, að þeir sem eru af ólíkum trúarbrögðum ættu af einlægni að leggja hönd á plóg til að hjálpa sérhverjum í neyð, vera friðflytjendur og vinna að góðum og göfugum málefnum.
Í febrúar sagði í fyrirsögn í Arizona Republic: „Tveggja flokka frumvarp, sem stutt er af Síðari daga heilögum, myndi vernda samkynhneigða og transfólk í Arisóna.“18
Við, sem Síðari daga heilagir, erum „ánægð með að vera hluti af bandalagi trúar, viðskipta, LGBTQ-fólks og samfélagsleiðtoga sem hafa unnið saman í anda trausts og gagnkvæmrar virðingar.“19
Russell M. Nelson forseti spurði eitt sinn hugsi: „Geta landamæramörk ekki verið til án þess að verða að víglínum?“20
Við leggjum kapp á að vera „hinir friðsömu fylgjendur Krists.“21
Tilvik sem við bregðumst ekki við
Sumar árásirnar á frelsarann voru svo illgjarnar að hann sagði ekkert. „Æðstu prestarnir og fræðimennirnir … ásökuðu hann harðlega … og [spottuðu],“ en Jesús „svarði [þeim] engu.“22 Það koma stundir þar sem við, sem friðflytjendur, þurfum að halda aftur af þeirri hvöt að svara og þess í stað sýna virðugleika og vera hljóð.23
Það er okkur öllum sárt þegar hörð eða fráleit orð um frelsarann, fylgjendur hans og kirkju hans eru sögð eða birt af þeim sem eitt sinn stóðu með okkur, tóku sakramentið með okkur og báru með okkur vitni um guðlegt hlutverk Jesú.24
Þetta gerðist líka í þjónustutíð frelsarans.
Sumir lærisveina Jesú, sem voru með honum við stórbrotnustu kraftaverk hans, ákváðu að „[ganga] ekki framar með honum.“25 Því miður munu ekki allir vera staðfastir í kærleika sínum til frelsarans og staðráðnir í því að halda boðorð hans.26
Jesús kenndi okkur að hverfa frá hringrás reiði og deilna. Í einu dæmi, eftir að farísear stóðu frammi fyrir Jesú og lögðu á ráðin um það hvernig þeir gætu tortímt honum, segir ritningin að Jesús hafi farið frá þeim27 og kraftaverk gerðust er „margir fylgdu honum og alla læknaði hann.“28
Blessa líf annarra
Við getum líka forðast deilur og blessað líf annarra,29 þótt við einangrum okkur ekki í eigin horni.
Í Mbuji-Mayi, Austur-Kongó, voru sumir sem gagnrýndu kirkjuna í upphafi, því þeir skildu ekki trú okkar eða þekktu meðlimi okkar.
Fyrir nokkru sóttum við Kathy afar sérstaka kirkjuþjónustu í Mbuji-Mayi. Börnin voru óaðfinnanlega klædd með björt augu og stórt bros. Ég hafði vonast til að geta talað við þau um menntun þeirra, en komst að því að mörg sóttu ekki skóla. Leiðtogar okkar, með söfnun mannúðarsjóða, fundu leið til að hjálpa.30 Nú eru meira en 400 nemendur – stelpur og strákar, meðlimir jafnt sem ekki meðlimir – velkomnir og þeim kennt af 16 kennurum sem eru meðlimir Kirkju Jesú Krists.
Hin fjórtán ára gamla Kalanga Muya sagði: „[Þar sem ég átti lítinn pening] fór ég ekki í skóla í fjögur ár. Ég er svo þakklát fyrir það sem kirkjan hefur gert. Ég get nú lesið, skrifað og talað frönsku.“31 Borgarstjórinn í Mbuji-Mayi talaði um þetta framtak og sagði: „Ég er innblásinn af Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, vegna þess að á meðan [aðrar] kirkjur eru aðgreindar hver í sínu horni … [eruð þið að vinna] með [öðrum] til að hjálpa samfélagi í neyð.“32
Elskið hvert annað
Í hvert sinn sem ég les 13. kapítula Jóhannesar er ég minntur á hið fullkomna fordæmi frelsarans sem friðflytjanda. Jesús þvoði ástúðlega fætur postulanna. Síðan lesum við: „Honum [var] þungt um hjarta,“33 er hann hugsaði um þann sem hann elskaði búa sig undir að svíkja sig. Ég hef reynt að skilja hugsanir og tilfinningar frelsarans þegar Júdas fór. Áhugavert er að Jesús talaði ekki meira um „þungar“ tilfinningar sínar eða um svik. Hann talaði öllu heldur við postula sína um elsku og sagði orð sem staðist hafa aldir:
„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. …
Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“34
Megum við elska hann og elska hvert annað. Megum við verða friðflytjendur, svo við getum kallast „börn Guðs.“ Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.