Hann er upprisinn og vængir hans færa lækningu:
Við getum verið meira en sigurvegarar
Jesús hefur sigrast á misnotkun þessa heims til að veita ykkur mátt, ekki aðeins til að komast af, heldur dag einn, fyrir milligöngu hans, til að vinna bug á og jafnvel sigra.
Marin, ég er öldungur Holland og ég held að hlutirnir séu á niðurleið.
Við erum meira en sigurvegarar
Við hrífumst öll af sögum þar sem fólk kemst lífs af. Við heyrum sögur af djörfum könnuðum og venjulegu fólki sem tekst að halda sér á lífi gegn öllum líkum og væntingum og getum ekki annað en spurt okkur sjálf: „Gæti ég hafa gert þetta?“
Mér kemur strax í hug breski könnuðurinn Ernest Shackleton og áhöfn skips hans HMS Endurance, sem varð skipreika á ísbreiðu Suðurskautslandsins í næstum tvö ár. Óvenjuleg leiðtogahæfni Shackletons og óbilandi einbeitni, varð til að bjarga lífi manna hans, þrátt fyrir erfiðustu aðstæður.
Mér verður líka hugsað um áhöfn Apollo þrettánda á leið um geiminn til lendingar á tunglinu! Þar varð stórslys þegar súrefnisgeymir sprakk og því varð að hætta við verkefnið. Í súrefnisskorti tókst áhöfn og verkefnastjórn af snilld að koma öllum þremur geimförunum örugglega aftur til jarðar.
Ég dáist að því hvernig einstaklingar og fjölskyldur hafa á undraverðan hátt lifað af stríð, fangabúðir eða verið flóttafólk, sem hetjulega og af hugrekki heldur lífi í vonarneista meðbræðra sinna, sem sýnir gæsku mitt í grimmd og á einhvern hátt tekst að hjálpa öðrum að takast á við einn annan dag.
Gætir þú eða ég lifað af við einhverjar þessara erfiðu aðstæðna?
Ef til vill fá þessar frásagnir um þá sem komast lífs af sál ykkar til að hrópa að þið séuð sjálf aðalpersóna í slíkri sögu akkúrat núna, sem fórnarlamb misnotkunar, vanrækslu, eineltis, heimilisofbeldis eða hvers kyns þjáningar af þessum toga. Þið reynið mitt í eigin örvæntingu að lifa af ástand sem líkist mjög hörmulegu skipbroti eða efnilegu verkefni sem fær óvæntan endi. Verður ykkur nokkurn tíma bjargað; munið þið komast af í ykkar eigin lífsreynslusögu?
Svarið er já. Þið getið komist af. Ykkur hefur reyndar þegar verið bjargað; þið hafið þegar verið frelsuð – af þeim sem hefur þjáðst þeirri þjáningu sem þið þjáist af og tekist á við þá sálarkvöl sem þið takist á við.1 Jesús hefur sigrast á svívirðingum þessa heims2 til að gefa ykkur mátt, ekki aðeins til að komast af, heldur dag einn, fyrir milligöngu hans, til að vinna bug á og jafnvel sigra – að rísa algjörlega ofar sársauka, eymd, angist og finna frið koma í þess stað.
Páll postuli spyr:
„Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? …
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur.“3
Fyrirheit Ísraels sáttmálans
Þið munið eftir því er Russell M. Nelson forseti setti fram þetta boð á aðalráðstefnu. Hann sagði: „Þegar þið lærið ritningarnar, … þá hvet ég ykkur til að taka saman allt það sem Drottinn hefur lofað að gera fyrir Ísrael. Ég held að þið verið dolfallin!“4
Hér eru aðeins nokkur þessara máttugu og hughreystandi loforða sem fjölskylda okkar fann. Ímyndið ykkur að Drottinn tali þessi orð til ykkar – til ykkar sem lifið – vegna þess að þau eru ætluð ykkur:
Óttist ekki.5
Ég þekki sorgir ykkar og hef komið til að frelsa ykkur.6
Ég mun ekki yfirgefa ykkur.7
Nafn mitt hvílir á ykkur og englar mínir vaka yfir ykkur.8
Ég mun gera undur meðal ykkar.9
Gangið með mér; lærið af mér; ég mun veita ykkur hvíld.10
Ég er mitt á meðal ykkar.11
Þið eruð mín.12
Til þeirra sem reyna að komast af
Með þessa fullvissu hugfasta, vil ég tala beint til þeirra sem finnst eins og engin leið sé út úr eigin lífssögu, vegna hins sálræna áfalls sem grimmdarverk annarra hafa valdið. Ef þetta er lífssaga ykkar, grátum við með ykkur. Við þráum að þið sigrist á ringulreiðinni, skömminni og óttanum og þráum að þið sigrið, fyrir milligöngu Jesú Krists.
Frá fórnarlambi til sigurvegara
Ef þið hafið orðið fyrir einhvers konar misnotkun, ofbeldi eða kúgun, gæti sú hugsun setið í ykkur að slíkt atferli hafi á einhvern hátt verið ykkar sök, að þið verðskuldið að bera þá skömm og sektarkennd sem þið finnið fyrir. Þið gætuð haft hugsanir eins og:
-
Ég hefði getað komið í veg fyrir þetta.
-
Guð elskar mig ekki lengur.
-
Enginn mun nokkru sinni elska mig.
-
Skaði minn verður ekki bættur.
-
Friðþæging frelsarans gagnast öðrum, en ekki mér.
Þessar röngu hugsanir og tilfinningar gætu hafa hindrað að þið leituðuð aðstoðar hjá fjölskyldu, vinum, leiðtogum eða fagfólki og því hafið þið háð baráttu einsömul. Ef þið hafið leitað aðstoðar hjá þeim sem þið treystið, gætuð þið samt verið að glíma við hugsanir smánar og jafnvel sjálfsfyrirlitningar. Áhrif slíks atferlis getur viðhaldist í mörg ár. Þið vonist eftir betri líðan einhvern daginn, en sá dagur hefur enn ekki komið.
Misnotkunin var ekki, er ekki og verður aldrei ykkar sök, sama þótt ofbeldismaðurinn eða einhver annar kunni að hafa sagt hið gagnstæða. Þegar þið hafið orðið fyrir grimmd, sifjaspellum eða annarri öfughneigð, eruð það ekki þið sem þurfið að iðrast; þið berið ekki ábyrgð.
Þið eruð ekki óverðugri eða minna virði eða minna elskuð sem manneskja, eða sem dóttir eða sonur Guðs, vegna þess sem einhver annar hefur gert ykkur.
Guð sér ykkur ekki núna, eða nokkru sinni áður, sem einhvern sem ber að fyrirlíta. Hvað sem hefur komið fyrir ykkur, þá fyrirverður hann sig ekki fyrir ykkur eða er vonsvikinn með ykkur. Hann elskar ykkur á þann hátt sem þið enn eigið eftir að uppgötva. Þið munuð líka uppgötva það þegar þið treystið á loforð hans og lærið að trúa honum er hann segir að þið séuð „[dýrmæt í augum hans].“13
Þið eruð ekki skilgreind út frá þeim hræðilegu hlutum sem hafa verið gerðir við ykkur. Þið eruð, að dýrðlegum sannleika, skilgreind út frá núverandi eilífri sjálfsmynd ykkar, sem sonur eða dóttir Guðs, út frá fullkomnum, óendanlegum kærleika skapara ykkar og boði hans um fulla og algjöra lækningu.
Þótt lækning gæti virst ómöguleg, að því er ykkur finnst, þá getur hún hlotist fyrir kraftaverk endurleysandi máttar friðþægingar Jesú Krists, sem er upprisinn og „vængir [hans] færa lækningu.“14
Okkar miskunnsami frelsari, sem sigrar myrkur og siðspillingu, hefur mátt til að leiðrétta allt rangt, sem er þeim lífgefandi sannleikur sem aðrir hafa breytt rangt gagnvart.15
Vitið þó að frelsarinn sté niður fyrir allt, jafnvel það sem hefur komið fyrir ykkur. Vegna þess, veit hann nákvæmlega hvernig það er að upplifa raunverulega skelfingu og skömm og að vera yfirgefin og brostin.16 Frá djúpum þjáningum friðþægingar hans, gefur hann von sem þið tölduð að eilífu glataða, styrk sem þið tölduð ykkur aldrei hljóta og lækningu sem þið fenguð ekki ímyndað ykkur að væri möguleg.
Hrottaleg breytni er beinlínis fordæmd af Drottni og spámönnum hans
Það er hvergi staður fyrir nokkurs konar misnotkun – líkamlega, kynferðislega, tilfinningalega eða munnlega – ekki á neinu heimili, í neinu landi eða neinni menningu. Ekkert sem eiginkona, barn eða eiginmaður gæti gert eða sagt gerir það að verkum að þau „verðskulda“ barsmíðar. Enginn, í nokkru landi eða menningu, er nokkru sinni að „biðja um“ árásargirni eða ofbeldi einhvers sem hefur forræði eða sem er stærri og sterkari.
Þeir sem misnota aðra og leitast við að fela alvarlegar syndir sínar, gætu komist upp með það um tíma. En Drottinn, sem allt sér, þekkir gjörðir og hugsanir og ásetning hjartans.17 Hann er Guð réttvísinnar og guðlegri réttvísi hans mun framfylgt.18
Til allrar hamingju, þá er Drottinn líka Guð miskunnar hinna sannlega iðrunarfullu. Ofbeldismenn – þar á meðal þeir sem eitt sinn voru sjálfir misnotaðir – sem játa, láta af synd sinni og gera allt í þeirra valdi til að endurreisa og bæta, hafa aðgang að fyrirgefningu fyrir hina undursamlegu friðþægingu Krists.
Hvað þá varðar sem eru ranglega ásakaðir, þá mun hinn ólýsanlegi alvarleiki slíkra ásakana kalla á viðeigandi hreinsunareld. Slíkir eru líka blessaðir vegna staðgengils þjáninga frelsarans í þeirra þágu og vitneskjunnar um að sannleikurinn muni að lokum sigra.
Iðrunarlausir ofbeldismenn munu hins vegar standa frammi fyrir Drottni til að gera grein fyrir svívirðilegum glæpum sínum.
Drottinn sjálfur er kristaltær í fordæmingu sinni á hvers kyns misnotkun: „En hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, … væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.”19
Lokaorð
Kæru vinir, þið sem hafið verið svo hræðilega særð – og í raun allir sem hafa borið óréttlæti lífsins – þið getið fengið nýtt upphaf og ferska byrjun. Í Getsemane og á Golgata „tók Jesús á sig … alla þá angist og þjáningu sem þú og ég höfum nokkru sinni upplifað“20 og hann hefur sigrast á öllu! Með útrétta arma býður frelsarinn ykkur gjöfina að læknast. Með hugrekki, þolinmæði og trúfastri einbeitingu að honum, getið þið, áður en langt um líður, tekið fyllilega á móti þessari gjöf. Þið getið sleppt tökum á sársauka ykkar og skilið hann eftir við fætur hans.
Ykkar ljúfi frelsari sagði: „Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess að [þið hafið] líf, líf í fullri gnægð.“21 Þið eruð sigurvegarar, þið getið læknast og þið getið treyst því að fyrir mátt og náð Jesú Krists munið þið vinna bug á og sigra.
Jesús sérhæfir sig í því sem virðist ómögulegt. Hann kom hingað til að gera hið ómögulega mögulegt, hið óendurleysanlega endurleysanlegt, til að lækna hið ólæknanlega, til að rétta hið óréttláta, lofa hinu ólofanlega.22 Og hann er mjög góður í því. Reyndar er hann fullkominn í því. Í nafni Jesú Krists, læknisins okkar, amen.
Fyrir frekari upplýsingar og úrræði, sjá þá „Abuse“ í hlutanum Life Help á ChurchofJesusChrist.org og í smáforritinu Gospel Library.