Aðalráðstefna
Stöðug í storminum
Aðalráðstefna apríl 2022


15:44

Stöðug í storminum

Þegar lífsins stormar koma, getið þið verið stöðug, því þið standið á trúarbjargi ykkar, Jesú Krist.

Kæru bræður og systur, við höfum notið þeirrar blessunar í dag að heyra innblásna þjóna Guðs veita leiðsögn og hvatningu. Sérhvert okkar, hvar sem við erum, veit að við lifum á sífellt örðugri tímum. Bæn mín er sú að ég geti hjálpað ykkur að standa stöðug í geisandi stormunum, með friðsæld hjarta.1

Ég byrja á því að minna ykkur á að hvert okkar er ástkært barn Guðs og að hann hefur innblásna þjóna. Þessir þjónar Guðs hafa séð fyrir þann tíma sem við lifum á. Páll postuli skrifaði Tímóteusi: „En það skaltu vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“2

Allir sem hafa augu til að sjá tákn tímanna og eyru til að heyra orð spámanna, vita að þetta er satt. Mesta hættan sem að okkur steðjar, er frá öflum illskunnar. Þessum öflum vex ásmegin. Það verður því erfiðara, ekki auðveldara, að virða þá sáttmála sem við verðum að gera og halda til að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.

Fyrir þau okkar sem bera ugg í brjósti vegna okkar sjálfra og ástvina okkar, þá er von í loforði Guðs um öruggan stað í væntanlegum stormum.

Hér er orðamynd af þeim stað. Lifandi spámenn hafa endurtekið lýst henni. Í Mormónsbók sagði t.d. innblásinn og kærleiksríkur faðir sonum sínum frá því hvernig þeir gætu orðið sterkari í þeirra væntanlegu stormum: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“3

Vansældin og hið endalausa volæði sem hann talaði um, eru hræðileg áhrif syndanna, ef við iðrumst þeirra ekki að fullu. Vaxandi stormar eru freistingar og auknar árásir Satans. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að skilja hvernig byggja á þennan örugga grundvöll. Mér finnst best að fara í síðustu ræðu Benjamíns konungs til að skilja það sem einnig er skráð í Mormónsbók.

Spádómsorð Benjamíns konungs eiga við um okkur á okkar tíma. Hann þekkti af eigin reynslu skelfingar stríðs. Hann hafði varið fólk sitt í orrustum og reitt sig á mátt Guðs. Hann sá greinilega hin hræðilegu áhrif Lúsífers til að freista, til að reyna að sigra og letja börn Guðs.

Hann bauð fólki sínu og okkur að byggja á hinu eina örugga bjargi, sem er frelsarinn. Hann gerði ljóst að okkur væri frjálst að velja á milli rétts og rangs og að við gætum ekki komist hjá afleiðingum vals okkar. Hann talaði skýrt og skorinort, því hann vissi hvaða sorg myndi koma yfir þá sem hugsanlega heyrðu ekki og hlýddu ekki aðvörunum hans.

Hér er lýsing hans á afleiðingunum sem fylgja vali okkar, hvort heldur við fylgjum hvatningu andans eða fylgjum hinum illa boðskap sem kemur frá Satan, er reynir að freista okkar og tortíma okkur:

„Því að sjá. Ógæfu er lýst á hendur hverjum þeim, sem þóknast að hlýða þeim [illa] anda. Því að leggi hann eyrun við og þóknist að hlýða honum og haldist og deyi í synd sinni, mun sá hinn sami leiða fordæmingu yfir sálu sína, því að laun hans verða ævarandi refsing, þar eð hann hefur brotið á móti lögmáli Guðs gegn betri vitund. …

Ef sá maður iðrast þess vegna ekki, heldur lifir og deyr sem óvinur Guðs, vekja kröfur guðlegrar réttvísi lifandi kennd um eigin sekt í ódauðlegri sál hans og verða þess valdandi, að hann hörfar úr návist Drottins, og brjóst hans fyllist sektarkennd, sársauka og angist, líkast óslökkvandi eldi, sem teygir eldtungur sínar hærra og hærra að eilífu.“

Benjamín sagði enn fremur: „Ó, allir þér, aldnir menn sem ungir, og einnig þér, ungu börn, sem orð mín skiljið, því að ég hef talað greinilega til yðar, svo að þér fengjuð skilið. Ég bið þess, að þér vaknið til minningar um hið hræðilega ástand þeirra, sem brotið hafa gegn lögmálinu.“4

Mér finnst þessi aðvörun um að iðrast draga upp mynd í huga mér af þeirri stund er þú og ég munum standa frammi fyrir frelsaranum að þessu lífi loknu. Af öllu hjarta viljum við ekki hörfa undan, heldur líta upp til hans, sjá hann brosa og heyra hann segja: „Gott, þú góði og trúi þjónn, … gakk inn.“5

Benjamín konungur gerir ljóst hvernig við getum öðlast vonina af því að heyra þessi orð, ef við finnum leiðina í þessu lífi til að breyta eðli okkar með friðþægingu Jesú Krists. Það er aðeins þannig sem við getum byggt á öruggum grunni og þannig staðið staðföst í væntanlegum stormi freistinga og þrenginga. Benjamín konungur lýsir þessari eðlisbreytingu okkar með fallegri myndlíkingu sem alltaf hefur snert mig í hjarta. Hún var notuð af spámönnum í árþúsundir og af Drottni sjálfum. Hún er þessi: Við verðum að verða sem barn – lítið barn.

Fyrir suma er ekki auðvelt að kyngja þessu. Flest viljum við vera sterk. Við getum auðveldlega litið á það svo að það sé veikleiki að vera eins og barn. Flestir foreldrar vænta þess dags að börn þeirra láti af barnaskapnum. Benjamín konungur, sem skildi jafn vel og allir aðrir dauðlegir menn, hvað felst í því að vera maður styrks og hugrekkis, gerði ljóst að það að vera eins og barn, væri ekki barnaskapur. Það er að vera eins og frelsarinn, sem bað föður sinn um styrk til að geta gert vilja föður síns og friðþægja fyrir syndir allra barna föður síns, sem hann síðan gerði. Eðli okkar verður að breytast, svo við verðum sem barn, til að við öðlumst nauðsynlegan styrk til að standa stöðug og vera friðsæl á örðugum tímum.

Hér er áhrifamikil lýsing Benjamíns konungs um það hvernig sú breyting á sér stað: „Því að hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og verði sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt, sem Drottni þóknast á hann að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum.“6

Sú breyting á sér stað þegar við gerum og endurnýjum sáttmála við Guð. Það gerir krafti friðþægingar Krists mögulegt að umbreyta hjörtum okkar. Við getum fundið það í hvert sinn sem við meðtökum sakramentið, framkvæmum helgiathöfn musterisins fyrir látinn áa, vitnum um frelsarann eða önnumst einhvern í neyð, sem lærisveinn Krists.

Af þeirri reynslu, verðum við með tímanum eins og barn sem getur elskað og hlýtt. Við munum fara að standa á öruggum grunni. Trú okkar á Jesú Krist leiðir okkur til iðrunar og til að halda boðorð hans. Við hlýðum og öðlumst kraft til að standast freistingar og öðlumst fyrirheitið samfélag heilags anda.

Eðli okkar breytist í það að verða eins og lítið barn, sem er hlýðið Guði og kærleiksríkara. Þessi breyting mun gera okkur kleift að njóta gjafanna sem koma með heilögum anda. Að eiga samfélag andans, mun hugga, leiðbeina og styrkja okkur.

Ég hef komist að því hvað Benjamín konungur átti við er hann sagði að við gætum orðið eins og lítið barn frammi fyrir Guði. Ég hef lært af reynslu að heilagur andi talar oftast hljóðlátri röddu, sem heyrist best þegar hjarta manns er hógvært og undirgefið, eins og barns. Sú bæn sem í raun virkar er: „Ég vil aðeins gera það sem þú vilt. Segðu mér aðeins hvað það er. Ég mun gera það.“

Þegar lífsins stormar koma, getið þið verið stöðug, því þið standið á trúarbjargi ykkar, Jesú Krist. Sú trú mun leiða ykkur til daglegrar iðrunar og stöðugleika í sáttmálshaldi. Þið munið alltaf minnast hans. Í gegnum storma óvildar og illsku munið þið finna að þið eruð stöðug og vongóð.

Meira en það, þið munið sjá ykkur liðsinna öðrum og lyfta þeim í öryggi ykkar á bjarginu. Trú á Jesú Krist leiðir alltaf til aukinnar vonar og kærleikatilfinningar til annarra, sem er hin hreina ást Krists.

Ég ber ykkur hátíðlegt vitni um að Drottinn Jesús Kristur hefur gefið ykkur boðið: „Komið til mín.“7 Af kærleika býður hann ykkur og þeim sem þið elskið, að koma til sín, til að öðlast frið í þessu lífi og eilíft líf í komandi heimi. Hann þekkir fullkomlega stormana sem þið munið upplifa í prófraun ykkar sem hluta af sæluáætluninni.

Ég bið ykkur að taka á móti boði frelsarans. Takið á móti liðsinni hans, eins og ljúft og elskandi barn. Gerið og haldið þá sáttmála sem hann býður í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þeir munu styrkja ykkur. Frelsarinn þekkir stormana og griðarstaðina á veginum heim til sín og himnesks föður. Hann þekkir veginn. Hann er vegurinn. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.