Lækna heiminn
Særindi og ágreining er hægt að leysa og jafnvel lækna þegar við heiðrum Guð, föður okkar allra og Jesú Krist, son hans.
Bræður og systur, á þessari dýrðlegu páskatíð, njótum við þeirrar miklu blessunar að koma saman og taka á móti leiðsögn frá þjónum Guðs.
Heilög leiðsögn og kennsla frá himneskum föður hjálpa okkur að takast á við lífið á þessum örðugu tíðum. Líkt og spáð var, mun spyrjast um „elda [og] fárviðri,“ „hernað og ófriðartíðindi og jarðskjálfta á ýmsum stöðum,“ „og alls kyns viðurstyggð,“1 „plágu,“2 „hungur [og drepsóttir],“3 svo fjölskyldur, samfélög og jafnvel þjóðir hljóta alvarlegan skaða af.
Það er önnur plága sem gengur yfir heiminn: Árásir á trúfrelsi þitt og mitt. Þessi vaxandi afstaða felst í því að trúarbrögð og trú á Guð séu fjarlægð af almenningstorginu, úr skólum, samfélagsstöðlum og borgaralegri umræðu. Andstæðingar trúfrelsis reyna að setja hömlur á tjáningu einlægrar sannfæringar. Þeir gagnrýna jafnvel og skopast að trúarhefðum.
Slík afstaða jaðarsetur fólk, hefur að engu persónuleg lífsgildi, sanngirni, virðingu, andríki og samviskufrið.
Hvað er trúfrelsi?
Það er frelsi til tilbeiðslu í öllum sínum margbreytileika: Frelsi til að koma saman, málfrelsi, frelsi til að breyta að persónulegum skoðunum og frelsi annarra til að gera slíkt hið sama. Trúfrelsi gerir sérhverju okkar kleift að ákveða sjálf hverju við trúum, hvernig við lifum og hegðum okkur, samkvæmt trú okkar og því sem Guð ætlast til af okkur.
Tilraunir til að skerða slíkt trúfrelsi eru ekki ný til komnar. Í tímans rás hefur trúað fólk þjáðst mjög af hendi annarra. Raunin er ekki önnur hvað varðar meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Frá upphafstíma okkar hafa margir sem leituðu Guðs laðast að þessari kirkju, vegna guðlegrar kenningar hennar, sem meðal annars er trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrun, hamingjuáætlunin og endurkoma Drottins okkar.
Andstaða, ofsóknir og ofbeldi hrjáðu fyrsta síðari daga spámann okkar, Joseph Smith, og fylgjendur hans.
Mitt í umrótinu árið 1842, birti Joseph þrettán grundvallaratriði hinnar vaxandi kirkju, þar á meðal þetta: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast.“4
Yfirlýsing hans er innihaldsrík, frelsandi og virðingarfull. Það er kjarni trúfrelsis.
Spámaðurinn Joseph Smith sagði einnig:
„Ég fullyrði djarflega frammi fyrir himnum, að ég er jafn fús til að deyja til varnar réttindum öldungakirkjunnar, baptista eða sérhvers góðs manns einhvers trúarsafnaðar. Því ef troðið væri á réttindum Síðari daga heilagra …, yrði einnig troðið á réttindum rómverksk kaþólskra, eða einhvers annars trúarsafnaðar, sem þætti óvinsæll og of veikburða til að verja sig sjálfur.
Það er frelsisástin sem innblæs sál mína – hið borgaralega og trúarlega frelsi alls mannkyns.“5
Samt var ráðist á fyrstu meðlimi kirkjunnar og þeir hraktir þúsundir kílómetra, frá New York til Ohio til Missouri, þar sem fylkisstjórinn gaf út fyrirskipun um að meðlimi kirkjunnar „yrði að meðhöndla sem óvini og að þeim yrði að útrýma eða hrekja úr fylkinu.“6 Þeir flúðu til Illinois, en þrengingarnar héldu áfram. Múgur myrti spámanninn Joseph og taldi að dráp hans myndi eyðileggja kirkjuna og tvístra hinum trúuðu. Hinir trúuðu voru þó staðfastir. Eftirmaður Josephs, Brigham Young, leiddi þúsundir sem hraktir voru burt 2.100 kílómetra vestur til þess staðar sem nú er Utah-ríki.7 Forfeður mínir voru meðal þessara fyrstu landnemafrumbyggja.
Frá þeim tíma mikilla ofsókna, hefur kirkja Drottins vaxið jafnt og þétt í næstum 17 milljónir meðlima, með vel yfir helming búsettan utan Bandaríkjanna.8
Í apríl 2020 fagnaði kirkjan okkar 200 ára afmæli endurreisnar fagnaðarerindisins með yfirlýsingu til heimsins, tekna saman af Æðsta forsætisráðinu okkar og Tólfpostulasveitinni. Hún hefst svona: „Við lýsum hátíðlega yfir að Guð elskar börn sín meðal allra þjóða heimsins.“9
Okkar ástkæri spámaður Russell M. Nelson hefur enn fremur sagt:
„Við höfum trú á frelsi, góðvild og sanngirni fyrir öll börn Guðs.
Við erum öll bræður og systur, sérhvert er barn kærleiksríks föður á himnum. Sonur hans, Drottinn Jesús Kristur, býður öllum að koma til sín, ,[svörtum, hvítum, ánauðugum, frjálsum, karli, konu.]‘ (2. Nefí 26:33).“10
Íhugið með mér fjórar leiðir sem samfélagið og einstaklingar njóta góðs af sem tengjast trúfrelsi.
Fyrsta. Trúfrelsi heiðrar æðstu boðorðin tvö sem hafa Guð að þungamiðju lífs okkar. Í Matteus lesum við:
„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“11
„Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“12
Hvort sem er í kapellu, samkunduhúsi, mosku eða kofa með tinþaki, geta lærisveinar Krists og allir trúaðir sem eru samhuga, lýst yfir hollustu við Guð með tilbeiðslu á hann og fúsleika til að þjóna börnum hans.
Jesús Kristur er hin fullkomna fyrirmynd að slíkri elsku og þjónustu. Í þjónustu sinni lét hann sér annt um fátæka,13 læknaði sjúka14 og blinda.15 Hann mettaði hungraða,16 faðmaði litlu börnin17 og fyrirgaf þeim sem brutu gegn honum og jafnvel krossfestu hann.18
Ritningin segir um Jesú: „Hann gekk um, gerði gott.“19 Það verðum við líka að gera.
Önnur. Trúfrelsi stuðlar að tjáningu trúar, vonar og friðar.
Sem kirkja, sameinumst við öðrum trúarbrögðum í því að verja fólk af öllum trúarbrögðum og skoðunum og rétt þess til að tjá eigin sannfæringu. Þetta þýðir ekki að við samþykkjum trú þess, né það okkar, en við eigum meira sameiginlegt með því en með þeim sem vilja þagga niður í okkur.
Ég var nýlega fulltrúi kirkjunnar á hinum árlega G20 fjöltrúarvettvangi á Ítalíu. Ég fann til hvatningar, jafnvel uppörvunar, þegar ég hitti stjórnvöld og trúarleiðtoga alls staðar að úr heiminum. Ég áttaði mig á því að særindi og ágreining væri hægt að leysa og jafnvel lækna þegar við heiðrum Guð, föður okkar allra, og Jesú Krist, son hans. Hinn mikli læknir allra er Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur.
Ég átti áhugaverða stund þegar ég lauk ræðu minni. Sjö fyrri ræðumenn höfðu ekki lokið á neinn hátt samkvæmt trúarhefð eða í nafni Guðs. Þegar ég talaði hugsaði ég: „Á ég bara að þakka fyrir og setjast eða ljúka ,Í nafni Jesú Krists‘?“ Ég mundi hver ég var og ég vissi að Drottinn vildi láta mig segja nafn sitt til að ljúka boðskap mínum. Ég gerði það því. Þegar ég lít til baka, þá var þetta mitt tækifæri til að tjá trú mína; og ég hafði trúfrelsi til að bera vitni um hans heilaga nafn.
Þriðja. Trúarbrögð hvetja fólk til að hjálpa öðrum.
Þegar trúarbrögð fá svigrúm og frelsi til að blómstra, framkvæma hinir trúuðu einföld og stundum hetjuleg þjónustustörf. Hið forna gyðingaorðtak „tikkun olam,“ sem þýðir „að gera við eða lækna heiminn,“ endurspeglast í dag í viðleitni svo margra. Við höfum átt í samstarfi við kaþólsk góðgerðarsamtök, þekkt sem Caritas International, Islamic Relief, og fjölda gyðinga, hindúa, búddista, sikh og kristin samtök eins og Hjálpræðisherinn og National Christian Foundation. Saman þjónum við milljónum í neyð og nýverið með því að hjálpa fólki sem flýr stríð með tjöld, svefnpoka og matarbirgðir20 og sjáum því fyrir bólusetningum, til að mynda gegn lömunarveiki21 og Kóvid.22 Hinn virki verkefnalisti er langur og það eru þarfirnar líka.
Engin spurning, trúað fólk, sem vinnur saman, getur komið miklu til leiðar. Á sama tíma er einstaklingsþjónusta oft látlaus en breytir lífi án eftirtektar.
Mér verður hugsað um dæmið í Lúkasi er Jesús Kristur fór til ekkjunnar í Nain. Jesús kom að útfarargöngu einkasonar ekkjunnar og með honum var hópur fylgjenda. Ef hans naut ekki við, beið hennar tilfinningaleg, andleg og jafnvel fjárhagsleg nauð. Jesús sá társtorkið andlit hennar og sagði: „Grát þú eigi!“23 Hann snerti síðan börunar með líkinu og gangan stöðvaðist.
„Ungi maður,“ bauð hann, „ég segi þér, rís þú upp!“
Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.“24
Að reisa upp dána er kraftaverk, en sérhver góðvild og umhyggja sem sýnd er þeim sem á erfitt er sáttmálsvegurinn, sem sérhvert okkar getur líka „[farið til að gera gott],“ vitandi að „[Guð er með okkur].“25
Og fjórða. Trúfrelsi virkar sem sameinandi kraftur til að móta gildi og siðferði.
Í Nýja testamentinu lesum við um marga sem hurfu frá Jesú Kristi og mögluðu um kenningu hans: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“26
Þetta hróp heyrist enn á okkar tíma, frá þeim sem reyna að hrekja trúarbrögð frá orðræðu og áhrifum. Hver munu móta persónuleika og miðla málum á erfiðum tímum, ef trúarbrögð verða ekki til staðar? Hver mun kenna heiðarleika, þakklæti, fyrirgefningu og þolinmæði? Hver mun sýna kærleika, samúð og góðvild í garð hinna gleymdu og undirokuðu? Hver mun umfaðma þá sem eru öðruvísi og verðskulda það, eins og öll börn Guðs? Hver mun opna faðm sinn fyrir þeim sem eru í neyð og leita ekki umbunar? Hver mun virða frið og hlýða lögum betur en tilhneigingin er að gera á okkar tíma? Hver mun bregðast við bón frelsarans: „„Far þú og ger hið sama“?27
Við munum gera það! Já, bræður og systur, við munum gera það.
Ég býð ykkur að berjast fyrir málstað trúfrelsis. Það er tjáning hinnar guðsgefnu sjálfræðisreglu.
Trúfrelsi tryggir jafnvægi ólíkrar heimspeki. Kostir trúarbragða, umfang þeirra og hin daglegu kærleiksverk sem trúarbrögð hvetja til, margfaldast aðeins þegar við stöndum vörð um frelsi til að tjá hjartans skoðanir okkar og breyta eftir þeim.
Ég ber vitni um að Russell M. Nelson er lifandi spámaður Guðs. Ég ber vitni um að Jesús Kristur leiðir og stýrir þessari kirkju. Hann friðþægði fyrir syndir okkar, var krossfestur og reis upp á þriðja degi.28 Vegna hans getum við lifað aftur um alla eilífð; og þeir sem þess óska geta verið hjá föður okkar á himnum. Þennan sannleika boða ég öllum heiminum. Ég er þakklátur fyrir frelsið til þess. Í nafni Jesú Krists, amen.