Aðalráðstefna
Koma í hjörð Guðs
Aðalráðstefna apríl 2022


10:20

Koma í hjörð Guðs

Í hjörð Guðs upplifum við árvakra og nærandi umönnun góða hirðisins og erum blessuð að finna fyrir endurleysandi elsku hans.

Þegar bróðir og systir Samad voru ungir foreldrar, lærðu þau um fagnaðarerindi Jesú Krists í fábrotnu tveggja herbergja heimili þeirra í Semarang, Indónesíu.1 Þar sem þau sátu í kringum lítið borð, með dauft ljós sem virtist frekar færa þeim fleiri moskítóflugur en lýsingu, kenndu tveir trúboðar þeim um eilíf sannindi. Með einlægri bæn og leiðsögn heilags anda, fundu þau trú á það sem kennt var og ákváðu að láta skírast og gerast meðlimir í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Sú ákvörðun og lifnaðarhættir þeirra frá þeirri stundu, hafa blessað bróður og systur Samad og fjölskyldu þeirra á öllum sviðum lífsins.2

Þau eru meðal fyrstu brautryðjenda hinna heilögu í Indónesíu. Þau tóku síðar á móti helgiathöfnum musterisins og bróðir Samad þjónaði sem greinarforseti og síðar sem umdæmisforseti og ók um gjörvalla miðlæga Jövu til að uppfylla skyldur sínar. Síðastliðinn áratug hefur hann þjónað sem fyrsti patríarki Surakarta-stikunnar í Indónesíu.

Öldungur Funk með systur og bróður Samad

Sem annar trúboðanna í þessu hógværa og trúarfyllta heimili fyrir 49 árum, hef ég orðið vitni að því, fyrir tilstilli þeirra, sem Benjamín konungur kenndi í Mormónsbók: „Og enn fremur langar mig til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu.“3 Blessanirnar sem flæða inn í líf þeirra sem fylgja fordæmi og kenningum Jesú Krists og kjósa að teljast til lærisveina hans eru margar, gleðiríkar og eilífar.4

Hjörð Guðs

Boð Alma til þeirra sem söfnuðust saman við Mormónsvötn um skírnarsáttmála, hófst á þessum orðum: „Þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs.“5

Flock of sheep in the country side standing next to a rock fence.

Byrgi eða sauðabyrgi er stórt gerði, oft gert úr hlöðnum steinveggjum, þar sem hjörðin er vernduð að nóttu. Þar er aðeins einn inngangur. Þegar dagur er á enda runninn kallar fjárhirðirinn í hjörðina. Féð þekkir rödd hans og gengur inn um dyrnar í öryggi sauðabyrgisins.

Fólk Alma hefur haft vitneskju um að hirðar stæðu við þröngan inngang byrgisins til að geta talið sauðina þegar þeir fara innfyrir6 og tekið eftir og gert að sárum þeirra, hverjum fyrir sig. Öryggi og vellíðan sauðanna er háð fúsleika þeirra til að koma í hjörðina og dvelja í sauðabyrginu.

Á meðal okkar gætu verið einhverjir sem finnst þeir vera utan hjarðarinnar eða sauðabyrgisins og ef til vill lítt þarflegir eða metnir eða að þeir tilheyri ekki hjörðinni. Líkt og í sauðabyrgi, þá stígum við stundum á tær hvers annars í hjörð Guðs og þurfum að iðrast eða fyrirgefa.

Góði hirðirinn7 – okkar sanni hirðir – er samt ávallt góður. Í hjörð Guðs upplifum við árvakra og nærandi umönnun hans og erum blessuð að finna endurleysandi elsku hans. Hann sagði: „Ég hef rist þig í lófa mér, múra þína hef ég sífellt fyrir augum.“8 Frelsari okkar hefur rist í lófa sér syndir okkar, sársauka, sjúkdóma9 og allt hið ósanngjarna í lífinu.10 Öllum er boðið að hljóta þessar blessanir, þegar þeir „[þrá] að komast í“11 og kjósa að vera í hjörðinni. Gjöf valfrelsis er ekki aðeins rétturinn til að velja; hún er tækifærið til að velja rétt. Veggir sauðabyrgisins hamla okkur ekki, heldur veita þeir andlegt öryggi.

Jesús kenndi: „Það verður ein hjörð, einn hirðir.“12 Hann sagði:

„Sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna. …

Sauðirnir heyra raust hans … ,

og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans.“13

Jesús sagði síðan: „Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast“14 og kenndi á skýran hátt að aðeins einn vegur liggur í hjörð Guðs og aðeins einn vegur til frelsunar. Hann liggur gegnum Jesú Krists.15

Blessanir berast þeim sem eru í hjörð Guðs

Við lærum af orði Guðs hvernig á að koma í hjörðina, það er með kenningunni sem Jesús Kristur og spámenn hans kenna.16 Þegar við fylgjum kenningu Krists og komum í hjörðina með trú á Jesú Krist, iðrun, skírn og staðfestingu, ásamt áframhaldandi trúfesti,17 lofar Alma okkur fjórum sérstökum, persónulegum blessunum. Að (1) „Guð megi endurleysa ykkur,“ (2) „þið megið teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða,“ (3) „öðlast eilíft líf“ og (4) að Drottinn muni „úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur.“18

Eftir að Alma hafði kennt um þessar blessanir klappaði fólkið saman höndum af gleði. Hér eru ástæður þess:

Í fyrsta lagi: Að endurleysa þýðir að gera upp skuld eða skuldbindingu eða að losna við streitu eða skaða.19 Engin persónuleg yfirbót af okkar hálfu getur hreinsað okkur frá þeim syndum sem við höfum drýgt eða gert okkur heil eftir þau sár sem við höfum liðið án friðþægingar Jesú Krists. Hann er frelsari okkar.20

Í öðru lagi: Vegna upprisu Krists, munu allir rísa upp.21 Eftir að andi okkar skilur við jarðneskan líkama okkar, myndum við vafalaust líta fram til þess tíma að geta aftur faðmað ástvini okkar í upprisnum líkama. Af innilegri tilhlökkun munum við vonast eftir að vera meðal þeirra sem rísa upp í fyrstu upprisunni.

Í þriðja lagi: Eilíft líf þýðir að lifa með Guði og eins og hann lifir. Það er „mest allra gjafa Guðs“22 og mun færa algjöra gleði.23 Það er megintilgangur og takmark lífs okkar.

Í fjórða lagi: Samfélag við meðlim Guðdómsins, heilagan anda, sem veitir brýna leiðsögn og huggun í jarðlífinu.24

Hugleiðið nokkrar ástæður óhamingju: Vansæld sprettur af synd,25 depurð og einmanaleiki vegna andláts ástvinar og ótti vegna óvissunar um það hvað gerist þegar við deyjum. Þegar við komum í hjörð Guðs og höldum sáttmála okkar við hann, finnum við frið vitneskju og traust á að Kristur muni endurleysa okkur frá syndum okkar, að aðskilnaður líkama og anda verði sem stystur og að við munum lifa eilíflega og dýrðlega með Guði.

Treystið á Krist og breytið í trú

Bræður og systur, ritningarnar eru fullar af dæmum um stórbrotinn mátt frelsarans og samúðarfulla náð hans og góðvild. Á meðan jarðneskri þjónustu hans stóð, öðluðust þeir blessanir lækningar sem treystu á hann og breyttu í trú. Til dæmis gekk sjúki maðurinn við Betesdalaug, þegar hann, í trú, fylgdi boði frelsarans um að „[standa] upp, [taka] rekkju [sína] og [ganga].“ Þeir sem sjúkir voru eða þjáðir á einhvern hátt í landi Nægtarbrunns læknuðust þegar þeir voru „[leiddir] … fram,“ „[allir] … sem einn.“27

Líkt þessu, til að hljóta hinar dásamlegu blessanir sem þeim er heitið sem koma í hjörð Guðs, þurfum við einmitt að gera þetta – við þurfum að velja að koma. Alma yngri kenndi: „Og nú segi ég yður, að góði hirðirinn kallar á yður. Og ef þér viljið hlýða á rödd hans, mun hann taka yður í hjörð sína.“28

Fyrir nokkrum árum lést ástkær vinur minn úr krabbameini. Þegar eiginkona hans, Sharon, skrifaði fyrst um sjúkdómsgreiningu hans, sagði hún: „Við veljum trú. Trú á frelsara okkar, Jesú Krist. Trú á áætlun himnesks föður og trú á að hann þekki þarfir okkar og uppfylli fyrirheit sín.“29

Ég hef fyrirhitt marga Síðari daga heilaga eins og Sharon, sem finna innri frið þess að vera örugg í hjörð Guðs, sérstaklega þegar freistingar, mótlæti og andstreymi bera að.30 Þeir hafa valið að trúa á Jesú Krist og að fylgja spámanni hans. Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur kennt: „Allt gott í lífinu – sérhver möguleg blessun að eilífu mikilvægi – hefst með trú.“31

Komið að fullu í hjörð Guðs

Langa- langa- langafi minn, James Sawyer Holman kom til Utah árið 1847, en hann var ekki meðal þeirra sem komu með Brigham Young í júlí. Hann kom síðar á árinu og samkvæmt ættarheimildum var það á hans ábyrgð að koma með sauðina. Hann komst ekki í Saltvatnsdalinn fyrr en í október, en bæði hann og sauðirnir komust alla leið.32

Í óeiginlegri merkingu, eru sum okkar enn úti á sléttunum. Ekki komast allir á leiðarenda í fyrsta hópnum. Kæru vinir, haldið ferðinni áfram – og hjálpið öðrum – að koma að fullu í hjörð Guðs. Blessanir fagnaðarerindis Jesú Krists eru ómælanlegar, því þær eru eilífar.

Ég er innilega þakklátur fyrir að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég ber vitni um elsku himnesks föður og lausnara okkar, Jesú Krists, og um þann frið sem aðeins þeir veita – hinn innri frið og þær blessanir sem er að finna í hjörð Guðs. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Líkt og margir Indónesíumenn af sinni kynslóð, ber bróðir Samad aðeins eitt nafn. Eiginkona hans, Sri Katoningsih, og börn þeirra bera nafnið Samad sem eftirnafn.

  2. Bróðir og systir Samad skýra frá því að 44 ættmenni þeirra, að minnsta kosti, eru nú meðlimir kirkjunnar. Margir fleiri njóta einnig blessana fagnaðarerindisins vegna fordæmis þeirra og þjónustu.

  3. Mósía 2:41.

  4. Sjá Kenningu og sáttmála 59:23.

  5. Mósía 18:8.

  6. Sjá Moróní 6:4.

  7. Sjá Jóhannes 10:14; sjá einnig Gerrit W. Gong, „Góður hirðir, lamb Guðs,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  8. Jesaja 49:16.

  9. Sjá Alma 7:11–13.

  10. Sjá Dale G. Renlund, „Ósanngirni sem vekur reiði,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  11. Mósía 18:8.

  12. Jóhannes 10:16.

  13. Jóhannes 10:2–4.

  14. Jóhannes 10:9.

  15. Sjá 2. Nefí 31:21; Helaman 5:9.

  16. Sjá Henry B. Eyring, „The Power of Teaching Doctrine,“ Liahona, júlí 1999. Þegar við leitumst eftir að koma til Krists, verðum við að koma samkvæmt orðum Krists, „því að einn Guð og einn hirðir er yfir allri jörðunni“ (sjá 1. Nefí 13:40–41).

  17. Kenning Krists, útskýrð á einfaldan hátt, er sú að allt fólk, hvarvetna, verður að iðka trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrast, skírast, meðtaka heilagan anda og standast allt til enda, eða, eins og frelsarinn kenndi í 3. Nefí 11:38: „Ella getið þér engan veginn erft Guðs ríki.“

  18. Mósía 18:9, 10.

  19. Sjá Merriam-Webster.com Dictionary, „redeem“; sjá einnig D. Todd Christofferson, „Endurlausn,“ aðalráðstefna, apríl 2013.

  20. Sjá Alma 11:40.

  21. Sjá 2. Nefí 2:8; 9:12.

  22. Kenning og sáttmálar 14:7.

  23. Sjá 2. Nefí 9:18.

  24. Sjá 1. Nefí 4:6; Moróní 8:26.

  25. Sjá Mósía 3:24–25; Alma 41:10.

  26. Jóhannes 5:8.

  27. 3. Nefí 17:9.

  28. Alma 5:60. Í HDP Móse 7:53, sagði Messías einnig: „Sá, sem kemur inn um hliðið og fetar upp með mér, mun aldrei falla.“

  29. Sharon Jones, „Diagnosis [Greining],“ wechoosefaith.blogspot.com, 18. mars 2012.

  30. Preach My Gospel [Boða fagnaðarerindi mitt] skilgreinir að „standast allt til enda“ á eftirfarandi hátt: „Að vera trúfastur boðorðum Guðs og að vera trúfastur musterisgjöfinni og helgiathöfnum innsiglunar, þrátt fyrir freistingar, mótlæti og andstreymi í lífinu“ ([2019], 73). Þetta bendir til þess að við munum upplifa freistingar, mótlæti og andstreymi í lífinu.

  31. Russell M. Nelson, „Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  32. Sjá stuttar ævisögur James Sawyer Holman og Naomi Roxina LeBaron Holman eftir barnabarn þeirra, Grace H. Sainsbury, í eigu ræðumannsins (Charles C. Rich diary, 28. sept. 1847, Church History Library, Salt Lake City; Journal History of the Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 21. júní 1847, 49, Church History Library). Holman var leiðtogi í flokki Charles C. Rich, árið 1847.