2010–2019
Endurlausn
Apríl 2013


Endurlausn

Að því marki sem við fylgjum Kristi, leitumst við eftir að taka þátt í og efla endurlausnarverk hans.

Á nýlendutímanum var mikil spurn eftir vinnuafli í Ameríku. Á 19. öld og í upphafi 20. aldar voru væntanlegir innflytjendur ráðnir til starfa í Stóra-Bretlandi, Þýskalandi, og öðrum Evrópulöndum, en margir sem höfðu áhuga á að fara höfðu ekki efni á að greiða ferðakostnaðinn. Ekki var óalgengt að slíkir ferðuðust á sérstökum samningi, þar sem þeir gáfu loforð um að vinna launalaust í ákveðinn tíma, þegar þeir kæmu vestur, sem greiðslu upp í ferðakostnaðinn. Aðrir komu út á loforð um að ættingjar, sem þegar voru komnir til Ameríku, myndu greiða fargjald þeirra við komuna vestur, en ef það gerðist ekki, voru hinir nýkomnu skuldbundnir því að greiða kostnað sinn með launalausri vinnu í ákveðinn tíma. Hugtakið sem notað var yfir þessa samningsbundnu innflytjendur var „hinir óútleystu.“ Þeir þurftu að endurleysast frá ferðakostnaði sínum ‒ eiginlega kaupa frelsi sitt – með vinnu sinni.1

Meðal hinna mest lýsandi nafnbóta Jesú Krists er heitið lausnari. Eins og vísað er til í minni stuttu frásögn af innflytjendunum „óútleystu,“ merkir orðið endurleysa að borga skuldbindingu eða skuld. Endurleysa getur einnig táknað að bjarga eða láta lausan gegn lausnargjaldi. Ef einhver fremur mistök, en leiðréttir síðan eða bætir fyrir, segjum við að hann hafi endurleyst sjálfan sig. Allar þessar merkingar vísa til mismunandi þátta í hinni miklu endurlausn sem Jesús Kristur framkvæmdi með friðþægingu sinni, sem felur í sér, samkvæmt orðabókinni: „Að frelsa frá synd og refsingum hennar, svo sem með fórn sem færð er í þágu syndarans.“2

Endurlausn frelsarans skiptist í tvo hluta. Í fyrsta lagi, bætir hún fyrir brot Adams og fall mannsins sem af því leiddi með því að sigrast á því sem kalla mætti beina afleiðingu fallsins — líkamlegum dauða og andlegum dauða. Líkamlegur dauði er auðskilinn; andlegur dauði er aðskilnaðurinn frá Guði. Páll sagði þetta: „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist“ (1 Kor 15:22). Þessi endurlausn frá líkamlegum og andlegum dauða er bæði algild og skilyrðislaus.3

Annar hluti friðþægingar frelsarans er endurlausn frá því sem mætti skilgreina sem óbein áhrif fallsins — okkar eigin syndir fremur en brot Adams. Vegna fallsins fæðumst við inn í dauðlegan heim þar sem syndin — það er, óhlýðni við guðlega sett lög – er mjög algeng. Talandi um okkur öll, segir Drottinn:

„Syndin frjóvgast í hjörtum þeirra þegar þau fara að vaxa upp, og þau munu bragða hið beiska, svo að þau læri að meta hið góða.

“Og þeim er gefið að þekkja gott frá illu. Þess vegna hafa þau sjálfræði“ (HDP Móse 6:55‒56).

Vegna þess að við erum ábyrg og við tökum ákvarðanirnar, er endurlausnin frá okkar eigin syndum bundin skilyrðum — skilyrt því að við játum syndir okkar og látum af þeim og snúum okkur að góðu líferni, eða með öðrum orðum, skilyrt iðrun (sjá K&S 58:43). „Kenn því börnum þínum,“ býður Drottinn, „að allir menn, hvarvetna, verði að iðrast, ella geti þeir engan veginn erft ríki Guðs, því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans“ (HDP Móse 6:57).

Þjáningar frelsarans í Getsemanegarðinum og helstríðið á krossinum endurleysir okkur frá synd með því að uppfylla þær kröfur sem réttlætið hefur á hendur okkur. Hann býður fram miskunn og fyrirgefur þeim sem iðrast. Friðþægingin fullnægir einnig þeirri skuld sem réttlætið skuldar okkur, með því að græða og bæta fyrir hverja þá þjáningu sem við óverðskuldað verðum fyrir. „Því að sjá, hann ber þjáningar allra manna, já, þjáningar hverrar lifandi veru, bæði karla, kvenna og barna, sem tilheyra fjölskyldu Adams“ (2 Ne 9:21; sjá einnig Alma 7:11–12).4

Að því marki sem við fylgjum Kristi, leitumst við eftir að taka þátt í og efla endurlausnarverk hans. Mesta þjónustan sem við getum innt af hendi í þágu annarra í þessu lífi, og hefst á þeim sem tilheyra okkar eigin fjölskyldu, er að leiða þá til Krists með trú og iðrun, svo að þeir fái upplifað endurlausn hans — frið og gleði núna, og ódauðleika og eilíft líf í komandi heimi. Verk trúboðanna okkar er stórfengleg tjáning á endurleysandi kærleika Drottins. Sem réttmætir sendiboðar hans hafa þeir fram að færa hinar óviðjafnanlegu blessanir trúar á Jesú Krist, iðrunar, skírnar, og gjafar heilags anda, sem opna leiðina til andlegrar endurfæðingar og friðþægingar.

Við getum einnig aðstoðað við friðþægingu Drottins fyrir þá sem eru handan grafarinnar. „Ég sá, að staðfastir öldungar þessa ráðstöfunartíma halda áfram starfi sínu við prédikun fagnaðarerindis iðrunar og endurlausnar fyrir fórn hins eingetna Guðs, eftir að þeir hafa yfirgefið hið dauðlega líf, meðal þeirra sem eru í myrkri og syndafjötrum í hinum mikla andaheimi hinna dánu“ (K&S 138:57). Fyrir áhrif staðgengishelgiathafna, sem við bjóðum í musterum Guðs, geta jafnvel þeir sem dóu í fjötrum synda frelsast.5

Þótt mikilvægustu þættir endurlausnar hafi með iðrun og fyrirgefningu að gera, er líka um að ræða mjög merkilegan stundlegan þátt. Sagt er að Jesús hafi gengið um og gjört gott (sjá Post 10:38), sem fólst í að hann læknaði sjúka og lasburða, lagði hungruðum mannfjölda til mat, og kenndi um hinn fullkomna veg. „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga“ (Matt 20:28). Svo getum við, undir áhrifum heilags anda, gengið um og gjört gott í líkingu endurlausnar meistarans.

Slíkt endurlausnarverk táknar að hjálpa fólki í vanda þess. Það merkir að vingast við hina fátæku og hina veiku, létta þjáningar, leiðrétta það sem er rangt, standa vörð um sannleikann, styrkja uppvaxandi kynslóð, og öðlast öryggi og hamingju heima við. Mikið af endurlausnarverki okkar á jörðinni snýst um að hjálpa öðrum til þroska og til að ná því að réttlátar vonir þeirra og væntingar rætist.

Eitt dæmi í skáldsögu Victors Hugo, Vesalingunum, hefur alltaf snortið mig og veitt mér innblástur, þótt skáldverk sé. Nálægt upphafi sögunnar veitir Biskup Bienvenu hinum heimilislausa Jean Valjean mat og húsaskjól yfir nótt, en hann hefur nýlega verið leystur úr 19 ára varðhaldi fyrir að stela brauðhleif til að gefa sveltandi börnum systur sinnar. Harðlyndur og beiskur launar Valjean Bienvenu biskupi góðvildina með því að stela silfurborðbúnaði hans. Tortryggnir lögreglumenn stöðva hann, og ranglega heldur Valjean því fram, að honum hafi verið gefið silfrið. Þegar lögreglumennirnir draga hann til baka í hús biskupsins, vekur það furðu Valjeans, að Bienvenu biskup staðfestir sögu hans og ekki nóg með það: „ ‚En ég gaf yður kertastjakana líka. Þeir eru úr silfri, eins og hitt, og tvö hundruð franka virði. Hvers vegna tókuð þér þá ekki með diskunum yðar?‘ ...

Biskupinn gekk að honum og mælti lágt:

‚Gleymið ekki, gleymið aldrei, að þér hafið lofað mér að nota silfrið til þess að verða heiðarlegur maður.‘

Jean Valjean minntist þess ekki að hafa heitið neinu slíku, og stóð agndofa. Biskupinn ... hélt alvarlegur áfram:

‚Jean Valjean, bróðir minn: Þér heyrið ekki framar til hinu illa, heldur hinu góða. Ég hef keypt sál yðar handa yður. Ég dreg hana frá skuggalegum hugsunum og anda glötunarinnar, og gef hana Guði.‘ “

Jean Valjean varð vissulega nýr maður, heiðarlegur maður og góðgerðarmaður margra. Alla ævi varðveitti hann silfurkertastjakana tvo, til minningar um að sál hans hafði verið endurleyst af Guði.6

Sumar tegundir stundlegrar endurlausnar fást með sameiginlegu átaki. Það er ein af ástæðum þess að frelsarinn stofnsetti kirkju. Þar sem við erum skipulögð í sveitir og aðildarfélög og í stikur, deildir og greinar, getum við ekki aðeins kennt hvert öðru og hvatt hvert annað í fagnaðarerindinu, við getum einnig lagt fram fólk og úrræði til að fást við aðkallandi mál í lífsbaráttunni. Fólk sem starfar eitt eða í litlum átakshópum getur ekki alltaf lagt til allt það sem nauðsynlegt er fyrir umfangsmeiri verkefni. Sem fylgjendur Jesú Krists erum við samfélag heilagra, skipulögð til að hjálpa við að leysa vanda annarra heilagra og eins margra og við fáum náð til út um allan heim.

Líkt og öldungur Dallin H. Oaks hefur minnst á, hafa, vegna mannúðarhjálparstarfs okkar á liðnu ári, 890.000 manns í 36 löndum nú hreint vatn, 70.000 manns í 57 löndum hafa hjólastól, 75.000 manns í 25 löndum hafa fengið betri sjón, og fólk í 52 löndum hefur hlotið aðstoð í kjölfar náttúruhamfara. Í samstarfi við aðra hefur kirkjan hjálpað til við bólusetningu um 8 milljónir barna og hefur hjálpað Sýrlendingum í flóttamannabúðum í Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu með lífsnauðsynjar. Á sama tíma fengu nauðstaddir meðlimir kirkjunnar milljónir bandaríkjadala í föstu og velferðaraðstoð á árinu 2012. Þakka ykkur fyrir gjafmildi ykkar.

Allt þetta felur þó ekki í sér einstaklingsbundna vinsemd og stuðning — matargjafir, fatnað, peninga, umönnun, og þúsundir annarra hughreystandi og umhyggjusamra verka, sem við getum átt aðild að í hinu kristilega verki endurlausnar. Sem drengur varð ég vitni að breytni móður minnar er hún kom konu í nauðum til bjargar. Fyrir mörgum árum þegar börn hennar voru ung, fór móðir mín í alvarlega læknisaðgerð sem gekk svo nærri lífi hennar að hún varð rúmföst að miklu leyti næstum heilt ár. Á þeim tíma hjálpuðu ættingjar og deildarmeðlimir mömmu og fjölskyldu okkar. Til að koma enn frekar til hjálpar, stakk systir Abraham, Líknarfélagsforsetinn, upp á því að við réðum til starfa konu í deildinni sem bráðnauðsynlega vantaði vinnu. Í eftirfarandi frásögn mun ég not nöfnin Sara og Anna fyrir þessa konu og dóttur hennar. Þetta er frásögn móður minnar:

„Ég sé það fyrir mér eins skýrt og það hefði gerst í gær. Þarna lá ég í rúminu í svefnherberginu, og systir Abraham kom með Söru í dyragættina. Mér var brugðið. Þarna stóð sú minnst aðlaðandi persóna sem ég hafði nokkru sinni séð ‒ svo mögur og rytjuleg, með ógreitt hár, lotin, niðurlút og starði á gólfið. Hún var í gömlum vinnuslopp fjórum númerum of stórum. Hún fékkst ekki til að líta upp og talaði svo lágt að ég heyrði varla hvað hún sagði. Í felum á bak við hana var telpuhnokki, um þriggja ára gömul. Hvað í veröldinni átti ég að gera með þessa furðuveru? Þegar þær voru farnar úr herberginu, brast ég í grát. Ég þarfnaðist hjálpar, ekki nýrra vandamála. Systir Abraham staldraði við með henni um stund og fyrr en varði komu þær húsinu í gott horf og bjuggu til eitthvað matarkyns. Systir Abraham bað mig að láta reyna á þetta í nokkra daga, og sagði stúlkuna hafa átt mjög erfiða daga og þarfnast hjálpar.

Morguninn eftir þegar Sara kom tókst mér loks að fá hana að rúminu mínu, svo ég gæti heyrt til hennar. Hún spurði mig hvað ég vildi að hún gerði. Ég sagði henni það en bætti við: ‚En það mikilvægasta eru drengirnir mínir, gefðu þeim tíma, lestu fyrir þá ‒ þeir eru mikilvægari en húsverkin.‘ Hún var góður kokkur og hélt húsinu hreinu, sá um þvottinn, og var góð við drengina.

Á næstu vikum kynntist ég sögu Söru. [Þar sem hún heyrði ekki vel, gekk henni ekki vel í námi og hún hætti fljótlega í skóla. Ung giftist hún óreglumanni. Anna fæddist og kom með gleði inn í líf Söru. Eitt vetrarkvöld kom eiginmaður hennar heim drukkinn, dró Söru og Önnu út í bíl á náttfötunum, en skildi þær svo eftir við vegkantinn í alfaraleið. Það var það síðasta sem þær sáu til hans. Berfættar og sárkaldar gengu Sara og Anna margra kílómetra leið heim til móður Söru.] Móðir hennar féllst á að leyfa þeim að vera, gegn því að hún ynni öll húsverkin og sæi um matreiðsluna og systur sína og bróður, sem voru í framhaldsskóla.

Við fórum með Söru til eyrnalæknis, og hún fékk heyrnartæki. … Við fengum hana til að fara í fullorðinsfræðslu, og hún náði framhaldsskólaprófi. Hún fór í kvöldskóla og útskrifaðist síðar úr menntaskóla og kenndi í sérnámi. Hún keypti lítið hús. Hún giftist í musterinu og eignaðist tvö börn. Sara fór síðar í eyrnaaðgerðir og náði fullri heyrn. Árum síðar fór hún á eftirlaun og þjónaði í trúboði. … Sara þakkaði okkur oft og sagðist hafa lært svo margt af mér, einkum þegar ég sagði henni að synir mínir væru mikilvægari en húsið. Af því sagðist hún hafa lært að koma þannig fram við Önnu. ... Sara er afar einstök kona.“

Sem lærisveinar Jesú Krists ættum við að gera allt sem við getum til að endurleysa aðra frá þjáningum og byrðum. En fyrst og fremst er mikilvægasta endurlausnarþjónusta okkar sú, að leiða þau til Krists. Án endurlausnar hans frá dauða og frá synd, hefðum við aðeins fagnaðarerindi samfélagslegs réttlætis. Það gæti veitt nokkra hjálp og huggun á líðandi stundu, en það hefði engan kraft til þess að fá frá himni fullkomið réttlæti og eilífa miskunn. Hin endanlega endurlausn er í Jesú Kristi og honum einum. Í auðmýkt og þakklæti viðurkenni ég hann sem endurlausnara, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, 10. útg. (1993), „redemptioner.”

  2. Webster’s New World College Dictionary, 3ja útg. (1988), „redeem.”

  3. „Sonur Guðs [hefur] friðþægt fyrir erfðasyndina, og því geta syndir foreldranna ekki komið yfir börnin, því að þau eru hrein frá grundvöllun veraldar“ (HDP Móse 6:54). Fyrir endurlausn Krists sigrast allir á gröfinni og eru reistir upp til ódauðleika. Þar að auki sigrast allir á andlegum dauða með því að vera leiddir aftur í návist Guðs til að gangast undir dóm. Jesús sagði: „Á sama hátt og mennirnir [hafa] lyft mér [á krossinum] [mun] faðirinn lyfta mönnunum upp til að standa frammi fyrir mér og verða dæmdir af verkum sínum“ (3 Ne 27:14). Þeir sem eru hreinsaðir af synd munu dvelja hjá Guði í himneska ríkinu, en þeir sem hafa ekki iðrast og eru óhreinir geta ekki dvalið hjá heilögum Guði, og eftir dóminn verða þeir að hverfa á braut og þannig líða andlegan dauða á ný. Þetta er stundum kallað hinn annar dauði eða að líða andlegan dauða í annað sinn. (Sjá Helaman 14:15–18.)

  4. Það er með tilliti til okkar eigin synda sem ritningarnar tala um suma sem ekki fá notið góðs af friðþægingunni: „Þess vegna verða hinir ranglátu eftir, rétt eins og engin endurlausn hefði átt sér stað, að því undanskyldu að bönd dauðans eru leyst“ (Alma 11:41). „Sá, sem ekki iðkar trú til iðrunar, er varnarlaus gagnvart öllu lögmálinu um kröfur réttvísinnar. Þess vegna kemur hin mikla og eilífa endurlausnaráætlun einungis þeim til góða, sem á trú til iðrunar“ (Alma 34:16). Ef maðurinn hafnar friðþægingu frelsarans, verður hann sjálfur að endurleysa skuld sína til að réttlæta sig. Jesús sagði: „Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast – En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég“ (Kenning og sáttmálar 19:16–17). Óendurleyst þjáning einstaklings vegna syndar nefnist helja. Það merkir að vera háður djöflinum, og því er lýst með líkingamáli ritninganna, að vera í fjötrum eða eldi og brennisteini. Lehí sárbændi syni sína að velja friðþægingu Krists: „En veljið ekki eilífan dauða að vilja holdsins og þess illa, sem því er bundið og gefur anda djöfulsins vald til að hneppa í ánauð og koma ykkur niður til heljar, svo að hann megi ríkja yfir ykkur í sínu eigin ríki“ (2 Ne 2:29). Samt sem áður tekur helja enda vegna friðþægingar Jesú Krists, og þeir sem verða að fara í gegnum hana „losna undan djöflinum [í] síðustu upprisunni“ (Kenning og sáttmálar 76:85). Hinir tiltölulega fáu „glötunarsynir“ eru „þeir einu, sem hinn annar dauði mun hafa nokkurt [varanlegt] vald yfir – Já, sannlega þeir einu sem ekki verða endurleystir er tími Drottins kemur, eftir þjáningar heilagrar reiði hans“ (Kenning og sáttmálar 76:32, 37–38).

  5. Spámaðurinn Joseph Smith sagði fagnandi: „Hinir dánu syngi Immanúel konungi eilíft lof, honum, sem vígt hefur, áður en heimurinn varð til, það sem gjöra mun okkur kleift að leysa þá úr varðhaldi þeirra, því að fangarnir skulu frjálsir verða“ (Kenning og sáttmálar 128:22).

  6. Sjá Victor Hugo, Les Misérables (1992), 91–92.