Kraftur prestdæmisins í drengnum
Prestdæmið í drengnum er jafn kraftmikið og í manninum, þegar því er beitt í réttlæti.
1878 var langafi minn George F. Richards 17 ára gamall. Eins og stundum átti sér stað á þeim tíma, hafði hann þá þegar verið vígður öldungur. Sunnudag nokkurn stundi móðir hans þungan og var sárþjáð. Þar sem faðir hans var ekki nærstaddur, var biskupnum og nokkrum öðrum boðið að veita henni blessun, en það bar ekki árangur. Þar af leiðandi sneri hún sér til sonar síns, George, og bað hann um handayfirlagningu. Hann skrifaði í dagbók sína: „Mitt í táraflóði mínu út af þjáningum móður minnar og áhyggjum af því að þurfa að framkvæma helgiathöfn sem ég hafði aldrei áður framkvæmt, fór ég í annað herbergi þar sem ég grét og baðst fyrir.“
Þegar hann hafði jafnað sig, lagði hann hendur á höfuð henni og veitti henni mjög einfalda blessun. Síðar skráði hann: „Móðir mín hætti að stynja og losnaði við þjáningar sínar á meðan hendur mínar voru enn á höfði hennar.“ Hann skráði síðan í dagbók sína þessa athugasemd af miklu innsæi. Hann sagðist alltaf hafa álitið að ástæðan fyrir því að móðir hans hlaut ekki bata af blessun biskupsins hafi ekki stafað af því að Drottinn hafi látið undir höfuð leggjast að heiðra blessun biskupsins, heldur hafi Drottinn geymt þá blessun fyrir dreng, til að kenna honum þá lexíu, að prestdæmi drengs er alveg jafn kraftmikið og prestdæmi manns, sé því beitt í réttlæti.
Í kvöld vil ég ræða um þann kraft. Þótt ég muni ræða um forseta djáknasveitar, eiga reglurnar sem ég ræði um við alla æskumenn Aronsprestdæmis og viðkomandi leiðtoga þeirra, þar með forseta kennarasveitar og aðstoðarmenn forseta prestasveitar.
Þegar ég starfaði sem trúboðsforseti, tók ég eftir því að andlegir eiginleikar og leiðtogahæfni piltanna jókst gríðarlega á trúboðsárum þeirra. Ef við gætum einhvern veginn teiknað upp þessa eiginleika þeirra á Aronsprestdæmisárunum og trúboðstímanum, gæti það litið út eins og sýnt er á þessu línuriti. Í mínum huga eru í það minnsta þrír þættir sem leiða til slíks stórfellds þroska á trúboðsárunum: Við treystum þessum piltum meira en nokkru sinni fyrr, (2) við gerum miklar en jafnframt kærleiksríkar kröfur til þeirra, og (3) við þjálfum þá og endurþjálfum, svo að þeir geti uppfyllt þessar væntingar með glæsibrag.
Því væri viðeigandi að spyrja: „Hvers vegna er þessum sömu reglum ekki beitt við forseta djáknasveita?“ Ef það væri gert, mundi þroski þeirra hefjast miklu fyrr og líta nokkurn veginn svona út. Má ég nú í örfáum orðum fjalla um hvernig þessar reglur gætu átt við um djáknasveitarforseta.
Í fyrsta lagi — traust. Við getum falið djáknasveitarforsetum okkar mikla ábyrgð. Sannarlega gerir Drottinn það — sem sjá má í vilja hans til að fela þeim þá lykla, sem veita þeim rétt til að vera í forsæti fyrir og stjórna starfinu í sveit þeirra. Það ber vitni um þetta traust, að við köllum djáknasveitarforseta með opinberun, ekki einvörðungu vegna starfsaldurs eða neins þess háttar, Hver einasti leiðtogi í þessari kirkju, þar með talinn forseti djáknasveitar, á rétt á því að vita, og ætti að vita, að hann hefur verið kallaður með opinberun. Sú fullvissa sýnir honum að Guð bæði treystir honum og styður hann.
Annar þátturinn og sá þriðji eru nátengdir — miklar væntingar og tengd þjálfun til að uppfylla þær. Ég lærði mikla lexíu á trúboðsakrinum: Almennt séð rísa eða falla trúboðarnir í samræmi við væntingar trúboðsforsetans, og hið sama á við um forseta djáknasveita. Sé þess einungis vænst, að þeir stjórni sveitarfundum og mæti á ungmennanefndarfundum biskupsráðs, þá er það allt sem þeir munu gera. En þið leiðtogarnir getið gefið þeim víðari sýn — sýn Drottins. Og hvers vegna skiptir sýn svo miklu máli? Vegna þess að aukin sýn leiðir til aukinnar hvatningar.
Innbyggður í sérhverja köllun í þessari kirkju er rétturinn til að meðtaka opinberun. Þess vegna þurfa þessir forsetar djáknasveita að vita, að þeir eiga rétt á opinberun varðandi ráðgjafa sína, rétt á opinberun varðandi hina týndu, og rétt á opinberun til að þjálfa meðlimi sveitar sinnar í skyldum þeirra.
Vitur leiðtogi mun kenna forseta djáknasveitarinnar þær reglur sem gagnlegar eru til að hljóta opinberun. Hann kann að kenna honum hið ófrávíkjanlega loforð Drottins: „Ef þú munt spyrja, munt þú hljóta opinberun á opinberun ofan“ (K&S 42:61). Drottinn er mjög örlátur við veitingu opinberana. Áminnti hann ekki Joseph og Oliver: „Jafn oft og þú hefur spurt hefur þú fengið leiðbeiningar anda míns“ (K&S 6:14)? Og þannig getur það verið hvað varðar djáknasveitarforseta ykkar. Drottinn elskar ykkur og vill opinbera ykkur huga sinn og vilja. Getið þið nokkru sinni ímyndað ykkur að Drottinn hafi vandamál sem hann réði ekki við að leysa? Ég get það ekki. Þar sem þið eigið rétt á opinberun, mun hann hjálpa ykkur að leysa hvert það mál sem hvílir á ykkur sem forseta sveitar ykkar, ef þið bara leitið eftir hjálp hans.
Þið dásamlegu leiðtogar gætuð kennt þessum djáknasveitarforseta að opinberun kemur ekki í stað erfiðis og heimavinnu. Henry B. Eyring forseti spurði eitt sinn Harold B. Lee forseta: „Hvernig fæ ég opinberun?“ Lee forseti svaraði: „Ef þú vilt fá opinberun, skaltu vinna heimavinnuna þína.“1 Hinn vitri leiðtogi ætti að ræða við djáknasveitarforseta sinn um sumt af þeirri heimavinnu sem hann gæti unnið til undirbúnings því að mæla með ráðgjöfum sínum. Hann gæti þurft að spyrja og svara spurningum eins og: Hver gæti verið gott fordæmi og þannig lyft hinum drengjunum? Eða hver væri næmur á þarfir þeirra sem standa frammi fyrir sérstökum áskorunum?
Og að lokum gæti þessi vitri leiðtogi kennt honum hvernig á að þekkja og vinna eftir opinberun, þegar hún berst. Við lifum í erilsömum og hröðum heimi, þar sem skær ljós og hátt stilltir hljóðgjafar eru hinn viðtekni mælikvarði. En þessi ungi maður þarf að vita að þetta er leið heimsins, ekki leið Drottins. Frelsarinn fæddist í nafnleynd jötunnar; hann framkvæmdi hið stórfenglegasta og óviðjafnanlegasta verk allra tíma í kyrrlátum garði, og Joseph hlaut Fyrstu sýnina í einangrun trjálundar. Svör Guðs berast með kyrrlátri, hljóðri röddu — tilfinningu friðar eða huggunar, ábendingu um að gera gott, uppljómun – stundum í formi lítils sáðkorns hugsunar sem, ef helguð er og nærð, getur vaxið í rauðviðarrisafuru. Stundum gætu þessar ábendingar eða hugsanir jafnvel komið djáknasveitarforseta ykkar til að mæla með sem ráðgjafa eða fela verkefni pilti sem nú um sinn er lítt virkur.
Fyrir mörgum árum fannst okkur í stikuforsætisráði, að við ættum að kalla góðan mann sem stikuritara. Hann átti á þessum tíma í basli með að mæta reglulega í kirkju. Við vissum hins vegar, að ef hann tæki við kölluninni, mundi hann vinna ómetanlegt verk.
Við buðum fram köllunina, en hann svaraði: „Nei, ég held ég geti ekki gert það.“
Þá barst mér ábending. Ég sagði: „Jæja, ég býst við að Glendale stikan verði þá án stikuritara.“
Honum brá, og hann svaraði: „Hvað ertu að segja? Þið verðið að hafa stikuritara.“
Ég svaraði: „Viltu þá að við köllum einhvern annan til að þjóna sem stikuritari, þegar Drottinn hefur bent okkur á að kalla þig?“
„Allt í lagi,“ sagði hann, „ég mun gera þetta.“
Og það gerði hann. Það eru ekki bara margir karlar, heldur líka margir drengir, sem munu bregðast við kalli þegar þeir vita að Drottinn er að kalla þá og að Drottinn þarfnast þeirra.
Næst getið þið látið þennan djáknasveitarforseta vita, að eitt af því sem Drottinn ætlast til af honum sé að bjarga hinum týndu, bæði lítt virkum og fólki utan kirkju. Drottinn lýsti megin ætlunarverki sínu á þennan hátt: „Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda“ (Matt 18:11). Sé það forgangsatriði hjá frelsaranum að bjarga hinum týndu, sé það forgangsatriði hjá Thomas S. Monson forseta að gjöra það, eins og sést af öllu hans lífi, ætti það þá ekki að vera forgangsatriði hvers leiðtoga, hvers djáknasveitarforseta í þessari kirkju, að gjöra svo einnig? Kjarninn í leiðtogastarfi okkar, þungamiðjan í þjónustu okkar, ætti að vera sú brennandi, drífandi, ófrávíkjanlega einbeiting, að fara og finna hina týndu og koma með þá til baka.
Einn piltur sem fékk heimsókn frá meðlimum sveitar sinnar sagði: „Ég varð furðu lostinn í dag, þegar … 30 manns komu heim til mín.… Nú langar mig að mæta í kirkju.“ Hvernig getur unglingur hafnað slíkum kærleik og athygli?
Ég verð hrifinn þegar ég heyri hinar mörgu sögur af forsetum djáknasveita, sem hafa náð sýninni og öðru hvoru kenna sjálfir heila lexíu eða hluta hennar á sveitarfundum sínum. Fyrir nokkrum vikum síðan var ég á djáknasveitarfundi einum. Tólf ára gamall drengur flutti 25 mínútna lexíu um friðþæginguna. Hann hóf kennsluna með því að spyrja meðdjákna sína hvað þeir teldu að friðþægingin væri. Síðan deildi hann með þeim nokkrum merkingarríkum ritningargreinum og spurði ígrundaðra spurninga, sem þeir svöruðu. Hann gerði sér grein fyrir að meiri tími var eftir en lexían tæki, og var nógu útsjónarsamur, og hafði ef til vill fengið þá ábendingu frá föður sínum, að leita til leiðtoga sem viðstaddir voru, um hvaða spurningar þeir hefðu fengið varðandi friðþæginguna í trúboði þeirra og hvaða svör þeir hefðu gefið. Síðan lauk hann með vitnisburði sínum. Ég hlustaði með aðdáun. Ég hugsaði með sjálfum mér: „Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma flutt verulegan hluta af lexíunni, þegar ég var í Aronsprestdæminu á yngri árum mínum.“ Við getum hækkað rána og sýn þessara pilta, og það mun ekki standa á viðbrögðum þeirra.
Þið leiðtogar lyftið þessum forsetum djáknasveitanna best þegar þið leiðið þá af stað, og dragið ykkur síðan í hlé. Þið hafið ekki eflt köllun ykkar best þegar þið hafið gefið góða lexíu, heldur fremur þegar þið hjálpið þeim að gefa góða lexíu; ekki þegar þið bjargið hinum eina, heldur þegar þið hjálpið þeim að gjöra svo.
Gamalt orðtak segir: Ekki deyja á meðan þín eigin tónlist hljómar enn í þér. Með líkum hætti vil ég segja við ykkur fullorðnu leiðtogar, ekki fá afleysingu meðan leiðtogahæfileikar eru enn í ykkur. Kennið unglingunum ykkar við öll tækifæri; kennið þeim að undirbúa dagskrá fundar, hvernig á að stjórna fundi virðulega og með hlýhug, hvernig á að bjarga hinum eina, hvernig á að undirbúa og gefa innblásna lexíu, og hvernig fá má opinberun. Þetta mun verða mælikvarði á árangur ykkar — sú arfleifð leiðtogahæfni og andlegra eiginleika, sem þið skiljið eftir greipt í hjarta og huga þessara pilta.
Ef þið forsetar djáknasveita eflið köllun ykkar, munuð þið verða verkfæri í höndum Guðs, jafnvel nú, vegna þess að prestdæmið í höndum drengs er alveg jafn kraftmikið og í höndum manns, þegar því er beitt í réttlæti. Og síðan, þegar þið gerið sáttmála í musterinu og verðið trúboðar og framtíðarleiðtogar þessarar kirkju, munuð þið vita hvernig fá má opinberun, hvernig á að bjarga hinum eina, og hvernig á að kenna kenningu ríkisins með krafti og valdi. Þá eruð þið orðnir ungdómur hins göfuga frumburðarréttar. Um þetta ber ég vitni í nafni Jesú Krists, sem er frelsari og lausnari heimsins, amen.