Hlýðni við lög er frelsi
Karlar og konur fá valfrelsi sitt sem gjöf frá Guði, en frelsið og þá einnig eilíf hamingja þeirra, fæst með því að hlýða lögmálum hans.
Ég fékk sérstaka gjöf síðustu jól, sem kallaði fram margar minningar. Frænka mín gaf mér hana. Það hafði verið á meðal þeirra hluta sem ég skildi eftir í gamla fjölskylduhúsinu þegar ég flutti út, eftir að ég giftist. Gjöfin var þessi litla brúna bók sem ég held á í hendi mér. Þetta er bók sem var gefin SDH hermönnum sem fóru í herinn í seinni heimsstyrjöldinni. Ég leit á þessa bók sem gjöf frá Heber J. Grant forseta og ráðgjöfum hans, J. Reuben Clark jr. og David O. McKay.
Fremst í bókinni höfðu þessir þrír spámenn Guðs skrifað: „Starf hersins leyfir okkur ekki að vera í stanslausu persónulegu sambandi við ykkur, hvort heldur beint eða í gegnum fulltrúa. Það næstbesta sem við getum því gert er að afhenda ykkur nokkra kafla af nútíma opinberunum og útskýringum á kenningum fagnaðarerindisins, sem gætu hjálpað ykkur að finna endurnýjaða von og trú, og einnig huggun, hughreystingu og andlegan frið, hvar sem þið eruð staddir.“1
Í dag eigum við í annarskonar styrjöld. Í henni er ekki barist með vopnum. Það er styrjöld hugsana, orða og gjörða. Það er stríð við syndina og nú þurfum við, meira en oft áður, að vera minnt á að halda boðorðin. Efahyggja er að verða venjan og margar skoðanir hennar og siðir eru í beinni andstöðu við það sem Drottinn sjálfur innleiddi, til heilla börnum sínum.
Í litlu brúnu bókinni, strax á eftir bréfi Æðsta forsætisráðsins, má finna „Inngangsorð til manna í herþjónustu,“ undir heitinu „Hlýðni við lög er frelsi.“ Þar má finna tengingu á milli herlaga, sem „eru fyrir hag allra sem gegna herþjónustu,“ og himneskra laga.
Þar stendur: „Í alheiminum, þar sem Guð ræður ríkjum, eru einnig lög ‒ eilíf og altæk … lög ‒ sem innihalda vissar blessanir og óbreytanlegar refsingar.“
Síðasta setningin leggur áherslu á hlýðni við lögmál Guðs: „Ef þú vilt geta snúið aftur til ástvina þinn og bera höfuðið hátt. …ef þú vilt vera maður og lifa auðugu lífi — fylgdu þá lögmálum Guðs. Ef þið gerið það, getið þið bætt öðru frelsi við það ómetanlega frelsi sem þið berjist við að vernda, frelsi frá synd, sem hitt frelsið byggir á, því svo sannarlega er, hlýðni við lög frelsi.‘ “2
Hvers vegna hafði þessi setning „hlýðni við lög er frelsi“ svo mikil áhrif á mig á þessum tíma? Af hverju er svona mikill sannleikur í þessu í dag?
Kannski er það vegna þess að við höfum fengið opinberaða þekkingu á sögu fortilveru okkar. Við vitum að í upphafi tímans, þegar Guð, hinn eilífi faðir, lagði áætlun sína fyrir okkur, þá vildi Satan breyta þeirri áætlun. Hann sagðist myndi frelsa allt mannkyn. Enginn myndi glatast og Satan var sannfærður um að hann gæti skilað árangri með tillögu sinni. Það var hins vegar einn óásættanlegur fórnarkostnaður – eyðilegging á valfrelsi mannsins, sem var og er gjöf frá Guði (Sjá HDP Móse 4:1‒3). Harold B. Lee forseti, sagði varðandi þessa gjöf: „Valfrelsi er stærsta gjöf Guðs til mannsins, fyrir utan lífið sjálft.“3 Þar af leiðandi var það ekkert smáatriði að Satan vildi virða valfrelsi mannsins að vettugi. Í raun varð þetta aðalatriðið sem barist var um í stíðinu á himnum. Sigur í stríðinu á himnum var sigur fyrir valfrelsi mannsins.
Satan var hinsvegar ekki tilbúinn að gefast upp. Hann hafði varaáætlun ‒ sem hann hefur unnið að frá tímum Adams og Evu ‒ og það var að freista karla og kvenna, sérstaklega til að sanna að við erum óverðug gjafar Guðs, valfrelsisins. Satan hefur margar ástæður fyrir því að gera þetta, sú stærsta er eflaust í hefndarskyni, en hann vill einnig gera karla og konur jafn vansæl og hann er sjálfur. Enginn okkar ætti nokkurntíma að vanmeta hve knúinn Satan er til að ná árangri. Hlutverk hans í eilífri áætlun Guðs skapar „andstæður… í öllu“(2 Ne 2:11) og reynir á valfrelsi okkar. Hver ákvörðun sem við tökum er próf á valfrelsi okkar — hvort sem við veljum að vera hlýðin eða óhlýðin boðorðum Guðs er raunverulega val á milli „frelsis og eilífs lífs“ eða „helsi og dauða.“
Þessi grunndvallarkenning er kennd á greinilegan hátt í öðrum kapítula í 2. Nefí: „Þess vegna eru menn frjálsir í holdinu, og allt er þeim gefið, sem mönnum er nauðsynlegt. Og þeim er frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, eða velja helsi og dauða í samræmi við ánauð og vald djöfulsins. Því að hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann sjálfur“(2 Ne 2:27).
Á margan hátt hefur þessi heimur alltaf staðið í stríði. Ég trúi, að þegar Æðsta forsætisráðið sendi mér litlu brúnu bókina, hafi þeir haft meiri áhyggjur af alvarlegra stríði en seinni heimstyrjöldinni. Ég trúi því líka, að þeir hafi vonast til þess að bókin yrði skjöldur gegn Satan og herjum hans í hinu stærra stríði — stríðinu gegn synd – og myndi þjóna sem áminning fyrir mig um að lifa eftir boðorðum Guðs.
Ein leið til að bera okkur sjálf saman við fyrri kynslóðir, er með einum elsta þekkta mælikvarða mannsins — boðorðunum tíu. Í stórum hluta hins siðmenntaða heims, þá einkum hinum gyðing-kristna heimi, hafa boðorðin tíu verið viðurkenndasta og langlífasta skilgreiningin á góðu og illu.
Að mínu mati eru fjögur þessara tíu boðorða, tekin jafn alvarlega í dag og áður. Sem menning fyrirlítum við og fordæmum morð, þjófnað og lygar og við trúum enn á ábyrgð barnanna gagnvart foreldrum sínum.
Sem stærra samfélag hunsum við hins vegar reglulega hin sex boðorðin.
-
Ef forgangsröðun heimsins er einhver vísbending, þá eigum við sannarlega „aðra guði“ sem við setjum ofar hinum sanna Guði.
-
Við búum okkur til átrúnaðargoð úr frægu fólki, lífsmáta, velmegun og jafnvel stundum einnig skurðgoð eða líkneski.
-
Við leggjum nafn Guðs við hégóma á ýmsan óguðlegan máta, þar með taldar upphrópanir og blótsyrði.
-
Við nýtum hvíldardaginn í stærstu leikina okkar, mikilvægustu skemmtanir okkar, sem aðal verslunardaga okkar og nánast í allt annað en tilbeiðslu.
-
Við lítum á kynferðislegt samband utan hjónabands sem skemmtun og afþreyingu.
-
Og ágirndin hefur orðið allt of samofin daglegu lífi. (Sjá 2 Mós 20:3–17.)
Spámenn á öllum ráðstöfunartímum hafa stöðugt varað okkur við tveimur af alvarlegustu boðorðunum — þeim sem varða morð og hórdóm. Ég sé tvö grundvallaratriði sem þessi mikilvægu boðorð eiga sameiginleg — trúin á að lífið sjálft sé einkaréttur Guðs og að líkami okkar, musteri jarðlífs okkar, ætti að vera skapað innan þeirra vébanda sem Guð hefur ákvarðað. Það er annað hvort hámark ósvífninnar eða dýpt syndar mannsins, að halda að hann geti sett sín eigin lögmál í stað lögmála Guðs um upphaf og endi lífsins.
Aðaláhrif þessa siðspillta viðhorfs gagnvart helgi hjónabandsins má sjá í afleiðingum þess fyrir fjölskyldurnar — styrkur fjölskyldna dalar óheyrilega hratt. Þessi þróun veldur útbreiddum skaða í samfélaginu. Ég sé beina orsök og afleiðingu. Á sama tíma og við hættum að sýna maka okkar hollustu og traust, þá fjarlægjum við það lím sem heldur samfélaginu saman.
Gott er að hugsa um boðorðin sem kærleiksrík ráð frá skynsömum, alvitrum himneskum föður. Markmið hans er eilíf hamingja okkar og boðorð hans eru vegvísir sem hann hefur gefið okkur til þess að við gætum snúið aftur til hans, það eina sem mun veita okkur eilífa hamingju. Hve mikilvægt er heimilið og fjölskyldan fyrir okkar eilífu hamingju? Á blaðsíðu 141 í litlu brúnu bókinni minni segir: „Sannarlega er himnaríki lítið annað en endurspeglun á heimilum okkar inn í eilífðina.“4
Kenningin um fjölskylduna og heimilið var ítrekuð nýlega á mjög skýran og ákveðinn hátt í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Hún kunngerði hið eilifa eðli fjölskyldunnar og útskýrði því næst tenginguna við musteristilbeiðslu. Yfirlýsingin lýsti einnig yfir því lögmáli sem eilíf hamingja fjölskyldunnar byggist á, nefnilega að „ hinn helgi sköpunarkraftur skuli aðeins notaður milli karls og konu í löglega vígðu hjónabandi.“5
Guð opinberar spámönnum sínum að það sé til siðferðilegt bann. Synd verður alltaf synd. Óhlýðni við boðorð Drottins mun alltaf svipta okkur blessunum hans. Heimurinn breytist stanslaust og á áhrifamikinn hátt, en Guð, boðorð hans og blessanir, sem okkur er lofað, breytast ekki. Það er óbreytanlegt. Karlar og konur fá valfrelsi sitt sem gjöf frá Guði, en frelsið, og þá einnig eilíf hamingja þeirra, fæst með því að hlýða lögmálum hans. Eins og Alma ráðlagði villuráfandi syni sínum Kóríanton: „Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti“ (Alma 41:10).
Á þessum tíma endurreisnar fagnaðarerindisins hefur Drottinn enn á ný opinberað okkur þær blessanir sem okkur er lofað fyrir að vera hlýðin boðorðum hans:
Í Kenningu og sáttmálum 130 lesum við:
„Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við‒
Að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“ (K&S 130:20–21).
Það getur ekki verið nein kenning sem sterkari áhersla er lögð á í ritningunum en sú er varðar óbreytanleg boðorð Drottins og tengingu þeirra við hamingju okkar og velferð sem einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Það er siðferðisleg staðreynd. Óhlýðni við boðorð Drottins mun alltaf svipta okkur blessunum hans. Þetta breytist aldrei.
Í heimi þar sem siðferðislegur áttaviti samfélagsins bregst, mun endurreist fagnaðarerindi Jesús Krists aldrei bregðast, né heldur ættu stikur þess og deildir, fjölskyldur þeirra eða einstakir kirkjuþegnar að bregðast. Við ættum ekki að velja hvaða borðorð við teljum vera mikilvægt að fylgja, heldur viðurkenna öll boðorð Guðs. Við verðum að standa ákveðin og staðföst, með fullkomið traust á stöðugleika Drottins og algera tiltrú á loforð hans.
Megum við vera ævarandi ljós á hæðinni, fordæmi um að fylgja boðorðum þeim sem hafa aldrei og munu aldrei breytast Á sama hátt og þessi litla bók hvatti SDH hermenn til að standa siðferðilega staðfastir á stríðstímum, megum við vera ljós fyrir alla jörðina og sérstaklega fyrir börn Guðs sem leita blessana Drottins í þessu síðari daga stríði. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.