Fylgjendur Krists
Að fylgja Kristi er ekki hversdagsleg eða tækifærisleg, hegðun heldur stöðug skuldbinding og lífsmáti sem á við öllum stundum og alls staðar.
Einn af uppáhaldssálmum okkar, sem Mormónakórinn flutti í morgun, hefst á þessum orðum:
„Fylg þú mér,“ sagði frelsarinn.
Fótspor hans þræðum glöggt með sinn,
einungis þannig öðlumst frið
Elskaðan himnasoninn við.1
Þessi orð, sem innblásin voru af boði frelsarans til lærisveina sinna til forna (sjá Matt 4:19), voru rituð af John Nicholson, skoskum trúskiptingi. Eins og margir leiðtogar okkar á upphafsárum kirkjunnar hafði hann fengið litla formlega skólamenntun, en bar djúpan kærleik til frelsara okkar og sáluhjálparáætlunarinnar.2
Boðskapur þessarar ráðstefnu hjálpar okkur að feta í fótspor frelsara okkar, en fordæmi hans og kennsla skilgreinir leið sérhvers fylgjanda Jesú Krists.
Líkt og allir aðrir kristnir menn lærum við meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu um líf frelsara okkar, eins og greint er frá því í guðspjöllum Nýja testamentisins, Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Ég mun rifja upp fordæmi og kennslu sem er að finna í þessum fjórum bókum hinnar heilögu Biblíu og hvetja sérhvert okkar og alla aðra kristna menn til að íhuga, hvernig þessi endurreista kirkja og sérhvert okkar gerumst hæfir fylgjendur Krists.
Jesús kenndi að skírn væri nauðsynleg til að komast í ríki Guðs (sjá Jóh 3:5). Hann hóf þjónustu sína með því að láta skírast (sjá Mark 1:9), og hann ásamt fylgjendum sínum skírði aðra (sjá Jóh 3:22–26). Við gerum það einnig.
Jesús hóf kennslu sína með því að bjóða hlustendum sínum að gjöra iðrun (sjá Matt 4:17). Það er ennþá boðskapur þjóna hans til heimsins.
Jesús gaf boðorð á meðan þjónusta hans stóð yfir. Hann kenndi: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jóh 14:15; sjá einnig vers 21, 23). Að halda boðorð hans, staðfesti hann, myndi krefjast þess að fylgjendur hans þyrftu að yfirgefa það sem hann kallaði „hátt [að] dómi manna“ (Lúk 16:15) og „erfikenning[ar] manna“ (Mark 7:8; sjá einnig vers 13). Hann aðvaraði líka: „Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum“ (Jóh 15:19). Fylgjendur Jesú áttu að vera „eignarlýður“ (1 Pét 2:9), eins og Páll postuli síðar lýsti yfir.
Síðari daga heilagir skilja, að við eigum ekki að vera „af heiminun“ eða föst í „erfikenningum manna,“ en eins og aðrir fylgjendur Krists eigum við stundum erfitt með að aðskilja okkur frá heiminum og hefðum hans. Sumir fylgja veraldlegum leiðum vegna þess, eins og Jesús sagði um suma sem hann kenndi: „Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði“ (Jóh 12:43). Þessi misbrestir á að fylgja Kristi eru of margir og of viðkvæmir til að telja þá upp hér. Þeir eru alveg frá því að vera veraldleg hegðun, eins og pólitískur rétttrúnaður og öfgakenndur klæðaburður og útlit, yfir í frávik frá grundvallarkenningum eins og eilífu eðli og tilgangi fjölskyldunnar.
Kenningar Jesú áttu ekki að vera fræðilegar. Heldur átti ætíð að fylgja þeim. Jesús kenndi: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni“ (Matt 7:24; sjá einnig Lúk 11:28) og „sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur“ (Matt 24:46). Við syngjum eftirfarandi í öðrum góðum sálmi:
Frelsari, ég læra vil að elska þig,
Ganga veginn sem þú hefur sýnt, ...
Frelsari, ég læra vil að elska þig—
Herra, ég vil fylgja þér.3
Þeir sem elska Jesú munu halda boðorð hans, eins og hann kenndi. Þeir munu verða hlýðnir, eins og Thomas S. Monson forseti kenndi í morgun. Að fylgja Kristi er ekki hversdagsleg eða tækifærisleg hegðun heldur stöðug skuldbinding og lífsmáti sem á við öllum stundum og alls staðar. Frelsarinn kenndi þessa reglu og hvernig okkur ber að minnast hennar og eflast við að fylgja henni, þegar hann innleiddi helgiathöfn sakramentisins (altarisgönguna, eins og aðrir kalla hana). Við vitum úr nútíma opinberun, að hann bauð fylgjendum sínum að meðtaka táknin í hans minningu (sjá Þýðing Josephs Smith, Matt 26:22 [í Matt 26:26, neðanmálstexti c], 24 [í Bible appendix]; Þýðing Josephs Smith, Mark 14:21–24 [í Bible appendix]). Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fylgja þessu boðorði í sérhverri viku, með því að taka þátt í guðsþjónustu þar sem við meðtökum brauð og vatn og gerum sáttmála um að við munum ætíð minnast hans og halda boðorð hans.
Jesú kenndi, að menn „skyldu stöðugt biðja“ (Lúk 18:1). Hann gaf líka fordæmið, til dæmis þegar hann „var alla nóttina á bæn til Guðs,“ (Lúk 6:12) áður en hann kallaði postulana sína tólf. Við biðjum á öllum guðþjónstum okkar, rétt eins og aðrir kristnir menn. Við biðjum einnig um leiðsögn og við kennum að við eigum að biðja oft persónulegar bænir og krjúpa saman daglega í fjölskyldubæn. Eins og Jesús biðjum við til himnesks föður og það gerum við í hinu helga nafni Jesú Krists.
Frelsarinn kallaði tólf postula til að aðstoða í kirkju sinni og hann veitti þeim lykla og valdsumboð til að halda starfinu áfram eftir dauða hans (sjá Matt 16:18–19; Mark 3:14–15; 6:7; Lúk 6:13). Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem endurreist kirkja Jesú Krists, fylgir fordæmi hans í skipulagi sínu og með því að veita postulum lykla og valdsumboð.
Sumir þeirra sem Jesús kallaði til að fylgja sér brugðust ekki strax við, heldur frestuðu boðinu og sinntu í staðinn fjölskylduábyrgð sinni. Jesú svaraði: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki“ (Lúk 9:62). Margir Síðari daga heilagir fylgja forgangsröðuninni sem Jesús kenndi. Þar á meðal dásamlegt fordæmi þúsunda eldri trúboða og annarra sem hafa yfirgefið börn og barnabörn til að sinna trúboðsskyldum sem þau hafa verið kölluð til.
Jesús kenndi að Guð skapaði karl og konu og að karlmaðurinn ætti að yfirgefa foreldra sína og bindast eiginkonu sinni (sjá Mark 10:6–8). Skuldbinding okkar gagnvart þessu atriði er vel þekkt.
Í hinni kunnu dæmisögu um týnda sauðinn kennir Jesús að við ættum að fara og leita að hverjum þeim úr hópnum sem villst hefur af leið (sjá Matt 18:11–14; Lúk 15:3–7). Thomas S. Monson forseti hefur, eins og við vitum, lagt mikla áherslu á þetta atriði í eftirminnilegu fordæmi sínu og kennslu er varðar björgun félaga okkar, karla og kvenna.4
Í viðleitni okkar til að bjarga og þjóna, fylgjum við hinu einstaka fordæmi frelsara okkar og mildri kennslu hans um kærleika. „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matt 22:39). Hann bauð okkur líka að elska óvini okkar (sjá Lúk 6:27–28). Í mikilfenglegri kennslu sinni, í lok jarðneskrar þjónustu sinnar, sagði hann:
„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.
Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ (Jóh 13:34–35).
Jesús kenndi að þegar einhver gerir á hlut okkar, ber okkur að fyrirgefa þeim, sem er hluti af því að elska hver annan (sjá Matt 18:21–35; Mark 11:25–26; Lúk 6:37). Þótt margir eigi erfitt með þetta boðorð, þekkjum við öll innblásin dæmi um Síðari daga heilaga sem hafa veitt kærleiksríka fyrirgefningu, jafnvel eftir mikið ranglæti. Til dæmis nýtti Chris Williams sér trú sína á Jesú Krist til að fyrirgefa hinum drukkna ökumanni sem olli dauða eiginkonu hans og tveggja barna. Þessi fyrirgefandi maður, sem þá þjónaði sem einn af biskupum okkar, sagði einungis tveimur dögum eftir þennan hörmulega atburð, en hamstola af sorg: „Sem lærisveinn Krists hafði ég ekkert annað val.“5
Flestir kristnir menn gefa hinum fátæku og þurfandi eins og Jesús kenndi (sjá Matt 25:31–46; Mark 14:7). Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og meðlimir hennar fylgja þessari kennslu frelsara okkar á framúrskarandi hátt. Meðlimir okkar gefa rausnarlega til góðgerðarmála, veita persónulega þjónustu og gefa gjafir hinum fátæku og þurfandi. Meðlimir okkar fasta að auki, tvær máltíðir í sérhverjum mánuði og gefa að minnsta kosti virði þeirra máltíða í föstufórn, sem biskupar okkar og greinarforsetar nýta til hjálpar þurfandi meðlimum okkar. Fasta okkar til hjálpar hinum hungruðu er kærleiksverk og þegar hún er gerð með hreinum ásetningi, verður hún að andlegri veislu.
Alþjóðlegt mannúðarstarf kirkjunnar er ekki eins vel þekkt. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu notar fjárframlög sem örlátir meðlimir gefa, til að senda matvæli, fatnað og aðrar lífsnauðsynjar til líknar þjáðum börnum og fullorðnum um heim allan. Þessar mannúðargjafir, sem nema hundruðum milljóna dollara á síðastliðnum 10 árum, eru veittar án tillits til trúarbragða, kynþátta eða þjóðernis.
Upphæð hins stórtæka hjálparstarfs okkar í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar í Japan 2011 nam 13 milljónum dollara í reiðufé og liðveislu. Þar að auki gáfu rúmlega 31.000 sjálfboðaliðar kirkjunnar rúmlega 600.000 klukkustundir í þjónustu. Mannúðaraðstoð okkar til handa fórnarlömbum fellibylsins Sandy í austurhluta Bandaríkjanna fól meðal annars í sér mikið magn af alls kyns birgðum, ásamt nærri 300.000 klukkustunda þjónustuframlagi um 28.000 meðlima kirkjunnar við hreinsun. Á síðasta ári gáfum við flóttamönnum frá Afríkuríkinu Chad rúmlega 136.000 kíló af fötum og skóm, og er þetta einungis eitt af mörgum dæmum. Á síðustu 25 árum höfum við aðstoðað nærri 30 milljónir manna í 179 löndum.6 Fólkið sem kallað er „mormónar“ kann svo sannarlega að veita hinum fátæku og þurfandi aðstoð.
Í síðustu kennslu sinni í Biblíunni, bauð frelsarinn fylgjendum sínum að færa öllum þjóðum og kynkvíslum kenningar sínar. Frá upphafi endurreisnarinnar hefur Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu leitast eftir að fylgja því boði. Jafnvel þegar við vorum ný og fátæk kirkja, sem átti í erfiðleikum, með einungis nokkur þúsund meðlimi, sendu leiðtogar þeirra tíma trúboða yfir hafið, til austurs og vesturs. Við höfum sem heild haldið áfram að kenna hinn kristilega boðskap allt fram til dagsins í dag, og er okkar sérstæða trúboðsstarf nú með rúmlega 60.000 fastatrúboða í fullu starfi, ásamt þúsundum annarra sem þjóna í hlutastarfi. Við erum með trúboða í rúmlega 150 löndum og yfirráðasvæðum um heim allan.
Í lok sinnar stórkostlegu fjallræðu kenndi frelsarinn: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn“ (Matt 5:48). Tilgangur þessarar kennslu og tilgangur þess að fylgja frelsara okkar, er að koma til föðurins, sem frelsarinn vísaði til sem „föður míns og föður yðar, … Guðs míns og Guðs yðar“ (Jóh 20:17).
Úr nútíma opinberun, sem er einstök í hinu endurreista fagnaðarerindi, sjáum við að þessi kennsla er hluti af sáluhjálparáætlun Guðs föðursins til handa börnum hans. Í þeirri áætlun erum við öll erfingjar okkar himnesku foreldra. „En ef vér erum börn,“ kenndi Páll postuli, „þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists.“ (Róm 8:16–17). Þetta þýðir, eins og okkur er sagt í Nýja testamentinu, að við erum „erfingjar…eilífs lífs“ (Títus 3:7), og ef við komum til föðurins þá munum við „erfa þetta“ (Op 21:7) ‒ allt það sem hann á – hugtak sem okkar jarðneski hugur fær vart skilið. Við getum þó að minnsta kosti skilið, að við getum einungis náð þessum lokaörlögum okkar í eilífðinni með því að fylgja frelsara okkar, Jesú Kristi, sem sagði: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig“ (Jóh 14:6). Við leitumst eftir að fylgja honum og verða líkari honum, hér í þessu lífi og eftir þetta líf. Því syngjum við í lokaversi sálmsins „Fylg þú mér”:
Er oss þá nóg að vita’ að vér
verðum honum að fylgja hér,
um fallinn, tárum fylltan geim?
Nei, förin er í æðra heim. ...
Dýrðir, tign, ríki, virðing, vald
veitist oss bak við huliðs tjald,
ef vér þar hlítum eins og hér
orðum hans, „Fylg þú mér.”7
Ég vitna um frelsara okkar, Jesú Krist, hvers kennslu og fordæmi við leitumst við að fylgja. Hann býður okkur öllum, sem hlaðin eru þungum byrðum, að koma til sín, læra af sér, fylgja sér og finna þannig sálum okkar hvíld (sjá Matt 4:19; 11:28). Ég vitna um sannleika boðskapar hans og um guðlegt hlutverk og valdsumboð hans endurreistu kirkju, í nafni Jesú Krists, amen.