Velkomin á ráðstefnu
Ég hvet ykkur til að hlusta vandlega á þann boðskap sem fram verður borinn. Bæn mín er að svo verði.
Kæru bræður og systur, hve ég gleðst yfir því að bjóða ykkur velkomin á 183. aðalvorráðstefnu kirkjunnar.
Á þeim sex mánuðum sem liðið hafa frá því við komum síðast saman, hefur mér gefist kostur á að ferðast nokkuð og hitta sum ykkar á ykkar heimasvæðum. Eftir aðalráðstefnuna í október, hef ég ferðast til Þýskalands, þar sem ég naut þeirra forréttinda að hitta meðlimi okkar á nokkrum svæðum í því landi, sem og að hluta í Austurríki.
Í lok október vígði ég Calgary-musterið í Alberta, Kanada, með aðstoð öldunganna M. Russell Ballard, Craig C. Christensen, William R. Walker og eiginkonum þeirra. Í nóvember endurvígði ég Boise-musterið í Idaho. Þau sem ferðuðust með mér og tóku þátt í vígslunni voru öldungarnir David A. Bednar, Craig C. Christensen og William R. Walker og eiginkonur þeirra.
Menningarhátíðirnar í tengslum við báðar vígslurnar voru framúrskarandi. Ég var ekki sjálfur viðstaddur menningarhátíðina í Calgary, því systir Monson átti 85 ára afmæli og mér fannst ég ætti að vera með henni. En við nutum þess bæði að horfa á hátíðarhöldin í stofunni okkar, um kapalsjónvarpsstöð, og morgunin eftir flaug ég til Calgary til að vera við vígsluna. Í Boise tóku yfir 9.000 manns í musterisumdæminu þátt í menningarhátíðinni. Svo mörg ungmenni tóku þátt, að ekki var rúm fyrir fjölskyldur þeirra þegar þau komu fram.
Í síðasta mánuði ferðuðust Dieter F. Uchtdorf forseti, öldungur Jeffrey R. Holland og öldungur Gregory A. Schwitzer, ásamt eiginkonum sínum, til Tegucigalpa, Hondúras, til að vígja okkar nýbyggða musteri þar. Stórbrotinn æskulýðsviðburður átti sér stað kvöldið fyrir vígsluna.
Tilkynnt hefur verið um fleiri musteri, sem eru á hinum ýmsu undirbúningsstigum eða í byggingu.
Á þessum degi er mér gleðiefni að tilkynna um tvö ný musteri sem byggð verða á komandi mánuðum og árum á eftirtöldum stöðum: Cedar City, Utah og Rio de Janeiro, Brasilíu. Bræður og systur, bygging mustera heldur áfram linnulaust.
Líkt og ykkur er kunnugt, þá tilkynnti ég á aðalráðstefnu í október um aldursbreytingu þeirra ungu manna og kvenna sem þjónað geta í fastatrúboði, en nú geta ungir menn þjónað við 18 ára aldur og ungar konur við 19 ára aldur.
Viðbrögð unga fólksins okkar hafa verið undraverð og hvetjandi. 4. Apríl ‒ fyrir tveimur dögum ‒ voru 65.634 trúboðar við þjónustu, og yfir 20.000 hafa fengið köllun sína, en hafa enn ekki farið í trúboðsþjálfunarskóla, og yfir 6.000 eru í viðtalsferli með biskupum sínum og stikuforsetum. Nauðsynlegt hefur verið fyrir okkur að stofna 58 ný trúboð, til að sjá hinum aukna fjölda trúboða fyrir störfum.
Við biðjum ykkur, ef þið hafið ráð á því, að gefa af örlæti í Aðaltrúboðssjóð kirkjunnar, til að gera okkur kleift að sjá fyrir þessum trúboðafjölda, þar sem margir trúboða okkar koma frá lítt efnuðum heimilum.
Bræður og systur, við munum hlýða á innblásinn boðskap í dag og á morgun. Þeir sem tala til okkar hafa í bæn leitast við að komast að því hvað Drottinn vill að við heyrum á þessari stundu.
Ég hvet ykkur til að hlusta vandlega á boðskapinn sem fram verður borinn. Að við megum gjöra svo er bæn mín í nafni Drottins Jesú Krists, amen.