2010–2019
Að bjarga stúlku, er að bjarga kynslóðum
Apríl 2013


Að bjarga stúlku er að bjarga kynslóðum

Dyggðugt líf ykkar mun blessa forfeður ykkar og mæður, núverandi fjölskyldu ykkar og framtíðarfjölskyldu.

Það er mér heiður að fá að tala til ykkar, hughraustu stúlkur kirkjunnar. Við sjáum framþróun ykkar á vegi þeirra er heiðra sáttmála sína og við vitum að dyggðugt líf ykkar mun blessa forfeður ykkar og mæður, núverandi fjölskyldu ykkar og framtíðarfjölskyldu, því eins og Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Að bjarga stúlku, er að bjarga kynslóðum.“1

Sáttmálsvegur ykkar hófst þegar þið voruð skírðar og hlutuð gjöf heilags anda. Hann heldur áfram í sérhverri viku á sakramentissamkomu, heilögum stað þar sem þið getið endurnýjað skírnarsáttmála ykkar. Nú er tíminn til að búa sig undir að gera heilaga sáttmála í musterinu. „Helgiathafnir og sáttmálar í heilögum musterum gera [okkur] mögulegt að komast aftur í návist Guðs og fjölskyldum að sameinast að eilífu.“2

Standið á heilögum stöðum fyrir forfeður ykkar. „Sérhver mannvera sem á þessa jörðu kemur er afsprengi forfeðra og mæðra í kynslóðir. Okkur er eðlislægt að tengjast forfeðrum okkar.“3 Þið tengið líf ykkar við líf forfeðra ykkar er þið takið þátt í ættfræði- og musterisstarfi og færið þeim frelsandi helgiathafnir.

Standið á heilögum stöðum fyrir ykkur sjálfar og nærfjölskyldu ykkar. Réttlátt fordæmi ykkar mun verða uppspretta mikillar gleði, alveg sama hverjar fjölskylduaðstæður ykkar eru. Réttlát val ykkar mun gera ykkur hæfar til að gera og halda heilaga sáttmála sem munu binda fjölskyldu ykkar saman að eilífu.

Standið á heilögum stöðum fyrir framtíðarfjölskyldu ykkar. Skuldbindið ykkur því, að verða innsiglaðar eiginmönnum ykkar með hinu heilaga prestdæmi í musterinu, þegar þið stofnið eilífa fjölskyldueiningu. Börn ykkar munu blessuð með sannleika er þið vefið dyggðugt fordæmi ykkar og óhagganlegan vitnisburð inn í líf þeirra og sýnið þeim hver sáttmálsvegurinn er.

Ég sá þessar eilífu reglur í verki á nýlegri alþjóðlegri listsamkeppni unglinga. Megan Warner Taylor gerði rafrænt ljósmyndunarlistaverk með nútímanálgun á dæmisögu Krists um meyjarnar tíu.4 Ég hitti Megan og hún útskýrði tákn tíundu meyjarinnar, sem hún lýsti sem dyggðugri og trúfastri stúlku, sem var undir það búin að gera og halda heilaga sáttmála musterisins. Persónulegur undirbúningur hennar, rétt eins og allra hyggnu meyjanna, kom er hún bætti olíu á lampa sinn, einn dropa í einu, með réttlátu líferni. Ég tók eftir fallegri fléttu í hári hennar. Megan útskýrði að fléttan væri táknræn fyrir að tengja dyggðugt líf þessarar stúlku við óteljandi kynslóðir. Einn fléttuhlutinn táknaði kærleik hennar og virðingu fyrir forfeðrum sínum, annar hlutinn táknaði réttlát áhrif hennar á núverandi fjölskyldu sína, og sá þriðji táknaði undirbúning hennar við að vefa komandi kynslóðir inn í líf sitt.

Ég hitti aðra stúlku, þar sem andlegur undirbúningur snemma á lífsleiðinni hafði fléttað saman réttlátt líf margra kynslóða.

Eiginmaður minn og ég vorum í musterinu einn fallegan eftirmiðdag í september og biðum eftir að taka þátt í helgiathöfnum musterisins. Chris, vinur okkar, kom inn í herbergið. Það var dásamlegt að sjá þennan unga mann, sem var nýkominn frá Rússlandi af trúboði sínu.

Ung kona settist við hlið mér er athöfnin var um það bil að hefjast. Hún geislaði, var brosandi og uppfull af ljósi. Mig langaði til að kynnast henni svo ég kynnti mig hljóðlega. Hún hvíslaði að hún héti Kate og ég kannaðist við fjölskyldunafn hennar. Þetta var fjölskylda sem hafði búið í Michigan, þar sem fjölskylda mín átti eitt sinn heima. Kate var nú fullvaxta dóttir þeirra og hafði fimm vikum fyrr komið heim af trúboði sínu, en hún hafði þjónað í Þýskalandi.

Meðan á athöfninni stóð kom eftirfarandi hugsun í huga minn aftur og aftur: „Leiddu Kate og Chris saman.“ Ég ýtti þessari ábendingu frá mér og hugsaði, „hvenær, hvar, hvernig?“ Er við vorum um það bil að fara kom Chris til okkar til að kveðja og ég nýtti tækifærið. Ég hnippti í Kate og hvíslaði: „Þið tvö eruð dyggðugt ungt fólk og þurfið á hvort öðru að halda.“ Ég yfirgaf musterið ánægð með að hafa farið eftir þessari hvatningu.

Við hjónin rifjuðum upp og ræddum á leiðinni heim þær áskoranir sem fjölskylda Kate hafði upplifað. Ég hef síðan fengið að kynnast Kate betur og hún hefur hjálpað mér að skilja ástæðurnar fyrir glaðlegri ásýnd hennar í musterinu þennan dag.

Kate hefur ætíð reynt að halda sig á sáttmálvegi sínum með því að leita heilagra staða. Hún ólst upp á heimili þar sem fjölskyldukvöld, sameiginlegar bænir og ritningarnám gerðu heimilið að heilögum stað. Hún lærði um musterið sem barn og söngurinn: „Musterið“ var í uppáhaldi á fjölskyldukvöldum.5 Sem lítil stúlka sá hún fordæmi foreldra sinna, að þau leituðu heilagra staða er þau fóru til musterisins um helgar, í stað þess að fara í kvikmyndahús eða út að borða.

Hún elskaði föður sinn heitt og hann notaði prestdæmisvald sitt til að hjálpa henni að gera sinn fyrsta sáttmála, skírnarsáttmálann. Síðan voru hendur lagðar á höfuð hennar og hún hlaut heilagan anda. Kate sagði: „Ég var spennt yfir að hljóta heilagan anda og ég vissi að hann myndi hjálpa mér að vera á vegi eilífs lífs.“

Líf Kate hélt áfram á mjög blessunarríkan og hamingjusaman hátt. Þegar hún var 14 ára gömul hélt hún áfram í skóla og hafði yndi af trúarskóla yngri deildar, öðrum heilögum stað til að læra um fagnaðarerindið. Dag einn fór kennari hennar að tala um áskoranir og fullyrti að við myndum öll þurfa að takast á við þær. Hún sagði við sjálfa sig: „Ég vil ekki áskoranir, ég vil ekki heyra þetta.“

Einungis fáeinum vikum síðar vaknaði faðir hennar á páskadagsmorgni, mjög veikur. Kate sagði: „Faðir minn var mjög heilsugóður maður. Hann var langhlaupari. Móðir mín varð svo óttaslegin þegar hún sá hvað faðir minn var veikur, að hún fór með hann á spítala. Innan 36 klukkustunda fékk hann mikið heilablóðfall, sem hafði áhrif á næstum allan líkama hans. Það eina sem hann gat gert var að blikka augunum. Ég man að ég hugsaði þegar ég sá hann:, Ó nei, það er að gerast. Trúarskólakennarinn minn hafði á réttu að standa. Ég er nú að takast á við áskorun.‘ “ Nokkrum dögum síðar andaðist faðir Kate.

Kate hélt áfram: „Þetta var svo erfitt. Enginn vil missa hetjuna í lífi sínu. Ég vissi að ég gat gert þetta að stökkpalli til þroska eða gert það það að hindrun. Ég vildi ekki láta þetta eyðileggja líf mitt, því ég var einungis 14 ára gömul. Ég reyndi að vera eins nálægt Drottni og mögulegt var. Ég las mikið í ritningum mínum. Kapítuli 40 í Alma fullvissaði mig um að upprisan væri raunveruleg og að fyrir friðþægingu Krists gæti ég verið með föður mínum á ný. Ég baðst oft fyrir. Ég skrifaði í dagbók mína eins oft og ég gat. Ég hélt vitnisburði mínum sterkum með því að skrifa hann á blað. Ég fór í kirkju og í Stúlknafélagið í sérhverri viku. Ég umkringdi mig góðum vinum. Ég hélt mig nærri ástríkum ættingjum og sérstaklega móður minni, sem var ankeri fjölskyldunnar. Ég leitaði prestdæmisblessana frá afa mínum og öðrum prestdæmishöfum.“

Þetta staðfasta val, eins og hjá hyggnu meyjunum, bætti olíu á lampann hjá Kate. Þrá hennar eftir að vera með föður sínum á ný hvatti hana áfram. Kate vissi að faðir hennar vissi um val hennar og hún vildi ekki valda honum vonbrigðum. Hún vildi eilíft samband við hann og hún skildi, að með því að halda sér á sáttmálsveginum myndi líf hennar vera þéttofið honum.

Áskoranirnar enduðu hins vegar ekki. Þegar Kate var 21 árs gömul sendi hún inn trúboðspappíra sína og á sama tíma greindist móðir hennar með krabbamein. Kate þurfti að taka mikilvæga ákvörðun. Ætti hún að vera heima og styðja móður sína eða fara í trúboð? Móðir hennar fékk prestdæmisblessun og þar var henni lofað að hún myndi lifa af veikindin. Í trú hélt Kate áfram með fyrirætlanir sínar um að þjóna í trúboði, fullvissuð af þessari blessun.

Kate sagði: „Þetta var skref út í myrkrið, en þegar ég var í trúboði mínu kom ljósið að lokum og ég fékk þær fréttir að blessun móður minnar hefði orðið að veruleika. Ég var svo glöð yfir að hafa ekki frestað því að þjóna Drottni. Ég held að auðvelt sé að staðna þegar áskoranir koma, vilja í raun ekki halda áfram, en ef við setjum Drottin fremstan þá munu áskoranir leiða til blessana. Maður sér hendur hans og kraftaverk.“ Kate upplifði raunveruleika orða Thomas S. Monson forseta: „Stærstu tækifæri okkar birtast á tímum mestu erfiðleikanna.“6

Kate hafði þessa miklu trú, því hún skildi sáluhjálparáætlunina. Hún vissi að við lifðum sem andar, að jörðin væri tími prófrauna og að við munum lifa á ný. Hún hafði þá trú, að móðir hennar myndi ná sér, en eftir reynsluna varðandi föður sinn, vissi hún að þótt móðir hennar myndi deyja, yrði samt allt í lagi. Hún sagði: „Ég lifði ekki bara dauða föður míns af, heldur varð hann hluti af auðkenni mínu til góðs, og hefði líf móður minnar verið tekið, hefði hið sama gerst. Það hefði ofið enn sterkari vitnisburð inn í líf mitt.“7

Kate var að leita að heilögum stað kvöldið sem ég hitti hana í musterinu. Hún fylgdi þeirri forskrift sem foreldrar hennar höfðu gefið með reglulegum musterisferðum sínum, því þrá hennar var að flétta þétt saman þau eilífu bönd sem musterisþjónustan veitir.

Það gerðist ekki mikið kvöldið sem ég kynnti Kate fyrir Chris, en þegar Kate var að leita að öðrum heilögum stað næsta sunnudag, sá hún Chris meðal hundruða ungra og einhleypra á helgistund í trúaraskólanum. Þau kynntust hvort öðru betur. Nokkrum vikum síðar bauð Chris henni að horfa á aðalráðstefnu með sér. Þau héldu áfram að leita staða þar sem andinn gæti verið með þeim í tilhugalífinu og voru að lokum innsigluð í musterinu, þeim helga stað þar sem þau kynntust fyrst. Bæði uppfylla þau heilaga ábyrgð sína sem foreldrar, vefa vitnisburði sínu um sáluhjálparáætlunina inn í líf drengjanna sinna þriggja með því að sýna þeim sáttmálsleiðina.

„Að bjarga stúlku, er að bjarga kynslóðum.“ Ákvörðun hinnar 14 ára gömlu Kate um að halda sig á veginum, staðfastlega bæta olíu á lampa sinn og standa á heilögum stöðum hefur og mun koma kynslóðum til bjargar. Hún hefur fléttað hjarta sitt við hjarta forfeðra sinna með því að leita að þeim og þjóna í musterinu. Þátttaka í ættfræði- og musterisstarfi mun á sama hátt flétta saman hjörtu ykkar og gera forfeðrum ykkar kleift að hljóta eilíft líf.

Þið munuð einnig bæta olíu á lampa ykkar með því að lifa eftir fagnaðarerindinu á heimili ykkar og efla andlegan styrk á heimili ykkar nú, sem og blessa framtíðarfjölskyldu ykkar á óteljandi hátt. Ennfremur, eins og öldungur Robert D. Hales hefur sagt: „Ef fordæmið sem foreldrar okkar hafa sett er ekki gott, er það ábyrgð okkar að rjúfa hringinn…og kenna réttar hefðir sem komandi kynslóðir geta fylgt.“8

Ákveðið núna að gera allt sem þið getið til að fylla á lampa ykkar, svo að sterkur vitnisburður ykkar og fordæmi fléttist inn í líf margra kynslóða ‒ liðinna, núlifandi og komandi. Ég vitna að dyggðugt líf ykkar mun ekki einungis koma kynslóðum til bjargar, heldur mun það einnig verða ykkar eilífa lífi til bjargar, því það er eina leiðin til að snúa aftur til himnesks föður og finna sanna gleði nú og um alla eilífð. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Gordon B. Hinckley, „Standing Strong and Immovable,” Worldwide Leadership Training Meeting, 10. jan. 2004, 20; sjá einnig Gordon B. Hinckley, „Our Responsibility to Our Young Women,” Ensign, sept. 1988, 10.

  2. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  3. Russell M. Nelson, „Generations Linked in Love,” Ensign eða Líahóna, maí 2010, 92.

  4. Sjá Matt 25:1–13.

  5. Sjá „Musterið,” Barnasöngbókin, 95.

  6. Thomas S. Monson, „Meeting Your Goliath,” New Era, júní 2008, 7.

  7. Persónulegt viðtal við höfund, 2013.

  8. Robert D. Hales, „How Will Our Children Remember Us?” Ensign, nóv. 1993, 10.