Orðin sem við mælum
Hvernig við tölum til barna okkar, og orðin sem við notum, getur hvatt þau og örvað og styrkt trú þeirra.
Ungur faðir frétti nýverið af láti kennara síns frá því hann var í 8 ára bekk í skóla. Hann skrifaði í minningu um hana: „Af öllum þeim tilfinningum og upplifunum sem ég minnist, er sú sem stendur hæst í huga mínum ‚hughreysting.‘ Hún kenndi mér vissulega stafsetningu, málfræði og stærðfræði, en það sem mestu skipti var að hún kenndi mér að hafa gaman af því að vera barn. Í kennslustund hjá henni var endrum og eins í lagi að stafsetja orð vitlaust: ‚Við vinnum í þessu,‘ sagði hún. Það var í lagi að hella niður, sulla út, eða káma: ‚Við lögum þetta og þrífum eftir okkur,‘ voru viðbrögð hennar. Það var í lagi að prófa, að þenja sig, láta sig dreyma og njóta þeirrar gleði sem hlýst af því ómerkilega sem aðeins barninu finnst spennandi.“
Ein mestu áhrifin sem einstaklingur getur haft í þessum heimi er að hafa áhrif á barn. Börnin eru auðtrúa og sjálfsmat þeirra mótast snemma í lífi þeirra. Allir sem á mig hlusta geta aukið sjálfstraust barns og styrkt trú þess á himneskan föður og Jesú Krist með þeim orðum sem þeir mæla.
Í 5. kapítula í Helaman lesum við: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar.”1
Þetta voru orð sem Helaman kenndi sonum sínum. Og við lesum áfram: „Og þeir höfðu orð hans í huga, og ... fóru um og kenndu Guðs orð meðal allrar Nefíþjóðarinnar.“2
Þótt synir Helamans hefðu verið ofsóttir og færðir í varðhald, misstu þeir aldrei traust á þessum orðum. Þeir nutu verndar og voru umluktir eldstólpa. Síðan barst föngurum þeirra rödd sem sagði:
„Iðrist, og reynið ei framar að tortíma þjónum mínum. …
„... Það var ekki þrumuraust, né var það sterk og hávær rödd, en sjá, heldur var það hljóðlát rödd, full af mildi, sem væri hún hvísl. Og hún smaug inn í sjálfa sálina.“3
Við getum lært af þessari röddu frá himni. Hún var ekki hávær, ámælisverð eða lítillækkandi, hún var lægvær, afar mild og veitti staðfasta leiðsögn og vakti samtímis von.
Hvernig við tölum til barna okkar, og orðin sem við notum, getur hvatt þau og örvað þau og styrkt trú þeirra til að vera á veginum sem liggur til föður okkar á himnum. Þau koma til þessarar jarðar fús til að hlusta.
Dæmi um barn sem hlustaði gerðist í vefnaðarvörubúð. Búðin var full af viðskiptavinum og öllum varð ljóst að móðir nokkur komst í uppnám, því hún hafði týnt ungum syni sínum. Í fyrstu kallaði hún á hann með nafni. „Connor,“ sagði hún, og gekk rösklega um búðina. Eftir því sem lengra leið, varð rödd hennar háværari og örvæntingarfyllri. Brátt var öryggisvörðunum gert viðvart og allir í búðinni tóku þátt í að leita að barninu. Nokkrar mínútur liðu án þess að barnið fyndist. Móðir Connors varð skiljanlega örvæntingarfyllri með hverri mínútunni sem leið og hrópaði hátt og endurtekið nafn hans.
Eftir hljóða bæn fékk einn viðskiptavinurinn þau hugboð, að Connor væri líklega óttasleginn yfir að heyra móður sína hrópa nafn hans. Hún benti annarri konu, sem þátt tók í leitinni, á þann grun sinn og þær gerðu strax áætlun. Saman tóku þær að ganga á milli borðanna með vefnaðinum og endurtaka lágróma orðin: „Connor, ef þú heyrir í mér, segðu þá ‚ég er hér.‘“ Þegar þær gengu hægt innst í búðinni og endurtóku orðin, heyrðu þær vissulega lága og milda rödd segja: „Ég er hér.“ Connor hafði falið sig á milli efnisstranga undir borði. Það var afar mild rödd sem hafði lokkað Connor til að bregðast við.
Biðjist fyrir til að þekkja þarfir barns.
Við verðum að þekkja þarfir barns, ef við hyggjumst tala til hjarta þess. Ef við biðjumst fyrir um að þekkja slíkar þarfir, geta orð okkar náð að snerta hjarta barnsins. Þegar við leitum leiðsagnar heilags anda, margfaldast geta okkar. Drottinn sagði:
„Mælið fram það sem ég blæs yður í brjóst, ...
Því að yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal.“4
Staldrið við og hlustið af kærleika.
Því miður koma truflanir þessa heims í veg fyrir að mörg börn fái hlustað á hvatningarorð sem gætu haft áhrif á sjálfsmat þeirra.
Dr. Neal Halfon, yfirlæknir UCLA-miðstöðvarinnar, fyrir aukið heilbrigði barna, fjölskyldna og samfélags, ræðir það sem hann nefnir „saklausa vanrækslu foreldra.“ Ein könnunin var 18 mánaða gamalt barn og foreldrar þess:
„ ‚Sonur þeirra virtist glaðvær, virkur og augljóslega njóta þess að borða pitsu og vera með foreldrum sínum. ... Við lok málsverðarins stóð móðirin upp til að sinna erindagjörðum sínum og faðirinn annaðist soninn.’
Faðirinn ... tók að lesa símaskilaboð meðan barnið reyndi að ná athygli hans með því að kasta pitsubitum. Faðirinn snéri sér þá að barninu að nýju og lék við það. Brátt breytti hann þó um og tók að horfa á vídeó í símanum sínum með barninu, þar til eiginkona hans kom aftur.
... Í báðum tilvikum tók Dr. Halfon eftir því að það dofnaði yfir innra ljósi barnsins og tengslin minnkuðu á milli foreldris og barns.“5
Bænarsvarið við því hvernig uppfylla má þarfir barna okkar gæti falist í því að aftengja okkur tækninni. Dýrmætar stundir sem gefast til að eiga samskipti og ræða við börn okkar, glatast þegar athygli okkar beinist að því sem truflar. Því ekki að taka frá tíma dag hvern til að aftengjast tækninni og tengjast hvert öðru? Aftengja einfaldlega allt. Þegar við gerum það, virðist heimilið kannski kyrrlátt í fyrstu, þið gætuð jafnvel ekki vitað hvað gera ætti eða segja skyldi. Þegar þið beinið allri athyglinni að börnum ykkar, hefjast umræður og þið getið notið þess að hlusta á hvert annað.
Skrifið til að hvetja börn ykkar
Við getum líka haft áhrif á börn okkar með þeim orðum sem við skrifum til þeirra. Nefí skrifaði: „Vér ritum af kappi til að hvetja börn vor … til að trúa á Krist og sættast við Guð.“6
Thomas S. Monson forseti miðlaði reynslu Jays Hess, flugliða, sem var skotinn niður yfir Norður-Víetnam á sjöunda áratugnum: „Í tvö ár hafði fjölskylda hans ekki hugmynd um hvort hann væri lífs eða liðinn. Fangarar hans í Hanoi leyfðu honum að endingu að skrifa heim, en takmarkað við aðeins 25 orð.“ Monson forseti spurði: Hvað mynduð þið segja við fjölskyldu ykkar við þær aðstæður ‒ eftir að hafa ekki séð hana í rúm tvö ár og án þess að vita hvort þið sæjuð hana nokkurn tíma aftur? Bróðir Hess vildi segja eitthvað sem fjölskylda hans vissi að væri frá honum, og óskaði líka að gefa þeim góð ráð, og því skrifaði hann [eftirfarandi orð]: „Þetta er mikilvægt: Musterishjónaband, trúboð, menntun. Sækið fram, setjið markmið, skrifið sögu ykkar, takið myndir tvisvar á ári.”7
Hvað mynduð þið skrifa til barna ykkar, ef þið mættuð aðeins skrifa 25 orð eða færri?
Ungi faðirinn sem ég ræddi um hér áður, sem skrifaði minningar sínar um kennara sinn í 8 ára bekk, er nú að ala upp fallega unga dóttur. Hann skynjar hið himneska traust sem á hann hefur verið lagt. Hver verður framtíð hennar er hún vex úr grasi? Hvað mun hann segja sem festir djúpar rætur í hjarta hennar? Hvaða orð munu hvetja hana og hjálpa henni að vera á veginum? Mun það skipta sköpum, ef hann gefur sér tíma til að hvísla: „Þú ert barn Guðs“? Mun hún einhvern tíma minnast þess að faðir hennar sagði þessi orð: „Þú ert alveg yndisleg“?
Er það ekki það sem himneskur faðir sagði við son sinn og okkur öll, er hann sagði: „Þessi er minn elskaði sonur,“ og bætti síðan við, „sem ég hef velþóknun á“?8
Megi orðin sem við mælum og skrifum til barna okkar endurspegla þá elsku sem himneskur faðir ber til sonar síns, Jesú Krists, og okkar allra. Og megum við síðan staldra við og hlusta, því barn er þess megnugt að mæla mikil og undursamleg orð. Þetta segi ég í nafni Jesú Krists, amen.