2010–2019
Fagnaðarerindið til alls heimsins
Apríl 2013


Fagnaðarerindið til alls heimsins

Kirkjan hefur verið í stöðugri útrás um heiminn, frá þjóð til þjóðar, menningu til menningar, og fylgt tímatöflu Drottins.

Jarðnesk þjónusta frelsarans var á enda runnin. Þjáningar hans í Getsemane og á krossinum voru yfirstaðnar. Í fyrsta kapítula Postulasögunnar lesum við, að hann þjónaði í 40 daga eftir upprisu sína, postulum sínum „birti hann sig“ og „talaði um Guðs ríki“ (Post 1:3).

Hann sagði við þá: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar“ (Post 1:8).

Nokkru þar á eftir „varð hann upp numinn að þeim ásjáandi,

Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum

og sögðu: Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins“ (Post 1:9–11).

Vissulega myndi frelsarinn koma aftur með síðari komu sinni, en fram að því yrði fagnaðarerindi Jesú Krists boðað „til endimarka jarðarinnar.“

Af Matteusi lærum við að sérstakt hlutverk postulanna sé að færa öllum þjóðum fagnaðarerindið:

„Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda“ (Matt 28:18–19).

Á fyrri tímum kirkjunnar, á hádegisbaugi tímans, var fagnaðarerindið aðeins veitt Ísrael. Pétur postuli, reyndasti postulinn, hlaut síðan opinberun um að tímabært væri að færa Þjóðunum fagnaðarerindið og einskorða það ekki aðeins við Ísrael. Í 10. og 11. kapítula í Postulasögunni fáum við aukinn skilning á því, hvernig þessi nauðsynlega útrás kirkjunnar til fleiri barna Guðs var gerð kunnug ráðandi embættismönnum og almennum kirkjumeðlimum.

Drottinn notaði Kornelíus, sem var ekki Gyðingur en góður maður og hundraðshöfðingi, og veitti Pétri innblástur um að fagnaðarerindið bæri að færa Þjóðunum, en það var hinum heilögu þess tíma framandi hugmynd. Opinberunin um að gera þessa breytingu á ætlunverki kirkjunnar barst Pétri, reyndasta postulanum. Við vitum að fagnaðarerindið var síðan óðfluga fært Þjóðunum.

Trúskipti Páls eru dæmi um útrás kirkjunnar á þessum tíma, en hann varð mikilhæfur postuli fyrir Þjóðirnar. Hann hlaut sýn á veginum til Damaskus, þar sem hann sá ljós og heyrði rödd, iðraðist synda sinna, hlaut köllun frá Guði (sjá Post 22:6–18) og varð síðan gríðarlega máttugur við boðun fagnaðarerindis Jesú Krists.

Við skulum nú færa okkur 1800 ár fram í tímann, að endurreisn fagnaðarerindisins eða endurreisn allra hluta fyrir síðari komuna. Ég ber vitni um að kirkjan hefur verið endurreist fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith og er í stöðugri útrás undir leiðsögn Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar. Hlutverk þeirra er hið sama og postulanna til forna, að færa heiminum fagnaðarerindið.

Frá stofnun Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu árið 1830, hefur kirkjan verið í stöðugri útrás um heiminn, frá þjóð til þjóðar og menningu til menningar, og fylgt tímatöflu Drottins.

Árið 1978 hlaut Spencer W. Kimball forseti opinberun, á hefðbundinn hátt sem reynslumesti postulinn, um að nú skyldi veita öllum verðugum karlmönnum um heiminn allar blessanir prestdæmisins. Það merkir, að á okkar tíma geta öll börn himnesks föður um heim allan meðtekið allar blessanir hins endurreista fagnaðarerindis. Hve sæmandi ríki Guðs á jörðu á þeim tíma er síðari koma Krists nálgast.

Ég hafði þá nýlega verið kallaður sem trúboðsforseti og við hjónin vorum í þann mund að fara til Mexíkó með fjölskylduna, þegar öldungur Richard G. Scott, sem þá var einn hinna Sjötíu, greindi mér frá þessari sérstöku opinberun. Ég minnist þess að tár komu í augun þegar hann sagði mér frá því sem gerst hafði. Ég varð orðlaus af gleði, því ég vissi að þetta var rétt og að sá tími væri inni, að allt mannkyn hefði aðgang að öllum helgiathöfnum, sáttmálum og blessunum fagnaðarerindisins.

Þetta var fyrir næstum 35 árum og mig grunaði ekki þá, að fyrir mér ætti að liggja að verja nokkrum árum þjónustu minnar á Vestur-Afríkusvæði kirkjunnar, sem einn af hinum Sjötíu, meðal trúaðra og staðfastra, sem opinberunin um prestdæmið árið 1978 hafði svo mikil áhrif á. Systir Dickson og ég höfum dvalið þar í fjögur ár og sú reynsla hefur verið okkur dásamleg og áhrifamikil.

Vestur-Afríkubúar trúa á Guð og finnst ekkert tiltökumál að segja öðrum frá trú sinni, og meðal þeirra eru gríðarmörg og hæf leiðtogaefni. Þeir streyma í kirkjuna í hundruða vís og næstum í hverri viku eru nokkrar deildir eða greinar stofnaðar á Vestur-Afríkusvæðinu, og í næstum öllum tilvikum eru innfæddir Afríkubúar leiðtogar prestdæmis og aðildarfélga.

Hve ég vildi að þið gætuð verið með hinum heilögu í musterinu í Aba, Nígeríu, eða í Accra, Ghana, því þar gætuð þið séð hollustu hinna heilögu og kynnst forsætisráðum musterisins, sem skipuð eru innfæddum Afríkubúum, eða kynnst hinum Sjötíu á Afríkusvæðinu, sem eru meðal okkar hér í Ráðstefnuhöllinni í dag og eru lögfræðingar, prófessorar og fyrirtækjastjórnendur, eða kynnst leiðtogum stika og deilda í Afríku og fjölskyldum þeirra.

Að fara í sunnudagaskóla, námsbekk aðildarfélags eða prestdæmis, hvar sem er í Afríku, er helg upplifun. Þar er námsefni kirkjunnar fylgt og skilningur á fagnaðarerindinu, kennsla þess og lærdómur af andanum, er mikill.

Fagnaðarerindið í Afríku er fært glaðlegu fólki sem er afar laust við þær áhyggjur sem svo almennar eru meðal margra Vesturlandabúa. Það hefur ekki endalaust áhyggjur af því að eignast fleiri veraldlegar eigur.

Sagt hefur verið um Afríkubúa, að þeir hafi afar lítið af því sem litlu skiptir og heilmikið af því sem miklu skiptir. Áhugi þeirra er lítill á íburðarmiklum heimilum og fallegum bílum, en mikill á því að þekkja himneskan föður og son hans, Jesú Krist, og eiga eilífa fjölskyldu. Drottinn lyftir þeim á þýðingarmikinn hátt, sem er eðlileg afleiðing trúar þeirra.

Eins og við þekkjum fólkið, vekur það enga furðu að það skipi svo mikilvægan sess í útrás kirkju Jesú Krists á efstu dögum. Daníel, spámaður Gamla testamentisins, sá ríki Guðs „breiðast út til endimarka jarðar, líkt og steinninn, sem losaður er úr fjallinu án þess að hendur komi nærri, [og veltur] áfram, uns hann hefur fyllt alla jörðina“ (K&S 65:2), og því væri við hæfi að segja, að okkar dásamlegu afrísku bræður og systur væru mikilvægur hluti af uppfyllingu þessa spádóms, og að opinberanirnar sem gerðu það svo, fylgdu staðfestum hætti Drottins.

Ég ber vitni um að himneskur faðir elskar öll sín börn, að Jesús er Kristur, og að fagnaðarerindið er öllum aðgengilegt, bæði lifandi og látnum, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.