Aðalráðstefna
Nú er tíminn
Aðalráðstefna apríl 2022


5:57

Nú er tíminn

Núna er tíminn sem við getum lært. Núna er tíminn sem við getum iðrast. Núna er tíminn sem við getum blessað aðra.

Kæru bræður og systur, þessi ráðstefna hefur á margan hátt verið söguleg. Við höfum verið blessuð með bænum, boðskap og tónlist. Við höfum verið innblásin af þjónum Drottins.

Við höfum fengið mikilvæga leiðsögn fyrir framtíðina. Bæn mín er sú að andinn hafi talað beint til ykkar um það sem Drottinn vill að þið gerið.

Framtíðin er alltaf óviss. Veðrið breytist. Efnahagsveiflur eru ófyrirsjáanlegar. Hörmungar, stríð, slys og veikindi geta breytt lífinu á skammri stundu. Þessum atburðum höfum við sjálf að mestu enga stjórn á. Við getum þó haft stjórn á sumu, svo sem hvernig við verjum tíma okkar á degi hverjum.

Ég er hrifinn af þessu ljóði, eftir Henry Van Dyke, ritað á sólúr í Wells College í New York. Það er svo hljóðandi:

Skugginn af fingri mínum,

skilur að framtíð og fortíð:

Öðrumegin sefur hin ófædda stund,

í myrkri og ofar valdi þínu.

Hinumegin er óafturkræf lína,

horfin stund, ekki lengur þín:

Aðeins ein stund er í þínum höndum,–

NÚNA, sú sem skugga bregður á.1

Já, við eigum að læra af fortíðinni, og já, við eigum að búa okkur undir framtíðina. Aðeins núna er það mögulegt. Núna er tíminn sem við getum lært. Núna er tíminn sem við getum iðrast. Núna er tíminn sem við getum blessað aðra og „[rétt] úr máttvana höndum.“2 Líkt og Mormón leiðbeindi syni sínum, Moróní: „ Við [skulum] erfiða af kostgæfni. … Því að við höfum verk að vinna, meðan við dveljum í þessu leirmusteri, svo að við fáum sigrað óvin alls réttlætis og hvílt sálir okkar í Guðs ríki.“3

Andstæðingurinn sefur aldrei. Það verður alltaf andstaða við sannleikann. Ég endurtek hvatningu mína frá því í morgun, um að gera þá hluti sem munu auka ykkar jákvæða andlega skriðþunga, þá lyftu sem öldungur Dieter F. Uchtdorf talaði um, svo þið fáið sótt fram í hverjum þeim áskorunum og tækifærum sem koma.

Jákvæður andlegur kraftur eykst þegar við tilbiðjum í musterinu og vöxum í skilningi á undursamlegri breidd og dýpt þeirra blessana sem við hljótum þar. Ég sárbið ykkur að standa gegn háttum heimsins, með því að einblína á eilífar blessanir musterisins. Tími ykkar þar, mun færa blessanir að eilífu.

Eftir því sem kirkjan vex, reynum við samhliða að byggja fleiri musteri. Fjörutíu og fjögur ný musteri eru nú í byggingu. Fleiri eru í endurnýjun. Ég bið fyrir því hæfa fólki sem vinnur að þessum verkefnum um allan heim.

Í anda bænar og þakklætis, nýt ég þeirrar ánægðu að kynna ráðgerð okkar um byggingu nýrra mustera á hverjum eftirfarandi staða: Wellington, Nýja-Sjálandi; Brazzaville, Austur Kongó; Barcelona, Spáni; Birmingham, Bretlandi; Cusco, Perú; Maceió, Brasilíu; Santos, Brasilíu; San Luis Potosí, Mexíkó; Mexico City Benemérito, Mexíkó; Tampa, Flórída; Knoxville, Tennessee; Cleveland, Ohio; Wichita, Kansas; Austin, Texas; Missoula, Montana; Montpelier, Idaho; og Modesto, Kaliforníu.

Þessi sautján musteri mun blessa ótal marga, beggja vegna hulunnar. Ég elska ykkur, kæru bræður og systur. Mest um vert er að Drottinn elskar ykkur. Hann er frelsari ykkar og lausnari. Hann leiðir kirkju sína. Megum við vera fólk þóknanlegt Drottni, sem sagði: „Þér verðið mín þjóð og ég verð yðar Guð.“4

Það er bæn mín, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.