Aðalráðstefna
Prédika fagnaðarboðskap friðarins
Aðalráðstefna apríl 2022


15:28

Prédika fagnaðarboðskap friðarins

Við höfum þá helgu ábyrgð að deila krafti og friði Jesú Krists með öllum sem vilja hlusta.

Kæru bræður og systur, velkomin á aðalráðstefnu! Ég hef hlakkað til þessa dags með mikilli eftirvæntingu. Ég bið daglega fyrir ykkur. Ég hef einnig beðið fyrir því að þessi ráðstefna verði hverju ykkar tími andlegrar endurnýjunar.

Frá síðustu ráðstefnu, er ekkert lát á erfiðleikum í heiminum. Heimsfaraldurinn hefur enn áhrif á líf okkar. Nú hefur heimurinn hins vegar verið í uppnámi út af stríði sem veldur skelfingu milljóna saklausra karla, kvenna og barna.

Spámenn hafa séð fyrir okkar tíma, þegar styrjaldir og hernaðartíðindi berast, er öll jörðin verður í uppnámi.1 Sem fylgjendur Jesú Krists, biðjum við leiðtoga þjóða um að finna friðsamlega lausn á ágreiningi sínum. Við skorum á fólk alls staðar að biðja fyrir þeim sem eru í neyð, gera það sem það getur til að hjálpa þeim sem eru í erfiðleikum og leita liðsinnis Drottins við að binda enda á öll mikil átök.

Bræður og systur, aldrei hefur verið meiri þörf fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists en á okkar tíma. Deilur eru í andstöðu við allt sem frelsarinn stóð fyrir og kenndi. Ég elska Drottin Jesú Krist og vitna að fagnaðarerindi hans er eina varanlega friðarlausnin. Fagnaðarerindi hans er fagnaðarerindi friðar.2

Fagnaðarerindi hans er eina svarið, er margir í heiminum eru slegnir ótta.3 Þetta undirstrikar hina brýnu nauðsyn að við fylgjum boði Drottins til lærisveina sinna: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“4 Við höfum þá helgu ábyrgð að deila krafti og friði Jesú Krists með öllum sem vilja hlusta og láta Guð ríkja í eigin lífi.

Sérhver sá sem hefur gert sáttmála við Guð hefur lofað að láta sér annt um aðra og þjóna nauðstöddum. Við getum sýnt trú á Guð og ávallt verið fús til að svara þeim sem spyrja um „[vonina] sem í [okkur] er.“5 Hvert okkar hefur hlutverki að gegna í samansöfnun Ísraels.

Í dag staðfesti ég eindregið að Drottinn hefur boðið sérhverjum verðugum, dugandi, ungum manni að búa sig undir og þjóna í trúboði. Fyrir Síðari daga heilaga pilta, er trúboðsþjónusta prestdæmisskylda. Þið piltar, hafið verið fráteknir fyrir þennan tíma, er hin fyrirheitna samansöfnun Ísraels á sér stað. Er þið þjónið í trúboði, gegnið þið mikilvægu hlutverki í þessum fordæmislausa atburði!

Fyrir ykkur, ungu og dugandi systur, er trúboð einnig áhrifaríkt, en valfrjálst tækifæri. Við elskum trúboðssystur og bjóðum þær hjartanlega velkomnar. Framlag ykkar í þessu verki er stórfenglegt! Biðjið til að komast að því hvort Drottinn vilji að þið þjónið í trúboði og heilagur andi mun svara ykkur í hjarta og huga.

Kæru ungu vinir, sérhvert ykkar er Drottni mikilvægt. Hann hefur tekið ykkur frá fyrir þennan tíma til að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Ákvörðun ykkar um að þjóna í trúboði, hvort sem trúboð ykkar er að boða eða þjóna, mun blessa ykkur og marga aðra. Við bjóðum einnig eldri hjón velkomin til þjónustu, ef aðstæður þeirra leyfa. Framlag þeirra er einfaldlega óviðjafnanlegt.

Allir trúboðar kenna og vitna um frelsarann. Hið andlega myrkur í heiminum gerir þörfina á ljósi Jesú Krists mikilvægari en nokkru sinni áður. Allir verðskulda að þekkja hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Sérhver maður verðskuldar að vita hvar hann getur fundið vonina og friðinn sem er „æðri öllum skilningi.“6

Megi þessi ráðstefna vera ykkur tími friðar og andlegrar endurnæringar. Að þið megið leita og hljóta persónulega opinberun á þessari ráðstefnu, er bæn mín, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.