2010–2019
Elska aðra og lifa með ólíkum skoðunum
október 2014


Elska aðra og lifa með ólíkum skoðunum

Fylgjendur Krists ættu að lifa í friðsemd með þeim sem hafa önnur lífsgildi eða samþykkja ekki undirstöðu kenninga okkar.

I.

Á síðustu dögum jarðneskrar þjónustu sinnar, gaf Jesús lærisveinum sínum það sem hann sagði vera „nýtt boðorð“ (Jóh 13:34). Boðorð, sem endurtekið var þrisvar, var einfalt en erfitt: „Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður“ (Jóh 15:12; sjá einnig vers 17). Sú kenning að elska hver annan, var megin kenning þjónustu frelsarans. Annað æðsta boðorðið var: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matt 22:39). Jesús kenndi jafnvel: „Elskið óvini yðar“ (Matt 5:44). Boðorðið um að elska aðra, eins og hann elskaði hjörð sína, var lærisveinum hans – og okkur – einstök áskorun. Thomas S. Monson forseti kenndi síðastliðinn apríl: „Kærleikur er í raun kjarni fagnaðarerindisins og Jesús Kristur er fyrirmynd okkar. Líf hans er kærleiksarfur.“1

Hvers vegna er svo erfitt að bera kristilegan kærleika til hver annars? Það er erfitt vegna þess að við verðum að búa meðal þeirra sem ekki hafa sömu trúarskoðanir, lífsgildi og sáttmálsskyldur. Í sinni dásamlegu fyrirbæn, sem Jesús flutti fyrir krossfestingu sína, bað hann fyrir fylgjendum sínum: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum“ (Jóh 17:14). Hann sárbændi síðan föðurinn: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa“ (vers 15).

Okkur ber að vera í heiminum, en ekki af heiminum. Við verðum að vera í heiminum, vegna þess að ríki hans er „líkt súrdeigi,“ eins og Jesús kenndi með dæmisögu, sem mun þenjast út af áhrifum sínum (sjá Lúk 13:21; Matt 13:33; sjá einnig 1 Kor 5:6–8). Fylgjendur hans geta ekki gert það, ef þeir aðeins eiga samskipti við þá sem hafa sömu trúarskoðanir og lífsgildi. Frelsarinn kenndi líka, að ef við elskum hann, mundum við halda boðorð hans (sjá Jóh 14:15).

II.

Fagnaðarerindið hefur að geyma margar kenningar um að halda boðorðin, meðan við lifum meðal þeirra sem hafa aðrar trúarskoðanir og lífsgildi. Kenningarnar um ágreining eru mikilvægar. Þegar hinn upprisni Kristur sá Nefítana deila um skírnaraðferðina, gaf hann þeim skýr fyrirmæli um hvernig standa ætti að þessari helgiathöfn. Hann kenndi síðan þessa mikilvægu reglu:

„Engin sundrung skal vera á meðal yðar, eins og hingað til hefur verið. Ekki skal heldur vera neinn ágreiningur meðal yðar um kenningar mínar, eins og hingað til hefur verið.

Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hver gegn öðrum.

„Sjá! Það er … kenning mín, að slíkt skuli afnumið“ (3 Ne 11:28–30; skáletrað hér).

Frelsarinn einskorðaði ekki aðvörun sína um þrætur við þá sem ekki héldu boðorðið um skírnina. Hann fyrirbauð öllum að þræta. Þeir sem halda boðorðin, mega heldur ekki egna menn til deilna og reiði. Djöfullinn er „faðir sundrungar,“ en frelsarinn er friðarhöfðinginn.

Biblían kennir á líkan hátt: „Vitrir menn lægja reiðina“ (Okv 29:8). Hinir fornu postular kenndu: „Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir“ (Róm 14:19) og „[mælum] sannleikann í kærleika“ (Efe 4:15), „því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði“ (Jakbr 1:20). Í nútíma opinberun bauð Drottinn að hið endurreista fagnaðarerindi skyldi boðað, að „sérhver maður aðvari náunga sinn, af mildi og hógværð“ (K&S 38:41), „í fullri auðmýkt og … lasta ekki lastmælendur“ (K&S 19:30).

III.

Þótt okkur beri að vera auðmjúk og forðast þrætur, megum við ekki hvika frá eða draga úr skuldbindingu okkar við þann sannleika sem við skiljum. Við megum ekki gefa eftir stöðu okkar eða lífsgildi. Fagnaðarerindi Jesú Krists og sáttmálarnir sem við höfum gert, gera okkur óhjákvæmilega að skotspæni í hinni eilífu baráttu sannleika og ranginda. Í þeirri baráttu er ekkert hlutlaust svæði að finna.

Frelsarinn vísaði veg, þegar andstæðingar hans stóðu andspænis honum, með konuna sem „var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór“ (Jóh 8:4). Þegar þeir blygðuðust sín fyrir hræsni sína, héldu þeir á braut og skildu konuna eina eftir hjá Jesú. Hann sýndi henni ljúfleika, með því að fordæma hana ekki að þessu sinni. Hann veitti henni þó eindregna leiðsögn um að „syndga ekki framar“ (Jóh 8:11). Krafist er ástúðar og ljúfmennsku, en fylgjendur Krists þurfa að standa fastir á sannleikanum – á sama hátt og meistarinn.

IV.

Líkt og frelsarinn, þá þurfa fylgjendur hans stundum að standa andspænis syndsamlegri breytni og á okkar tíma eru þeir oft sagðir vera „þröngsýnir“ eða „öfgafullir,“ þegar þeir setja fram rétt og rangt að eigin skilningi. Þannig er ýmis lífsmáti og breytni ögrandi fyrir Síðari daga heilaga. Meðal þess sem hæst ber í dag er sá öflugi tíðarandi að lögleiða hjónaband samkynhneigðra í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og Kanada og ótal löndum í heiminum. Þeir eru líka á meðal okkar sem hafa alls enga trú á hjónabandinu. Sumir hafa ekki trú á barneignum. Aðrir vilja engar takmarkanir á klámefni eða hættulegum eiturlyfjum. Annað dæmið – sem kunnugt er flestum trúuðum – er sú áskorun að búa með trúlausum maka eða fjölskyldumeðlim eða að eiga samskipti við trúlausa samstarfsmenn.

Á helgum stöðum, líkt og í musterum, samkomuhúsum eða á eigin heimilum, ættum við að kenna sannleikann og boðorðin skýrt og skorinort, eins og skilningur okkar leyfir á sáluhjálparáætluninni, opinberaðri í hinu endurreista fagnaðarerindi. Réttur okkar til að gera það er verndaður af stjórnarskrá sem tryggir málfrelsi og trúfrelsi, sem og af persónuverndarlögum, sem jafnvel eru höfð í heiðri í löndum sem hafa engin stjórnarskrárbundin réttindi.

Fleira þarf líka að hafa í huga þegar trúaður einstaklingur tjáir sig á almannafæri. Trúfrelsið nær yfir flestar almennar athafnir, en það er þó háð þeim nauðsynlega fyrirvara að mögulegt sé að umbera trúarskoðanir og trúariðkun annarra. Lög geta bannað atferli sem almennt er talið rangt eða óásættanlegt, líkt og kynlífsþrælkun og ofbeldi eða annað ógnvænlegt atferli, jafnvel þótt öfgasinnar geri slíkt í skjóli trúarbragða. Atferli sem ekki er eins alvarlegs eðlis, jafnvel þótt það sé óásættanlegt fyrir suma trúaða, þarf einfaldlega að sætta sig við, ef það er gert löglegt með því sem Mormónsbók kallar „rödd þjóðarinnar“ (Mósía 29:26).

Við ættum öll að fara eftir kenningum fagnaðarerindisins, um að elska náunga okkar og forðast þrætur í almennri umræðu. Fylgjendur Krists ættu að sýna fordæmi um háttprýði. Við ættum að elska alla menn, vera góðir áheyrendur og sýna að við virðum einlægar skoðanir þeirra. Þótt við séum á öndverðum meiði, megum við ekki verða ógeðfelld. Skoðanir okkar og framsetning á umdeildum málefnum, ættu ekki að leiða til deilna. Við ættum að hafa áhrif og útskýra afstöðu okkar og fylgja henni eftir af skynsemi. Í þeirri viðleitni biðjum við þess að aðrir taki ekki illa í einlægar trúarskoðanir okkar og trúfrelsisiðkun. Við hvetjum alla til að hagnýta sér hina gullnu reglu frelsarans: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ (Matt 7:12).

Þegar skoðanir okkar fá ekki hljómgrunn, ættum við að sætta okkur við það, draga okkur vinsamlega í hlé og sýna andstæðingum okkar háttprýði. Í öllum aðstæðum ættum við að sýna velvilja, hafna hverskyns ofstæki og ofsóknum, þar með talið ofsóknum sem beint er að kynþáttum, þjóðarbrotum, skoðunum trúaðra eða trúleysingja og kynferðislegri afstöðu.

V.

Ég hef rætt um almennar reglur. Nú ætla ég að ræða um það hvernig þessar reglur ættu að gildavið hinar ýmsu almennu aðstæður, þar sem betur mætti fylgja kenningum frelsarans.

Ég byrja á því sem litlum börnum lærist á leikvellinum. Oft er það svo að þeim sem ekki eru mormónar hér í Utah er misboðið af einhverjum meðlima okkar, sem vilja ekki að börn þeirra umgangist börn af öðrum trúarbrögðum. Vissulega getum við kennt börnum okkar lífsstaðla og lífsgildi án þess að einangra þau frá þeim sem eru öðruvísi eða sýna þeim vanvirðingu.

Margir kennarar í kirkju og skóla hryggjast yfir því hvernig sumir unglingar, einnig unglingar SDH, koma fram við hver annan. Boðorðið um að elska og virða hver annan, á vissulega við um öll trúarbrögð, kynþætti, menningu eða fjárhagsstöðu. Við hvetjum alla unglinga til að forðast einelti, vanvirðu eða málfar og breytni sem særir aðra vísvitandi. Allt þetta er andstætt því boðorði frelsarans að elska hver annan.

Frelsarinn kenndi að þrætur væru af hinu illa. Það fer vissulega á móti sumu nútíma málfari og sumri stjórnmálabreytni. Stjórnmál krefjast þess að nauðsynlegt sé að búa við mismunandi skoðanir, en það þarf þó ekki að þýða persónulegar árásir, sem skaða stjórnmálamenn og framgang stjórnvalda. Öll ættum við að halda okkur fjarri hatursáróðri og illri breytni og bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum.

Sá staður sem mikilvægast er að forðast þrætur og virða skoðanamun, er á heimilum okkar og í samskiptum við fjölskylduna. Skoðanamunur er óhjákvæmilegur – bæði í stóru og smáu. Segjum svo að fjölskyldumeðlimur sé í óvígðri sambúð, sem kann að valda miklum skoðanamun. Við það myndast togstreita tveggja mikilvægra gilda – að elska fjölskyldumeðliminn og vera sjálfum okkur samkvæm hvað boðorðin varðar. Með því að fylgja fordæmi frelsarans, getum við bæði verið ljúf og ástúðleg og staðföst í sannleikanum, ef við forðumst breytni sem auðveldar eða leggur blessun sína yfir það sem við vitum að er ekki rétt.

Ég lýk með enn einu dæmi um fjölskyldu-samskipti. Á stikuráðstefnu í miðsvesturríkjunum, fyrir um 10 árum, hitti ég systur sem sagði mér að eiginmaður hennar, sem ekki var meðlimur, hefði komið með henni í kirkju í 12 ár, en aldrei viljað ganga í hana. Hún spurði hvað henni bæri að gera. Ég ráðlagði henni að halda áfram að gera það sem rétt væri og sýna eiginmanni sínum þolinmæði og ástúð.

Um mánuði síðar skrifaði hún mér eftirfarandi: „Að mínu viti eru 12 ára nokkuð gott fordæmi um þolinmæði, en ég var ekki jafn viss um ástúðina Ég lagði mig því fram við hana í ríflega mánuð og hann lét skírast.“

Ljúfmennska er áhrifarík, einkum innan fjölskyldunnar. Bréfinu lauk þannig: „Ég reyni jafnvel að vera enn ástúðlegri eftir þetta, því við erum að stefna að musterisinnsiglun á þessu ári!“

Sex árum síðar skrifaði hún mér annað bréf: „Eiginmaður minn var nýlega kallaður og settur í embætti sem biskup deildar okkar.“2

VI.

Svo mörg sambönd og aðstæður krefjast þess að við búum við skoðanamun. Þegar mikið liggur við, ætti ekki að virða okkar skoðanir að vettugi eða afneita þeim, en fylgjendur Krists ættu að lifa í friðsemd með þeim sem hafa önnur lífsgildi eða samþykkja ekki undirstöðu kenninga okkar. Í sáluhjálparáætlun föðurins, sem við þekkjum með spámannlegri opinberun, er okkur ætlað að lifa við jarðneskar aðstæður, þar sem okkur er boðið að halda boðorðin hans. Í því felst að við elskum náunga okkar, af ólíkri menningu og skoðunum, eins og hann elskaði okkur. Líkt og spámaður Mormónsbókar kenndi, þá verðum við að sækja fram, í „ást til Guðs og allra manna“ (2 Ne 31:20).

Þótt erfitt sé að lifa í óróanum umhverfis, þá er stærsta áskorun okkar líklega sú að lifa eftir því boðorði frelsarans að elska hver annan, eins og hann elskaði okkur. Ég bið þess að við megum skilja það og reyna að lifa samkvæmt því í samskiptum okkar og athöfnum, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „Love—the Essence of the Gospel,“ Ensign eða Liahona, maí 2014, 91.

  2. Bréf til Dallin H. Oaks, 23. jan.  2006 og 30. okt.  2012.