Foreldrar: Aðalkennarar fagnaðarerindisins fyrir börnin
Þegar allt kemur til alls þá er heimilið hinn fullkomni vettvangur til að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists.
Ben Carson sagði um sig sjálfan: „Ég var versti nemandinn í öllum fimmta bekknum mínum.“ Dag einn tók Ben 30 spurninga stærðfræðipróf. Nemandinn fyrir aftan hann leiðrétti það og skilaði því svo tilbaka. Kennarinn, frú Williamson, hóf að kalla nöfn nemendanna upp til að fá einkunnirnar. Loksins kom hún að Ben. Í skömm, muldraði hann einkunnina. Frú Williamson hélt að hann hefði sagt „9“ og svaraði því að 9 af 30 væri frábær framför. Nemandinn fyrir aftan Ben hrópaði þá: „Ekki níu! … Hann fékk ekki neitt… rétt.“ Ben sagði að hann hefði viljað sökkva niður í jörðina.
Á sama tíma var móðir Bens, Sonya, að takast á við sína eigin erfiðleika. Hún var ein af 24 börnum, var einungis með þriðjabekkjar menntun og kunni ekki að lesa. Hún hafði gifst 13 ára, var fráskilin, átti tvo syni og var að ala þá upp í fátækrahverfum Detroit. Þrátt fyrir það var hún áköf, sjálfbjarga og hafði sterka trú á því að Guð myndi hjálpa henni og sonum hennar ef þau gerðu sitt.
Dag einn kom vendipunktur í lífi hennar og sonum hennar. Hún gerði sér grein fyrir því að það fólk sem vegnaði vel, og sem hún var að þrífa hjá, var með bókasöfn, þau lásu. Eftir vinnu fór hún heim, slökkti á sjónvarpinu sem Ben og bróðir hans voru að horfa á. Kjarni þess sem hún sagði var: Drengir, þið horfið of mikið á sjónvarp. Héðan í frá þá getið þið horft á þrjá þætti í viku. Í frítíma ykkar farið þið á bókasafnið - lesið tvær bækur á viku og gefið mér skýrslu.
Drengirnir fengu áfall. Ben sagði að hann hefði aldrei lesið bók á æfinni nema þegar þess var krafist í skólanum. Þeir mótmæltu, þeir kvörtuðu, þeir rifust en ekkert gekk. Horfandi til baka þá sagði Ben:„Hún lagði línurnar Ég var ekki sáttur við reglurnar en þessi einbeitni í henni um að sjá okkur fara fram, breytti lífi mínu.
Þvílík umbreyting sem það varð. Í sjöundabekk var hann hæstur í bekknum. Hann fór áfram í Yale háskólann á skólastyrk, því næst í John Hopkins læknaskólann, þar sem hann varð yfirlæknir barnataugaskurðlækninga 33. ára gamall og heimsþekktur skurðlæknir. Hvernig var þetta hægt? Að miklu leiti vegna móður sem gerði mikið úr köllun sinni sem móður þrátt fyrir að standa illa að vígi í lífinu.1
Ritningarnar tala um hlutverk foreldranna - að þeim beri að kenna börnum sínum „kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifandi Guðs og um skírn og gjöf heilags anda“ (K&S 68:25).
Sem foreldrar þá eigum við að vera aðalkennarar fagnaðarerindisins og fordæmi fyrir börn okkar - ekki biskupinn, sunnudagaskólinn, Stúlknafélagið eða Piltafélagið, heldur foreldrarnir. Sem aðalkennarar fagnaðarerindisins getum við kennt þeim um kraft og raunveruleika friðþægingarinnar - um auðkenni þeirra og guðleg örlög - þegar við gerum þetta þá veitum við þeim klett sem grundvöll til að byggja á. Þegar allt kemur til alls þá er heimilið hinn fullkomni vettvangur til að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists.
Fyrir um ári síðan var ég að sinna verkefni í Beirút, Líbanon. Á meðan að ég var þar heyrði ég af 12 ára stúlku að nafni Sarah. Foreldrar hennar og tvö eldri systkini höfðu gengið í kirkjuna í Rúmeníu en þá var þeim gert að snúa aftur til heimalands síns, þá var Sarah einungis 7 ára gömul. Í heimalandi þeirra var kirkjuna ekki að finna, engar skipulagðar einingar, enginn sunnudagaskóli eða Stúlknafélag. Eftir fimm ár heyrði fjölskyldan af kirkjugrein í Beirút og rétt áður en ég kom sendu þau 12 ára dóttur sína, Söruh, í fylgd eldra systkinis, til að láta skírast. Á meðan að ég dvaldi þar hélt ég kvöldvöku og ræddi um sáluhjálparáætlunina. Nokkuð reglulega rétti Sarah upp höndina og svaraði spurningunum.
Eftir kvöldvökuna nálgaðist ég hana, vitandi af því hve lítil tengsl hún hafði haft við kirkjuna, og spurði:„Sarah, hvernig vissir þú öll svörin við þessum spurningum?“ Hún svaraði því samstundis:„Mamma mín kenndi mér.“ Þau voru ekki með kirkju í samfélagi sínu en þau höfðu fagnaðarerindið á heimilinu. Móðir hennar var aðalkennari hennar í fagnaðarerindinu.
Það var Enos sem sagði:„Og orð föður míns, um eilíft líf og gleði heilagra, sem ég hafði oft heyrt,smugu djúpt inn í hjarta mér“(Enos 1:3). Það er engin spurning hver aðalkennari Enosar var í fagnaðarerindinu.
Ég man eftir föður mínum þar sem hann lá við arineldinn, lesandi ritningarnar og aðrar góðar bækur, og ég átti það til að leggjast hjá honum. Ég minnist spjaldanna sem hann geymdi í skyrtuvasanum með tilvitnunum í ritningarnar og Shakespeare og ný orð sem hann lærði og lagði á minnið. Ég man spurningarnar um fagnaðarerindið og umræðurnar við kvöldverðarborðið. Ég minnist þeirrar mörgu stunda sem faðir minn tók mig með sér að heimsækja þá sem eldri voru - þegar við stoppuðum til að kaupa ís fyrir einn þeirra eða kjúklingamáltíð fyrir annan og svo kveðjuhandaband hans sem oft fylgdi peningagjöf . Ég man eftir þeirri góðu tilfinningu og þránni að vera eins og hann.
Ég man einnig eftir móður minni, 90 ára gamalli, að elda í blokkaríbúð sinni og svo að koma fram með bakka af mat. Ég spurði hvert hún væri að fara. Hún svaraði: „Æ, ég er að fara með smá mat til gamla fólksins.“ Ég hugsaði með mér: „Mamma þú ert gömul.“ Ég get aldrei fyllilega tjáð þakklæti mitt fyrir foreldra mína, sem voru aðalkennarar mínir í fagnaðarerindinu.
Eitt það þýðingarmesta sem við getum gert sem foreldrar, er að kenna börnum okkar um kraft bænarinnar, ekki bara hefð bænarinnar. Þegar ég var um 17 ára gamall þá kraup ég í bæn við rúm mitt og sagði kvöldbænirnar mínar. Ég vissi ekki að móðir mín stór í dyrunum. Þegar ég lauk sagði hún:„Tad, ertu að biðja Drottinn að hjálpa þér að finna góða eiginkonu?“
Ég var alveg óviðbúinn spurningu hennar. Það var það síðasta sem ég hafði verið að hugsa um. Ég var að hugsa um körfubolta og skólann. Svo ég svaraði :„Nei“ og hennar svar var: „Jæja, þú ættir að gera það sonur, það verður mikilvægasta ákvörðunin sem þú munt nokkurntíma taka.“ Þessi orð festust í huga mér og næstu sex árin bað ég til Guðs um að hann myndi hjálpa mér að finna góða eiginkonu. Hann svaraði svo sannarlega þeirri bæn.
Sem foreldrar getum við kennt börnum okkar að biðja um það sem hefur eilíft gildi - að biðja um styrk til að vera siðferðilega hrein í mjög erfiðum heimi, að vera hlýðin og að hafa hugrekkið til að standa fyrir það sem rétt er.
Ég er nokkuð viss um að ungdómurinn okkar segir kvöldbænir sínar, en kannski eiga flest erfitt með að venja sig á persónulegar morgunbænir. Við sem foreldrar, sem aðalkennarar þeirra í fagnaðarerindinu getum leiðrétt þetta. Hvaða foreldri í Mormónsbók hefði látið syni sína marséra í stríð án brjóstplötu, skjaldar og sverðs til að vernda þá frá mögulega banvænum höggum óvinarins. Hve mörg okkar látum börn okkar marséra út um framdyrnar á hverjum morgni út á hættulegasta orrustuvöllinn, til að horfast í augu við Satan og ógrynni freistinga hans, án andlegrar brjóstplötu, skjaldar og sverðs sem þau fá frá verndandi krafti bænarinnar. Drottinn sagði: „Biðjið ávallt, að þú megir … sigra Satan“ (K&S 10:5). Sem foreldrar getum við hjálpað til við að innræta hjá börnum okkar vana og kraft morgunbæna.
Við getum einnig kennt börnum okkar að nýta tíma sinn á skynsamlegan máta. Stundum verðum við að stíga niður fæti á kærleiksríkan hátt, eins og Sonya Carson, og takmarka tíma barnanna okkar við sjónvarpið eða önnur rafmagnstæki sem eru oft að einoka líf þeirra. Í stað þess verðum kannski að beina tíma þeirra inn á afkastameiri svið tengd fagnaðarerindinu. Það verður kannski smá mótstaða til að byrja með, kannski kvartað smá, en eins og Sonja Carson þá verðum við að hafa sýnina og viljann til að halda það út. Sá dagur kemur að börnin okkar munu skilja og meta það sem við höfum gert. Ef við gerum þetta ekki, hver gerir það þá?
Við kunnum að spyrja okkur sjálf: fá börnin okkar það besta andlega, vitsmunalega og mest skapandi sem við getum gefið þeim eða fá þau afgangstímann og hæfileikana, eftir að við erum búin að gefa allt sem við höfum til kirkjunnar eða í faglega ástundun. Í lífinu sem koma mun þá veit ég ekki hvort titlar eins og biskup eða Líknarfélagsforseti verði til en ég veit að titlar eins og eiginmaður og eiginkona, faðir og móðir munu halda áfram og vera virðingaverðir, út í hið óendanlega. Það er ein af ástæðum þess að það er svo mikilvægt að heiðra ábyrgðir okkar sem foreldrar hér á jörðu, svo að við getum undirbúið okkur fyrir samskonar, en enn merkari ábyrgðarskyldur í lífinu sem koma mun.
Sem foreldrar getum við haldið áfram með þá fullvissu að Guð mun aldrei skilja okkur eftir ein. Guð gefur okkur aldrei ábyrgðir án þess að veita okkur guðlega aðstoð - ég get vitnað um það. Megum við, í guðdómlegu hlutverki okkar sem foreldrar, og í samvinnu við Guð, verða aðalkennarar og fordæmi barnanna okkar í fagnaðarerindinu, það er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.