Deila ljósi þínu
Við verðum að standa staðfastar á trú okkar og láta raddir okkar heyrast í yfirlýsingu yfir sönnum kenningum.
Í kvöld langar mig að íhuga tvær mikilvægar ábyrgðarskyldur sem við höfum. Hin fyrri, að staðfastlega bæta ljósi fagnaðarerindisins og sannleika í líf okkar og seinni skyldan, deila þessu ljósi og sannleika með öðrum.
Vitið þið hversu mikilvægar þið eruð? Sérhver ykkar – á þessu augnabliki – er verðmæt og nauðsynleg í sáluhjálparáætlun himnesks föður. Þið hafið verk að vinna. Við þekkjum sannleika hins endurreista fagnaðarerindis. Erum við reiðubúnar að verja þann sannleika? Við þurfum að lifa samkvæmt því, við þurfum að deila því. Við verðum að standa staðfastar á trú okkar og láta raddir okkar heyrast í yfirlýsingu yfir sönnum kenningum.
Í september 2014 tölublaði Ensign og Líahóna, skrifar öldungur M. Russell Ballard: „Við þurfum meira af hinum aðgreinandi áhrifaröddum og trú kvenna að halda. Þær þurfa að læra kenningarnar og skilja hverju við trúum svo þær geti borið vitnisburð um sannleika allra hluta.“1
Systur, þið eflið trú mína á Jesú Krist Ég hef fylgst með fordæmi ykkar, heyrt vitnisburði ykkar og skynjað trú ykkar allt frá Brasilíu til Botswana! Þið hafið áhrif á það sem í kringum ykkur er hvert sem þið farið. Fólk nálægt ykkur finnur fyrir þessum áhrifum – allt frá fjölskyldu ykkar til tengiliðana í farsímunum ykkar og frá vinum ykkar á samfélagsmiðlum til þeirra sem sitja við hlið ykkar í kvöld. Ég er sammála systur Harriet Uchtdorf, sem skrifaði: „Þið … eruð skínandi vitar, fullar af eldmóð í dökknandi heimi, er þið sýnið að fagnaðarerindið er gleðiboðskapur með því hvernig þið lifið lífi ykkar.“2
Thomas S. Monson forseti benti á: „Þið verðið að lýsa sjálf, ef þið viljið veita öðrum ljós.“3 Hvernig getum við haldið ljósi sannleikans logandi innra með okkur? Stundum líður mér eins og daufri ljósaperu. Hvernig getum við verið bjartari?
Ritningarnar kenna: „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós.“4 Við verðum að vera staðföst í Guði, eins og ritningin segir. Við þurfum að fara að uppsprettu ljóssins – til himnesks föður og Jesú Krists og ritninganna. Við getum einnig farið í musterið því við vitum að allt innan veggja þess beinist til Krists og hans miklu friðþægingarfórnar.
Hugleiðið áhrifin sem musteri hafa á umhverfi sitt. Þau fegra miðborgir. Þau skína úr áberandi hæðum. Hvers vegna fegra þau og skína? Vegna þess, eins og ritningarnar segja: „[Sannleikurinn] ... ljómar,”5 og musteri hafa að geyma sannleika og eilífan tilgang, rétt eins og þið.
Árið 1877 sagði George Q. Cannon forseti: „Sérhvert musteri … minnkar kraftinn sem Satan hefur á jörðunni.“6 Ég trúi því að hvar sem musteri er byggt á jörðinni, þá ýti það myrkrinu í burtu . Tilgangur musterisins er að þjóna mannkyni og veita öllum börnum himnesks föður getu til að snúa til hans og lifa með honum. Er ekki tilgangur okkar svipaður tilgangi þessara helguðu bygginga, þessum húsum Drottins? Að þjóna öðrum og hjálpa þeim að ýta frá sér myrkrinu og snúa að nýju til ljóss himnesks föður.
Heilagt musterisstarf mun auka trú okkar á Krist og þá getum við betur haft áhrif á trú annarra. Af nærandi anda musterisins getum við lært um raunveruleika, kraft og von friðþægingarfórnar frelsarans í lífi okkar.
Fyrir nokkrum árum stóð fjölskylda okkar frammi fyrir stórri áskorun. Ég fór í musterið og bað þar af einlægni um hjálp. Mér var veitt andartak sannleika. Ég hlaut mjög greinilegt huboð umveikleika mína og mér var brugðið. Á þessu andartaki andlegrar leiðsagnar sá ég stolta konu sem fór sínar leiðir, ekki endilega leiðir Drottins, og þáði viðurkenningar fyrir það allt sem kalla mætti árangur. Ég vissi að ég var að horfa á sjálfa mig. Í hjarta mínu ákallaði ég himneskan föður: „Ég vil ekki vera þessi kona en hvernig breytist ég?“
Mér var sýnt, í gegnum sanna andlega opinberun í musterinu, hversu mikið ég þurfti á lausnara að halda. Ég snéri mér strax að frelsaranum Jesú Kristi í huga mínum og fann hvernig angist mín hvarf og von spretta fram í hjarta mínu. Hann var mín eina vona og ég þráði að halda mig fast að honum. Mér var það ljóst að náttúrleg kona, upptekin af sjálfri sér, er „óvinur Guðs”7 og óvinur þess fólks sem er innan áhrifasvæðis hennar. Ég lærði, í musterinu þennan dag, að einungis með friðþægingu Jesú Krists gæti stolt eðli mitt breyst og ég gæti gert gott. Ég fann greinilega fyrir elsku hans og vissi að hann myndi kenna mér með andanum og breyta mér ef ég gæfi honum hjarta mitt án nokkurs trega.
Ég berst enn við veikleika mína en ég treysti á himneska aðstoð friðþægingarinnar. Þessi hreina leiðsögn kom vegna þess að ég fór í hið heilaga musteri, leitandi að aðstoð og svörum. Ég fór í musterið íþyngd og ég yfirgaf það vitandi að ég ætti almáttugan og kærleiksríkan frelsara. Ég var léttari og glöð vegna þess að ég hafði hlotið af ljósi hans og meðtekið áætlun hans.
Musteri, sem eru um heim allan, hafa hvert sitt sérstæða útlit og hönnun að utan en að innaner að finna sama eilífa ljósið, tilgang og sannleika. Í 1. Korintubréfi 3:16 lesum við: „Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?“ Sem dætur Guðs höfum við einnig verið staðsettar um heim allan og sérhver okkar hefur sitt eigið útlit og ytri umgjörð, rétt eins og musterin. Við búum einnig yfir andlegu ljósi hið innra, eins og musterin. Þetta andlega ljós er endurspeglun á ljósi frelsarans. Aðrir laðast að þessari birtu.
Við höfum okkar hlutverk á jörðinni – allt frá því að vera dóttir, móðir, leiðtogi og kennari í að vera systir, fyrirvinna, eiginkona og fleira. Sérhvert hlutverk hefur áhrif. Sérhvert hlutverk mun hafa siðferðislegan kraft er við endurspeglum sannleika fagnaðarerindisins og sáttmála musterisins í lífum okkar.
Öldungur D. Todd Christofferson sagði: „Móðir getur í öllu haft meiri áhrif en nokkur annar, hvert sem tilefnið eða sambandið er.“8
Mér leið eins aðstoðarskipstjóra á skipi, ásamt eiginmanni mínum, Davíð, þegar börnin okkar voru ung. Ég sá fyrir mér 11 börn okkar sem smáflota lítilla báta sem flaut í kringum okkur við höfnina að undirbúa sig fyrir að fara út á rúmsjó heimsins. Okkur Davíð fannst við þurfa að ráðgast við áttarvita Drottins á hverjum degi til að vita í hvaða átt ætti að sigla með litla flotann okkar.
Dagarnir mínir voru uppfullir af hinu hefðbundna eins og brjóta saman þvott, lesa barnabækur og elda ofnrétti í kvöldmat. Stundum, í öruggri höfn heimila okkar, sjáum við ekki að með hinum einföldu gjörðum, framkvæmdum staðfastlega – þar á meðal fjölskyldubæn, ritningarnámi og fjölskyldukvöldum – verður hið stóra að veruleika. Ég vitna hinsvegar að einmitt þessar gjörðir bera með sér eilíf áhrif. Það er mikil gleði þegar þessi litlu bátar – börn okkar – verða að stöndugum skipum uppfylltum af ljós fagnaðarerindisins og reiðubúin að „[ganga] í þjónustu Guðs.“9 Það er með litlum trúarlegum gjörningum okkar og þjónustu sem flest okkar geta haldið áfram í Guði og að lokum fært fjölskyldu, vinum og vandamönnum eilíft ljós og dýrð . Þið getið sannlega haft áhrif í kringum ykkur!
Hugsið um áhrifin sem trú telpu á Barnafélags aldri getur haft á fjölskyldu hennar. Trú dóttur okkar blessaði fjölskyldu okkar þegar við týndum ungum syni okkar í skemmtigarði. Fjölskyldan leitaði í öngvum sínum að honum. Að lokum hnippti tíu ára gömul dóttir okkar í handlegg minn og sagði: „Mamma, ættum við ekki að fara með bæn?“ Hún hafði á réttu að standa! Fjölskyldan safnaðist saman mitt á meðal fjölda fólks og bað bænar, að barnið okkar fyndist. Við fundum hann. Ég segi öllum Barnafélags telpum: „Vinsamlega haldið áfram að minna foreldra ykkar á að biðja bænir!“
Síðastliðið sumar voru það forréttindi mín að vera viðstödd í búðum 900 stúlkna í Alaska. Áhrif þeirra á mig var mjög djúpstæð. Þær höfðu undirbúið sig andlega fyrir búðirnar með því að lesa Mormónsbók og lagt á minnið „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna.“ Allar 900 stúlkurnar stóðu saman, á þriðja kvöldi búðanna, og fóru upphátt með allan textann, orð fyrir orð.
Andinn fyllti stóra salinn og ég þráði að taka undir. Það gat ég þó ekki. Ég hafði ekki greitt gjald undirbúningsins.
Ég er byrjuð að læra „Hinn lifandi Kristur“ utanbókar eins og þessar systur gerðu og vegna áhrifa þeirra get ég mun betur upplifað sáttmála sakramentisins, að minnast ætíð frelsarans með því að endurtaka aftur og aftur vitnisburð postulana um Krist. Sakramentið hefur nú dýpri þýðingu fyrir mig.
Von mín er að færa frelsaranum jólagjöf hinn 25. desember í ár, að hafa lært „Hinn lifandi Kristur“ utanbókar og hafa þann texta í hjarta mínu. Ég vona að ég geti haft áhrif á aðra til góðs – rétt eins og systurnar í Alaska.
Getið þið tengt ykkur við eftirfarandi orð úr skjalinu, „Hinn lifandi Kristur“? „Hann hvatti alla til að fylgja fordæmi sínu Hann fór um vegu Palestínu, læknaði sjúka, veitti blindum sýn og reisti látna upp frá dauðum.“10
Sem systur í kirkjunni, þá göngum við ekki um götur Palestínu læknandi hina sjúku en við getum beðist fyrir og hagnýtt læknandi elsku friðþægingarinnar til handa veiku og þreyttu sambandi.
Við getum vitnað fyrir hinum andlega blindu um sáluhjálparáætlunina þótt við getum ekki læknað hina líkamlegu blindu eins og frelsarinn. Við getum opnað augu skilnings þeirra hvað varðar prestdæmismátt eilífra sáttmála.
Við munum ekki reisa látna upp frá dauðum eins og frelsarinn en við getum blessað líf hinna látnu með því að finna nöfn þeirra og fara með í musterið. Þá munum við sannlega frelsa þau úr andlegu fangelsi og bjóða þeim veg eilífs lífs.
Ég vitna að til er lifandi frelsari, Jesú Kristur, og með mætti hans og ljósi er okkur gert kleift að ýta burtu myrkri heimsins, ljá sannleikanum sem við þekkjum rödd og hafa áhrif á aðra til að koma til hans. Í nafni Jesú Krists, amen.