2010–2019
Lifa eftir fagnaðarerindinu af gleði
október 2014


Lifa eftir fagnaðarerindinu af gleði

Reiðið ykkur á endurlausnarkraft Jesú Krists. Hlítið lögmálum hans og boðorðum. Með öðrum orðum –lifið eftir fagnaðarerindinu af gleði.

Kæru systur, vinir mínir og blessaðir lærisveinar Jesú Krists, mér er það heiður að vera með ykkur við upphaf enn einnar aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Í næstu viku munu Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin koma saman með öllum aðalvaldhöfum og æðstu leiðtogum aðildarfélaganna, og eftir það munu aðrir hlutar heimsaðalráðstefnu okkar fylgja í kjölfarið á laugardag og sunnudag. Ég er afar þakklátur Thomas S. Monson forseta, spámanni okkar, fyrir að fela mér að vera hér sem fulltrúi Æðsta forsætisráðsins og tala til systra kirkjunnar.

Þegar ég íhugaði ræðuefnið mitt, varð mér hugsað til þeirra kvenna sem mótuðu mig og leiddu mig í gegnum áskoranir jarðlífsins. Ég er þakklátur fyrir ömmu mína, sem fyrir áratug ákvað að fara með fjölskyldu sína á sakramentissamkomu mormóna. Ég er þakklátur fyrir systur Ewig, þýska, einhleypa eldri konu, en ensk þýðing á nafninu hennar er „systir Eilíf.“ Það var hún sem af hugdirfsku bauð ömmu minni að þiggja þetta dásamlega boð. Ég er afar þakklátur fyrir móður mína, sem leiddi okkur í gegnum hörmungar Síðari heimsstyrjaldarinnar. Mér verður líka hugsað til dóttur minnar, afastelpna, og komandi kynslóðir trúfastra kvenna, sem munu fylgja þegar að því kemur.

Að sjálfsögðu er ég svo eilíflega þakklátur eiginkonu minni, Harriet, sem ég lagði ást á sem unglingur, fyrir að hafa borið hita og þunga okkar ungu fjölskyldu, sem móðir, fyrir að hafa staðið mér við hlið sem eiginkona og elskað og annast börnin okkar, barnabörnin og barnabarnabörnin. Hún hefur verið stoð og stytta heimilisins, bæði á góðum og slæmum tímum. Hún lýsir upp líf allra þeirra sem hún þekkir.

Ég er loks líka afar þakklátur fyrir ykkur allar, þær milljónir trúfastra systra um heiminn, sem leggja svo mikið á sig við að byggja upp ríki Guðs. Ég er þakklátur fyrir allt hið ótalmarga sem þið gerið til að innblása, hlú að og blessa þá sem umhverfis ykkur eru.

Dætur Guðs

Ég nýt þess að vera meðal svo margra dætra Guðs. Þegar við syngjum sönginn „Guðs barnið eitt ég er,“ hefur textinn áhrif á hjörtu okkar. Þegar við hugleiðum sannleika hans – að við erum börn föður okkar á himnum1 – finnum við uppruna okkar, tilgang og örlög.

Það er gott að minnast þess að þið eruð alltaf börn Guðs. Sú vitneskja mun hjálpa ykkur í gegnum erfiðustu stundir lífsins og innblása ykkur til að áorka mörgu dásamlegu. Mikilvægt er þó að hafa í huga að sú staða að vera dóttir Guðs er hvorki áunnin, né er hægt að glata henni. Þið verið ætíð og ævarandi dætur Guðs. Himneskur faðir væntir mikils af ykkur, en guðlegur uppruni ykkar einn og sér tryggir ykkur ekki guðlega arfleifð. Guð sendi ykkur hingað til að búa ykkur undir glæsilegri framtíð en þið fáið ímyndað ykkur.

Hinar fyrirheitnu blessanir Guðs fyrir hina trúföstu eru dýrðlegar og hvetjandi. Þeirra á meðal eru „hásæti, ríki, hátignir og völd, yfirráð, alla hæð og dýpt.“2 Ekki nægir að geta framvísað fæðingarvottorði eða „Guðs barns aðildarkorti,“ til að hljóta slíkar óumræðilegar blessanir.

Hvernig hljótum við þær svo?

Frelsarinn hefur svarað því á okkar tíma:

„Ef þér haldið ekki lögmál mitt, getið þér ekki öðlast þessa dýrð.“

„Því að þröngt er hliðið og mjór er vegurinn, sem liggur að upphafningu. …

… Tak þess vegna á móti lögmáli mínu.“3

Af þessari ástæðu tölum við um veg lærisveinsins.

Við tölum um hlýðni við boðorð Guðs.

Við tölum um að að lifa fagnaðarerindinu í gleði,af öllu hjarta, öllum mætti og allri sálu.

Guð veit nokkuð sem við ekki vitum

Samt finnst sumum okkar ekki alltaf gleðilegt að lifa eftir boðorðum Guðs. Við skulum horfast í augu við það: Sum þeirra geta kannski virst erfið og óárennileg – boðorð sem við nálgumst af álíka áhuga og barn sem situr við disk af heilnæmu en hötuðu grænmeti. Við gnístum tönnum og neyðumst til að sæta þessu, svo við getum tekist á við aðra skemmtilegri hluti.

Á slíkum stundum gætum við kannski spurt okkur sjálf: „Þurfum við í raun að hlýða öllum boðorðum Guðs?“

Svar mitt við þessari spurningu er einfaldlega:

Ég held að Guð viti nokkuð sem við ekki vitum – það sem okkur er fyrirmunað að skilja! Himneskur faðir er eilíf vera, sem býr að óendanlega meiri reynslu, visku og vitsmunum, en við gerum.4 Ekki aðeins það, heldur er hann líka óendanlega kærleiksríkur, samúðarfullur og einbeittur að einu helgu markmiði: Að gera ódauðleika og eilíft líf okkar að veruleika.5

Með öðrum orðum, þá veit hann ekki aðeins hvað ykkur er fyrir bestu, heldur þráir hann líka innilega að þið veljið það sem ykkur er fyrir bestu.

Ef það er hjartans trú ykkar – ef þið trúið í raun að faðir ykkar á himnum hafi þann mikla tilgang að upphefja og vegsama börn sín og að hann viti best hvernig það skuli gert – er þá ekki eðlilegt að taka vel á móti boðorðum hans og lifa eftir þeim, jafnvel þeim sem virðast óárennileg? Ættum við ekki að fagna þeim ljósstólpum sem hann hefur gefið til að leiða okkur um myrkur og prófraunir jarðlífsins? Þeir marka leiðina til baka að okkar himnesku heimkynnum! Með því að velja veg himnesks föður, leggið þið guðlegan grunn að eigin framþróun sem dætur Guðs, sem mun verða ykkur til blessunar alla ævi.

Hluti af áskorun okkar, að því að ég tel, er að við ímyndum okkur að Guð hafi allar blessanir sínar læstar í skýjahirslu á himnum og neiti að veita okkur þær, ef við ekki hlýðum einhverjum stífum, föðurlegum skilyrðum sem hann hefur sett fyrir þeim. Boðorðin eru alls ekki þannig úr garði gerð. Himneskur faðir lætur í raun stöðugt rigna yfir okkur blessunum. Það er ótti okkar, efi og synd sem eru líkt og regnhlíf, sem kemur í veg fyrir að þær nái til okkar.

Boðorð hans eru ástúðleg fyrirmæli og guðleg hjálp til að slaka niður regnhlífinni, svo við getum tekið á móti stöðugu flæði himneskra blessana.

Við þurfum að meðtaka að boðorð Guðs eru ekki bara langur listi góðra hugmynda. Þau eru ekki „lífsþrælkun“ sem tekur okkur frá net-bloggum eða lífsspeki-tilvitnunum á Pinterest. Þau eru grundvölluð á eilífum sannleika og gefin til að færa „frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.“6

Við höfum því val. Annars vegar er það viðhorf heimsins, með sínum síbreytilegum hugmyndum og vafasömum ásetningi. Hins vegar er það orð Guðs til barna hans – hin eilífa viska hans, hans vísu loforð og kærleiksrík fyrirmæli um að koma aftur í návist hans, í dýrð, elsku og hátign.

Valið er ykkar!

Skapari sjávar, stranda og óteljandi stjarna er að tala til þín einmitt í dag! Hann býður þér undursamlega forskrift að hamingju, friði og eilífu lífi!

Þið þurfið að aukmýkja ykkur, iðka trú, taka á ykkur nafn Krists, leita hans í orði og verki og einarðlega „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera.“7

Ástæður hlýðni

Þegar þið fáið loks skilið rétt eðli Guðs og boðorða hans, munið þið líka skilja ykkur sjálf betur og guðlegan tilgang tilveru ykkar. Þegar það gerist munuð þið taka að hlíta boðorðunum af öðrum forsendum og það verður þrá hjarta ykkar að lifa eftir fagnaðarerindinu af gleði.

Þeir sem til að mynda sækja kirkjusamkomur til að auka elsku sína til Guðs, finna frið, lyfta öðrum, leita andans og endurnýja skuldbindingu sína um að fylgja Jesú Kristi, munu hljóta auðugri andlegri reynslu, heldur en þeir sem aðeins sitja og láta tímann líða. Systur, það er afar mikilvægt að við sækjum samkomur á sunnudögum, en ég er nokkuð viss um að faðir okkar á himnum telur trú okkar og iðrun skipta meiru máli, en mætingartölur.

Hér er annað dæmi:

Nýlega fékk einstæð móðir tveggja ungra barna hlaupabólu. Auðvitað leið ekki á löngu þar til börn hennar veiktust líka. Hinni ungu móður var næstum ofviða að hugsa um sig sjálfa og litlu börnin hjálparlaust. Því leiddi það af sjálfu sér að óreiða og óhreinindi náðu brátt yfirhönd á annars snyrtilegu heimilinu. Óhreinir diskar hlóðust upp í vaskinum og óhreinn þvottur hrúgaðist allsstaðar upp.

Þegar hún reyndi að annast grátandi börnin – og hana langaði mest til að gráta sjálfri – var knúið dyra. Það voru heimsóknarkennarar hennar. Þær sáu neyð hinnar ungu móður. Þær sáu ástand heimilisins og eldhússins. Þær heyrðu grátur barnanna.

Ef þessar systur hefðu aðeins haft hug á að koma heimsóknarkennslunni frá, hefðu þær getað gefið móðurinni smákökur á diski, sagst hafa saknað hennar í Líknarfélaginu í síðustu viku og sagt eitthvað álíka þessu: „Láttu okkur vita ef við getum eitthvað hjálpað!“ Síðan hefðu þær glaðar horfið á braut, fegnar yfir því að hafa 100 prósent heimsóknarkennslu þann mánuðinn.

Til allrar hamingju, þá voru þessar systur sannir lærisveinar Krists. Þær létu sig skipta neyð þessarar systur og tóku til hendinni af kunnáttu og reynslu. Þær þrifu og tóku til, gerðu heimilið hreint og skínandi og fengu vinkonu til að koma með nauðsynleg matvæli. Þegar þær loks höfðu lokið verkinu og voru að kveðja, var hin unga móðir í tárum – tárum þakklætis og elsku.

Frá þessari stundu breyttist viðhorf þessarar ungu móður til heimsóknarkennslu. „Ég veit núna,“ sagði hún, „að ég er ekki bara yfirstrikun á verkefnalista einhvers.“

Já, heimsóknarkennarar þurfa að sinna sínum mánaðarlegu heimsóknum af trúmennsku, og gleyma ekki mikilvægustu ástæðunni að baki þessa boðorðs: Að elska Guð og náungann.

Þegar við förum með boðorð Guðs og skyldu okkar við að byggja upp ríki hans, eins og um væri að ræða yfirstrikun á verkefnalista, þá skiljum við ekki hvað í því felst að vera lærisveinn. Við verðum af gleðinni sem hlýst af því að lifa eftir boðorðum föður okkar á himnum.

Vegur lærisveinsins þarf ekki að vera sár reynsla. Hann „er ljúffengari en allt, sem ljúffengt er“8 Hann er ekki byrði sem við sligumst undan. Að vera lærisveinn lyftir andanum og gleður hjartað. Það glæðir trú, von, og kærleika. Það fyllir anda okkar ljósi á tímum myrkurs og friðar á tímum sorgar.

Það veitir okkur guðlegan kraft og varanlega gleði.

Lifa eftir fagnaðarerindinu af gleði

Kæru systur, hvort sem þið eruð 8 eða 108 ára, þá vona ég að þið fáið hið minnsta skilið þetta:

Þið eruð elskaðar.

Þið eruð dýrmætar ykkar himnesku foreldrum.

Hinn óendanlegi og eilífi skapari ljóss og lífs þekkir ykkur! Hann er minnugur ykkar.

Já, Guð elskar ykkur á þessum degi og alltaf.

Hann bíður ekki með að elska ykkur þar til þið hafið sigrast á veikleikum ykkar og slæmum venjum. Hann elskar ykkur í dag og skilur algjörlega baráttu ykkar. Hann veit að þið komið til hans vongóðar í hjartnæmri bæn. Hann veit af því þegar þið hafið haldið í dauft ljósið og trúað – já, mitt í vaxandimyrkrinu. Hann þekkir þjáningar ykkar. Hann þekkir sektarkennd ykkar yfir að hafa brugðist eða mistekist. Hann elskar ykkur jafnt sem áður.

Hann þekkir líka góðan árangur ykkar og þótt vera kunni að ykkur finnst hann smár, þá metur hann og varðveitir það allt. Hann elskar ykkur fyrir að koma öðrum til hjálpar. Hann hefur unun af því þegar þið hjálpið öðrum að bera sínar þungu byrðar – jafnvel þegar þið eigið erfitt með að bera ykkar eigin.

Hann þekkir ykkur algjörlega. Hann sér ykkur greinilega – hann veit hverjar þið í raun eruð. Hann elskar ykkur – í dag og alla daga!

Haldið þið að það skipti máli fyrir himneskan föður hvort andlitsfarði ykkar, klæði, hár eða neglur séu fullkomið? Haldið þið að virði ykkar í hans augum breytist eftir því hversu margar fylgjendur þið hafið á Instagram eða Pinterest? Haldið þið að hann viljið að þið verðið sorgbitnar eða niðurdregnar yfir því að einhver hættir að vera vinur ykkar eða að fylgja ykkur á Facebook eða Twitter? Haldið þið að ytri hylli, kjólastærð ykkar eða vinsældir hafi minnstu áhrif á virði ykkar í augum þess sem skapaði alheiminn?

Hann elskar ykkur ekki aðeins eins og þið eruð einmitt í dag, heldur líka vegna þess að þið þráið að verða og getið orðið verur dýrðar og ljóss.

Þið fáið ekki ímyndað ykkur hversu heitt hann þráir að þið hljótið örlög ykkar – að þið komið aftur til himnesks föður af sæmd.

Ég ber vitni um að til að geta gert það, verðum við að setja eigingjarnar þrár okkar og lítilsverða metorðagirnd á altari fórnar og þjónustu. Systur, reiðið ykkur á endurlausnarkraft Jesú Krists. Hlítið lögmálum hans og boðorðum. Með öðrum orðum –lifið eftir fagnaðarerindinu af gleði.

Bæn mín er sú að þið fáið upplifað aukna og endurnýjaða fegurð kærleika Guðs í lífi ykkar; að þið megið hljóta trú, áræðni og einurð til að læra boðorð Guðs, varðveita þau í hjörtum ykkar og lifa eftir fagnaðarerindinu af gleði.

Ég lofa, að þegar þið gerið það, munuð þið uppgötva það besta í ykkur sjálfum – ykkar sanna eðli. Þið munið uppgötva sanna merkingu þess að vera dóttir eilífs Guðs, Drottins alls réttlætis. Um það ber ég vitni, og veiti ykkur blessun mína sem postuli Drottins, í nafni Jesú Krists, amen.