„Er það ég, herra?“
Við þurfum að láta af drambi og hégóma og spyrja í auðmýkt: „Er það ég, herra?“
Þetta var á síðasta kvöld hans í jarðlífinu, áður en hann bauð sjálfan sig fram sem lausnargjald fyrir allt mannkyn. Þegar hann braut brauðið með lærisveinum sínum, sagði hann nokkuð sem vissulega hefur allt í senn vakið þá upp og fyllt hjarta þeirra sorg. „Einn af yður mun svíkja mig,“ sagði hann við þá.
Lærisveinarnir véfengdu ekki sannleiksgildi orða hans. Þeir litu heldur ekki í kringum sig eða bentu á annan og sögðu: „Er það hann?“
Þess í stað urðu þeir „mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: „Er það ég,herra?“1
Ég velti fyrir mér hvað sérhver okkar hefði gert, ef við værum spurðir þannig af frelsaranum. Hefðum við litið í kringum okkur og hugsað með okkur: „Hann er líkast til að hugsa um bróður Johnson. Ég hef alltaf efast um hann,“ eða „það er gott að bróðir Brown er hér. Hann þarf sko að heyra þetta.“ Hefðum við kannski gert líkt og hinir fornu lærisveinar, litið inn á við og spurt þessarar glöggu spurningar: „Er það ég?“
Í þessum einföldu orðum: „Er það ég, herra?“ felst mikil speki og leið til trúarlegs viðsnúnings og varanlegrar breytingar.
Dæmisaga um túnfífla
Það var eitt sinn maður sem naut þess að ganga um íbúðahverfið sitt. Hann naut þess einkum að ganga fram hjá húsi nágranna síns. Sá nágranni hélt lóðinni sinni ávallt snyrtilegri, með útsprungnum blómum og fallegum og skjólgóðum trjám. Augljóst var að nágranninn lagði mikið á sig við að fegra lóðina.
Dag einn, þegar maðurinn gekk fram hjá húsi nágrannans, tók hann eftir að á miðjum grasfletinum var einn stór og gulur illgresisfífill.
Hann furðaði sig á þessu, því hann stakk svo í stúf. Af hverju tók nágranninn hann ekki í burtu? Hafði hann ekki tekið eftir honum? Vissi hann ekki að fífillinn gæti dreift sér og fleiri fíflar tækju að vaxa allsstaðar.
Þessi einstaki fífill truflaði hann ósegjanlega og honum langaði til að gera eitthvað í málinu. Ætti hann að að slíta hann upp? Ætti hann að úða á hann illgresiseitri? Kannski gæti hann laumast út að nóttu til og fjarlægt hann svo lítið bæri á.
Slíkar hugsanir fylltu huga hans, er hann gekk í átt að sínu eigin húsi. Hann fór rakleiðis inn í húsið sitt, án þess að líta nokkuð á eigin lóð – sem þakin var ótal gulum fíflum.
Bjálkar og flísar
Minnir sagan okkur á þessi orð frelsarans?
„Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? …
… Drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“2
Þetta viðfangsefni bjálka og flísa er nátengt vangetu okkar til að sjá okkur í réttu ljósi. Ég er ekki viss um afhverju við getum greint og fundið úrlausnir fyrir veikleika annarra, en eigum svo oft erfitt með að greina okkar eigin.
Fyrir nokkrum árum var frásögn í fréttum um mann sem trúði því að ef hann makaði sítrónusafa framan í sig, yrðu hann ósýnilegur myndavélum. Hann makaði því sítrónusafa framan í sig, fór út og rændi tvo banka. Nokkru síðar var hann handsamaður, eftir að myndir af honum höfðu verið birtar í kvöldfréttum. Þegar lögreglan sýndi honum upptökur öryggismyndavéla, ætlaði hann varla að trúa sínum eigin augum, er hann sá sjálfan sig. „En það var sítrónusafi framan í mér!“ andmælti hann.3
Þegar vísindamaður frá Cornell-háskólanum heyrði af þessu, vakti það áhuga hans að menn gætu verið svo hræðilega ómeðvitaðir um eigin vanhæfni. Tveir rannsóknarmenn voru fengnir til að bjóða framhaldsskólanemum að taka þátt í að prófa sig í ýmiskonar lífsleikni, til að ákveða hvort þetta væri almennt vandamál, og þeir síðan fengnir til að meta eigin frammistöðu. Þeir nemar sem stóðu sig verst, mátu eigin frammistöðu með mestri ónákvæmni – sumir hverjir gáfu sjálfum sér fimm sinnum fleiri stig en þeir áttu skilið.4
Þessi rannsókn hefur verið margsinnis verið endurtekinn með sömu niðurstöðum: Mörgum okkar reynist erfitt að sjá okkur sjálf sönnum augum og jafnvel þeir sem njóta velgengni ofmeta eigin frammistöðu og vanmeta frammistöðu annarra.5
Það skiptir kannski ekki miklu að ofmeta eigin getu til að aka bifreið eða slá golfkúlu. Þegar við aftur á móti tökum að trúa að eigin frammistaða á heimilinu, vinnustaðnum og í kirkju sé betri en raun ber vitni, komum við í veg fyrir að við fáum greint blessanirnar og tækifærin til að bæta okkur sjálfa á mikilsverðan og afgerandi hátt.
Andleg blindsvæði
Kunningi minn átti heima í deild þar sem skráningartölur voru einna hæstar í kirkjunni – mæting var góð, heimiliskennsla vel ástunduð, börnin í Barnafélaginu voru alltaf góð og stillt, frábær matur var á borðum deildarinnar og varla fór matarkorn á gólfið hjá meðlimunum og aldrei voru neinar þrætur á kirkjudansleikjum, að ég held.
Vinur minn og eiginkona hans voru síðan kölluð í trúboð. Þegar þau komu heim þremur árum síðar, urðu þau furðulostin þegar þau komust að því að á þeim tíma hefðu ellefu hjónabönd endað með skilnaði.
Þótt ytri umgjörð deildarinnar hafi sýnt trúfestu og styrk, hafði eitthvað óheppilegt gerst í hjörtum og lífi meðlimanna. Það sem veldur áhyggjum er að þessar aðstæður eru ekki einstæðar. Slíkir afleitir og oft ónauðsynlegir hlutir gerast þegar meðlimir kirkjunnar hverfa frá reglum fagnaðarerindisins. Hið ytra geta þeir litið úr fyrir að vera lærisveinar Jesú Krists, en hið innra eru þeir viðskila við frelsarann og kenningar hans. Þeir hafa smám saman snúið frá því sem andans er og snúið sér að því sem heimsins er.
Eitt sinn verðugir prestdæmishafar taka að telja sér trú um að kirkjan sé góð fyrir konur og börn, en ekki fyrir þá. Sumir hafa líka talið sér trú um að þéttskipuð dagskrá eða sérstakar aðstæður afsaki þá frá þeirri daglegu skyldu og þjónustu sem stuðlar að nálægð andans. Á þessum tíma sjálfs-réttlætingar og sjálfselsku, er tiltölulega auðvelt að búa til afsakanir fyrir því að koma ekki reglubundið til Guðs í bænagjörð, vanrækja ritningarnám, forðast að fara á kirkjusamkomur, hafa fjölskyldukvöld eða greiða heiðarlega tíund og fórnir.
Kæru bræður mínir, lítið hið innra og spyrjið þessarar einlægu spurningar: „Er það ég, herra?“
Hafið þið – jafnvel að litlu marki – horfið frá [fagnaðarerindi] … hins blessaða Guðs, sem [ykkur] var trúað fyrir“?6 Hafið þið látið „guð þessarar aldar“ myrkva hug ykkar, svo þið sjáið ekki „ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists“?7
Kæru vinir og bræður, spyrjið ykkur sjálfa: „Hvar er fjársjóður minn?“
Beinist hjarta ykkar að þægindum þessa heims eða að kenningum hins kostgæfna Jesú Krists? Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“8
Dvelur andi Guðs í hjörtum okkar? Erum við „rótfastir og grundvallaðir“ í kærleika Guðs og til náunga okkar? Verjið þið nægum tíma og sköpunargleði í að stuðla að hamingju í hjónabandi ykkar og fjölskyldu ? Leggið þið ykkur fram við hið háleita markmið að skilja og lifa eftir „vídd“, „lengd“, „dýpt“ og „hæð“ hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists9?
Bræður, ef þið þið þráið innilega að tileinka ykkur kristilega eiginleika eins og „trú, dyggð, þekkingu, hófsemi, þolinmæði, bróðurlega góðvild, guðrækni, kærleik, auðmýkt, [og þjónustulund],“10 mun himneskur faðir gera ykkur að verkfæri í höndum sínum, til sáluhjálpar mörgum.11
Naflaskoðun
Bræður, enginn okkar hefur löngun til að viðurkenna að hann hafi villst af réttri leið. Oft forðumst við að kafa djúpt í sálartetrið og að horfast í augu við veikleika okkar, vankanta og ótta. Þegar við því förum í naflaskoðun, erum við hlutdrægir, afsökum okkur sjálfa og teljum okkur trú um hvaðeina sem réttlætt getur óverðugar hugsanir og gjörðir.
Nauðsynlegt er að geta séð sig í réttu og sönnu ljósi, til andlegs vaxtar og velferðar. Ef veikleikar okkar og vankantar verða áfram í dimmum skúmaskotum, nær endurleysandi kraftur frelsarans ekki að græða okkur og gera þá að styrkleikum.12 Kaldhæðnislegt er að blinda á okkar mannlegu veikleika, gerir okkur líka blinda á okkar guðlegu eiginleika, sem faðir okkar þráir að rækta innra með hverjum okkar.
Hvernig getum við þá látið hið hreina ljós sannleika Guðs ljóma upp sál okkar, svo við fáum séð okkur sjálfa með hans augum?
Ég bendi á að að helgar ritningar og ræður aðalráðstefna eru speglar sem nota má til öflugrar sjálfsskoðunar.
Þegar þið lesið orð fornra og nútíma spámanna, haldið ykkur þá frá þeirri hugsun að orðin eigi við einhverja aðra en ykkur sjálfa og spyrjið þessarar einlægu spurningar: „Er það ég, herra?“
Við verðum að koma til okkar eilífa föður með sundurkramið hjarta og námfúsan huga. Við verðum að vera fúsir til að læra og bæta okkur. Ó, hve laun okkar verða mikil þegar við einsetjum okkur að lifa eins og himneskur faðir ætlar okkur að gera.
Þeir sem ekki vilja læra og bæta sig, mun líklega ekki gera það og munu sennilega taka að velta fyrir sér hvort kirkjan hafi í raun eitthvað að bjóða þeim.
Þeir sem aftur á móti vilja vaxa og bæta sig, þeir sem læra um frelsarann og þrá að líkjast honum, þeir sem auðmýkja sig, líkt og lítið barn, og reyna að laga hugsanir sínar og gjörðir að himneskum föður – munu upplifa kraftaverk friðþægingar frelsarans. Þeir munu vissulega finna uppljómandi anda Guðs. Þeir munu upplifa ólýsanlega gleði ávaxtar hins bljúga og auðmjúka hjarta. Þeir munu blessaðir með þrá og sjálfsaga til að verða sannir lærisveinar Jesú Krists.
Máttur Guðs
Í áranna rás hef ég notið þess tækifæris að eiga samskipti við eina hæfustu og greindustu karla og konur sem í þessum heimi hafa dvalið. Þegar ég var yngri hreifst ég af þeim sem voru menntaðir, höfðu áorkað einhverju, náð árangri og nutu vegsemdar heimsins. Með tímanum hefur mér hins vegar orðið ljóst að ég hrífst mun meira af þeim dásamlegu og blessuðu sálum sem sannlega eru góðar og falslausar.
Er það ekki allt sem fagnaðarerindið snýst um og gerir fyrir okkur? Það er hin góðu tíðindi og með því getum við orðið góðir.
Orð Jakobs postula eiga við um okkur nú:
„Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. …
„Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.“13
Bræður, við þurfum að láta af drambi og hégóma og spyrja í auðmýkt: „Er það ég, herra?“
Ef svo vill til að svar Drottins er „já, sonur minn, það er ýmislegt sem þú þarft að bæta, sem ég get hjálpað þér að sigrast á,“ bið ég þess að við meðtökum svar hans, játum auðmjúkir syndir okkar og vankanta og breytum háttum okkar, með því að verða betri eiginmenn, feður og synir. Megum við frá þessari stundu leitast við að fylgja staðfastlega í hið blessaða fótspor frelsarans – því upphaf viskunnar er að sjá sjálfan sig í sönnu ljósi.
Ef við gerum það, mun okkar gjafmildi Guð leiða okkur við sér við hönd. Við munum þá „styrkir verða og hljóta blessun frá upphæðum.“14
Kæru vinir, fyrsta skrefið á þessum dásamlega og gefandi vegi lærisveinsins, hefst á því að spyrja þessarar einlægu spurningar:
„Er það ég,herra?“
Um það ber ég vitni og veiti ykkur blessun mína í nafni Jesú Krists, amen.